14.02.1968
Sameinað þing: 38. fundur, 88. löggjafarþing.
Sjá dálk 332 í D-deild Alþingistíðinda. (2898)

124. mál, verslun með tilbúinn áburð

Flm. (Hjalti Haraldsson):

Herra forseti. Till. sú, er hér liggur fyrir á þskj. 261 um verzlun með tilbúinn áburð er flutt til þess fyrst og fremst að reyna ef mögulegt er, að fá létt af því ófremdarástandi, sem nú ríkir í þeim málum. Fyrri hlutinn er um það að Alþ. kjósi 5 manna n. til að gera till. um breytta og bætta tilhögun um sölu og framleiðslu tilbúins áburðar. Sá hluti till. er alveg samhlj. nál., sem svokölluð áburðarnefnd skilaði 3. okt. s.l. Þessari áburðarnefnd var komið á fót af Rannsóknastofnun landbúnaðarins, Búnaðarfélagi Íslands og Stéttarsambandi bænda. Árni Jónsson tilraunastjóri og Friðrik Pálmason búfræðikandídat tóku sæti í n. fyrir Rannsóknastofnun landbúnaðarins, Agnar Guðnason og Óli Valur Hansson ráðunautar hjá Búnaðarfélaginu voru fyrir hönd Búnaðarfélagsins og Kristján Karlsson erindreki fyrir hönd Stéttarsambands bænda. Í X. kafla álitsins segir svo, með leyfi hæstv, forseta:

„Vegna vaxandi þýðingar tilbúna áburðarins fyrir landbúnaðinn, leggur n. mikla áherzlu á, að sérstökum aðila eða n. verði falið að vera stjórn Áburðarverksmiðjunnar til leiðbeiningar um nánari ákvarðanir varðandi hlutföll blandaðs áburðar og framboð áburðar hverju sinni.“

Þessi liður till. gerir ráð fyrir því, að farið verði eftir till. þessarar n., er búnaðarsamtökin skipuðu til þess að athuga þessi mál, og fjölyrði ég því ekki frekar um þennan þátt hennar.

Um síðari þátt till. er það að segja, að flm. vilja, að l. um einkasölu á áburði verði afnumin. Þeir telja það óviðunandi, að ríkið afhendi hlutafélagi ríkiseinkasölu til þess eins að skjóta á bak við hana óvinsælli framleiðslu á áburði, sem annars mundi ekki seljast. Ég hika ekki við að fullyrða þetta, því að þeir munu vera teljandi orðnir þeir bændur, sem kaupa mundu kjarna, ef þeir ættu á öðru kost.

Það var vitað þegar Áburðarverksmiðjan var byggð, að hún var ekki góð. Ein önnur verksmiðja sömu tegundar hafði áður verið byggð í veröldinni, og það var þegar reynsla af henni og hún lögð niður í sinni upprunalegu mynd að tveimur árum liðnum frá því, að hún var byggð verkfræðingar, sem lumuðu á þessari vitneskju voru vanvirtir í sambandi við þessa verksmiðju en íslenzka verzlunarvitið og Marshall sálugi sögðu að við skyldum reisa svona verksmiðju og það var líka gert.

Fljótt kom það í ljós, að framleiðslan var ekki eins og hún átti að vera og jafnsnemma fór að bera á óánægju bænda með áburðinn og sífellt meiri og meiri ásókn frá þeirra hendi um að fá annan erlendan köfnunarefnisáburð hjá Áburðareinkasölu ríkisins. Það varð að koma í veg fyrir það, og þá var streitzt við það hér á hinu háa Alþ. ár eftir ár eða 3 ár í röð að koma gegnum þingið heimild til handa ríkisstj. til þess að framselja ríkiseinkasöluna á áburðinum í hendur Áburðarverksmiðjunni hf. En allt slíkt strandaði á andstöðu bænda. En þá rekur einhver augun í heimildina, sem felst í einkasölulögunum til handa ríkisstj. að framselja réttinn í hendur öðrum aðilum, og þar með var sá agnúi af höggvinn og síðan hafa bændur orðið að kaupa upp köfnunarefnisframleiðslu Áburðarverksmiðjunnar hf., áður en óskir þeirra hafa verið uppfylltar um annan áburð hversu óánægðir sem þeir annars hafa verið.

Þá er ástæða til þess að fjölyrða nokkuð um framkvæmd verzlunarinnar, eins og hún er frá hendi Áburðarverksmiðjunnar. Ég ætla að lesa hér upp bréf, sem bændum barst í apríl 1967. Það varpar ofurlitlu ljósi á þessa viðskiptahætti, þótt það segi ekki alla söguna. En jafnframt bið ég hv. alþm. að vera minnuga þess, að til eru l. nr. 63 frá 30. maí 1947 um tilbúinn áburð og innflutning á honum, sem kveða svo á, að enginn megi flytja inn áburð nema hann hafi fengið heimild til þess frá landbúnaðardeild atvinnudeildar háskólans. En hér kemur bréfið, með leyfi hæstv. forseta:

„Heiðraði viðskiptavinur.

Nokkrar raddir hafa verið uppi um það að undanförnu þess efnis, að viðskiptavinir vorir hefðu ekki nægilegt frjálsræði um val áburðartegunda sem þeir kynnu að óska eftir. Sú venja er gömul, að áburðarsala ríkisins hafi óskað eftir, að áburðarpantanir bærust ekki síðar en í desembermánuði ár hvert. Til þess að tryggja, að sá erlendi áburður, sem íslenzkur landbúnaður þarfnast árlega sé fáanlegur, er það viðskiptaleg nauðsyn að hafizt sé handa síðsumars eða snemma hausts um að leita tilboða og gera kaupsamninga um væntanlega nauðsynlegar tegundir og magn þess áburðar, sem nota skal á næsta ári. Til þess að mæta óskum um meira valfrelsi í áburðartegundum, höfum vér ákveðið að þreyta hinni gömlu venju um að óska eftir pöntunum í des, og förum nú fram á, að pantanir fyrir áburð til notkunar á árinu 1968 hafi borizt eigi síðar en 31. júlí 1967. Með þessu móti er unnt að taka meira tillit til beinna óska yðar við samningsgerðir og tilboðaöflun í erlendan áburð en annars væri fært, ef pantanir berast eigi fyrr en eftir, að kaupsamningar hafa verið gerðir. Óþarft væri þá að vera að leita álits stofnana, svo sem Rannsóknastofnunar landbúnaðarins, Búnaðarfélags Íslands eða Stéttarsambands bænda, eins og gert hefur verið um það, hvaða áburðartegundir sé heppilegast, að inn séu fluttar hverju sinni fyrir íslenzkan landbúnað.

Rétt er að taka það hér fram, að ekki skal gert ráð fyrir því, að unnt verði að fullnægja pöntunum í erlendan köfnunarefnisáburð í meira magni en því, sem nemur þörf til landsins umfram það, sem Áburðarverksmiðjan í Gufunesi framleiðir. Til skýringar á því, hvað hér er átt við skal tekið dæmi. Ef heildarþörf landsins fyrir hreint köfnunarefni er 12 þús. smál. á ári og Áburðarverksmiðjan hefur til sölu af framleiðslu sinni 8 þús. smál. af hreinu köfnunarefni, mundi hver viðskipta­ vinur vor geta reiknað með að fá 2/3 hluta af köfnunarefnisáburðarpöntun sinni afgreidda með Kjarna, en 1/3 hluta með innfluttu köfnunarefni, annaðhvort í eingildri tegund eða tví- eða þrígildum áburði eftir eigin vali.“

Og í lok bréfsins er skrifað undir þetta af áburðarsölu ríkisins og Áburðarverksmiðjunni hf.

Um það leyti, sem byrjað var að framleiða Kjarna, voru settar reglur um það, hvernig ganga mætti frá honum í skemmu. Ekki mátti hlaða honum hærra upp en 12 poka í stæðu og það varð að vera manngengt milli stæðanna. Í framkvæmd er þetta þannig, að inn í skemmurnar er látið eins og hey í hlöðu 26—30 pokar í hæðina og hvergi manngengt á milli. Afleiðingin er sú, að neðstu pokarnir eru runnir saman í einn klump, og að því leyti hefur Áburðarverksmiðjan staðið við það loforð að selja okkur grófkornaðan áburð Það hefur gjarnan verið eitt korn í pokanum, sem bændur hafa orðið að berja sundur með barefli, áður en þeir hafa haft möguleika til að bera hann á. Þegar svo bændur hafa verið að kvarta um það að áburðurinn væri ekki góður, klingir stöðugt sami söngurinn í eyrum þeirra, og það hefur heyrzt hér einnig, að bændur kynnu bara ekkert með þetta að fara. Þannig er áburðareinkasalan í höndum Áburðar­ verksmiðjunnar hf., og væri kannske hægt að tína fleira til, ef út í það færi.

Það er ekki alveg út í hött, að áburðurinn sé ekki góður. Reynslan virðist vera að sanna það svo að ekki verður um deilt. Árið 1900 eða um síðustu aldamót var heyfengur af hverjum ha 36.9 hestburðir, en er nú 33.5 hestburðir af ha. Síðan árið 1960 hefur hann farið jafnt og þétt minnkandi. Mönnum er gjarnt að leita orsaka í slæmu tíðarfari, og vitanlega á það sinn þátt í þessu, svo og það, að bændur hafa stóraukið beit á ræktað land. En á síðari árum hefur kalið í landinu valdið svo geigvænlegum usla, að ekki virðist einleikið. Heilir landshlutar hafa verið undirlagðir af þessu ár eftir ár, og hvað eftir annað hefur orðið að gera sérstakar ráðstafanir til þess að bjarga búfénaði frá felli og bændum frá því að flosna upp. Sífellt hefur sá grunur orðið áleitnari, að hér væri ekki allt með felldu, meginorsakanna væri að leita í öðru en ár ferði, og það verður varla annað sagt en þeir hafi fengið þetta staðfest á mjög greinargóðan hátt. En það er með tilraunum þeim, sem farið hafa fram á vegum tilraunaráðs jarðræktar, samanburðartilraunum, sem gerðar hafa verið með köfnunarefnisáburð Kjarna annars vegar og kalksaltpétur hins vegar, og hafa þá verið notuð 70 kg af fosfórsýru á ha og 100 kg af kalí. Meðalnotkun af köfnunarefnisáburði á ha í landinu er 100 kg. Og með því köfnunarefnismagni gaf kalksaltpéturinn 9 1/2 hestburði meira af ha en Kjarni frá Gufunesi. Við þessa niðurstöðu verður ekki kennt um slæmu árferði, klaufaskap eða kunnáttuleysi bænda. Hér hefur rignt jafnt yfir réttláta og rangláta og þekking vísindamanna og natni beitt við. Það virðist því fullkomin ástæða til þess að gefa þessu gaum, staldra við og hyggja að því, hverju þetta veldur um hag bænda, og enn fremur, hvort það sé réttlætanlegt, að ríkið herði svo verzlunarfjötrana að bændum, að þeir verði að kaupa vöru sem þeim er í óhag.

Í landinu er alls 100 þús. ha ræktaðs lands. Sé uppskerutapið 9 1/2 hestburðir á ha þýðir það 950 þús. hestburði fyrir heildina. Sé það metið til fjár og þá gert ráð fyrir því, að hestburðurinn sé seldur á 300 kr. verður tapið 285 millj. kr. árlega. Við þetta má svo í rauninni bæta því, að stórauka hefur orðið innflutning á fóðurbæti vegna vöntunar á heyi, þannig að tjónið hefur orðið enn þá meira. Og hér er raunar ekki öll sagan sögð enn þá. Í þessum tilraunaniðurstöðum kemur það einnig í ljós, að steinefnainnihald fóðursins, sem vex upp af Kjarnanum, er helmingi minna en í því fóðri, sem upp vex af kalksaltpétri.

Sjúkdómar í búfé hafa farið sívaxandi upp á síðkastið og marga þeirra má rekja beint til vöntunar á steinefni í fóðri. Tjón bænda af þessum sökum er mikið og ég veit ekki til þess, að neinn hafi reynt að meta það til fjár.

Þegar á þessar staðreyndir er lítið og einnig þá, að efnahagur hvers bónda byggist fyrst og fremst á viðskiptum hans við landið og fénaðinn, sem hann er með undir höndum, verður manni fyrst ljóst, hve gífurleg hætta er hér á ferðum. Mér sýnist, að mörg þau vandkvæði í sambandi við landbúnað, sem blásin eru upp og mikluð fyrir sér, verði eins og hjóm við hliðina á því, sem hér um ræðir. Hærri lán úr stofnlánadeild, breyting lausaskulda í föst lán, eftirgjöf á tollum og vélum er allt gott á sína vísu en hvað stoðar það bóndann, ef hann stendur á dauðri jörð með sjúkan búpening? Ég held, að hér sé um svo mikið alvörumál að ræða, að hjá því verði ekki komizt að taka það til yfirvegunar. Hvers virði er íslenzkum landbúnaði, þegar allt kemur til alls, framleiðsla Áburðarverksmiðjunnar í Gufunesi? Áburðarverksmiðjan kostaði á sínum tíma 130 millj. kr. Rentan af því fjármagni er ekki nema lítill hluti af því tjóni, sem bændur verða fyrir árlega vegna uppskerubrests. Manni dettur í hug, að e.t.v. gæti það orðið drýgsta framlagið í Bjargráðasjóð Íslands að loka henni eða a.m.k. að losa svo um fjötur þann sem bindur íslenzka bændur svo við hana, að þeir neyðast til þess að kaupa þessa framleiðslu hennar sér í óhag.

Ég vil að lokum vara við því, að litið sé svo á, að hér sé um einkamál landbúnaðarins að ræða. Þetta er mál allrar þjóðarinnar. Ég vil svo að lokum fara fram á það við hæstv. forseta, að málinu verði vísað til allshn. og umr. frestað.