25.04.1966
Neðri deild: 77. fundur, 86. löggjafarþing.
Sjá dálk 476 í C-deild Alþingistíðinda. (2594)

191. mál, bann gegn botnvörpuveiðum

Flm. (Sigfús J. Johnsen):

Herra forseti. Virðulega þingdeild. Ég er mér þess fyllilega meðvitandi, að til þess að gera því máli, sem hér liggur fyrir á þskj. 521, þau skil, sem ég hefði kosið, skortir mig aðallega tvennt: Í fyrsta lagi það, að mig skortir þar ef til vill og eflaust aukna reynslu, kannske einnig viðsýni til þessara mála fram í framtíðina, og svo í öðru lagi það, að okkur skortir hér mjög þau gögn, sem fyrir þyrftu að liggja til þess að geta rakið hér að nokkru gagni gang fiskveiðimála við suðurströnd landsins og þá ekki hvað sízt við Vestmannaeyjar. Ég vil þó ekki láta hjá liða að gera þessu máli nokkur skil í örfáum orðum, ef það mætti verða til þess að upplýsa hv. þd. um málið nokkru frekar.

Önnur meginástæðan til útfærslu fiskveiðimarkanna er að sjálfsögðu sú, að Íslendingum einum sé sköpuð aðstaða til að nýta þau fiskimið, sem við strendur landsins eru, og á þann hátt og með þeim veiðarfærum, sem hagkvæmust þykja á hverjum tíma og á hverju veiðisvæði, enda verði þess að sjálfsögðu ávallt gætt, að ekki sé um ofveiði eða rányrkju að ræða. Fiskveiðar og fiskvinnsla sjávarafurða eru, eins og kunnugt er, aðalatvinnugrein Íslendinga og aðalundirstaðan undir gjaldeyrisöflun þjóðarinnar og ekki annað sjáanlegt en svo verði um langa framtíð. Það er því fyllilega tímabært og eðlilegt, að nýtingu veiðisvæðanna innan fiskveiðimarkanna sé komið í fastara form en verið hefur og þá ekki einskorðuð við ákveðin veiðarfæri, heldur séu veiðarnar stundaðar á hverjum tíma og hverjum stað með þeim veiðarfærum, sem hagkvæmust geta talizt og arðvænlegust eru, án þess að um ofveiði eða rányrkju sé að ræða.

Um þessi atriði má segja, að þeim er svarað í þessu frv. Það er fyllilega tekið til greina, að reynt verði að forðast það, að hér verði um rányrkju eða ofveiði að ræða, sérstaklega með tilliti til þess, að í frv. er gert ráð fyrir því að færa möskvastærð togveiða úr 120 mm í 130 mm, sem svarar til þess, að fiskur að mesta þvermáli 20 cm eða 200 mm mundi ekki ánetjast í slíkri vörpu. Í öðru lagi er í frv. gert ráð fyrir því um þá heimild, sem farið er fram á að ráðh. geti veitt, að honum skuli ekki heimilað að veita þessa undanþágu, nema til komi, að ekki sé um að ræða þyngsli, sem við köllum „bobbinga“ þ.e.a.s. sem gætu valdið varanlegu tjóni á gróðri neðansjávar. Þetta tvennt hygg ég að megi með sanni segja, að ætti að verða til þess að auðvelda framgang málsins og sérstaklega með hliðsjón af því, að ef þessi gamla fordild og bábilja um eilífðarbann við veiðum innan landhelginnar á ákveðnum svæðum og með ákveðnum tækjum, ef hún fæst ekki losuð í sölum þingheims, þá horfir uggvænlega víða um land.

Svo hagar til á aðalveiðisvæðum vélbátaflotans að vetrinum til, að veiðar eru nær eingöngu stundaðar með línu og netum og nú hin síðustu árin einnig með nót. Veiðar með handfærum eru

ekki lengur nein uppistaða í fiskveiðum Íslendinga. Að sumrinu til og einnig á sumum veiðisvæðum að vetrinum til, eins og t.d. á svæðinu frá Dyrhólaey og þar austur af, horfir þetta öðruvísi við. Á þessum tíma verða línu- og netaveiðar ekki stundaðar með neinum árangri, a.m.k. ekki á svæðinu frá Reykjanesi og austur með suðurströnd landsins. En á þessu svæði, t.d. á svæðinu frá Reykjanesi og út með allri suðurströndinni, svo sem í Vestmannaeyjum, Stokkseyri, Eyrarbakka og Þorlákshöfn, eru tugir báta, er skortir rekstrargrundvöll, eins og aðstæður eru nú. Er hér um að ræða báta af millistærð, sem eru of litlir til síldveiða, en of stórir til dragnótaveiða. Verður því mjög að undirstrika í þessu sambandi, að einmitt þessi stærð báta er um land allt undirstaðan undir þeim útvegi, sem rekinn er hvarvetna við strendur landsins, þar sem á annað borð er um einhver sjávarþorp og einhver starfandi fiskiðjuver að ræða. Víða má skapa þessum bátum öruggan rekstrargrundvöll með rýmkun á ákvæðum um bann við botnvörpuveiði, þar sem það að áliti Fiskifélags Íslands og annarra sérfróðra aðila getur talizt áhættulaust og við eiga. En eins og lög um bann gegn botnvörpuveiði eru nú, getur sá ráðh., sem með þessi mál fer, hvergi veitt undanþágu til slíkra veiða innan þeirra marka, sem sett voru í reglugerð nr. 21 frá 19. marz 1952, þ.e.a.s. innan 4 mílna markanna, nema um sé að ræða eingöngu kampalampa- eða leturhumarveiðar með þar til gerðum sérstökum vörpum. Ég tel fyllilega tímabært, að ákvæði þessi séu rýmkuð þannig, að ráðh. hafi einnig heimild til að veita vélbátum undanþágu til botnvörpuveiða með venjulegri fiskivörpu, einnig innan 4 mílna markanna, þar sem slíkt að áliti reyndra og sérfróðra aðila getur talizt áhættulaust og eðlilegt og þar með forðað stórfelldum samdrætti í atvinnulífinu. Um þessi mál hafa Útvegsbændafélag Vestmannaeyja og hin ýmsu hagsmunasamtök i Eyjum gert ítrekaðar tilraunir til þess að fá þessi ákvæði eitthvað rýmkuð, og ég vil, með leyfi hæstv. forseta, leyfa mér að vitna hér til niðurlags bréfs frá Útvegsbændafélagi Vestmannaeyja, sem ritað er til sjútvmrn. og er stílað þann 20. jan. Í bréfinu segir, með leyfi hæstv. forseta, í niðurlagi bréfsins:

„Við viljum leyfa okkur að benda mjög eindregið á, að eitthvað raunhæft verður að gera nú þegar í þessu máli. Það þolir að okkar dómi enga bið lengur Verði ekkert að gert, er hætta á, að stór hluti vélbáta Vestmanneyinga stöðvist, og mundi byggðarlagið ekki fá risið undir slíku. Við leyfum okkur að fara fram á, að bátum frá Vestmannaeyjum verði af framangreindum ástæðum leyfðar togveiðar innan fiskveiðimarkanna á svæðinu frá Geirfuglaskeri við Eyjar og eitthvað austur fyrir Ingólfshöfða.“

Lýkur hér tilvitnun í bréf Útvegsbændafélags Vestmannaeyja. Svar við þessu bréfi er að finna í bréfi rn., sem ég vil einnig, með leyfi hæstv. forseta, leyfa mér að vitna til. Í bréfi rn. 24. jan. segir, í niðurlagi bréfsins:

„Í 1 gr. l. nr.6 frá 17. febr. 1959 segir: Í fiskveiðilandhelgi Íslands, eins og hún er ákveðin í reglugerð nr. 70 frá 30. júní 1958, skulu bannaðar vera fiskveiðar með botnvörpu og flotvörpu. Rétt er ráðh. að veita íslenzkum fiskiskipum undanþágu frá banni þessu, þó utan þeirra marka, sem sett voru með reglugerð nr. 21 frá 19. marz 1962.“ Og enn fremur segir í sama bréfi: „Af framansögðu er ljóst, að eigi að heimila íslenzkum skipum botnvörpuveiðar innan marka þeirra, sem ákvörðuð voru með reglugerð nr. 21 19. marz 1952, þarf ný lagaheimild til að koma. Lína sú, er dregin er með þeirri reglugerð, er, eins og áður sagði, 4 sjómílur frá yztu annesjum, skerjum eða eyjum.“

Og lýkur þar með tilvitnun í bréf hv. sjútvmrn. Nú hafa málin skipazt þannig, að sérstakt ástand hefur nú skapazt vegna aflabrests á miðunum við suðurströnd landsins og þá alveg sérstaklega við Vestmannaeyjar, sem kallar á skjóta úrlausn þessa máls. Heildarafli vertíðarbáta í Vestmannaeyjum var eftir fyrsta ársfjórðung þessa árs 10711 lestir, en á sama tíma í fyrra 17450 lestir eða um 40% minni nú en þá. Ef sagan væri þar með sögð, væri ef til vill ekki svo skuggalegt um að litast. En því miður er ekki þar með öll sagan sögð, og vantar þar mikið á. Staðreyndin er sú, að heildarafli landsmanna á þessu sama tímabili, þ.e.a.s. á fyrsta ársfjórðungi þessa árs, er, þegar í heild er tekið, 7% minni en á sama tíma í fyrra. Þessi 7% svara til að vera alveg um 7 þús. lestir, en heildarafli Vestmannaeyjabáta á sama tímabili er einmitt að sama skapi nákvæmlega eða alveg um 7 þús. lestum minni en á sama tíma í fyrra. Þessu til viðbótar er svo þá raunasögu að segja, að ekki einasta það, að þorskur, sem er tveggja og þriggja nátta og verðlítill, skapar tiltölulega litla vinnu í landi, er stór uppistaða í þeim þorskafla, sem á land er kominn, og svo til viðbótar og til að kóróna allt saman kemur svo hitt, að hinn hlutinn er að miklu leyti loðna, sem engum náttúrlega dylst hugur um, að skapar hvort tveggja í senn litla atvinnu og er í útflutningsverðmætum ákaflega verðlítil söluvara.

Sá tími, sem þegar er liðinn af þessari vertið, var sá tími, er útgerðarmenn og sjómenn byggðu á, að yrði uppistaðan í rekstrarafkomu bátanna á þessu ári. Þeir verða að treysta á, að sumarvertíðin geti í einhverju bætt upp þann aflamissi, sem þegar er orðinn. En til þess að freista að bæta upp það tjón, sem þegar er orðið, verður ekki af stærstum hluta þessara báta gripið til neinna annarra veiðarfæra, er vænta megi nokkurs árangurs af, en botnvörpu. Bæði er það, að slik útgerð er mun kostnaðarminni og um leið hvergi nærri eins mannaflafrek. En ef slíkar veiðar á að stunda með einhverjum árangri, þá verða þær veiðar að fara fram á þeim svæðum, er lög nú banna. Löggjafinn getur því ekki lengur horft á það aðgerðarlaus, að beinlínis séu útgerðarmenn og sjómenn knúðir á ólöglegar veiðar, og þannig vísvitandi horft upp á það, að lögbrot séu framin, sjávarútveginum og þjóðinni sjálfri til framdráttar. Og ég vil í þessu sambandi leyfa mér að gera tilvitnun í eitt nærtækt, raunhæft dæmi um þessi mál.

Í upphafi þessarar vertíðar voru menn að vísu á öllu Suðurlandsundirlendinu nokkuð bjartsýnir, eins og oftast er í vertíðarbyrjun, um gang vertíðarinnar og áframhald hennar. Nokkrir þeirra manna, sem lagt höfðu út í það að eignast báta af meðalstærð, þó umfram þá stærð, sem hægt er að nýta til dragnótaveiða, höfðu gert sér nokkrar vonir um það, að hægt yrði í náinni framtíð að stunda dragnótaveiðar og við hefðum viðsýni til þess að heimila þeim að stunda þær veiðar á einhverjum ákveðnum svæðum og ákveðnum tímum það tímabil, sem ekki eru stundaðar aðrar veiðar.

Þegar síðan fréttist um það, að skipuð hefði verið nefnd til þess að bæta og leiðrétta afkomu þessara minni báta, þá fóru menn enn að gera sér frekari vonir um, að þarna væri einhverra úrræða að vænta. Niðurstaðan varð hins vegar sú, að enn hefur ekki bólað á neinu slíku, og liggur því fyrir í dag sú niðurstaða, að þessir ágætu menn, sem þarna eiga hlut að máli, sumir hverjir urðu að snúa frá því að stunda sinar dragnótaveiðar, vera hundeltir dag eftir dag innan landhelgi og fóru út í það að fjárfesta í auknum veiðarfærum með kaupum á netaveiðarfærum, sem kosta á venjulegan mótorbát í dag um 600 þús. kr.

Þetta dæmi, sem ég er hér að vitna í og við höfum margar hliðstæður af, er raunhæft dæmi. Þarna er um að ræða mann, sem í upphafi vertíðar ætlar sér að byggja sína afkomu á dragnótaveiðum, en vegna þess að engin rýmkunarákvæði koma til, þá snýr hann til netaveiða. Niðurstaða mannsins verður síðan sú, að hann hefur veiðar á ný, hendir netunum í land, vegna þess að það er ördeyða, engan fisk í þau að hafa, og hann snýr málunum við og setur netin í land og tekur troll.

Það er ekki viðurkvæmilegt á þessum stað að tala um það, hvar þessi maður stundar sínar veiðar. Ég veit, að hv. alþm. vita það allir, að það er ekki utan 12 mílna markanna. En niðurstaða mannanna við það að veiða á þeim svæðum, sem lög ekki leyfa; hefur þó leitt til þess, að einhvern afla hefur þar verið að fá, og því er spurningin um það í dag enn brýnni en nokkru sinni fyrr: Á að láta mennina halda áfram þessum óþjóðlega sið, sem einhver kallaði svo í leiðinlegri ræðu, eða ætlar löggjafinn að grípa hér inn í og leggja sitt til, að málinu verði skipað í það horf, sem nauðsyn ber til.

Það er nokkuð freistandi að reyna í örstuttu máli að gera hv. þd. nokkru nánari grein fyrir sögu fiskveiða hér við suðurströnd landsins, kannske i og með ekki sízt vegna þess, að óviða munu vera til skárri gögn um fiskveiðar heldur en einmitt við suðurströndina, og svo líka ef það mætti verða til þess að berja niður þann draug, sem setzt hefur að, ég vil segja í brjósti ýmissa aðila, sem um þessi mál hafa fjallað, að við værum að drepa niður allan fiskstofn með því að leyfa rýmkun á togveiðum innan okkar landhelgi.

Það er fyrst getið um fiskveiðar við Vestmannaeyjar í Landnámu, en í Landnámu segir, að fiskveiðar hafi verið stundaðar lengst af frá Eyjum og Vestmannaeyjar talin góð verstöð og mikil. Að vísu er getið um það, að í Vestmannaeyjum muni ekki hafa verið um vetrarsetu að ræða, heldur aðeins veitt þar að sumrinu til eða þá stundað útræði í stuttan tíma.

Þegar kemur fram á 15. öld, hefja Englendingar samlagsútgerð með Vestmanneyingum, og gekk sú útgerð prýðisvel. Bæði var það, að þarna kom til fjármagn erlendis frá, og það á kannske vel heima á þessum dögum, að rætt sé um innflutning erlends fjármagns, sem þarna mun hafa hafizt í Eyjum í byrjun 15. aldar og gaf á þeim tíma góða raun. Bæði var það, að hægt var með því að byggja upp bátaflotann og gera hann þannig úr garði, að hann var hæfur til þess að sækja á þau mið, sem þurfti, þó að ekki væri að vísu langt að sækja. Um þessi mál gengu siðan ákaflega sérkennilegir dómar, sem væri fróðlegt fyrir menn að glugga í. Þessir dómar gengu árin 1528 og 1543. Svo stendur fram til ársins 1570, en þá tekur konungsútgerð við, og er konungsútgerð rekin í Vestmannaeyjum fram undir lok einokunartímabilsins.

Í konungsútgerðinni hagaði þannig til, að hver einasti útvegsbóndi var skyldaður til þess að róa á konungsskipunum. Var þá ekki lengur um neina sjálfstæða útgerð að ræða í Vestmannaeyjum, og dró þar allt í dróma, eins og víðast hvar í öllu viðskiptalifi landsmanna á þessu tímabili.

Á árunum 1793—1805, eða í 12 ár samfleytt, sýna skýrslur okkur, að á þessu 12 ára tímabili er um algert aflaleysi að ræða í Vestmannaeyjum. Sama sagan endurtekur sig aftur nokkru siðar, eða á árunum 1855—1870, í 15 ár samfellt. Í þessu sambandi er vert að minna rækilega á, að á þessu tímabili bregzt afli algerlega í annað skiptið í 12 ár og i hitt skiptið í 15 ár. Nú skyldi enginn láta sér detta í hug, að þessi aflabrestur hafi þá stafað af dragnótaveiði eða togveiði, slík veiðarfæri voru þá alls ekki til, heldur eingöngu um handfæraveiðar að ræða, og að um ofveiði hafi verið að ræða, því fer fjarri, ef gerður er samanburður á afla nú hin síðustu ár.

Ég vil sérstaklega undirstrika þetta og benda mönnum ýtarlega á, að um aflabrest hefur verið að ræða á ákveðnum tímabilum og ákveðnum árum, ef litið er aftur í tímann, og rök fyrir aflabresti verða ekki rakin til áðurnefndra veiðarfæra, heldur kemur þar eitthvað allt annað til.

Það er síðan ekki fyrr en alveg undir lok 19. aldar, eða nánar tiltekið 1897, sem farið er að nota línu að nokkru gagni í Vestmannaeyjum. Það er Magnús Guðmundsson útvegsbóndi í Vesturhúsum, sem fyrstur reyndi það.

Síðan, ef við rekjum söguna hratt og förum fljótt yfir sögu, þá er það næst árið 1908, en þá reynir Þorsteinn Jónsson frá Laufási fyrstur manna fiskveiðar í net. Árið 1920 hefur Gísli Magnússon dragnótaveiðar. Árið 1930 er hafin botnvörpuveiði við Eyjar. 1943 eru hafnar humarveiðar. 1960 er hafin veiði í nót.

Svo bregður við, að eftir að þessi nýju veiðitæki koma til greina, fer aflinn ört vaxandi, þannig að frá því fyrir aldamótin 1900 snýr úr hreinni ördeyðu til stöðugt vaxandi afla. Á árunum 1899—1915 má minna á, að þá tvöfaldaðist aflinn enn. Allt þetta tímabil eða meiri hluta tímabilsins eru notuð þau veiðitæki, sem nútíminn þá bauð upp á og þóttu hentugust og leiddu til stöðugt vaxandi afla. Og ég vil minna á, að ég er hræddur um, að tölurnar frá árunum fyrir aldamót hefðu verið nokkuð aðrar í aflamagni, ef menn hefðu þekkt til annarra veiðitækja en þeirra, sem þá voru notuð.

Er við gerum svo samanburð á heildarmagni afla og förum þá aðeins nokkur ár aftur í tímann, sem kannske kann að vera nær minni fleiri manna, og hlaupum aftur til ársins 1938, þá kemur í ljós, að árið 1938 eru gerðir út frá Vestmannaeyjum 69 vélbátar, að meðaltali 25 brúttólestir að stærð. Afli þessara 69 vélbáta á þessu tímabili, eða árið 1938, er aðeins tæpar 7 þús. lestir, eða nánar tiltekið 6964 tonn.

Snúum svo aftur til ársins 1965. Þá verður niðurstaðan sú, að heildaraflinn árið 1965 er tæpar 154 þús. lestir, eða nánar tiltekið 153377 tonn, eða sem svarar til að vera 20-faldur á við þann afla, sem á land kom 1938. Og ef við síðan umreiknum brúttólest og aflamagn saman, þá kemur í Ijós, að þetta aflamagn, þessar 154 þús. lestir, sem lagðar eru á land 1965, hefðu þýtt það, að meðalstærð báta, sem gerðir eru út frá Vestmannaeyjum á árinu 1965, hefði þá átt að vera 240 brúttólestir.

Sannarlega er stærð þessara báta milli 60—80 brúttólestir að meðaltali. Þetta segir ótvírætt sina sögu, hvað sem bábiljunni um lokunarsvæðin liður.

Í þessu frv., sem hér er lagt til að verði lögfest, er aðeins farið fram á það, að ráðh. sé veitt heimild til þess að veita undanþágu til veiða innan 4 mílna markanna, þ.e.a.s. frá yztu nesjum, og að í þessari heimild sé að sjálfsögðu vitnað til þess, hver þörfin er á hverjum stað og hverjum tíma, og ekki verið að kalla það yfir, að það eigi að fara að rányrkja alla ströndina hringinn í kringum landið; heldur fyrst og fremst miðað að því, að ekki sé horft upp á það lengur, að ef um hreint vandræðaástand væri að ræða, eins og kannske er fyrirsjáanlegt nú á komandi sumri, þá sé það í hendi einhvers aðila að geta leyst þann vanda, en þetta sé ekki leyst með neikvæðu svari frá ákveðnu ráðuneyti.

Ég vil svo ekkj hverfa frá þessu máli öðruvísi en að benda einnig á stóran þátt, sem við getum ekki litið fram hjá, en það er þátturinn um manninn, sem er að stunda sína atvinnu, sem er að stunda aðalatvinnuveg þjóðarinnar, sem er að leggja drög að því, að þjóðinni geti farnazt vel, manninn, sem er að veiða í þau veiðarfæri, sem henta á þessum svæðum og í þessum tilfellum, sem um ræðir. Þessi maður á það yfir höfði sér að vera eltur, ekki einungis af áfram knúðum skipum, heldur einnig af flugflota við sína vinnu, rekinn í land, settur í dómssalinn, látinn sitja þar í réttarhöldum fyrir það eitt að hafa lagt á land það, sem geri það að verkum, að hans byggðarlag og nærliggjandi svæði séu lífvænleg. Heimili mannsins er að miklu leyti undirlagt vegna stöðugra réttarhalds og yfirheyrslna yfir manninum, og sjónarmið þessa heimilis — og ég vil segja mannsins og þess, sem í kringum bann er, það hlýtur að vera næsta ömurlegt fyrir íslenzkan löggjafa, þegar hann síðan fær fregnir af því, að þegar frá þessu er sagt í blöðum og útvarpi, að þessi og þessi bátur hafi verið tekinn að ólöglegum veiðum eða meintum ólöglegum veiðum, eins og farið er að orða það á svo viðurkvæmilegan hátt, þá er ekki einasta hlegið, þeir, sem ekki hlæja, þeir beinlínis brosa að þessu, og málið er orðið þannig í dag, að það getur hver og einn vitnað til sjálfs sín í því, að það eru ekki ófáir, sem beinlínis brosa að því, þegar bátur er tekinn að ólöglegum veiðum, ég vil segja hvar sem er við strendur landsins.

Þetta hlýtur óneitanlega að leiða til þess að afstaða manna almennt til a.m.k. þessa þáttar löggjafarinnar hlýtur að verða nokkuð ruglingskennd, og ég vil segja, að það sé ekki að ástæðulausu.

Ég vil aðeins í örfáum orðum reyna að gera grein fyrir því, sem úr þessum fáu orðum mínum ætti að vera niðurstaða þessa máls.

Í fyrsta lagi tel ég brýna nauðsyn bera til, að þessi heimild til ráðh. verði veitt, svo að ekki þurfi að skapast beinlínis neyðarástand á ákveðnum svæðum.

Í öðru lagi hefur verið vitnað í ákveðin bréf, sem sanna það og sýna, að hér er ekki bara um orðskrúð að ræða, heldur ákveðna till. til þess að bæta úr því, sem miður hefur farið.

Í þriðja lagi leyfi ég mér að vitna til þess, að á undanförnum árum höfum við, þrátt fyrir það að ekki væru til staðar þau veiðarfæri, sem hér er farið fram á að heimila, þá hefur komið yfir þessi veiðisvæði alger þurrð á ákveðnum tímum, sem telja verður a.m.k. að ekki hefði átt sér stað, ef sú veiðitækni hefði verið til, sem nú er hægt að bjóða.

Ég skal svo ekki orðlengja frekar um þetta mál. En í trausti þess, að reynt verði að braða þessu máli, svo sem kostur er, þótt seint sé fram komið, þá vil ég, herra forseti, vænta þess, að málinu verði vísað til 2. umr. og sjútvn.