07.12.1959
Sameinað þing: 8. fundur, 80. löggjafarþing.
Sjá dálk 20 í D-deild Alþingistíðinda. (2495)

22. mál, frestun á fundum Alþingis

Páll Kristjánsson:

Herra forseti. Góðir hlustendur. Þingfrestunartill. hæstv. ríkisstj., sú er hér er til umræðu, er í hæsta máta nýstárleg og óvenjuleg. Raunar var, að því er mér skilst, til þess ætlazt með þáltill. þessari, að þingið færi heim aðeins tíu dögum eftir að það kom saman að þessu sinni. Sá dráttur, sem á því hefur orðið, að þessi till. hæstv. ríkisstj. næði fram að ganga og kæmi til afgreiðslu, er því fullkomlega gegn vilja hæstv. ríkisstj., enda hefur stjórnarandstaðan hér á hv. Alþingi óspart fengið að heyra það. að töf sú, sem á hefur orðið í þessu efni, sé að kenna óþinglegu athæfi hennar, þ.e.a.s. málþófi, jafnvel einstæðu málþófi. Þessi ásökun á hendur stjórnarandstöðunni hefur við ekkert að styðjast. Um það vitnar sjálf saga Alþingis. En þessi ásökun er að því leyti merkileg, að hún innifelur það viðhorf hæstv. ríkisstj. að stjórnarandstöðunni beri að mæta slíku sem þessu og þá að sjálfsögðu því, sem á eftir kemur, með þögninni einni saman.

Hvað mundi valda þeirri fordæmislausu nýbreytni, sem felst í tillögu hæstv. ríkisstj. um heimsendingu þingmanna, og þeim aðferðum, sem í því sambandi er beitt? Stjórnarandstaðan hefur að vonum leitazt við að knýja fram svör við því, hvað á bak við lægi. Hæstv. ríkisstj. hefur orðið ógreitt um svörin. Þó hefur hæstv. fjmrh. gefið þær upplýsingar hér á Alþ., að nýtt efnahags- og fjárhagskerfi yrði tekið upp og til þess þyrfti hæstv. ríkisstj. vinnufrið.

Þá var að því komið að fá um það upplýsingar, með hvaða hætti það nýja efnahags- og fjármálakerfi yrði innleitt. Spurningum um það hefur hæstv. fjmrh. svarað með því einu að lesa upp glefsu úr svokallaðri stefnuyfirlýsingu, þeirri er hæstv. forsrh. flutti við setningu Alþingis. Allir hv. þm. vita það — sem og allir þeir, sem heyrt hafa eða lesið yfirlýsingu hæstv. forsrh., að þar fyrirfinnst ekkert einasta orð um það, með hvaða hætti hið nýja efnahags- og fjármálakerfi verði innleitt. Það að lesa slíkt upp sem tilsvar við spurningum varðandi hið fyrirhugaða nýja efnahags- og fjármálakerfi er því eitt af tvennu, annaðhvort vottur þess, að hæstv. ríkisstj. veit ekki sitt rjúkandi ráð um það, hvernig hún ætlar að taka á efnahagsmálunum, svo undarlegt sem það þá er að boða nýtt efnahags- og fjármálakerfi, eða hæstv. ríkisstj. býr yfir þeim áformum, sem hún kýs að láta ekki uppi hér á hv. Alþingi, og er það sennilegra.

Tvennt er það, sem liggur þó ljóst fyrir í þessu sambandi. Í fyrsta lagi, að hæstv. ríkisstj. ætlar ekki að hafa samband né samráð við alþýðusamtökin í landinu í sambandi við efnahagsmálin. Þar um vitnar fordæming leiðtoga Sjálfstfl. á þeirri stefnu vinstri stjórnarinnar að hafa samráð við alþýðusamtökin um aðgerðir í efnahagsmálum. Undan engu í stefnu vinstri stjórnarinnar hefur þá sviðið sárar en þessu. Og til að undirstrika fordæmingu sína á þessum vinnuaðferðum vinstri stjórnarinnar settu þeir saman kjörorðið: Aldrei framar vinstri stjórn. Annað, sem augljóst er, er svo það, að hæstv. ríkisstj. vill losna við Alþingi. Þjóðin hefur til þess ætlast og út frá því gengið hingað til, að Alþingi hefði forustu um úrlausnir um málefni hennar, ekki sízt þegar um er að ræða vandamál og svo mun enn vera, því mun það koma ýmsum kynlega fyrir sjónir, þegar vinnubrögð hér á hv. Alþingi eru af hálfu ríkisstj. við það eitt miðuð að senda Alþingi heim og það sem fyrst. Er það ekki sízt undrunarefni, þegar slíkt skeður í upphafi nýkjörins þings, og mun ekki eiga sér fordæmi í sögu Alþingis. Þess má og minnast, að ekki hefur skort yfirlýsingar um það, hversu vel hafi tekizt til í tíð fráfarandi ríkisstj. og hversu hreinum borðum hún hafi skilað. Mátti þá ætla, að ekki þyrfti að eyða tíma í hreingerningar.

Og hvað á allt þetta að þýða? munu þeir spyrja, sem fyrir stuttu gengu að kjörborði og kusu til Alþingis. Skyldi nokkur íslenzkur kjósandi, sem gekk að kjörborði dagana 25. og 26. okt. s.l., hafa kosið með tilliti til þess, hversu heppilegir kjörnir þingmenn væru til heimsendingar, þegar henta þætti, hvað sem liði störfum Alþingis? Og hvað er fram undan? spyrja allir þeir, sem er það mest nauðsyn að hafa atvinnu og þær atvinnutekjur, sem til þarf að geta lifað mannsæmandi lífi. Hæstv. ríkisstj. hefur svarað þessu að nokkru. Hún segir: Þjóðin hefur lifað um efni fram. Hún hefur eytt meiru en aflazt hefur. — Og af reynslu munu flestir skilja, að þetta þýðir: Kaupið er of hátt. Kaup þeirra, sem vinna að hinum ýmsu nytjastörfum í sveit og við sjó og á sjó, er of hátt. Þess vegna þarf kaupið að lækka með einhverjum ráðum, og af því að erfiðlega mun ganga að ná samkomulagi við það fólk, sem hér á hlut að máli, um það eitt að lækka kaupið og gera ráðstafanir, sem leiða munu til atvinnuleysis, þá er það ráð tekið að senda Alþingi heim. Íslenzk alþýða hefur með samtökum sínum unnið sig upp úr sárustu fátækt til mannsæmandi lífskjara. Hún hefur með vinnu sinni skapað þau verðmæti sem þjóðin hefur yfir að ráða, og allt þetta hefur gerzt í krafti heilbrigðrar skynsemi og atorku, en ekki fyrst og fremst með aðstoð hinnar vísindalegu hagfræði, sem svo er kölluð. Þess er og skylt að minnast, að hlutur hv. Alþingis í efnahagslegum framförum á Íslandi er mikill og veglegur, þó að misjafnlega hafi gengið að vísu. Og sagan sýnir svo ljóslega sem verða má, að því meira samstarf sem verið hefur milli Alþingis annars vegar og íslenzkra alþýðusamtaka hins vegar, því meira hefur áunnizt og því meiri hafa átökin orðið, og því meiri hefur orðið vegur Alþingis. Á sama hátt sýnir sagan þá staðreynd, að því minna samstarf sem verið hefur milli þessara aðila, því minna hefur áunnizt í framfaramálum þjóðarinnar. Samkvæmt þeirri byrjun, sem nú hefur orðið hér á hv. Alþ., er það ljóst, að hæstv. ríkisstj. hefur markað Alþingi þá stefnu, sem reynslan sýnir, að miður hefur gefizt. Mun því þetta þing að óbreyttri stefnu litlu við bæta hróður hinnar sögufrægu stofnunar, Alþingis Íslendinga, og vinnustéttirnar munu að sama skapi eiga lítils fagnaðar að vænta af störfum þessa hv. þings.

Efnahagsleg afkoma íslenzkrar alþýðu hefur á næstliðnum árum verið ein sú bezta, sem þekkist meðal þjóða. Er sú staðreynd til komin ekki sízt vegna samvinnu og samráðs milli Alþingis og vinnustéttanna í landinu. Hvað mundi þá þýða boðun hins nýja efnahagskerfis og fjármálakerfis með þeim hætti, sem hæstv. ríkisstj. boðar þá nýjung? Það mun fáum blandast hugur um það, að efnahagsmálastefna hæstv. ríkisstj. verður í framkvæmd kjaraskerðingarstefna, sem leiða mun til ófriðar og átaka við vinnustéttirnar í landinu, því að útilokað er, að alþýðan láti sér lynda stórfelldar kjaraskerðingar og atvinnuleysi. Eða hvort mundu nú ekki flestir minnast þeirra atvinnuaðstæðna, sem orðnar voru víða um land, þegar vinstri stjórnin tók við? — enda hafði meirihlutastefna hv. Alþingis þá um árabil ekki hirt um að hafa samráð við atvinnustéttirnar um efnahagsmál. Og mundu ekki flestir minnast gengislækkunarinnar 1950? Hverjar mundu verða afleiðingar af gengislækkun fyrir íslenzk alþýðuheimili nú, ráðstöfun, sem leiða mundi til stórfelldrar hækkunar vöruverðs? Og flestu alþýðufólki mun vera það ráðgáta enn fremur, hvernig slík ráðstöfun, stórfelld hækkun vöruverðs, á að verða lækning á hinni margumtöluðu verðbólgu innanlands.

Hið sanna í þessu mun vera það, að hæstv. ríkisstj. hefur á prjónunum stórfellda gengislækkun og ráðstafanir, sem leiða munu til atvinnuleysis, og í þessu sambandi óttast hæstv. ríkisstj. Alþingi, bæði stjórnarandstöðuna og jafnvel sitt eigið þinglið. Þess vegna er það ráð upp tekið að senda Alþingi heim og láta það koma saman aftur þá fyrst, þegar fyrirhugaðar ráðstafanir eru orðnar staðreynd.

Slíkar aðferðir munu, eins og áður getur, leiða til átaka við alþýðusamtökin í landinu. Vissulega munu alþýðusamtökin ekki sætta sig við stórfelldar kjaraskerðingar. Langsamlega flest verkalýðsfélög í landinu hafa nú lausa samninga og eru við öllu búin, enda hafa næg tilefni til þess gefizt að hafa slíkan viðbúnað. Ekki er langt síðan framin var kaupskerðing og þá látið í veðri vaka, að ekki mundi til annars meira koma í því efni. En þó að íslenzk alþýðusamtök óski ekki eftir þeirri þróun mála, sem hér er að stefnt, heldur mundu miklu fremur kjósa þá leið, sem betur hefur gefizt, samráð og samvinnu við hv. Alþingi um aðgerðir í efnahagsmálum, þá munu þau, úr því að ekki er annars kostur, óhikað leggja til atlögu sem fyrr til varnar íslenzkum alþýðuheimilum og íslenzku atvinnulífi, til varnar þeim árangri, sem þau eiga ríkan þátt í að náðst hefur. Þeir, sem enn kjósa að sniðganga heiðarlegt samstarf og kjósa fremur að stofna til átaka, munu finna það, að sá efnahagslegi árangur, sem náðst hefur, verður ekki af hendi látinn og að mátturinn honum til varnar hefur aldrei verið meiri en einmitt í dag.