26.03.1968
Neðri deild: 82. fundur, 88. löggjafarþing.
Sjá dálk 718 í C-deild Alþingistíðinda. (2517)

167. mál, skólakostnaður

Ragnar Jónsson:

Herra forseti. Frv. það, sem hér liggur fyrir, er um breyt. á l. nr. 49 29. apríl 1967, um skólakostnað, flm. Bjartmar Guðmundsson. En þar sem flm. er sjúkur, getur hann ekki mælt fyrir því.

Efni frv. er það, að við 1. mgr. 29. l. bætist: „Sama gildir um héraðsskóla, sem kostaðir eru sameiginlega af ríki og sveitar- eða sýslufélagi.“ En í grg. með frv. segir m.a., að með l. nr. 41 17. maí '55, um greiðslu kostnaðar við skóla, sem kostaðir eru sameiginlega af ríki og sveitarfélögum, að héruðum væri gefið um það valfrelsi, hvort þau afhentu ríkinu héraðsskólana þannig, að þeir yrðu séreign ríkisins, ef hlutaðeigandi sveitarfélög óskuðu þess. Þessi breyt. var gerð vegna tilmæla frá aðstandendum nokkurra héraðsskóla, og nú munu allir héraðsskólarnir nema einn, vera komnir á vegu ríkisins skv. þessum lögum, en Suður-Þingeyjarsýsla hefur ekki enn þá óskað eftir að losa sig undan kostnaði þeim, sem á þeim byggðarlögum hefur hvílt, vegna nýbygginga, viðhalds og rekstrar Laugaskóla.

Með nýjum lögum um skólakostnað, sem afgr. voru frá Alþ. í fyrra, voru gerðar breytingar á kostnaðarhlutföllum varðandi skóla, sem kostaðir voru sameiginlega af ríki og sveitarfélögum, og þyngdist þá nokkuð hlutur héraðsskólanna, að því er snertir rekstur og viðhald. Nú, eins og ég tók fram áðan, eru allir héraðsskólar utan Laugaskóli komnir á vegu ríkisins.

Það er lagt til með þessari brtt. við skólakostnaðarlögin, að forráðamenn héraðsskóla, sem ekki hefur verið afhentur ríkinu, fái sama valfrelsi og forráðamenn húsmæðraskólanna hafa nú, skv. l. frá 1967, og ef brtt. verður samþ., verður kostnaðarhluti ríkissjóðs sá sami og hann er nú, en hins vegar mun hlutur héraðs þyngjast nokkuð, að því er snertir rekstur og viðhald, þegar nýju lögin taka gildi 1. september, og gæti það valdið því, segir enn fremur í grg., að héraðið sæi sig tilneytt að afhenda ríkinu þann eina héraðsskóla, sem enn hefur ekki verið afhentur, og mundi það verða ríkissjóði mikill kostnaðarauki. Þess vegna er óskað eftir því, að þeir Þingeyingar geti komizt undir sama hatt með Laugaskóla og húsmæðraskólarnir nú.

Ég vil svo óska þess, herra forseti, að að lokinni þessari umr. verði frv. vísað til 2. umr. og hv. menntmn.