17.02.1966
Efri deild: 37. fundur, 86. löggjafarþing.
Sjá dálk 498 í C-deild Alþingistíðinda. (2624)

105. mál, samvinnubúskapur

Flm. (Páll Þorsteinsson):

Herra forseti. Frv. þetta um samvinnubúskap, sem nú er hér til 1. umr., hefur verið flutt í þessari hv. d. á tveimur undanförnum þingum í sama formi og frv. er borið fram nú. Málið er því kunnugt hv. þdm. og m.a. þess vegna óþarft að fylgja því úr hlaði að þessu sinni með mörgum orðum.

Í Morgunblaðinu, sem út kom 5. jan. þessa árs, þ.e. 2. tbl., er birt grein, sem byggð er á viðtali eða frétt frá landnámsstjóra, Pálma Einarssyni. Þar er gefið nokkurt yfirlit yfir þróun landbúnaðar á s.l. ári og horfur á þessu ári. Í þessari frétt landnámsstjóra kemur það m.a. fram, að á s.l. ári hafi verið stofnað til félagsrekstrar á 14 jörðum, þar sem ungar fjölskyldur hafa gengið inn í rekstur með foreldrum eða vandamönnum eftir föstu formi á grundvelli félagsrekstrarsamninga. Síðar í greininni er rætt um þróun landbúnaðarins og m.a. bent á, að jarðir hafi farið í eyði, en í framhaldi af því segir :

„Hins vegar munu nú fram komnar fleiri umsóknir um nýbýli og félagsrekstrarform en var á sama tíma í fyrra.“

Ég drep á þetta til að sýna, að hér er á ferðinni mál, sem ekki er óraunhæft, heldur í beinum tengslum við þá framvindu, sem er að gerast í landbúnaðinum. Eins og þessi frétt þessa embættismanns sýnir, er þegar komið svo, að á ýmsum stöðum þykir fólki henta að stofna til félagsrekstrar og gera um það sérstaka samninga. En um þetta félagsrekstrarform búskapar eru engin ákvæði í l. Með þessu frv. er fyrst og fremst stefnt að því að leggja lagalegan grundvöll undir þessa starfsemi, að samningar um félagsrekstur í búskap séu gerðir innan ramma lagaákvæða, sem Alþ. hefur sett, og um leið sé kveðið svo skýrt á sem verða má um réttindi og skyldur þeirra aðila, sem gangast undir að stofna til búskapar í þessu formi. Það er á allan hátt eðlilegt, að svo sé um hnúta búið, að skýr lagaákvæði séu um þetta og þeir, sem áhuga hafa á að stofna til búskapar í þessu formi, viti fyrir fram sem allra gleggst og með sem mestri vissu, hvaða réttindi og hvaða skyldur fylgja þessu. En þegar stofnað er til búskapar samkv. sérstökum samningi, eru vissulega mörg atriði, sem þarf að gefa gaum að og setja fyrir fram ákveðnar reglur um, svo sem hver sé eignarhlutur hvers stofnanda í jörð, húsum, öðrum mannvirkjum, búvélum og bústofni, hvernig kjósa skuli stjórn eða hver hafi prókúruumboð fyrir samvinnubúið, hvernig það verði skuldbundið og hvernig félagslegar ákvarðanir skuli teknar, hvernig skuli fara með reikningshald, arðskiptingu, áhættu o.s.frv., hvaða reglum skuli fylgt, ef aðili að samvinnubúi fellur frá, flyzt burt eða selur eignarhluta sinn, og hvaða reglur skuli gilda um ábyrgð aðila um félagsslit, ef til kemur. Að dómi flm. þessa frv. mundi það verða aðilum hvatning í þessu efni, ef um þetta væri sem gleggst löggjöf og þeir vissu, að hverju væri að ganga í þessu efni, og það mundi létta mörgum sporin á þeirri braut.

Í þessu frv. er gert ráð fyrir því, að samvinnubú hafi sama rétt til lántöku í stofulánadeild landbúnaðarins og til framlaga samkv. jarðræktarlögum og stofulánadeildarlögunum eins og aðilar að búinu hefðu haft, ef þeir hefðu búið hver út af fyrir sig á sérstakri bújörð. En búast má við því, að framkvæmd búskapar í þessu formi kunni að fylgja sérstakur kostnaður á byrjunarstigi umfram venjulegan stofnkostnað einkabús. Þess vegna er í frv. gert ráð fyrir því, að nýbýlastjórn sé heimilt að veita stofnendum samvinnubús óafturkræft framlag, eftir því sem fé verður veitt til þess í fjárl., í því skyni að mæta sérstökum kostnaði, sem af þessu leiðir. Og enn fremur skal þá stofnlánadeild landbúnaðarins heimilt að veita samvinnubúi stofnlán til þess að standa straum af slíkum kostnaði, ef nýbýlastjórn mælir með því. Enn fremur er í frv. ákvæði um, að samvinnubúi skuli heimilt að taka lán til vélakaupa eða bústofnskaupa gegn veði í fasteignum eða öðrum eignum búsins.

Þá er í frv. gert ráð fyrir ríkisframlagi allt að 10 millj. kr. árlega næstu 10 ár til þess að standa straum af kostnaði, er leiða kann af framkvæmd á ákvæðum IV. kafla frv., en sá kafli frv. fjallar um samvinnubúskap til að koma í veg fyrir eyðingu sveitarfélags. Á undanförnum árum hafa verið reist byggðahverfi á vegum Landnáms ríkisins á ýmsum stöðum samkv. ákvæðum l. um stofalánadeild landbúnaðarins, landnám, ræktun og byggingar í sveitum. Nýbýlastjórn og landnámsstjóri í umboði hennar hefur lögum samkv. á hendi framkvæmd við stofnun slikra byggðahverfa. Í frv. er gert ráð fyrir því, ef að dómi þessara aðila þykir hagkvæmt að koma á samvinnubúskap í byggðahverfi, sé þegar í öndverðu skipulagi byggðahverfisins og búskaparaðstöðu þar hagað með það fyrir augum, að þetta form búskapar komi þar til framkvæmda. Ef yfirvofandi hætta er á því að dómi nýbýlastjórnar og hlutaðeigandi sveitarstjórnar, að byggð eyðist í einhverju sveitarfélagi, þar sem góð skilyrði eru til búskapar frá náttúrunnar hendi, á Landnámi ríkisins samkv. frv. að vera heimilt að stofna þar til samvinnubúskapar, ef talið er, að með því verði komið í veg fyrir eyðingu byggðarinnar í þessu héraði eða á því svæði, sem um er að ræða. Og til að létta undir á Landnám ríkisins að afla sér nægilegs lands að dómi nýbýlastjórnar til ræktunar og beitar og rækta að fullu land, sem svarar til allt að 25 hö. fyrir hvert heimili í slíkri samvinnubyggð, jafnframt því, að það reisi íbúðir og nauðsynleg útihús. Þessi býli verða síðan leigð ábúendum eftir sömu reglum og nú tíðkast um býli í byggðahverfum, sem landnámið lætur reisa. Til framkvæmda í þessu skyni eru ætlaðar þær 10 millj. á ári, sem ég áður gat um að frv. gerði ráð fyrir að lagðar yrðu fram í þessu skyni.

Það er kunnara en frá þurfi að segja, að þjóðfélagsþróunin hefur verið þannig á undanförnum árum, að fólki við landbúnaðarstörf hefur fækkað. Aðallega stafar sú fólksfækkun af því, að vinnufólkið, sem áður var að jafnaði margt á sveitaheimilum, er horfið þaðan, en framleiðslan er rekin með vélaafli, en mjög litlu aðkeyptu vinnuafli. Það hefur tekizt að halda uppi mikilli og vaxandi landbúnaðarframleiðslu með því að auka ræktunarlandið og beita vélunum við framleiðslustörfin. En því er ekki að neita, að þessari þróun fylgja ýmsir annmarkar, sem valda einyrkjanum miklum erfiðleikum og sérstaklega öryggisleysi fyrir heimilið, ef áfall á heilsu eða af öðrum orsökum steðjar að. Það er skoðun okkar flm., að aukin samvinna í búskap mundi að ýmsu leyti auka öryggi í landbúnaðinum og geta létt af ýmsum erfiðleikum, sem einyrkjabúskap fylgja. Bændabýlin eru talin vera milli 5 og 6 þús. í landinu. Vitanlega eru langflest þeirra rekin í formi einkabúskapar, þrátt fyrir þær upplýsingar, sem landnámsstjóri hefur gefið og ég drap á í upphafi þessa máls. Ætla má, að svo verði einnig framvegis, að það verði aðalregla, að um einkabúskap verði að ræða. En við teljum þó ekki ólíklegt, að þróunin muni verða sú, að samvinna í búskap eigi framtíð fyrir sér og fari smátt og smátt vaxandi. Og við flm. teljum tímabært, að sett sé sem allra fyrst löggjöf um þetta efni og hún miði að því að gera þessa leið sem greiðfærasta því fólki, sem kann að hafa hug á að reka búskap með samvinnusniði, og með tilliti til þess, hve áhrifamikil og giftudrjúg samvinnan hefur reynzt á mörgum sviðum í þjóðlífinu, er það skoðun okkar, að með þessu frv. sé stefnt í rétta átt.

Ég tel svo ekki ástæðu til að hafa um þetta fleiri orð, nema sérstakt tilefni gefist, en legg til, að frv. verði að lokinni þessari umr. vísað til 2, umr. og hv. landbn.