21.03.1966
Neðri deild: 57. fundur, 86. löggjafarþing.
Sjá dálk 686 í B-deild Alþingistíðinda. (491)

136. mál, ráðstafanir vegna sjávarútvegsins

Eðvarð Sigurðsson:

Herra forseti. Ég vil fyrst taka það fram, að ég held, að það hafi verið óþarfi að gera ráð fyrir þeim hækkunum, sem hér er um að ræða, og á ég þar alveg sérstaklega við hækkunina til frystihúsanna. En hins vegar tel ég, að ef það væri talið alveg óhjákvæmilegt að afla aukins fjár, sé þetta ein sú lakasta leið, sem hægt var að velja. Hún hefur í för með sér, eins og hér hefur verið bent á, að útgjöld þeirra, sem verið er að aðstoða og á að hjálpa með þessu. aukast verulega vegna hækkunar á vísitölu og þar af leiðandi kaupgjaldi. Eins fer um útgjöld ríkissjóðs. Þau koma til með að hækka verulega af sömu ástæðu. Það sem raunverulega fer þá til þeirrar aðstoðar. sem hér um ræðir. fer að verða, þegar allt kemur til alls, lítill hluti af þeim upphæðum, sem þetta hlýtur að velta á sig, ekki aðeins í því sem ég hér hef nefnt, heldur og áfram. Hér er sem sagt valin sú leiðin, sem hlýtur að hafa í för með sér meiri verðbólguaukningu en nokkuð annað, sem hægt hefði verið að láta sér detta í hug að gera. Það er þetta, sem er það alvarlega í þessum hlutum, mjög alvarlegt, og sérstaklega verkalýðshreyfingin mun líta mjög alvarlegum aukum. Það hafa að vísu ekki verið nefndar hér þær vörutegundir, sem gert er ráð fyrir að fella niður eða lækka niðurgreiðslur á. Hins vegar er augljóst, að það eru þær vörur, sem eru hvað þyngstar í neyzlu hjá almenningi. Þær koma sárast við þá, sem úr minnstu hafa að spila. Þessar vörur eru einnig þær þyngstu eða með allra þyngstu einingunum í vísitölunni og hljóta þess vegna að hafa hvað mest áhrif á hana.

Það hefur oft verið sagt, og ég hygg, að svo sé um eitthvað af því, sem menn hafa nú í huga að létta niðurgreiðslum á, að það séu vörur, sem séu þess eðlis, að það sé kannske býsna auðvelt að koma við svindli á einhvern hátt. Þetta var orðið alvarlegt, t.d. með kartöflurnar. Það má vera, að það séu til vörutegundir, sem sé eitthvað svipað ástatt um nú. Ekki vil ég mæla því bót, að menn komist upp með að hafa rangt við í þeim efnum og fái sér uppbætur út á vörur, sem þeir kannske alls ekki hafa með höndum, hafa möguleika til þess að taka þær oftar en einu sinni. Þetta má laga á allt annan veg en með því að afnema niðurgreiðslur og lækka niðurgreiðslufúlguna, sem því næmi, sem greitt er vegna þessara vörutegunda. Það má alveg eins færa á milli, afnema kannske á einni vörutegundinni, en auka á annarri, það er auðveldur hlutur.

Það, sem hér var sagt um húsnæðismálin af hv. 5. þm. Austf., er, trúi ég, alveg rétt. Þegar búið er að vísitölubinda húsnæðismálalán launþeganna, hefur að sjálfsögðu sérhver hreyfing á vísitölunni upp á við bein áhrif á þessi lán, hækkar þau, gerir þau óhagstæðari en ella. Þegar það jafnframt skeður, að þær vörur, sem eru viðkvæmastar fyrir hinn almenna launþega, hækka í verði, að vísu á að koma þar á móti hækkun kaupgreiðsluvísitölunnar, þá er augljóst, að einmitt þessar hækkanir eru þeim mun óhagstæðari sem þær verka meira til hækkunar á vísitölunni og þar með til hækkunar á þeim lánum, sem bundin eru kaupgreiðsluvísitölunni. Mér skildist á því, sem hæstv. fjmrh. sagði, að þessi hækkun mundi nema um 2% eða sennilega rösklega 2% í kaupi. Það hækkar lánin að sama skapi. Það má náttúrlega deila um það, hvort hér er um eiginlegar skattahækkanir að ræða eða ekki, — ósköp ófrjóar deilur kannske út af fyrir sig. En ég held, að það fari ekki á milli mála, að það hefði verið hægt að leggja á margan skattinn og hægt að viðhafa ýmsar aðferðir til þess að ná þessum peningum með skattahækkunum, mætti nefna því nafni, sem tvímælalaust hefðu komið sér betur fyrir almenning í landinu og tvímælalaust hefðu haft minni áhrif til verðbólguaukningar en þessar ráðstafanir, sem hér er gert ráð fyrir að verði, þannig að þótt hægt sé að segja, að með þessu hafi skattar ekki verið hækkaðir og ekki verið breytt hið minnsta, er þetta ráðstöfun, sem er verri, beinlínis verri. Og ég vil undirstrika það, að þetta hlýtur að hafa í för með sér, að allar hreyfingar í kaupgjaldsmálum verða erfiðari en ella. Ég hygg nú, að það hafi ekki beint verið ástæðan fyrir því að velja þessa leið.

En ég vil sérstaklega undirstrika það, að þótt niðurgreiðslur út af fyrir sig séu ekkert sérstaklega æskilegur hlutur, mun verkalýðshreyfingin í landinu hafa mjög vakandi auga á, hvað gerist í þeim efnum, og ég mundi hafa talið, að einmitt nú, þegar svo skammt er til aðgerða í þeim efnum, hefði verið farsælla, að ríkisstj. hefði nú leitað til verkalýðshreyfingarinnar um lausn þessa vanda. Ég efast ekki um, að verkalýðshreyfingin hefði verið til viðræðu um það, og hún hefði áreiðanlega haft sínar skoðanir á, að margt annað kæmi fyrr til greina heldur en þær leiðir, sem hér virðist nú eiga að velja.