28.03.1966
Neðri deild: 60. fundur, 86. löggjafarþing.
Sjá dálk 1064 í B-deild Alþingistíðinda. (968)

20. mál, verðtrygging fjárskuldbindinga

Skúli Guðmundsson:

Herra forseti. Hér liggja fyrir nál. frá meiri hl. og minni hl. fjhn., og frsm. beggja nefndarhlutanna hafa gert grein fyrir skoðunum og till. nm. í málinu. Eitt eða tvö atriði, sem fram koma í nál. hv. meiri hl., vil ég aðeins minnast á. Í nál. segir m.a. þannig, með leyfi hæstv. forseta:

„Í frv. er stefnt að því að opna leið til verðtryggingar fjárskuldbindinga til langs tíma eingöngu. Alltaf hefur verið ljóst, að almenn verðtrygging kemur ekki til greina, og er það m.a. staðfest af umsögnum bankanna.“

Við þetta vil ég gera aths. Ég vil mæla á móti því, að það hafi alltaf verið ljóst, þ.e.a.s. að öllum mönnum hafi verið það ljóst, að almenn verðtrygging kæmi ekki til greina. Ég hef a.m.k. aldrei heyrt nein rök fyrir því, að hún gæti ekki komið til greina. Og ég vil halda, að verðtrygging fjárskuldbindinga sem vopn í viðureigninni við verðbólguna komi ekki að gagni, nema verðtryggingin verði almenn eða a.m.k. mjög almenn. Hún þarf kannske ekki að vera alveg fullkomin, en hún þarf að vera almenn til þess. Ég vil enn fremur benda á það, að með því að hafa verðtrygginguna mjög takmarkaða, skapast mörg vandamál í framkvæmd hennar. Það verður ákaflega erfitt fyrir lánastofnanir að ákveða, hverjum lántakendum eigi að veita verðtryggð lán og hverjum óverðtryggð. Það verður ákaflega erfitt í framkvæmdinni. Ég vil þess vegna leyfa mér að draga það mjög í efa, að þetta sé rétt, sem kemur þarna fram hjá meiri hl., að almenn verðtrygging geti alls ekki komið til greina.

Annað atriði síðar í nál. þeirra vildi ég einnig minnast á. Þar er rætt um brtt., sem meiri hl. n. flytur, og í brtt. þeirra á þskj. 351 segir svo í 2. mgr., með leyfi hæstv. forseta:

„Verði notkun verðtryggðra innlánsreikninga veruleg við banka og aðrar innlánsstofnanir, getur Seðlabankinn, ef nauðsyn krefur, einnig heimilað þessum stofnunum að veita lán með verðtryggingu til skemmri tíma en segir í 4. gr. c, enda séu slík lán eigi verðtryggð nema allt að 50% höfuðstóls og vaxta.“

Ég hef engar skýringar séð um það eða á því frá hv. meiri hl., hvernig innlánsstofnanir gætu komið því þannig fyrir að taka á móti sparifé með fullri verðtryggingu, en lána það út aftur þannig að verðtryggja aðeins helming af þessu fé. Æskilegt væri að fá frá þeim nánari skýringar á þessu.

Annars kvaddi ég mér hljóðs aðallega til þess að ræða um eitt atriði í þessu frv., og það er 6. gr. þess eða þau ákvæði, sem þar er að finna. Í 6. gr. segir, að opinberar fjárfestingarlánastofnanir, sem stofnaðar eru með lögum, skuli hafa heimild til að veita verðtryggð lán af eigin fé sínu og endurlána verðtryggt fé. Og lánskjör slíkra lána skulu ákveðin af stjórn stofnunarinnar að fengnu samþykki ráðh. þess, sem stofnunin heyrir undir, svo og Seðlabankans. Þannig er það á valdi stjórna einstakra opinberra fjárfestingarlánastofnana að ákveða, hvort tekin skuli upp verðtrygging á lánum frá þeim. Það er á þeirra valdi. En Seðlabanki Íslands á að ákveða, við hvað verðtryggingin eigi að miðast. Um þetta eru ákvæði í 4. gr. frv., og Þar segir svo, með leyfi hæstv. forseta, í a-lið:

„Verðtrygging skal yfirleitt miðuð við vísitölu framfærslukostnaðar, eins og hún er reiknuð á hverjum tíma.“ Yfirleitt miðuð við það. „Seðlabankanum skal þó heimilt að leyfa, að verðtrygging sé miðuð við aðra vísitölu eða við breytingar tiltekins vöruverðs, enda sé sú viðmiðun betri mælikvarði á greiðslugetu þess aðila, sem tekst á hendur verðtryggðar skuldbindingar.“ Og í framhaldi af þessu segir: „Sé ekki um opinbera skráða vísitölu eða verðlag að ræða, skal Seðlabankinn í samráði við Hagstofu Íslands setja sérstakar reglur um þann verðtryggingargrundvöll, sem miðað er við.“

Þess hefur áður verið getið, að fjhn. fékk annan af bankastjórum Seðlabankans á fund hjá sér til þess að ræða um málið og fá á því skýringar. Á þeim fundi lagði ég áherzlu á það, að fjhn. fengi að kynnast þeim reglum, sem Seðlabankinn hefði í hyggju að setja um framkvæmd l., ef frv. næði samþykki. En við þessari ósk minni var ekki orðið. Okkur er því alveg ókunnugt um það, hvernig þessar reglur verða, sem Seðlabankinn setur, ef til kemur. Það er enn sem komið er hinn óttalegi leyndardómur.

Þetta er stórt mál, sem hér er um að ræða, og það vakna ýmsar spurningar í sambandi við þetta, t.d. þessi: Hvernig verða þessar reglur, sem Seðlabankinn á að setja? Hvernig verður verðtrygging ákveðin á lánum frá ýmsum stofnlánasjóðum, eins og t.d. frá Fiskveiðasjóði Íslands? Við hvað verður verðtryggingin miðuð? Þar eiga menn að fá lán til kaupa á fiskiskipum t.d. og vélum í skip o.s.frv. Þar er gert ráð fyrir líka, að menn fái lán til að koma upp fiskvinnslustöðvum, bæði húsum og vélum. Við hvað á að miða verðtrygginguna á þessum lánum, ef verðtrygging verður tekin þar upp? Það segir þarna í frvgr. á einum stað, að það sé heimilt að leyfa, að verðtrygging sé miðuð við eitthvað annað en vísitölu framfærslukostnaðar, enda sé sú viðmiðun betri mælikvarði á greiðslugetu þess aðila, sem tekst á hendur verðtryggða skuldbindingu. Hvernig verður nú farið með þetta? Verður t.d. verðtryggingin miðuð við verð á skipum, verð á fiskiskipum eða vélum í skip eða fiskvinnslustöðvum? Manni getur dottið í hug, að það þætti ekkert óeðlilegt, að verðtryggingin yrði við þetta miðuð. En hvernig á þá að finna eða ákveða verðbreytingar á þessum eignum, t.d. á fiskiskipum og vélum ýmiss konar? Hvernig á að finna það, hvaða álag ætti þarna að reikna, þegar á að fara að borga lánin? Ég hygg, að þarna væri ekki gott að miða við vísitölu framfærslukostnaðar, því að við vitum það, að verð á fiskiskipum breytist ekki eftir vísitölu framfærslukostnaðar. Mikið af þeim er flutt inn frá útlöndum fullsmíðað, og verð á þeim tekur ekki breytingum eftir framfærsluvísitölum hér, og þó að smíðað sé nokkuð af skipum hér innanlands, fer verð þeirra ekki nema að takmörkuðu leyti eftir vísitölu framfærslukostnaðar.

Ég ætla að nefna annan stofnlánasjóð. Það er stofnlánadeild landbúnaðarins. Hún veitir lán til bænda, t.d. til umbóta á jörðum. Hvernig ætti að verðtryggja þau lán? Miða við breytingar á verði á jörðum? En hvernig á að finna það út, hver breyting verður á verðgildi jarða? Og hún getur verið misjöfn og er misjöfn í ýmsum héruðum landsins. Þetta er allt óljóst, og engar upplýsingar liggja fyrir um, hvernig með þetta verður farið. Við skulum taka iðnlánasjóð, sem veitir iðnaðarmönnum lán til kaupa á vélum. Við hvað á að miða verðtrygginguna þar? Hvernig á að finna út breytingar á verði á hinum margvíslegu vélum, sem iðnaðurinn þarf á að halda, ef á að miða verðtrygginguna við slíkar breytingar?

Þessum spurningum álit ég, að þingið þurfi að fá svarað, áður en það gengur frá þessu máli. Það er, eins og ég sagði áðan, á valdi stjórna lánastofnana, hvort verðtrygging verður tekin upp hjá þeim eða ekki. Mér fannst koma sá misskilningur fram hjá hv. síðasta ræðumanni. hv. 3. þm. Reykv., að Seðlabankinn gæti ákveðið það í öllum tilfellum, hvort verðtrygging yrði tekin upp eða ekki. En það er nú ekkí samkv. frv. Það er á valdi þeirra, sem stjórna þessum lánastofnunum. En hitt er annað mál, eins og ég hef gert grein fyrir, að Seðlabankinn á að ákveða verðtryggingargrundvöllinn hjá þeim stofnunum, sem vilja taka þetta upp. Auðvitað ættu þessar reglur að vera ákveðnar í lögum frá Alþ., þær ættu að vera það, og þannig hefur þetta verið með þá verðtryggingu, sem hér hefur verið tekin upp að undanförnu, að þar hefur verið ákveðið í l. frá Alþ., við hvað eigi að miða verðtrygginguna. Þannig er þetta í þeim l. um Húsnæðismálastofnun ríkisins, þar sem ákveðið er, að verðtryggja skuli öll lán frá þeirri stofnun. Þar segir, að það skuli miða við kaupgreiðsluvísitölu. Þetta mun nú vera bráðum tveggja ára gamalt ákvæði um verðtryggingu á þeim lánum. En nú sýnist mér jafnvel horfur á því, að það mál renni úr höndum stjórnarvaldanna, e.t.v. áður en langt líður. Hér er komið fram á þinginu sérstakt frv. til l. um breyt. á l. um Húsnæðismálastofnun ríkisins. Það er á þskj. 334, og það er á dagskrá þessa fundar í d. En ég vona, að mér fyrirgefist, þó að ég nefni þetta mál aðeins, þó að það sé ekki farið að ræða um það, vegna þess að það snertir svo mjög þetta mál. sem hér er til umr., verðtryggingu fjárskuldbindinga. Í þessu frv. er lagt til, að ákvæðið um verðtrygginguna verði fellt niður úr l., þó að það sé ekki búið að standa í l. nema tæp 2 ár, og ég vil — með leyfi hæstv. forseta — lesa hér eina mgr. úr þeirri grg., sem fylgir þessu frv. Þar segir svo:

„Þegar ákvörðun var tekin um þessa vísitölugreiðslu á húsnæðislánum og vöxtum 1964, hafa þeir, sem að því stóðu, vafalaust gengið út frá því, að verðbólgan yrði stöðvuð, og treyst á það. Verkalýðshreyfingin hefur aldrei fallizt á þessa aðferð sem einu aðferðina til að lána alþýðu manna íbúðalán, og þegar nú er auðséð, að verðbólgan muni halda áfram af fullum krafti, er það alveg frágangssök að ætla að halda því ákvæði í l. að reikna vísitölu á húsnæðislán til almennings. Slíkt mundi gera þorra manna ókleift að eignast eigin íbúð og stöðva þar með þá þróun, er verið hefur undanfarna tvo áratugi, og skapa meira öngþveiti í húsnæðismálum.“

Þannig segir m.a. í þessari grg. Mér hefði fundizt, að þetta m.a. gæfi ástæðu til þess, að hv. þd. féllist á till. okkar í minni hl. um, að málinu yrði nú frestað í bili og það athugað af n., sérstakri n., sem ríkisstj. skipaði nú á milli þinga, málið í heild, einmitt um þessi fjárfestingarlán og hugsanlega verðtryggingu á þeim. Þarna er svo margt, sem er óupplýst og okkur vantar alveg upplýsingar um, hvernig með á að fara. Það er nú t.d. eitt í sambandi við þessi húsnæðismálalán, að þar er samkv. l. sama viðmiðun látin gilda um allt land. En við vitum það, að verð á húsum er ákaflega mismunandi eftir því, hvar er á landinu. Hér í þéttbýlinu við Faxaflóa er húsaverð yfirleitt hæst, og hækkun á því hefur orðið mest hér á þessu svæði. Sums staðar í fámennari byggðarlögum, smærri kauptúnum, er húsaverðið allt annað og hefur ekki hækkað neitt nálægt því eins og hér í þéttbýlinu. Það gæti verið mjög örðugt fyrir menn, sem taka lán til að byggja hús á slíkum stað, að eiga að standa undir þessari verðtryggingu, jafnvel þó að það yrði kleift fyrir þá, sem búa á öðrum stöðum, þar sem húsaverðið er hæst og hækkun þess stórstígust. Þannig er svo margt í þessum málum. sem þarf að athuga.

Eins og ég sagði áður, er þetta svo stórt mál og getur orðið örlagaríkt, að ég tel, að það sé rík ástæða til þess að athuga þetta nánar fyrir næsta þing. Og ég vil sérstaklega láta athuga það, hvort ekki er hægt, ef farið verður út í þetta, að hafa þetta nokkuð almenna verðtryggingu, því að ég held, að það komi ekki að neinum notum í baráttunni við verðbólguna, nema þetta verði nokkuð almenn verðtrygging. Og ég tel, að það sé ekki hægt fyrir Alþ. að afsala sér ákvörðunarvaldi um þetta stóra mál, þ.e.a.s. að ákveða verðtryggingargrundvöllinn í hinum ýmsu lánaflokkum, — að afsala sér því valdi í hendur einnar opinberrar stofnunar, jafnvel þótt hún heiti Seðlabanki Íslands. Ég tel ekki fært fyrir Alþ. að gera það. Þess vegna tel ég, að nú eigi þd. að samþykkja hina rökstuddu dagskrá frá minni hl. fjhn. á þskj. 355, þar sem lagt er til, að málið fái rækilegri athugun en þegar hefur farið fram og að sett verði skýrari ákvæði í lög um reglurnar, sem farið skuli eftir við framkvæmd l., og í trausti þess, að ríkisstj. skipi 5 manna n., 4 eftir tilnefningu þingflokkanna og einn án tilnefnigar, til að athuga málið og gera till. um það fyrir næsta þing. Þetta er okkar tillaga.

Ég sé svo ekki ástæðu til, herra forseti, að hafa um þetta fleiri orð að sinni, enda var hv. frsm. minni hl. fjhn., hv. 11. þm. Reykv., búinn að gera rækilega grein fyrir áliti okkar og tillögu.