29.11.1966
Neðri deild: 21. fundur, 87. löggjafarþing.
Sjá dálk 393 í B-deild Alþingistíðinda. (298)

74. mál, verðstöðvun

Forsrh. (Bjarni Benediktsson):

Herra forseti. Íslenzkir atvinnuvegir mótast mjög af því, hversu a.m.k. sumir þeirra og ekki hinir þýðingarminnstu eru óvissir, hversu þeir gefa mismunandi miklar tekjur af sér, bæði vegna verðbreytinga og eins sökum þess, að afli er misjafn, heyfengur misjafn, tíðarfar ólíkt og annað, sem við allir þekkjum. Þessar miklu sveiflur á okkar atvinnuvegum hljóta að sjálfsögðu mjög að hafa áhrif á efnahagsþróunina, og þá ekki hitt síður, sem einnig veldur miklu um, að atvinnuvegirnir gefa ákaflega misjafnlega mikinn arð af sér. En eðlilegt er, að menn sækist eftir sem jöfnustum tekjum. Þeir, sem telja sig verða afskipta, reyna því að gera það, sem í þeirra valdi stendur, til þess að fá hlut sinn bættan miðað við hina, sem betur mega hverju sinni. Þetta verður þeim mun meira áberandi og reynir frekar á, þegar langvinn velgengni á sér stað hjá einhverjum atvinnugreinum umfram flestar hinna. Þessi einkenni hafa mjög lýst sér nú á seinni árum, og þá er það einkum sú gerbreyting, sem orðið hefur á síldveiðum, serrí úrslitaþýðingu hefur haft fyrir okkar efnahagsþróun. Við munum allir þau ár, og það þarf ekki að líta langt aftur í tímann, þegar síldveiðar voru hér nánast sagt litlar sem engar ár eftir ár. Þó að mikið fé hefði verið lagt fram til að afla síldar með kaupum á veiðiskipum, með byggingu verksmiðja í landi og öðrum ráðstöfunum, liðu mörg ár svo, að þetta fé kom að litlu sem engu gagni. Og enn eru það heilir landshlutar, sem áður fyrr höfðu mikla velgengni af síldveiðum, sem þeirra njóta nú lítt eða ekki. Aftur á móti hefur síldin veiðzt meira en nokkurn mann gat grunað út af Norðausturlandi hin síðustu ár og á köflum einnig hér fyrir Suðurlandi og Suðvesturlandi. En fyrst og fremst er það hin mikla veiði fyrir austan, sem gerbreytt hefur tekjumöguleikum ekki einungis síldarstarfsfólks, útvegsmanna, sjómanna, verksmiðjufólks og annarra, sem að þessari starfsgrein vinna, heldur hafa þessi miklu uppgrip orðið til þess að auka tekjur landsfólksins í heild, svo að verulega munar um. Þessi breyting hefur orðið enn áhrifaríkari vegna þess, að samfara mjög aukinni veiði hefur a.m.k. hin síðustu missiri verðlagsþróun verið Íslendingum hagstæð varðandi síldarafurðir, þ.e.a.s. þangað til nú á þessu ári. Í stað hagstæðs verðlags áður hafa síldarafurðir, einkum síldarmjöl og síldarlýsi, fallið mjög verulega í verði, þannig að telja mætti til hreinnar ógæfu og hefði riðið þessum atvinnuvegi að fullu, ef veiðin hefði ekki reynzt jafnmikil sem raun ber vitni. Segja má, að veiðimagnið eða aflamagnið bæti að verulegu leyti upp það tjón, sem síldveiðarnar hafa orðið fyrir vegna verðfallsins á þessu ári. Ekki svo að skilja, að hægt sé að segja, að síldarafurðirnar séu í sérstaklega lágu verði. Það er meira verðbreytingin, sem hér kemur fram, það, hversu þær höfðu komizt í hátt verð áður, hversu fallið á afurðunum verður snöggt og mikið, sem er mjög lagað til þess að valda verulegri röskun á högum allra þeirra, sem sitt eiga undir síldinni og þá þar með þjóðarheildarinnar samkv. því, er ég áður sagði.

Þessar miklu tekjur, sem menn hafa haft af síld undanfarin ár, hafa svo leitt til aukinnar kröfugerðar annarra stétta, sem hafa a.m.k. að nokkru viljað nálgast þær tekjur, sem menn hlytu af því að starfa við síldarútveginn. Allir viðurkenna raunar, að það sé eðlilegt, að sjómenn, sem mikið leggja á sig og lifa í hættu og við erfiðari kjör en aðrir, beri meira úr býtum. En hitt er einnig eðlilegt, að menn vilja ekki, að munurinn á afkomu verði allt of mikill, enda eru sumpart í löggjöf fyrirmæli um það, að tekjur þýðingarmikillar stéttar í landinu, bænda, eiga beinlínis að miðast við tekjur annarra stétta, þannig að þetta sjónarmið er viðurkennt af löggjafanum og hefur lengi verið, eða a.m.k. nú í nær aldarfjórðung. Það hefði þó verið erfitt að standa undir þeim hækkunum, sem menn þannig hafa talið eðlilegt að fá á sínu kaupgjaldi, lífskjarabótum eða hvernig við viljum orða það, ef ekki hefði einnig verið samfara hagstæðu verðlagi á síldarafurðum hin síðari ár einnig hagstætt verðlag á bolfiski, fyrst og fremst saltfiski, ekki eins gott á skreið, en einnig allhagstætt, og stundum mjög hagstætt verð á hraðfrystum fiski. Nú hefur á þessu ári einnig orðið breyting að þessu leyti, þannig að tvær höfuðútflutningsafurðir landsmanna, annars vegar síldarafurðirnar og hins vegar hraðfrysti fiskurinn, hafa fallið í verði, síldarafurðirnar miklu meira, hraðfrysti fiskurinn minna og svo, að umdeilanlegt er, að hve miklu leyti verðfallið er enn farið að koma niður á framleiðendum hér innanlands, þrátt fyrir það þó að sannanlegt sé, að vissar verðbreytingar hafi orðið. Þessar verðbreytingar eru þó, að því er menn enn hafa fregnir af, mun minni en verðbreytingarnar á síldinni, en eru einnig alvarlegar — og alvarlegri en ella af því, að hraðfrystihúsin áttu áður í vök að verjast, svo og sá bátafloti, sem fyrir þau hefur fiskað, — svo að ekki sé talað um togarana, sem eru í sérstöðu að þessu leyti, — vegna þeirrar samkeppni, sem þessir aðilar hafa orðið að halda uppi við síldveiðarnar, sem hefur aftur leitt til þess, að mun minni stund hefur verið lögð á þorskveiðar en áður. Efnivaran er þar af leiðandi minni, sem í hraðfrystihúsin fæst, og mikið af hinum dugmiklu sjómönnum, sem áður lögðu fyrst og fremst fyrir sig bolfisksveiðar eða þorskveiðar, leggur nú höfuðstund á síldveiðarnar. Allt er þetta lagað til þess að hafa mikil áhrif, og verður ekki fram hjá því komizt, þegar litið er á þróun okkar efnahagslífs.

Þær verðhækkanir, sem hér hafa orðið innanlands síðustu 2–3 ár, standa í nánu sambandi við þessa þróun, sem ég hef nú lítillega rakið, þó að fleiri atriði komi þar einnig að sjálfsögðu til. Þessi þróun hefur ekki orðið til þess að skapa okkur teljandi örðugleika út á við, meðan þessar verðhækkanir stóðu og hið háa verðlag var greitt fyrir afurðirnar. En vegna þess, hversu miklir baggar hlóðust með eðlilegum hætti á þessar útflutningsgreinar í kaupgjaldi og öðrum kostnaði, verða þær skjótt þess varar og lenda í örðugleikum, þegar slík gjörbreyting á sér stað í verðlagi eins og nú hefur fram komið. Og einmitt af því að allur almenningur, launþegar og aðrir, hefur fyllilega fengið sinn hlut af vaxandi þjóðartekjum undanfarin ár, þjóðartekjum, sem fyrst og fremst hafa vaxið af þeim ástæðum, sem ég hef stuttlega greint, er eðlilegt, að menn verði nú einnig skjótlega að taka tillit til þeirra breytinga, sem þannig hafa orðið á verðlagi útflutningsvörunnar. Enda má það í raun og veru segja, að gangi kraftaverki næst, að stór atvinnugrein, kostnaðarsöm og þar sem mikið hlýtur ætíð að fara í súginn eins og við síldveiðarnar, skuli þó standast eftir þetta mikla verðfall, sem orðið hefur. Og skýringin á því er, eins og ég segi, aflamagnið, sem er svo mikið, að það bætir upp verðhrunið, og er mun meira en menn fyrir fáum árum, jafnvel 1–2 missirum, hefðu talið líklegt, að hér gæti fengizt. En þarna eiga hraðfrystistöðvarnar, vinnslustöðvar og útvegsmenn við sýnu meiri örðugleika að etja, eins og ég áður sagði.

Nú er það að vísu svo, að enn liggur ekki fyrir, hversu þeir örðugleikar eru miklir. Bæði hygg ég, að nokkuð sé á huldu um afkomu hraðfrystiiðnaðarins í heild á undanförnum árum, þó að yfirleitt muni hann hafa komizt skaplega af. Eins er það ekki enn ljóst, hversu mikið eða alvarlegt þetta verðfall á hraðfrysta fiskinum er, þó að það sé vafalaust nokkurt. En hvað sem því liður, er ljóst, að sá atvinnuvegur muni ekki þola nýjar álögur, nýjar kauphækkanir eða annan aukinn tilkostnað, og hið sama gildir þá því fremur um síldveiðarnar, eins og ljóst má vera, en þessar hafa verið okkar tvær aðaltekjulindir á undanförnum árum. Úr því að svo er komið, er eðlilegt, að gerðar séu ráðstafanir til að firra þessar þýðingarmiklu atvinnugreinar, sem segja má, að þjóðlífið eigi meira undir nú en nokkrum öðrum, að firra þær skakkaföllum. Það má e.t.v. deila um, hversu þær ráðstafanir þurfa að vera róttækar, og ég tek fram, að enn er ekki svo, að öll kurl séu komin til grafar, þannig að menn geti í heild áttað sig á öllum einstökum atriðum í þessum efnum. En víst er, að minni ráðstafanir en þær, sem í þessu frv. eru ráðgerðar, nægja ekki.

Ríkisstj. hefur verið það ljóst, frá því að þessi umbreyting varð á s.l. sumri, að ráðstafanir í svipaða átt og hér er nú lagt til að lögfesta yrði að gera, og hefur það áður komið fram í stefnuyfirlýsingu ríkisstj. á s.l. hausti, þegar þing kom saman, í ræðum og í ráðstöfunum, þar með stórauknum niðurgreiðslum á vöruverði og hækkunum á fjölskyldubótum til þess að halda vísitölu og verðlagi niðri. En segja má, að þær ráðstafanir séu beinn þáttur í þeim ráðagerðum, í þeirri fyrirætlan, sem fram er haldið með þessu frv.

Við höfum þegar nú um nokkrar vikur haft samráð bæði við verkalýðshreyfinguna og samtök vinnuveitenda og einstakar undirdeildir í þeim stéttarhópum báðum, ef svo má segja, um það, hvernig bregðast ætti við því nýja vandamáli, sem hér blasir við. Og ætlan okkar var í fyrstu sú — og sú, sem ég hefði talíð æskilegasta, að reyna að ná samkomulagi við aðalatvinnustéttir landsmanna um verðstöðvun og kaupgjaldsstöðvun samfara um svipað tímabíl og verðstöðvunarheimildin í þessu frv. nær til. En sannast bezt að segja hefur slíkt samkomulag enn ekki tekizt. Ég vil þó taka alveg skýrt fram, að viðræður okkar við fulltrúa verkamanna og forseta Alþýðusambandsins hafa verið mjög vinsamlegar og lýst skilningi þessara aðila á þeim vanda, sem nú steðjaði að. En þeir hafa talið, að enn væru of mörg óviss atriði, sem ekki væri hægt að átta sig á til hlítar, til þess að þeir teldu sér fært að setjast að eiginlegri samningagerð um þessi mál. Það er ekki mitt að segja til um, hvað þeir muni telja sér fært, áður en yfir lýkur. En vitanlega væri það langæskilegast og mest öryggi í því fólgið, ef þessir aðilar teldu sér fært að gera bindandi samning um kaupgjald til nokkurra mánaða, um festingu kaupgjalds fram yfir mitt næsta ár eða helzt til 31. okt. En jafnvel þó að slíkt takist ekki, er á hitt að líta, að að sama gagni að nokkru, þó ekki til hlítar, kæmi það, ef takast mætti að skapa festingarástand þetta tímabil, í hvaða formi sem það yrði, að slíkt mætti verða.

Atvinnurekendur töldu sjálfir sér þann kost vænstan án beins atbeina ríkisstj. eða ríkisvaldsins að gera á s.l. sumri, samning einungis frá því í júní fram til 1. okt. og töldu sér þá enn fært að hækka kaupgjald um 3.5%. Ég hefði þá talið miklu æskilegra, að samið væri til eins árs, en verkalýðurinn lét þess engan kost og atvinnurekendur töldu þó slíkan samning til skamms tíma vera betri en engan samning. Síðan má segja, að samningslaust hafi verið, en þó hafi ríkt sæmileg kyrrð. Og viðfangsefnið hlýtur að verða að skapa skilyrði fyrir samningsgerð, ef hún er möguleg, en ef ekki, þá a.m.k. til kyrrðar eins langan tíma og frekast eru föng á. Við höfum einnig haft um þetta mál, eins og ég sagði, samráð við fulltrúa vinnuveitenda og einstaka hópa úr þeirra röðum. Þeir hefðu vafalaust talið æskilegra, að alhliða samningar kæmust á. Kaupmenn, bæði Verzlunarráð, stórkaupmenn og smákaupmenn, og eins iðnrekendur eru auðvitað ekki hrifnir af slíkri verðbindingu eða verðstöðvun, sem hér er ráðgerð, en þó hygg ég, að þeir skilji nauðsyn þess; að eitthvað í þá átt sé gert, eins og nú horfir, þó að þeir vafalaust, a.m.k. flestir, hefðu kosið að geta náð um það frjálsu samkomulagi annárs vegar við ríkisvaldið og hins vegar við verkalýðinn. En þar sem verkalýðurinn hefur ekki enn talið sig fúsan eða reiðubúinn til samningsgerðar, en hins vegar nauðsynlegt, að ótvíræð heimild til verðstöðvunar væri fyrir hendi, jafnvíðtæk og í þessu frv. er ráðgert, taldi ríkisstj. ekki fært né rétt að biða með að bera þetta frv. fram. Það er von okkar, að það geti orðíð til þess að undirbúa frekari samningsumleitanir og vonandi samningsgerð, skapa það andrúmsloft, sem nauðsynlegt er, til þess að það öryggi fáist í þessum efnum, sem ég áður lýsti og varðar miklu, að geti staðið nokkra hríð.

En eins og fram kemur í frv. er það forsenda fyrir því, að beitt verði heimildinni til verðstöðvunar, að ekki verði kauphækkanir, er geri verðstöðvunina óframkvæmanlega. Hér er auðvitað ætíð nokkurt matsatriði á ferðum, svo sem eðli málsins samkv. hlýtur að verða. En vitanlega skilja allir, að almennar kauphækkanir mundu kippa grundvellinum undan þeirri tilraun, sem hér er verið að gera. Það má þá einnig halda því fram, að hreinlegra hefði verið að bera fram till. um bindingu á kaupgjaldi einnig. Slíkt hef ég ekki og enginn í ríkisstj. talið eðlilegt eða fært þegar af þeirri reynslu, sem öll slík bindingaráform hafa áunnið sér hér. Ég hygg, að ef verulegur árangur eigi að nást, sé skilyrði hans það, að það sé skilningur hjá hinum fjölmennu almannasamtökum, að hér sé um nauðsynjamál að ræða, sem þau verði sjálf að eigá þátt í að leysa, og það mundi einungis verká til ills eins, ef beita ætti að ófyrirsynju lögþvingun, svo mjög sem þessi samtök eru þvílíkum afskiptum ríkisvaldsins andvíg.

Um efni frv. í einstökum atriðum sé ég ekki ástæðu til að fjölyrða. Það skýrir sig sjálft. Það er víðtæk heimild til handa ríkisstj. til að stöðva verðhækkanir. Þar er ákvæði um, að ef þessari heimild verði beitt, eigi stöðvunin að gilda frá því að frv. var lagt fram á Alþ., en slíkt er nauðsynlegt, til þess að ekki verði farið í kringum ákvæði frv. og þau gerð að engu. Og þá eru einnig heimildir til þess, að gerðar verði ráðstafanir til að halda í sama gjaldstiga og á s.l. ári gjöldum til sveitarfélaga, bæði útsvörum, aðstöðugjaldi og öðrum þeim gjöldum, sem sveitarfélög og raunar aðrir opinberir aðilar hafa vald til að heimta.

Ég sé ekki ástæðu til að fjölyrða meira um málið á þessu stigi, en leyfi mér að leggja til, að því verði vísað til 2. umr. og hv. fjhn.