25.02.1966
Neðri deild: 46. fundur, 86. löggjafarþing.
Sjá dálk 572 í B-deild Alþingistíðinda. (372)

123. mál, útflutningsgjald af sjávarafurðum

Lúðvík Jósefsson:

Herra forseti. Efni þessa frv., sem hér liggur fyrir, er í stuttu máli það, að lagt er til að hækka útflutningsgjald af síldarafurðum um 40 millj. kr. á ári og lækka jafnframt útflutningsgjald af frosnum fiski, skreið, saltfiski og nokkrum öðrum framleiðsluvörum sjávarútvegsins um sömu fjárhæð.

Yfirlýstur tilgangur með frv. er sá að leggja 40 millj. kr. nýjan skatt á bræðslusíldarafurðir og nota féð til stuðnings frystihúsum og öðrum fiskkaupendum, til þess að þeir geti greitt það fiskverð, sem um var samið og auglýst var rétt upp úr áramótunum, eða m.ö.o. á að láta síldarútgerðina í landinu standa undir vissum vanda, sem fiskkaupendur eða þeir, sem kaupa þorsk og ýsu og annan slíkan fisk til verkunar, standa nú frammi fyrir. Aðrar breytingar, sem felast í þessu frv., eru svo minni háttar, að það skiptir litlu máli um þær að tala.

Það er eðlilegt, að vikið sé nokkrum orðum að aðdraganda þessa máls, hvernig það ber að. Um síðastliðin áramót átti, eins og lög standa til, að ákveða fiskverð fyrir hið nýbyrjaða ár til bátaflotans, og það var auðvitað öllum ljóst, að það var ekki hægt að víkja sér undan því að þessu sinni að hækka fiskverðið allverulega með tilliti til allra þeirra verðbreytinga, sem yfir hafa gengið hér í landi að undanförnu. Og það varð niðurstaðan í yfirnefnd verðlagsráðsins, að um minni hækkun en 17% að meðaltali á nýjum fiski gæti ekkí verið að ræða. Ég skal taka það strax fram í tilefni af því, sem hér kom fram hjá hæstv. sjútvmrh., að það er skoðun mín, að þessi hækkun hafi verið allt of lítil, hún sé í engu samræmi við aðrar þær verðhækkanir, sem yfir hafa gengið, og enn þá sé það þannig, að þeir, sem verða að byggja afkomu sína á beinum fiskveiðum, verði hér verulega aftur úr. Og þetta kemur líka mjög skýrt fram, ef borið er saman verðlag á fiski og verðlag á bæði þjónustu og öðrum afurðum á undanförnum árum. En niðurstaða yfirnefndar verðlagsráðs varð sem sé þessi, að það yrði ekki komizt hjá því að þessu sinni að hækka fiskverð að meðaltali um 17%. En þá sögðu fiskkaupendur eða fulltrúar þeirra, að eins og ástatt væri, gætu þeir ekki greitt þessa hækkun, en féllust á að greiða um 13% hækkun á fiskverðið með vissum skilyrðum. Þá vantaði 4% upp á, að þessu marki væri náð, eða um 40 millj. kr. Þetta er svo sem ekkert nýtt, að slíkt hafi komið upp. Þetta hefur komið upp nú á hverju ári í nokkur ár, að það hefur greinilega vantað nokkuð á, að fiskkaupendur gætu greitt það, sem þeir, sem selja fiskinn, hafa krafizt fyrir fiskinn, og þá hefur svo farið hvað eftir annað, að ríkið hefur þurft að hlaupa þar í skarðið og gera vissar ráðstafanir til þess að brúa bilið. En að þessu sinni er tekinn upp nýr háttur. Þá er svo komið, að fulltrúi ríkissjóðs segir: Ríkissjóður getur ekkert frekar tekið á sig. Hann er kominn í örþrot. Það þýðir ekki að tala um það. — Þeir, sem leiða stefnuna í ríkisstj., munu hafa sagt: Við treystum okkur ekki til að leggja á frekari skatta, og það er því ekki hægt að fara þá leið. — Þá er enn svipazt um, og þá finna menn út þetta nýja snjallræði, sem nú er reynt að fara, finna upp þá leið, sem aldrei hefur verið farin áður, sem sagt þá að ákveða að skattleggja sérstaklega eina ákveðna grein sjávarútvegsins, láta hana bera það, sem ber á milli, og færa upphæðina yfir til annarrar greinar. Það er ákveðið með vissri tilfærslu að leggja á síldveiðisjómenn sem nemur 20 millj. kr. skatti á ári og svíkja þannig raunverulega þann launagrundvöll, sem þeir hafa búið við og þeir hafa hreinlega samið um, þar sem gengið var út frá ákveðinni reglu um verðlagningu á síldarafurðum og ákveðnum hlutaskiptakjörum. Nú er ákveðið að leggja á þessa síldveiðisjómenn skatt, sem nemur 20 millj. kr., til þess að styðja allt aðra aðila í landinu. Og það er á sama hátt ákveðið að leggja 20 millj. kr. skatt á síldarútgerðarmenn, til þess að hægt sé að færa yfir 40 millj. kr. til þeirra, sem kaupa þann fisk, sem var verið að verðleggja rétt upp úr áramótunum og skorti þarna nokkuð á, að hægt væri að finna verðlagninguna fyrir.

Ég vil taka það skýrt fram, að hér er ekki um það að ræða, sem sumir virðast halda, að það sé aðeins um það að ræða, að hér sé verið að færa á milli hjá sömu aðilum tiltekna fjárhæð. Málum er þannig háttað, að það eru að verulegu leyti allt aðrir menn, sem stunda síldveiðar, heldur en hinir, sem stunda þorskveiðarnar, og það er einnig orðið þannig, að það eru orðnir allt aðrir bátar í öllum meginatriðum, sem hér eiga hlut að máli. Síldveiðitíminn er orðinn svo langur, að þeir, sem leggja sig einkum eftir þeim veiðum, stunda þær veiðar svo að segja allt árið um kring og geta að litlu leyti tekið þátt í hinum veiðunum. Hér er því verið að færa yfir frá einum aðila til allt annars til þess að styrkja hann. Sá skattur, sem hér er nú ákveðið að leggja á, mun nema með núverandi verðlagningu um 10 kr. á hvert síldarmál. Hér er því verið að gera ráðstafanir til þess að lækka hvert síldarmál frá því, sem annars hefði getað verið, um 10 kr. Og þá er þannig komið, að útflutningsgjöld á bræðslusíldarafurðum eru orðin þannig, að þau nema 40 kr. á hvert síldarmál. Svo segja margir í landinu, að þeir séu eiginlega alveg undrandi á því, að það skuli ekki vera hægt að borga sama síldarverð hér eins og t.d. í Noregi, en þannig er ástatt, að þar er ekki um nein útflutningsgjöld að ræða, og síldarverð hjá okkur hefur um langan tíma legið og liggur enn alllangt undir norska verðinu. Afleiðingarnar verða svo þær, sem nú eru mjög vaxandi, að þeir, sem eiga síldveiðiskipin, hin stóru skip, leita fast eftir því að geta einnig fengið aðstöðu til þess að landa þar, sem betur er borgað fyrir veiðina, að fá að landa m.a. í Noregi. En einmitt þessa dagana hefur verið skýrt frá því í norskum blöðum, að einn af þekktustu síldveiðiskipstjórum á Íslandi, mikill aflamaður, sem er að láta byggja sér síldarskip í Noregi, hafi staðið í viðræðum við menn erlendis og síðan við íslenzka sjútvmrh. um það að koma á gagnkvæmum löndunarsamningi fyrir síldveiðiskip á milli norskra og íslenzkra skipa, til þess að leggja afla sinn upp þar, sem betur er borgað.

Það er auðvitað enginn vafi á því, að það er stórhættulegt að skapa slíkan verðmismun, sem þegar hefur átt sér stað eða er verið að leggja grundvöll að með þessu frv. í sambandi við okkar síldarafurðir. Ég tel. að sá skattur, sem hér er nú ráðgert að leggja á, sé í mesta máta óréttlátur og hann sé einnig hættulegur. Í fyrsta lagi tel ég, að það sé með öllu ósannað, að fiskkaupendurnir eða þeir, sem kaupa aðallega þorsk og ýsu og annan bolfisk og verka hann til útflutnings, hafi ekki getað risið undir þessari fiskverðshækkun, sem samþ. var af yfirn. Ég tel það með öllu ósannað, heldur þvert á móti margt benda til þess, að þeir hefðu getað það, þegar litið er á heildina. Upplýsingar hafa verið gefnar um, að skýrslur liggi fyrir um skattaframtal hjá 65 frystihúsum í landinu af líklega um 90, og þar er einmitt um þau frystihúsin að ræða, sem hafa yfirgnæfandi meiri hl. aflans. Talað hefur verið um 90—96% af framleiðslu frystihúsanna. Og samkv. skattaframtölum þeirra liggur það fyrir, að þessi 65 frystihús töldu fram árið 1964 90 millj. kr. brúttóhagnað, en vörðu af því til afskrifta um 50 millj. kr. Þessi frystihús höfðu þó fært á rekstrarreikninga sína 59 millj. kr. til viðhalds, og um 50 millj. kr. voru bókfærðar til fjármunamyndunar hjá þessum húsum á þessu ári. Ég er fyrir mitt leyti ekki í neinum vafa um það, að talsverður hluti af þessum frystihúsum, öll þau stærstu og þau, sem búa við beztar aðstæðurnar og kaupa þar af leiðandi langmest af aflanum og mundu því auðvitað fá langsamlega mestan hluta af þeim 40 millj., sem hér er talað um að færa á milli, þau hafa búið við þannig rekstur, að það er engin ástæða til þess að styrkja þau sérstaklega. Það er engin ástæða til þess að fara að skattleggja síldveiðisjómenn eða síldarútgerðarmenn til þess að styðja þessa aðila, ekki nokkur minnsta. Það hefði verið eins mikil ástæða til þess að skattleggja þennan hluta frystihúsanna til stuðnings hinum smærri eins og að grípa til þessarar millifærslu, sem hér er gripið til. Ég skal að vísu taka það fram, að ég hefði einnig verið á móti slíkri tilfærslu, því að ég tel hana óeðlilega. Ég veit, að það eru til allmörg frystihús í landinu og allmargir fiskkaupendur, sem eiga í vök að verjast vegna hækkandi framleiðslukostnaðar og reka frystihúsin eflaust með tapi. En til þess liggja ýmsar ástæður. Ástæðurnar eru ekki þær, að hinar ytri kringumstæður hafi verið óhagstæðar fyrir fiskkaupendur og fiskverkendur hin síðari ár, þvert á móti. Hinar ytri aðstæður, þ.e.a.s. markaðirnir erlendis, hafa verið sérstaklega hagstæðar, þar hefur orðið óvenjumikil verðhækkun. En það er rétt, á móti því hefur aftur komið verðlagsþróunin hér innanlands, sem hefur gleypt í sig meginhlutann af hinni erlendu verðhækkun, sem framleiðendurnir áttu auðvitað að verða aðnjótandi. Hér er því verið að grípa til þessara ráðstafana til þess að reyna að lina nokkuð þann vanda, sem upp kemur vegna verðbólguþróunarinnar í landinu. En það, sem skiptir þó miklu meira máli í mínum augum, er það, að ég tel, að þessi skattur, þessi nýi síldarskattur, sem nú er ætlað að leggja á, — ég tel, að slík tilfærsla eigi engan rétt á sér og hún sé stórháskaleg.

Á tímum uppbótakerfisins, sem hér var í mörg ár, átti það sér að vísu stað, að greiddar voru misjafnlega háar uppbætur til hinna einstöku framleiðslugreina. Það lá þá skýrt fyrir t.d., að þá þurfti að borga meiri stuðning þeim, sem verkuðu saltsíld til útflutnings hér á vetrarvertíð sunnanlands, heldur en þurfti að borga þeim, sem verkuðu saltsíld yfir sumarið á Norður- og Austurlandi og fengu mun hærra verð fyrir sína saltsíld heldur en hinir hér syðra. Og þá var horfið að því ráði með uppbótakerfinu að greiða nokkru hærri styrki til þeirrar framleiðslu, sem átti við knappari kjör að búa. Og á uppbótatímabilinu var einnig gengið út frá því, að vissar greinar sjávarútvegsins þyrftu ekki á stuðningi að halda, þó að aðrar þyrftu á stuðningi að halda. Þetta var í rauninni eðli uppbótakerfisins, að taka svona á málunum. En á þessum tíma datt mönnum aldrei í hug, að það væri réttlátt að skattleggja eina grein útgerðarinnar og taka fé af henni og færa yfir til annarrar, sem stóð höllum fæti. Það datt engum manni í hug að skattleggja síldarsöltunina á Norðurlandi, meðan hún gaf hagnað, og færa þá peninga, sem þannig fengust, til stuðnings síldarsöltun á Suðurlandi. Því var þá alltaf slegið föstu af öllum, að slík tilfærsla gæti ekki komið til greina. Ef þyrfti að aðstoða einstakar greinar, yrði vitanlega að gera það með almennri skattlagningu á þjóðarheildina. Svo þegar núv. ríkisstj. tók við og ætlaði sér að afnema allt uppbótakerfið, komu hennar vísu hagfræðingar og sögðu: Þetta mismunakerfi, sem hefur verið í gangi, er beinlínis stórhættulegt. Við vitum ekkert, hvar við stöndum, eftir nokkurn tíma. Við höfum verið að aðstoða eina framleiðslugreinina meira en aðrar. Menn gera sér alls ekki rétta grein fyrir því, hvaða framleiðslugrein það er, sem skilar raunverulega beztum árangri fyrir þjóðarbúið. Þessi mismunun er hættuleg. — Og þeir vísu menn sögðu: Við ætlum að leggja niður uppbótakerfið, m.a. af því, að það er verið að styrkja sumar greinarnar aðeins meira en aðrar. — En þó fór þessi styrkvelting alltaf þannig fram, að sá, sem þurfti á styrk að halda, var alltaf með knöpp kjör eftir sem áður og tiltölulega knöppust kjörin. En nú koma þessir sömu spekingar eins og oddamaðurinn í verðlagsráði, nú kemur hann og gerir sér lítið fyrir og leggur til: Nú skulum við ekki bæta hinum einstöku greinum mismunandi úr almannasjóði. Nei, nú skulum við leggja sérstakan skatt á vissar framleiðslugreinar og færa þá upphæð yfir sem styrk til annarra. — En hvar halda menn, að við verðum komnir eftir nokkur ár, ef á að fara inn á þessa braut? Nú eru a.m.k. að störfum tvær n. á vegum ríkisstj. til þess að athuga, hvernig eigi að bregðast við vanda í tilteknum útgerðargreinum. Það er sérstök n. að athuga um afkomu smærri vélbáta af stærðinni 45—120 lestir, því að það er viðurkennt, að þeir búi við erfiðan rekstur. Mér er spurn: Hvaða útgerðargrein á að skattleggja til þess að reyna að halda þessum bátum í gangi? Hafa menn fundið það út? Önnur n. er að athuga afkomu togaraflotans. Þar er um hallarekstur að ræða. Eru menn búnir að koma auga á það, hvaða grein sjávarútvegsins eigi að skattleggjast til þess að halda togurunum enn úti? Við vitum það, að eins og grundvöllurinn er orðinn nú, er ekki aðstaða til þess að salta síld hér við Faxaflóa, miðað við það verð, sem er á útfluttri vetrarverkaðri síld. Hvað ætla menn að gera til þess að halda þeirri framleiðslu við? Ætla þeir að fara í það að skattleggja saltsíldaraðila á Norður- og Austurlandi eða enn einhverja aðra? Á að leggja sérstakan skatt á togbátaeigendur til þess að halda við togurum o.s.frv.?

Nei, hér er vitanlega um alveg frámunalega stefnu að ræða og fjarstæða, og það er enginn vafi á því, að þeir aðilar, sem hér eiga hlut að máli, eins og í þessu tilfelli síldarútgerðarmenn og síldveiðisjómenn, munu ekki una slíkum ráðstöfunum sem þessum, þegar þeir fara verulega að kenna á því, hvað hér er verið að gera. Á s.l. sumri reyndi hæstv. ríkisstj. einmitt að leggja á slíkan síldarskatt sem þennan. En það verð ég þó að segja, að svo vitlaus sem sá skattur var og ósanngjarn, er þessi miklu vitlausari og miklu ósanngjarnari í mínum augum. Þar var þó um að ræða tiltekna tilfærslu, að verulegu leyti á milli sömu aðila. Þar átti að leggja ákveðinn skatt á þá, sem lögðu upp síld til bræðslu, og nota þá fjármuni að talsverðu leyti til þess að hækka verðið á saltsíld, sem mikið til sömu aðilar stóðu að því að selja, og svo til þess að flytja að nokkru leyti aflann á milli landshluta. En nú er hins vegar gert ráð fyrir því, að síldveiðisjómenn og síldveiðiútgerðarmenn, sem stunda þær aðallega, eins og nú er hjá okkur, fyrir Norður- og Austurlandi, eigi að leggja af mörkum ákveðna fjárhæð til þess að styrkja einkum og sérstaklega stærstu fiskkaupendurna hérna á vetrarvertíðarsvæðinu, þar sem mest er keypt af fiski, sem sagt allt aðra aðila.

En það er nú einu sinni svo, að það vildi svo til, að ríkisstj. var svo klaufsk í sínum vinnubrögðum, að í fyrra tilfellinu kom hún með skattinn, þegar síldveiðisjómennirnir og síldarútgerðarmennirnir voru á réttum stað og á réttum tíma og þeir gátu hópað sig saman og svarað fyrir sig strax. Nú er hins vegar verið að leggja á skatt, sem ekki kemur neitt til greina í bili. Það líða nokkrir mánuðir, þangað til hann fer að segja til sín, og þá er spurningin, hvernig menn svara. En það eitt er ljóst, að hér er verið að gera ráðstafanir til þess að lækka það síldarverð, sem menn hafa verið óánægðir með og þeir vita að er miklum mun lægra en hér í næsta landi, sem helzt er sambærilegt við okkur í þessum efnum.

Það væri auðvitað ekki óskemmtilegt fyrir menn að reyna að gera sér grein fyrir því, hvernig þessi nýja stefna í skattheimtu mundi koma út, ef ætti að viðhafa hana í öðrum starfsgreinum. Er ekki þessa dagana alltaf verið að kvarta undan bágri afkomu í ýmsum greinum iðnaðarins? En þó vitum við, að það eru til greinar iðnaðarins, sem hafa góðan rekstur. Eitthvað þykist ég hafa heyrt talað um það, að þeir, sem hafa framleitt kex, hafi borið sig illa, þeir hafi tapað og verið að leggja upp laupana. Og eitthvað hafa þeir verið að kvarta mikið, þeir sem standa í fatasaumi og þurfa að keppa við ódýran innflutning á fatnaði og öðru slíku. Það væri þá kannske fundin leið til þess að bjarga þessum aðilum, innlendu kexframleiðslunni, með því m.a. að leggja sérstakan skatt á þá, sem framleiða súkkulaði eða sælgæti, skatt á þá, sem framleiða hér gólfteppi eða annað þess háttar og alveg tvímælalaust hafa haft góðan hagnað, leggja skatt á þá, færa yfir til hinna, sem framleiða kex, og segja: Á þann hátt verður þessu borgið um sinn. — Það verður ekki óskemmtileg efnahagsmálastefna, sem verður ríkjandi í þessu landi, þegar búið er að færa

þessa vitleysu, sem hér er stefnt inn á, til fleiri greina.

Nei, það kemur auðvitað að því, að það hlýtur að þurfa að beita hlíðstæðum ráðum og menn eru hér með, gagnvart öðrum greinum sjávarútvegsins. Á því er enginn vafl. Mér hefur skilizt, að hæstv. ríkisstj. haldi, að hún sleppi út úr þeim vanda, sem hún er raunverulega búin að kalla yfir sig í verðlagsmálum og efnahagsmálum landsins, á þennan hátt, að hún geti sagt: Ekki erum við nú að leggja nýja skatta á þjóðina með því að fara þessa leið. — En ég held, að hún finni það fljótlega, að þessi leið mun einnig verða torsótt til að leysa þennan vanda, sem hún er búin að kalla yfir sig með rangri stefnu.

Það er svo enn annað mál, hvernig síldarútgerðin er fyrirkölluð að þola slíkan skatt sem þennan. Ég veit, að það má lengi segja, að það skipti ekki svo afgerandi máli um 10 kr. á hvert síldarmál. Menn geta kannske þolað það. En þegar menn hafa það í huga, að þegar er búið að leggja á þennan aðila aðrar 30 kr. í sams konar skatti fyrir, að hér eru komnar 40 kr. á hvert síldarmál, hér er kominn 8% útflutningsskattur á þessar afurðir, þá er hér talsvert farið að muna um. En þá munu ýmsir benda á það, að síldarútgerðin hafi búið við sérstaklega hagstæðan rekstur að undanförnu. Og það er eflaust rétt, að til eru þeir aðilar, sem stundað hafa síldveiðar að undanförnu, sem hafa haft heldur góðan rekstur, og margir sjómenn, sem hafa haft gott kaup. Það er rétt. En því fer alls fjarri, að þetta sé eitthvað almennt um þá, sem stunda síldveiðar. Á s.l. ári, árinu 1965, á því metaflaári á síldveiðum, fór svo, að þeir síldarbátar, sem voru í minnsta stærðarflokki, þ.e.a.s. upp að 90 rúml. að stærð, voru úrskurðaðir bótahæfir úr aflatryggingasjóði og fengu sinar bætur þaðan, vegna þess að meðalafli þeirra á þessu mikla aflaári var ekki meiri en svo, að þeir stóðu engan veginn undir sínum útgjöldum, og þeir urðu flestir að gera upp við sína sjómenn með lágmarkskauptryggingu. Og næsti stærðarflokkurinn þar fyrir ofan, milli 90 og 140 rúml., lá rétt við röndina að verða bótaskyldur líka. Og það liggur einnig fyrir, að fjöldamargir aðrir bátar, sem voru í stærri flokknum, fiskuðu ekki meira en svo, að þeir höfðu engan veginn fyrir sínum útgjöldum. Aðrir bátar fiskuðu auðvitað þeim mun meir, það er alveg rétt. En þennan skatt á ekki aðeins að leggja á þá, sem fiskuðu mikið. Þennan skatt á að leggja á alla þá síldveiðisjómenn, sem síldveiðar stunduðu eða stunda. Þennan skatt á að leggja á alla báta, einnig þá, sem eru með hallarekstur, og það á að taka af þeim til þess að styrkja þá, sem gefa sjálfir upp á skattskýrslum milljónagróða. Það er það, sem á að gera.

Um kaup síldveiðisjómanna vil ég líka segja það, að það er enginn vafi á því, að í þeim efnum vaða margir í villu og svima. Þeir bera þar saman það, sem ekki er rétt að bera saman. Það er alveg rétt, að einstaka bátar, sem fiska afburðavel, koma vitanlega út með háan aflahlut. En það er nú svo, að í mjög mörgum tilfellum er þessi aflahlutur, sem um er talað á bátnum, orðinn tveggja manna kaup eða kaup fyrir 1 1/2 mann, og það er vegna aðstæðna. Það er varla nokkur von til þess, að einn og sami maður fylgi bát allan tímann, þegar lagt er af stað til sumarsíldveiða í maíbyrjun og þegar þeim lýkur ekki fyrr en í janúarlok eða þegar komið er fram í febrúar, enda hafa vitanlega þessir menn flestir, eins og nú er komið, leitað eftir nokkru fríi einhvern tíma, og þá fellur auðvitað aflahluturinn til þeirra niður, þótt alltaf sé verið að tala um aflahlutinn, sem þessi toppbátur hafi gefið, en það er sá hlutur, sem útreiknaður er allan tímann og getur auðvitað gengið yfir tvær persónur. Þá má einnig taka það með í reikninginn, að þetta tiltölulega háa kaup síldveiðisjómanna, sem til fellur í sumum tilfellum, kemur vegna þess, að þessir menn stunda sín störf alla sunnudaga og alla hátíðisdaga og þeir verða að vera að störfum allar nætur, og það er ekki tekið út með sældinni, hvort heldur sem er að liggja í fiskiskipum einhvers staðar austur á fjörðum eða norður í landi mánuðum saman, þegar ekki gefur á sjó, eða þá þann tíma, sem þessir bátar þurfa að vera 100—200 mílur frá landi í mesta skammdeginu, svo að það er varla nema von, að kröfur séu gerðar til þess að fá allríflegt kaup fyrir þessa aðstöðu. Og það er mjög óréttmætt, þegar hæstu aflahlutir eru reiknaðir og talað er um þá sem kaup sjómanna á síldveiðum og þeir síðan bornir saman við almennt kaup í landinu, sem algengast er þá fyrir 8—10 tíma vinnu og frí á öllum helgidögum.

En það sýnist ekki nóg að skattleggja þessa aðila eftir hinum almennu skattal. í landinu, heldur þarf að búa til sérstakan aukaskatt á þá, eins og fyrirhugað er með þessu frv. Á því er auðvitað enginn vafi, að með þessari tilfærslu, sem hér er hugsuð frá síldveiðunum og yfir til þorskveiða, er verið að raska þeim kaupgrundvelli, sem við hefur verið miðað. Það er raunverulega verið að svíkjast að sjómönnunum, sem eiga helminginn af aflahlutnum, miðað við það verð, sem sanngjarnlega var reiknað út á síldarafurðunum, og það átti ekki að taka það með einhverjum aukaskatti áður, þannig að þeirra aflahlutur yrði minni en um hafði raunverulega verið samið. En hver er svo hagur síldarútgerðarmannanna sjálfra? Hann er eflaust mjög misjafn. Á því er enginn vafi. En þó held ég fyrir mitt leyti og þykist tala þar af talsverðri reynslu, af því að ég hef nokkra aðstöðu til að dæma um það alveg beint, að það sé enginn vafi á því, að það sé betra að reka tiltölulega stórt og sæmilega vel útbúið frystihús nú í dag heldur en reka toppsíldarbát, sem stundar veiðar við Ísland. Bátarnir eru orðnir dýrir nú, og þau kjör, sem menn eiga þar við að búa, eru ekki hagstæð. En þó efast ég ekkert um það, að þeir, sem eru þar með tiltölulega mestan afla, — ég þarf ekki að segja með mestan afla, en eru nokkuð háir í afla, þurfa ekkert að kvarta undan sínum rekstri, síður en svo, þrátt fyrir miklar álögur, sem á þeim eru. En þegar síldveiðiflotinn sem heild er skoðaður og afkoma þeirra útgerðarmanna, sem eiga þann flota, efast ég ekkert um það, að samkvæmt skattaframtölum mun afkoma þeirra ekki vera eins góð og afkoma frystihúsanna samkv. þeirra skattaframtölum. En samt þykir sjálfsagt að leggja á þá sérstakan skatt hinum til stuðnings. Það höfðu, áður en þessi breyting var gerð, verið gerðar hér breytingar, sem miðuðu að því að mismuna nokkuð hinum einstöku útgerðargreinum. En það bar þó að á allt annan hátt en þetta mál ber. Útflutningsgjöldin höfðu verið ákveðin hér mjög há, og þau voru réttlætt svona há á þeim grundvelli, að þau rynnu að verulegu leyti í sameiginlegan vátryggingasjóð fiskiskipanna og úr þessum sjóði væru síðan vátryggingariðgjöld fiskiskipanna greidd. En svo fór bara að koma að því, að það var farið að létta þessum tiltölulega háu útflutningsgjöldum af sumum aðilum, en aðrir voru látnir standa eftir með sín háu gjöld. Þannig var þegar búið að gera það þannig, að eftir stóðu í rauninni hærri greiðslur, t.d. frá síldveiðiflotanum, í þennan sjóð heldur en frá ýmsum öðrum greinum sjávarútvegsins. En það var þó annað mál. þegar málið bar þannig að, að það hafði, eins og ég sagði, verið lagður á almennur, hár skattur í ákveðnu augnamiði og svo þótti rétt að létta þessum skatti af einum, en ekki öðrum. En þegar svo er komið, að menn eru nú orðnir ákveðnir í því, að það megi halda áfram á þessari braut og beinlínis leggja sérstakan, afmarkaðan skatt á einn til þess að færa yfir til annars, er alveg sýnilegt, hvert stefnir. Nú er t.d. svo komið, að þessi útflutningsskattur er áætlaður að nema kringum 280 millj. kr. Síldarútvegurinn á að borga af þessum 280 millj. kr. rétt um 200 millj., öll önnur útgerð landsmanna um 80 millj., togarar líka. Í vátryggingarsjóðinn, þennan sameiginlega vátryggingarsjóð, renna nú kringum 205 millj. kr. En síldarútvegurinn á að greiða í þennan sameiginlega vátryggingarsjóð af 205 millj. kr. 145 millj. kr., eða m.ö.o. er svo komið, að öll önnur útgerð landsmanna og þar með talin togaraútgerðin á að borga um 50—55 millj. kr. Það er sem sagt sótt í það horfið að láta síldveiðiútgerðina í landinu borga vátryggingariðgjöld m.a. togaraflotans.

Þetta fyrirkomulag, sem gilt hefur nú um langan tíma, er í rauninni alveg óþolandi. Hinar einstöku greinar sjávarútvegsins eru látnar borga misjafnlega mikið í sameiginlegan vátryggingarsjóð, og svo eru greiðslurnar úr þessum sameiginlega vátryggingarsjóði einnig stórkostlega mismunandi. Þannig er ástatt, að ef nákvæmlega sama atvik kemur fyrir á bát undir 100 tonn og á bát yfir 100 tonn, nákvæmlega sama óhappið, er annað óhappið borgað úr þessum sameiginlega sjóði sem bætur, sem tjónabætur, en hinn fær ekkert, af því að það gilda mismunandi bótagreiðslur úr sjóðnum líka. Hér er um herfilega mismunun að ræða, sem nær auðvitað engri átt, og með þessum sjóði, eins og á honum hefur nú verið haldið um hríð, er farið að styrkja m.a. togaraútgerðina sérstaklega mikið, því að hún tekur úr þessum sjóði miklum mun meiri fjárhæð á hverju ári í iðgjöld heldur en hún greiðir nokkurn tíma í sjóðinn af útflutningsgjöldum.

Um aðra þætti, sem allir eru minni háttar í sambandi við þetta frv., þarf ég ekki að eyða mörgum orðum. Frv. er á allan hátt mjög óréttlátt og óeðlilegt. Ég get t.d. ekki skilið með nokkrum hætti, hvaða ástæður liggja til þess, nema þær séu af hinum allra versta toga spunnar, að þær reglur eru settar upp, að það á að borga minni útflutningsskatt, minni útflutningsgjöld af loðnumjöli og lýsi, sem fæst úr loðnu, heldur en úr síld. Hér er um vöru að ræða, sem er framleidd alveg eins og seld alveg eins, og ég efast ekkert um, að það er ekki lakari rekstur hjá þeim, sem standa að þeirri framleiðslu, heldur en í síldinni. En þar eiga að gilda allt aðrar reglur. Er það kannske bara vegna þess, að annað er veitt fyrir austan og norðan, en hitt er aðallega veitt fyrir sunnan eða hvað? Nei, hér er vitanlega ekki um neinar frambærilegar ástæður að ræða, heldur aðeins hitt, að hér vantaði 40 millj. kr. Ríkissjóður gat ekki staðið undir þessum vanda, og ríkisstj. vildi ekkí fara að leggja á ný gjöld fyrir þessu nema þannig, að það væri vitanlega allt í lagi að láta síldveiðarnar borga brúsann og leggja þennan sérstaka skatt bæði á síldveiðisjómenn og síldarútgerðarmenn.

Því hefur verið haldið hér fram, að að mundi ekki vera mikil óánægja hjá þeim, sem eiga að bera þessi gjöld. Að vísu hafi það komið fram, að fulltrúi Alþýðusambandsins í yfirnefndinni hafi verið á móti þessu, og ætla ég, að að segi nokkuð sína sögu, þegar fulltrúi sjómannanna í þessu tilfelli mótmælir þessu og er andvígur þessari breytingu og telur, að hægt hefði verið að koma fram verðhækkuninni með öðrum hætti. En það hefur gerzt í málinu, að stjórn Landssambands ísl. útvegsmanna, sem ætti vitanlega í þessu tilfelli að tala fyrir síldarútgerðarmenn, virðist vera samþykk þessu. Mig undrar það auðvitað ekkert, þó að hún sé það. Það fór ekkert á milli mála, að hún var einnig með síldarskattinum s.l. sumar, þó að sjómennirnir þá rækju hana til þess að taka að lokum afstöðu á móti skattinum. Það er ekki í fyrsta skipti, að hún lætur sérhagsmunasjónarmið nokkurra aðila ráða, því að það er auðvitað enginn vafi á því, að það eiga sér stað sérhagsmunasjónarmið varðandi einmitt fiskkaupi í þessum efnum, að þar tala ýmsir þeir, sem græða nokkuð á því að fá þessar 40 millj. yfir til sín. Og ég fyrir mitt leyti tek það ekki heldur mjög alvarlega, þó að formaður Sjómannafélags Reykjavíkur segi, að þetta muni allt vera í lagi. Ég hef séð svo margvíslegar samþykktir þaðan koma, m.a. þær, að hann fyrir hönd sjómanna mótmælir því alveg sérstaklega, að að sé verið að byggja meira af síldarverksmiðjum, og telur það mjög til bölvunar fyrir sjómenn, sem þó hafa þurft að bíða eftir löndun eða þeytast á milli landshluta með drekkhlaðna báta og ekki komið afla sínum í verðmæti. Þá er eigi að síður það sjónarmið þar ríkjandi, að að sé rétt að mótmæla því, að byggðar séu síldarverksmiðjur, svo að hægt sé að koma aflanum í lóg. Ég veit, að slíkur aðili talar ekki fyrir hönd sjómannanna í landinu í þessu máli. Og ég veit það líka vel, að í hópi þeirra sjómanna, sem eru í Farmannasambandinu, er hin megnasta óánægja með þessar tiltektir, enda kom það fram á þeim fundi, sem ég sat á, sameiginlegum fundi sjútvn. beggja deilda, þar sem var mættur forseti Farmannasambandsins, þá lét hann einmitt þau orð falla, að ef þeir gætu ekki fengið ákveðinn hluta af þessu útflutningsgjaldi í sína sjóði, yrði erfitt að halda niðri óánægju sjómanna, yfirmanna á fiskiskipunum, með þennan skatt. Þá yrði erfitt að halda niðri óánægjunni, ef ekki yrði hægt að kaupa þá með því að láta þá hafa nokkurn hluta af þessum peningum. Og hér sagði hæstv. sjútvmrh., að komin væri fram krafa um það frá Farmannasambandinu og Sjómannasambandinu, sem einnig mælir með þessum skatti, að þeir fái einhverja greiðslu út á þetta. En í mínum sugum er það jafnmikið hneyksli, hvort sem sú leið verður farin eða ekki, og lítið hygg ég að það muni bæta afstöðuna í sambandi við þetta mál hjá sjómönnum almennt, ef fara á þá leið að reyna að kaupa ákveðnar greinar raunverulega með einhverjum nýjum fjárframlögum til þess að þegja, á meðan er verið að leggja slíkar álögur á sem þessar.

Ég vil undirstrika það, að það, sem ég tel að sé langalvarlegast í þessu máli, er prinsip-afstaðan í málinu. Það er sú stefna, sem hér er verið að taka upp. Henni er ég algerlega andvígur og tel. að á henni verði ekki stætt. Það má auðvitað segja það, að 10 kr. út af fyrir sig, ef menn lofa að gera þetta aldrei aftur, ráði ekki úrslitum. En stefnan er röng, og ríkisstj. þarf áhyggilega að gera sér grein fyrir því, að það er ekki stætt á þessari stefnu. Hún leysir ekki vandamál, sem steðja nú að í atvinnuvegum landsmanna, á þennan hátt. Við vitum öll, að þessi vandi er fyrir höndum, að það geti verið erfitt að hækka fiskverð réttlátlega fyrir sjómenn eða eins og þeir þurfa, eins og framleiðslukostnaður þeirra kallar á, þannig að fiskkaupendur, sem bundnir eru af erlendum mörkuðum, geti greitt þetta verð, þegar verðbólgutímar eru. Við vitum, að þessu háttar svona til. Við vitum, að verðbólgan æðir yfir. Verði erlendu verðhækkanirnar ekki nægilega miklar, skapast hér mikill vandi. Það er það, sem hefur verið að gerast. Það á því að taka á því vandamáli að reyna að stöðva verðbólguþróunina, koma í veg fyrir þessa þróun, en ekki að víkjast undan því á þennan hátt, að ætla að velja í þetta skiptið þennan starfshópinn eða þessa atvinnugreinina og leggja sérskatta á hana, því að slíkt leiðir auðvitað út í öngþveiti.

Ég vil að lokum aðeins draga saman nokkur þau meginatriði, sem ég hef hér minnzt á og ég tel að séu falin í þessu frv. og ég marka síðan eftir afstöðu mína til frv.

Það er í fyrsta lagi það, að með frv. er ákveðið að leggja á nýjan síldarskatt, sem mundi lækka hvert síldarmál um 10 kr. a.m.k. Útflutningsgjald á síldarmjöli og síldarlýsi verður samkv. frv. 8% af verðmæti, en það jafngildir 40 kr. á hvert síldarmál. Slíkt útflutningsgjald nær engri átt og er sérstaklega óréttlátt gagnvart síldveiðisjómönnum.

Í öðru lagi: Með frv. á að leggja á aukaskatt á síldveiðisjómenn, sem nemur 20 millj. kr. á ári, og á síldarútgerðarmenn, sem nemur öðrum 20 millj. kr. Skatturinn lendir bæði á tekjulægstu síldveiðisjómenn og hina, sem fengið hafa góðar tekjur, lendir bæði á báta, sem lítinn afla hafa fengið, og hina, sem aflað hafa vel.

Í þriðja lagi: Þessum nýja síldarskatti á að verja að langmestu leyti til stuðnings við stærstu fiskkaupendurna, þ.e.a.s. stærstu frystihúsin í landinu, sem óumdeilanlega hafa góðan rekstrarhagnað fyrir. Enginn vafi leikur á að mínum dómi, að stærstu frystihúsin hefðu getað greitt þá fiskverðshækkun, sem ákveðin var um s.l. áramót.

Í fjórða lagi: Með breytingum þeim, sem felast í frv., er gert ráð fyrir, að síldarútgerðin greiði um 200 millj. kr. á ári í útflutningsgjöld, en öll önnur útgjöld aðeins um 80 millj. kr.

Í fimmta lagi: Samkv. frv. er ráðgert, að síldarútgerðin greiði í sameiginlegan vátryggingasjóð fiskiskipaflotans um 145 millj. kr. á ári, en öll önnur útgerð og þar með togaraútgerðin greiði aðeins 50—55 millj. kr. á ári.

Í sjötta lagi: Með frv. er farið inn á þá hættulegu braut að skattleggja eina grein útgerðarinnar til stuðnings annarri og mismuna þannig á herfilegan hátt einstökum þáttum sjávarútvegsins.

Ég er andvígur þessu frv., tel stefnu þess mjög varhugaverða. Ég tel, að bregðast verði með öðrum hætti en gert er í þessu frv. við afleiðingum af dýrtíðarstefnu núv. ríkisstj.