25.04.1966
Neðri deild: 77. fundur, 86. löggjafarþing.
Sjá dálk 2264 í B-deild Alþingistíðinda. (1468)

186. mál, framleiðsluráð landbúnaðarins

Vilhjálmur Hjálmarsson:

Herra forseti. Þetta frv., sem hér liggur fyrir á þskj. 571, var undirbúið af sjö manna n., sem ríkisstj. setti til þess í haust að endurskoða framleiðsluráðslögin, sérstaklega með tilliti til ákvæða þeirra, sem fjalla um verðlagninguna. Í skipunarbréfi nm. lá fyrir sú yfirlýsing um vilja ríkisstj., að hún óskaði eftir því, að það kerfi, sem starfað hefur verið eftir um verðlagningu landbúnaðarvara nú um alllangt skeið, yrði endurreist. Það var þess vegna langsennilegast, að breyt. á l. næðu helzt fram að ganga, ef þær væru í höfuðatriðum sniðnar eftir þessum vilja ríkisstj. Og ég hygg, að afstaða fulltrúa bænda í þessari n. hafi að nokkru mótast af þessu.

Það bar til tíðinda í haust, eins og mönnum er kunnugt, að sexmannanefndarkerfið varð óvirkt, þegar stjórn A. S. Í. neitaði að tilnefna fulltrúa til starfa í n. Nú segir í lögum um framleiðsluráð, að aðilarnir skuli tilnefna fulltrúa í n. Þetta var því að margra dómi brot á I. Ég legg engan dóm á það hér, en vil hins vegar segja það, að þessi afstaða var ekki næsta vinsamleg í garð bændastéttarinnar. Ákvörðun stjórnar A.S.Í. er ekki gerð kunnug, fyrr en komið er fast að þeim tíma, þegar verð íandbúnaðarafurða þurfti að ákveðast. Svo var talið, og við fulltrúar framleiðenda í Sexmannanefnd féllumst á það, eftir að við höfðum leitað álits lögfræðinga þar um, að Sexmannanefnd gæti ekki starfað, eftir að einn af nm. hafði skorizt úr leik. Málunum var komið í sjálfheldu. Sú sjálfhelda var svo leyst nokkru síðar með brbl., sem ríkisstj. gaf út. Með þeim brbl., sem, eins og segir í l. sjálfum, var ætlað að gilda aðeins eitt ár, er bændasamtökunum alveg vikið til hliðar í verðlagningunni á liðnu hausti. Þau höfðu ekki samkv. brbl. nein bein áhrif á verðlagninguna í haust. Það var nefnd embættismanna, sem sett var til þess að ákveða verðlagið. Bændur undu þessu illa, fannst þetta ómaklegt, m.a. með hliðsjón af því, að þeirra fulltrúar höfðu ekki skorazt undan því að starfa samkv. l., heldur voru það aðrir aðilar. Og bændasamtökin mótmæltu þessu á sínum tíma. Þetta er kapítuli út af fyrir sig, og ég ræði hann ekki nánar hér. En það er augljóst, að bændur hlutu að telja það miklu varða að rjúfa þetta ástand og fá á ný beina aðild að verðlagningunni með einhverjum hætti, eins og þeir höfðu áður haft. Það mátti því segja, að það væri einsætt frá þeirra hálfu að ganga að því að endurvekja gamla kerfið, þrátt fyrir skiptar skoðanir innan samtaka bændanna um kerfið sjálft, og það því fremur, þegar sýnt þótti, að fást mundi, að okkar dómi, allverulegar lagfæringar á kerfinu, frá því er verið hafði. Mér finnst rétt að láta það koma fram hér, út af ummælum, sem féllu hjá hv. 5. þm. Austf., hver afstaða bændasamtakanna hefur verið til þessara tveggja leiða, sem stundum hefur verið rætt um í sambandi við verðlagningu búvara, annars vegar beina samninga við ríkisstj., hins vegar það kerfi, sem verið hefur. Þetta hefur töluvert verið rætt innan bændasamtakanna. Um það hafa verið skiptar skoðanir og árið 1963 var þetta mál tekið til meðferðar og atkvgr., og á aðalfundi Stéttarsambands bænda féllu nú atkv. þannig, að meiri hl. fundarins vildi viðhalda gamla kerfinu endurbættu.

Það er álit okkar, sem unnum í n. fyrir hönd framleiðenda, að í því frv., sem hér liggur fyrir, felist ýmis atriði, sem séu til verulegra bóta á þessu kerfi. Það er fyrst, að kerfið verður ekki óstarfhæft, enda þótt einhver, sem rétt hefur, eins og það er nú orðað, til þess að tilnefna í verðlagsnefndina, óski ekki eftir að nota þann rétt. Þetta hefur ekki verið lítið óhagræði og erfiðleikar því samfara, þegar verðlagskerfið allt hefur orðið óstarfhæft, vegna þess að einhver aðili hefur ekki tilnefnt í n. Ég tel líka, að með þeim ákvæðum, sem nú eru um yfirnefndina eða gerðardóminn, sé málum betur skipað en áður. Áður var gert ráð fyrir því, að menn úr þeim hópi, sem staðið hafði í þrætunni, í samningaþófinu, einmitt menn úr þeim hópi, skyldu kvaddir til dóms. En mér virðist það miklu eðlilegra, að nýir menn komi þar inn, enda hygg ég, að þetta fyrirkomulag, að setja þrætuaðilana sjálfa alveg beint í yfirdóm, sé óvenjulegt. Þá er í þessu frv. gert ráð fyrir miklu ýtarlegri gagnasöfnun til undirbúnings verðlagningunni en áður hefur verið, og það er gert ráð fyrir því að efla til þess stofnun, sem þegar hefur verið starfandi um skeið, en hefur haft lítil fjárráð og þar af leiðandi takmarkaðan mannafla og hefur því ekki getað sinnt verkefnum sínum nema að litlu leyti, vil ég segja, en það er Búreikningaskrifstofa ríkisins. Nú er gert ráð fyrir því að fela henni miklu víðtækari athuganir og þá væntanlega um leið að gera henni mögulegt að framkvæma þær. Þetta teljum við til mikilla bóta. Bændur hafa gert margar samþykktir á fundum sínum bæði víðs vegar um land og í Stéttarsambandinu einmitt um nauðsyn þess að afla ýtarlegri upplýsinga og betri gagna til að undirbyggja verðlagningu landbúnaðarvara á raunhæfan hátt. Það er einnig mikilvægt atriði fyrir framleiðendur, álit ég, og vafalaust alveg eins og ekkert síður fyrir fulltrúa neytenda í Sexmannanefnd, að n. verður nú með lögum tryggð aðstaða til þess að láta framkvæma sjálfstæðar kannanir á einstökum þáttum í sambandi við undirbúning verðlagningarinnar. En áður hefur sá möguleiki ekki verið fyrir hendi. Það tel ég einnig til bóta, að neitunarvaldið í Sexmannanefnd er afnumið, þar skal nú ráða einfaldur meiri hl. Ég aðeins nefni þessi atriði sem dæmi um það, sem við teljum, að horfi til bóta frá I. þeim, sem verið hafa. Þau eru ýmis fleiri, en ég sé ekki ástæðu til þess að fara ýtarlega út í það í einstökum atriðum.

Ég vil einnig aðeins víkja að því, að enda þótt sjö manna n. hefði í starfi sínu hliðsjón af óskum ríkisstj. um að endurvekja samstarf bænda og neytenda um verðlagninguna, voru ýmsar aðrar leiðir athugaðar í n. og sumar ræddar mjög ýtarlega, eftir því sem hægt er að gera við venjulegar aðstæður í nefndarstarfi, og þ. á m. að sjálfsögðu sú leiðin að taka upp beina samninga við ríkisstj., og eins og ég sagði áðan, hefur sú skoðun haft allmikið fylgi innan bændasamtakanna. Í umr. um þetta komu fram ýmsir annmarkar, og ég ætla ekki að fara að rekja þá í einstökum atriðum. Það er of langt mál til þess að fara að rekja það hér við I. umr. En ég vil þó minnast á eitt. Mönnum þótti mjög vandséð, á hvern hátt skyldi leiða mál til lykta, ef ágreiningur yrði, þannig að ekki næðust samningar. Í því sambandi var töluvert rætt um þann möguleika að gefa bændum eins konar lögverndaðan verkfallsrétt, líkt og mörg stéttarsamtök hafa núna, þ.e.a.s. gefa þeim lögverndaðan rétt til þess að stöðva sölu á sinni vöru. Eins og hv. þdm. heyrðu á ræðu hv. 5. þm. Vestf., var hann alls ekki fjarri því, þvert á móti, að láta bændum í té þennan rétt. En þegar farið er að skoða þetta ofan í kjölinn, og þarf þó satt að segja ekki mjög djúpt að kafa, kemur það bara strax í ljós, að slíkur réttur er bændastéttinni nálega einskis virði. Aðstaða bænda gagnvart kjaradeilum og því að stöðva störf sín er allt önnur en verkamanna og annarra launþega. Verkalýðsfélögin gera verkfall á þeim tíma, þegar það kemur mótaðilanum illa að stöðva atvinnureksturinn og af getur hlotizt stórtjón fyrir hann. Bændur yrðu eingöngu að beita sölustöðvun í sambandi við mjólkursölu. Um það hygg ég, að ekki sé nokkur ágreiningur. Sölustöðvunin yrði ekki sett á fremur en verkfall, án þess að nokkurra daga fyrirvari væri á hafður. Þann frest gætu neytendur notað til þess að birgja sig upp af mjólk að nokkru leyti. Ekki mundi verkfalli verða beitt gegn sjúkrahúsum, það hygg ég, að engum detti í hug. Þegar svo verkfallið væri skollið á, stæðu málin þannig, að neytendur hefðu birgt sig upp til nokkurra daga, þeir hefðu ekki fjárhagslegt tjón af stöðvuninni, óþægindi einhver, og þó ekki mikil fyrst, en bændurnir biðu jafnvel milljóna tjón á degi hverjum með því að stöðva framleiðsluna. Það er að vísu ekki hægt að stöðva hana, það er nú náttúrulögmál, en það yrði að hella niður mjólkinni. Bara þetta er svo einfaldur hlutur, að ef menn nokkuð fara að hugleiða verkfallsleiðina, sér hver maður, hversu þetta er vonlaust fyrirtæki, því að í staðinn fyrir það að þrengja að andstæðingnum, þ.e. þeim, sem samið er við, verður skaðinn hjá þeim, sem verkfalli beita.

Það var svo rætt um fleiri leiðir, en ég held, að mér sé óhætt að segja það, að í n. þóttust menn aldrei sjá verulega fastan punkt að þessu leyti, hvernig ætti að lykta samningum við ríkisstj., ef í odda skærist. Og ég man ekki til, að hv. 5. þm. Vestf., sem átti sæti í n., legði þar fram þá till., sem kemur nú fram í séráliti hans. Þar hefur hann dottið ofan á heillaráðið og lausnina í þessum efnum og hún felst í 3. lið till. hans, eins og þær eru settar fram á bls. 19 í þessu þskj., og er á þessa leið, með leyfi hæstv. forseta:

„Takist samningar ekki, skal stjórn Stéttarsambands bænda leggja till. sínar um verð á framleiðslueiningu fyrir alla bændur og skoðast till. samþykkt, fái hún 75% greiddra atkv., enda taki a.m.k. 50% atkvæðisbærra bænda þátt í atkvgr.“

En ef þetta er nú lausnin, hví hefur þá ekki þessi hv. þm., sem hefur setið lengi á þingi, í áratugi, reynt að koma fram tilsvarandi breyt. á vinnulöggjöfinni, t.d. á þá leið, að ef ekki takast samningar í kaupdeilu á milli atvinnurekenda og verkamanna, skulu fulltrúar verkamanna leggja till. sínar um kaup og kjör fyrir alla verkamenn, sbr. alla bændur, og skoðast till. samþ., ef hún fær þar tilskilinn meiri hluta? Nei, ég veit það, að bæði ég og aðrir bændur þessa lands kunna vel að meta allan góðan vilja í garð stéttarinnar og landbúnaðarins. En á þessu á maður samt erfitt með að átta sig, að þarna sé um nokkuð að ræða, sem geti orðið raunveruleiki. Og ég verð líka að segja það, að ég legg áherzlu á það, að til þess að fá myndina heila af afstöðu þessa hv. þm., verður hann einnig að láta koma skýrt fram afstöðu sína til útflutningsbótanna. Það er svo komið, þrátt fyrir fækkun í sveitunum, að framleiðslan hefur vaxið og er komin yfir það mark, að 10% útflutningsbótaheimildin nægi, til þess að fullt grundvallarverð fáist. Þetta hefur þó ekki orðið einvörðungu vegna framleiðsluaukningar. Það er hraðstíg verðbólga, sem þarna kemur ekki síður til sögu. Þetta liggur ákaflega ljóst fyrir, þó að maður líti á það eitt, að fyrir örfáum árum vantaði ekki stóran hundraðshluta á það, að erlendi markaðurinn gæfi það verð fyrir kjötið, sem fyrir það átti að fást innanlands. En núna er hins vegar svo komið, að erlendi markaðurinn gefur ekki nema brot af því verði, sem reiknað er með í grundvellinum. Ég fer ekki nánar inn á þessa hluti hér, en þetta sýnir bara, hve mikið er í húfi, ef ætti að skerða útflutningsbæturnar frá því, sem þær nú eru, og mér finnst það alveg nauðsynlegt, að hv. þm. skýri alveg greinilega, hvað hann hugsar sér með útflutningsuppbæturnar.

Ég vil svo aðeins að lokum segja það, að ég tel, að þetta frv. sé til verulegra bóta. Bændasamtökin fá aftur aðild að verðlagningunni, og þó öllu betri aðstöðu, þar sem ég tel, eins og ég hef þegar tekið fram, að allmörg ákvæði frv. séu hagstæðari en þau, er nú gilda.