28.04.1966
Neðri deild: 0. fundur, 86. löggjafarþing.
Sjá dálk 2282 í B-deild Alþingistíðinda. (1474)

186. mál, framleiðsluráð landbúnaðarins

Gunnar Guðbjartsson:

Herra forseti. Það frv., sem liggur hér fyrir til umr. um skipulag afurðasölumála landbúnaðarins, er eins konar vinnulöggjöf bændastéttarinnar. Það er því ekki að ástæðulausu, þó að ég taki hér til máls einmitt fyrir þá sök, að ég hef átt sæti í þeirri n., sem undirbjó þetta frv., og hef nú á undanförnum árum haft með höndum einn þátt þessara mála, þ.e.a.s. ég hef setið í Sexmannanefnd, sem fjallað hefur um verðlagsmál landbúnaðarins.

Þegar menn meta og gera upp við sig, hvaða kerfi eigi að hafa um verðlagsmál landbúnaðarins, koma einkum til greina þrjár leiðir: Í fyrsta lagi, að frjáls verðlagning sé á þessum vörum, eins og gengur og gerist um ýmsa aðra verðmyndun í landinu og engin sérstök löggjöf gildir um. Það er þannig í ýmsum öðrum löndum ekki langt frá okkur, að verðlag á þessum vörum á markaði mótast af framboði og eftirspurn, en víðast er þessu þó þannig varið, að um þetta gildir sérstök löggjöf, sem ákveður meðferð þessara vara og verðlagningu þeirra.

Önnur tilhögun, sem kemur til greina í þessu efni, eru samningar stéttarsamtaka bændanna annað hvort við kaupendur varanna, sem í þessu tilfelli eru neytendurnir, eða ríkisvaldið, eins og sums staðar á sér stað meðal nágrannaþjóða okkar, og svo í þriðja lagi, að einhvers konar útreikningsstofnun hafi með höndum að reikna út verðlagið eftir ákveðnum reglum, sem settar eru með sérstakri löggjöf.

Öll þessi atriði komu til umr. og athugunar í n. þeirri, sem undirbjó það frv., sem hér er til umr., og þessar leiðir voru allar metnar, miðað við þær aðstæður, sem við eigum við að búa í verðlagsmálum yfirleitt. Og þegar við lítum á, hvaða leið skuli velja, hljótum við að meta út frá þeirri aðstöðu, sem við eigum við að búa, Íslendingar, í þessum efnum og framleiðsluaðstöðu íslenzkra bænda. Það er mjög mikið rætt um, hvort ekki væri æskilegt og eðlilegt, að hér yrði frjáls verðmyndun á þessum vörum og að bændasamtökin fengju þá að ráða verðlagningunni sjálf. En það var álit margra, sem um þetta ræddu innan n., að því aðeins væri hægt að koma slíku frelsi við, að um leið yrði rétturinn takmarkaður á þann hátt, að leyfður yrði innflutningur á erlendum landbúnaðarvörum að einhverju vissu marki. Það var álit okkar í Stéttarsambandi bænda og fulltrúa bænda í þeirri n., sem undirbjó þetta frv., að við gætum ekki, eins og ástæður okkar eru nú í framleiðslumálum, gengizt undir það að taka upp frjálsa verðlagningu með þeirri kvöð, að leyfður yrði innflutningur erlendra vara í samkeppni við íslenzka framleiðslu. Við töldum það útilokað, að bændastéttin gæti sætt sig við það og við það unað, eins og ástæður eru hér hjá okkur nú.

Þá kom til athugunar sú leið, sem ég taldi hér númer þrjú, þ.e.a.s. að það yrði ákveðið með sérstökum útreikningsreglum af einhverri sérstakri stofnun, hvaða verð ætti að vera á landbúnaðarvörum til framleiðenda og í útsölu til neytenda. En til þess að koma slíkri verðlagningu á, þurfti að gera ýmsar undirbúningsráðstafanir, sem hægt væri að byggja slíka útreikninga á, en því miður er okkar statistik varðandi landbúnaðinn ekki þannig upp byggð, að við höfum slíka aðstöðu nú. Það var því álit okkar, að við gætum ekki byggt á slíkum útreikningum, og þess vegna töldum við rétt, af því að það var möguleiki til samkomulags með meiri hl. n., að fallast á þá leið, sem ég kalla hér númer tvö, þ.e.a.s. samninga á milli bændasamtakanna annars vegar og kaupenda varanna, neytendanna, hins vegar.

Nú hefur komið mjög mikið til umr. í þessu sambandi, að það hefði kannske verið alveg eins gott, að þessir samningar færu fram á milli bændasamtakanna annars vegar og ríkisvaldsins hins vegar, eins og gerist með sumum nágrannaþjóðum okkar. En það var nú eftir nákvæma athugun okkar álit meiri hl. n., að það væri ekki rétt á þessu stigi a.m.k. að fara inn á þá braut, og það eru ýmsar ástæður, sem því valda, og m.a. þær, að reynsla þeirra þjóða, sem búa við slík kerfi, þ.e.a.s. Norðmanna og Svía, sem við höfum mikil kynni af í þessum efnum, er svo léleg, þ.e.a.s. að kjör bændanna eru svo bágborin þar í hlutfalli við kjör annarra stétta þjóðfélagsins, að við teljum ekki æskilegt að taka upp það kerfi, ef það kynni að verka eins hér á landi og það hefur verkað þar. Og það er svo mikil óánægja meðal bænda í þessum löndum með það kerfi, sem þeir búa við, að þeir vilja fá því breytt og hafa m.a. leitað hingað til Íslands að fyrirmyndum um breytingar á sínu verðlagskerfi. Þetta m.a. gaf okkur bendingu um það, að ekki væri æskilegt að fara inn á þá braut að taka upp beina samninga milli bændasamtakanna og ríkisvaldsins um þessi efni, auk þess sem þessu fylgja ýmsir aðrir annmarkar, sem kannske líka er rétt að víkja að.

Það kom fram hjá hv. 5. þm. Austf. (LJós), að það hefði átt að fara þessa leið í uppbyggingu þess kerfis, sem á að gilda um verðlagningu landbúnaðarvara, og taldi hann, að það væri sú eina leið, sem rétt væri, vegna þess að ríkisvaldið væri sá aðili, sem gæti verið samnefnari allra þeirra neytenda, sem kaupa landbúnaðarvörur, gagnvart bændasamtökunum. En ef fara ætti þessa leið, yrði það nú að vera þannig í fyrsta lagi, að ríkisstj. tilnefndi samninganefnd, sem semdi við bændasamtökin, og eins og hæstv. 5. þm. Austf. túlkaði þetta, ætlast hann til, að ekki yrði nein yfirnefnd slarfandi, heldur fengju bændasamtökin eins konar sölustöðvunarrétt, ef ekki næðust samningar við ríkisvaldið. Það virðist nú vera nokkuð óeðlilegt að ætlast til þess, að ríkisvaldið setji löggjöf, sem ætlar ríkisstj. ákveðinn rétt í samningum við vissa hagsmunahópa í þjóðfélaginu, en að í þeirri löggjöf verði sett ákvæði, sem geti þvingað ríkisvaldið til samninga við einstaka tiltölulega smáa hagsmunahópa, ef ekki næst samkomulag í beinum samningum, og væri næsta óeðlilegt að ætlast til þess, að nokkur ríkisstj. gengist undir slík ákvæði og ætti svo að framfylgja þeim gegn sjálfri sér eins og í þessu tilfelli yrði að vera. Það er því ekki rökrétt að hugsa sér, að það geti orðið bændastéttinni til hagsbóta að byggja upp löggjöf, sem fæli í sér slíkt verðlagningarform á landbúnaðarvörum, auk þess sem það atriði, sem lagt hefur verið mikið upp úr í þessu sambandi, þ.e.a.s. að bændurnir fengju sölustöðvunarrétt í þeim tilfellum, þegar ekki næðust samningar við ríkisvaldið um þessi mál, væri ákaflega veikt fyrir bændastéttina, þó að færa megi nokkur rök að því, að það sé að sumu leyti sambærilegt við verkfallsrétt launastéttanna. En hjá bændunum gildir allt önnur aðstaða í þessu efni en hjá launþegunum. Þegar launþegar ná ekki samningum við vinnuveitendur um kjaramál sín, leggja þeir niður vinnu. Að sjálfsögðu tapa þeir sínum vinnulaunum, meðan þeir ekki vinna, en aðaltjónið af því að leggja niður vinnu lendir þó á vinnuveitandanum, sem getur ekki látið atvinnurekstur sinn ganga eðlilega á meðan verkföll standa yfir. En ef bændur ættu að beita þessu vopni, að stöðva sölu á afurðum sínum, til þess að knýja fram samninga, sem ættu að verða þeim til hagsbóta einhvern tíma, þá tapa þeir vissulega launum sínum eins og launþegarnir, en það er meira, sem þeir tapa. Þeir verða að halda áfram að vinna eftir sem áður til þess að halda bústofni sínum lifandi og öllum búrekstrinum gangandi, af því að þeir eru raunverulega atvinnurekendur öðrum þræði, þannig að þeir geta ekki eins og launþegarnir hvílt sig á meðan. Þeir verða að greiða kostnað við að reka sínar stofnanir, sem vinna úr landbúnaðarvörunum, eins og mjólkurbúin, og greiða það af því verði, sem þeir fá fyrir vörurnar eftir að samningar hafa tekizt eða niðurstaða fengizt um verðlagningu, og það er þeim beint tjón til viðbótar við það, sem þeir tapa vegna sölustöðvunarinnar sjálfrar. Auk þess yrðu þeir að halda uppi eftirliti með því, að sölustöðvunin yrði ekki brotin niður, samhliða því sem þeir vinna á sínum eigin búum, þannig að aðstaða þeirra til þess að halda uppi sölustöðvun hliðstæðum verkföllum launþega er allt önnur og miklu erfiðari í framkvæmd.

Og svo kemur eitt til enn, sem má segja, að dæmi þennan möguleika alveg úr leik, og það er, að eins og tækni er komið nú og möguleikum til þess að geyma matvæli á heimilum með frystigeymslum ýmiss konar, þá geta kaupendur landbúnaðarvara tryggt sig með birgðir af þessum vörum til alllangs tíma, þannig að sölustöðvun mundi ekki verka á afkomu þeirra allverulegan tíma, og þannig mundi hún missa algerlega marks til þess að knýja fram samninga eða úrlausn í verðlagsmálum fyrir bændastéttina.

Af þessum sökum er það, að meiri hl. þeirrar n., sem undirbjó þetta frv., gat alls ekki fallizt á það að fara þessa leið, með því að hún tryggði ekki betur rétt bændanna en hin leiðin gerir. Og hún féllst því á það að reyna að ná samkomulagi um að endurbæta það kerfi, sem gilt hefur á undanförnum árum, þ.e.a.s. sexmannanefndarkerfið, með samningum milli bændasamtakanna og samtaka neytenda.

Það er rétt, sem kom fram hjá hv. 5. þm. Austf., að bændasamtökin hafa oft á undanförnum árum látið það í ljós, að þau teldu, að lögin, eins og þau hafa verið, tryggðu ekki kjör bændanna svo vel sem þau ættu að gera, þ.e.a.s. þannig, að þeir hefðu laun sambærileg öðrum stéttum, og það hefur komið fram í ýmsum hagskýrslum á undanförnum árum, að svo hefur verið. T.d. voru meðaltekjur bænda árið 1962 99 þús. kr., þegar meðaltekjur allra stétta þjóðfélagsins voru 131 þús. Árið 1963 voru tekjur bænda 118 þús., þegar aðrar stéttir höfðu 164 þús. og árið 1964 voru tekjur bænda 161 þús., þegar aðrar stéttir höfðu 204 þúsund að meðaltali. En hvers vegna var þetta svo? Það eru ýmsar ástæður, sem hafa valdið því, að bændur hafa ekki náð sambærilegum kjörum við aðrar stéttir, og það var ósk bændasamtakanna og hefur komið fram í samþykktum þeirra um þessi mál, að þau óskuðu eftir, að úr þessum göllum I. yrði bætt, en ég held, að það megi leita með logandi ljósi í samþykktum bændafunda mörg undanfarandi ár eftir því, að bændur vildu leggja niður verðlagskerfið eins og það hefur verið í meginatriðum, og það mundi ekki finnast nokkur till., sem gengi út frá því, að það ætti að leggja niður þetta kerfi eins og það hefur gilt að undanförnu í megindráttum. Hitt er hægt að finna víða, að bændasamtökin hafa óskað eftir endurbótum á kerfinu. Og ég hygg, að það hafi ekki komið fram núna um fjöldamörg ár, að bændur óskuðu eftir því t.d. að leggja niður yfirnefndina, sem hefur úrskurðað verðlagið, þegar Sexmannanefnd hefur ekki náð samkomulagi, því að bændum hefur verið ljóst, að það yrði að vera einhver endahnútur á þessum málum, ef samningar gætu ekki tekizt í Sexmannanefnd. Og eftir að aðrar stéttir hafa farið að lúta ákvörðunum yfirdóms eða gerðardóms, eins og útgerðarmenn og sjómenn verða nú að gera og opinberir starfsmenn og ýmsir fleiri starfsmannahópar í þjóðfélaginu, þá hefur bændastéttin ekki kvartað undan því að verða að búa við þetta ákvæði, að yfirnefnd úrskurðaði, þegar ekki næðust samningar í Sexmannanefnd.

En það, sem ég tel, að hafi valdið mestu um það, að bændur hafa ekki náð sambærilegum kjörum við aðrar stéttir á undanförnum árum, er fólgið sérstaklega í þrem atriðum. Í fyrsta lagi er það vegna þess, að þeir hafa oftast verið á eftir með að fá kauphækkanir til sín, og kauphækkanir þeirra hafa alltaf verið miðaðar við þær kauphækkanir, sem hafa verið komnar til annarra stétta alllöngu á undan, og þetta hefur, þegar verðþensla er mikil í þjóðfélaginu og launaskrið mikið, orsakað það, að bændur hafa orðið tekjulægri.

Í annan stað hefur þetta verið vegna þess, að afurðalánin hafa ekki verið það mikil, að það hafi verið hægt að greiða bændum nógu mikinn hluta afurðaverðsins út, strax eftir að það hefur verið ákveðið, og þeir hafa oft orðið að bíða eftir verulegum hluta þess, stundum ár og stundum meira, en nokkur bót varð á þessu haustið 1964 með samningum milli fulltrúa bænda í Sexmannanefnd. og landbrh., sem kemur líka greinilega fram í kaupi bóndans það ár, því að það hækkar þá mjög mikið frá því, sem var árið á undan.

Og svo er eitt atriði enn, sem ég tel mjög mikilvægt í þessu sambandi, að það hefur vantað að taka nokkurn hluta þeirrar vinnu, sem er við búreksturinn, inn í verðlagninguna, vinnu annarra fjölskyldumeðlima en bóndans þ.e.a.s. eiginkonunnar og barna innan 16 ára aldurs. Og þetta hefur ráðið mjög miklu um það, að tekjur bænda hafa orðið lægri að meðaltali en fjölskyldumanna í öðrum stéttum, því að það hefur sýnt sig í sambandi við úrtakskannanir á tekjum manna í öðrum stéttum, að vinna barna og konu í þeim stéttum er talsverður hluti af tekjum hverrar fjölskyldu.

Það kom okkur í bændasamtökunum allmikið á óvart í haust, þegar A.S.Í. dró sinn mann úr Sexmannanefnd og vildi ekki tilnefna mann í n., og okkur fannst það eiginlega óeðlilegt, að A.S.Í. gerði það á þeim tíma, sem það var gert fyrirvaralítið, þegar þurfti að fara að vinna að verðlagningu, og alveg sérstaklega vegna þess, að það var ekki langt síðan búið var að breyta ákvæðum um vísitölutryggingu launa þannig, að hækkanir á afurðaverði komu að verulegu leyti inn í kaupgjaldið af sjálfu sér vegna vísitölugreiðslna á laun, og þess vegna átti að vera miklu auðveldara fyrir fulltrúa launþeganna að vinna að verðlagningunni og minni áhætta fyrir þá gagnvart umbjóðendum sínum að fallast á eðlilegar verðlagshækkanir á landbúnaðarvörum. Og ég verð að segja það, að mér fannst ádeila hv. 5. þm. Austf. varðandi afstöðu okkar bændafulltrúanna í sambandi við þær breytingar, sem felast í þessu frv., sem hér er til umr., stangast nokkuð á við það, sem komið hefur oft fram hjá fulltrúa A.S.Í. í Sexmannanefnd á undanförnum árum, þar sem hann hefur lagt höfuðáherzlu á að gera yrði þá breytingu á útreikningi á kaupgjaldslið bóndans í verðlagsgrundvellinum, að þar væri miðað við vinnutímann og vinnutíminn væri reiknaður til verðs í samræmi við annað kaupgjald í landinu. Einmitt í þessu frv., sem hér liggur fyrir, er gengið inn á þá braut, að í framtíðinni skuli verðleggja vinnuna við búreksturinn í samræmi við annað kaupgjald og reikna hana eftir raunverulegu tímamagni við framleiðsluna. Og það vill svo skemmtilega til, að þetta fellur líka saman við samþykktir okkar bændanna bæði á búnaðarþingi og á stéttarsambandsfundum. Við höfum margsinnis óskað eftir því, að einmitt sú breyting yrði gerð á löggjöfinni um þetta efni, að sá vinnutími, sem raunverulega færi í það að vinna að framleiðslunni, yrði verðlagður til samræmis við aðra vinnu í landinu, og ég tel, að í þeirri gr. frv., sem um þetta fjallar, þ.e. 5. gr. frv., sem er viðbót við 4. gr. l. um Framleiðsluráð landbúnaðarins, verðskráningu, verðmiðlun og sölu á landbúnaðarvörum, þar sem segir, að í verðlagsgrundvelli skuli tilfæra ársvinnu bóndans, skylduliðs hans og hjúa á búi af þeirri stærð, sem miðað er við hverju sinni, og virða vinnutímann til samræmis við kaupgjald verkamanna, sjómanna og iðnaðarmanna, eins og það er við upphaf þess verðlagstímabils og enn fremur, að kaupgjald skuli teljast hvers konar samningsbundin fríðindi, felist viðurkenning á því, sem bændur hafa talið eitt þýðingarmesta atriðið í sambandi við breytingar og lagfæringar á löggjöfinni, og líka það, sem ýmsir fulltrúar, a.m.k. launþeganna, hafa talið þýðingarmikið, að gert yrði, til þess að hægt væri að vinna að verðlagningunni. Að mínu viti felast í þessu grundvallarleiðréttingar frá sjónarmiði bændanna, þ.e.a.s. að það er skylt að verðleggja vinnu skylduliðs bóndans, taka það með í verðlagninguna hér eftir, sem ekki hefur verið gert hingað til, og að taka líka inn í verðlagið hvers konar samningsbundin fríðindi launþega. Þar hljóta undir að koma lífeyrissjóðsréttindi, sem eru mjög þýðingarmikil réttindi og gætu orðið bændastéttinni til mikilla hagsbóta, þegar þau koma inn í verðlagið. Ég vil því ætla, að í þessari grein felist veruleg leiðrétting fyrir bændastéttina, um leið og hún gengur til móts við það sjónarmið margra fulltrúa launþeganna, að það sé auðveldara að vinna að verðlagningunni hér eftir en verið hefur hingað til.

Þá er líka í þessu frv. ákvæði, sem tryggir það, að alltaf sé til samningsaðili til þess að vinna að verðlagningunni, og það er líka mjög þýðingarmikið atriði frá sjónarmiði bændastéttarinnar. Það má vel vera, að það fari svo, ef sjónarmið A.S.Í. verður óbreytt á næstunni eins og það var s.l. haust, að þeir vilji ekki vinna að þessum verðlagsmálum og það verði fulltrúi frá félmrh., sem vinnur að þessu í þeirra stað, og smám saman færist þetta kannske inn á það svið að það verði fulltrúi frá ríkisvaldinu, sem vinni að verðlagningunni af hálfu þeirra, sem kaupa vöruna. En ég hygg þó, að þau sjónarmið geti nú breytzt og kannske fyrr en varir, og það munu fleiri launþegar líta svo á, að það sé hagsmunaatriði fyrir þá að starfa að verðlagningunni og að þeir muni heldur vilja eiga þann rétt og nota hann en að sleppa honum í hendur ríkisvaldsins.

Þá er í þessu frv. mjög þýðingarmikið ákvæði um heimild til aukinnar verðjöfnunar á milli bænda í hinum ýmsu landshlutum og eftir aðstöðu, og það tel ég til stórra bóta frá því, sem verið hefur, og í samræmi við þær óskir, sem bændastéttin hefur oft borið fram um það efni, og ég held, að ekki þurfi að óttast það, sem hv. 5. þm. Norðurl. v. ræddi hér um, að heimila Framleiðsluráði að ákveða mismunandi útborgunarverð á mjólk eftir árstímum og innheimta sérstakt verðjöfnunargjald af innveginni mjólk. Ég held, að þetta verði ekki misnotað. Það verður því aðeins notað, að það þyki nauðsynlegt og geti orðið bændastéttinni í heild til góðs, og ég hygg, að það muni geta orðið nauðsynlegt að grípa til þess í einstökum tilfellum, en það verður áreiðanlega ekki notað nema brýna nauðsyn beri til.

Ég vil því vænta þess, að hæstv. Alþ. samþ. þetta frv. eins og það liggur fyrir. Ég tel, að það feli í sér breyt. til bóta frá sjónarmiði bændastéttarinnar, þó að við vitum ósköp vel, að í því felist ekki allt, sem við hefðum kosið að færa til leiðréttingar á þessum málum. En þó er það nú svo, þegar um samkomulagsfrv. er að ræða, eins og þetta er, að þá er aldrei hægt að búast við að ná öllu fram í einum áfanga, sem menn óska eftir, en í því felast þó þýðingarmiklar breytingar til bóta frá því, sem verið hefur, og ég vil því vænta þess, að það verði samþykkt.