13.12.1968
Sameinað þing: 21. fundur, 89. löggjafarþing.
Sjá dálk 512 í B-deild Alþingistíðinda. (391)

1. mál, fjárlög 1969

Sigurður Grétar Guðmundsson:

Herra forseti. Við hv. 4. landsk. þm. Jónas Árnason og ég flytjum hér við 2. umr. fjárl. þrjár minni háttar brtt.

Reyndar er nú hv. 6. þm. Reykv. búinn að skelfa mig allmikið með ræðu sinni hérna fyrr í dag. Ég gat ekki betur skilið á hv. þm. en að einstakar till. þm. væru undantekningarlaust dauðadæmdar. Ég er nú að vísu nýliði hér í þingsölunum og hef ekki fylgzt náið með afgreiðslu fjárl. hér á undanförnum þingum, en ég vil samt sem áður ekki að óreyndu trúa því, að það sé komið svo fyrir hinu háa Alþ., að lögboðin og formleg afgreiðsla fjárl. sé innantómt formsatriði. Þess vegna er það einlæg von mín, að það komi nú í ljós við atkvgr. í lok þessarar umr., að hv. 6. þm. Reykv. hafi tekið nokkuð djúpt í árinni að þessu sinni.

Í ræðu sinni hér í dag gat ég ekki betur heyrt en hæstv. fjmrh. léti hlý orð falla um fulltrúa stjórnarandstöðunnar í fjvn. Ég tel það því enga goðgá, þó ég snúi taflinu nú örlítið við, að vísu ætla ég nú ekki að fara að hrósa ríkisstj. í heild, en mér þykir leitt, að hæstv. menntmrh. skuli ekki vera hér, því að ég veit ekki, hvort það er á hverjum degi, sem ráðh. fá hrósyrði frá stjórnarandstöðuþm., en ég vildi samt nota þetta tækifæri til að þakka hæstv. menntmrh. fyrir þann áhuga og skilning, sem hann hefur sýnt leiklist hér á landi á undanförnum árum. Ég get þessa hér, vegna þess að um þetta málefni fjalla tvær af þremur till., sem ég ætla hér að fara um nokkrum orðum.

Hæstv. menntmrh. hefur beitt sér fyrir ýmsum nýmælum varðandi opinberan stuðning við leiklist í landinu, ekki hvað sízt leiklist áhugamanna. M.a. var kölluð saman ráðstefna allra þeirra aðila jafnt meðal áhugamanna sem atvinnumanna, sem talið var, að eitthvað jákvætt hefðu fram að færa um tilhögun opinbers stuðnings við leiklistina og annað það, sem kynni að verða henni til framdráttar. Það eru nokkur ár liðin síðan þessi ráðstefna var haldin, og ég vona, að sú ábending komist til hæstv. menntmrh., að ég teldi athugandi, hvort ekki ætti að kalla saman aðra slíka ráðstefnu, ekki hvað sízt til að ræða, hvernig til hefur tekizt það fyrirkomulag á styrkjum til leiklistarinnar í landinu, sem þá var nýtekið upp, þegar þessi ráðstefna var haldin, og ég teldi ekki óeðlilegt, að hún yrði haldin næstkomandi vor, og ég vona, að það verði, því fyrr, því betra, því að ég treysti núv. menntmrh. vel í þessum efnum, en það veit enginn, hvenær ævin endar í ráðherrastólnum, frekar en ævi manns sjálfs.

En nú skal ég ekki orðlengja meira um þetta. En ég ætla aðeins að minnast nokkrum orðum á þær þrjár brtt., sem við hv. 4. landsk. þm. flytjum við fjárlagafrv. Það er hér fyrst að nefna hækkaðan styrk til leikstarfsemi. Það er á þskj. 159, III. liður. Við leggjum til að liðurinn hækki úr 1.3 millj. í 2 millj. Styrkur þessi er fyrst og fremst ætlaður til að styrkja rekstur leikfélaga utan Reykjavíkur, þó hafa aðilar í höfuðborginni, aðrir en Leikfélag Reykjavíkur og Þjóðleikhúsið, einnig möguleika á að fá styrk úr þessum sjóði, og svo mun hafa verið á undanförnum árum, ég býst við, að t.d. tilraunaleikhúsið Gríma hafi fengið styrk úr þessum sjóði. Menntmrh. úthlutar fé úr þessum sjóði eftir sérstakri reglugerð, og ég held, að rn. hafi rækt það vel og réttlátlega. Ég þarf ekki að lýsa því fyrir hv. þm. úr hinum einstöku byggðarlögum úti á landi, hversu mikils virði þessi starfsemi leikfélaganna er. Ég er hræddur um, að fjárhagserfiðleikar núna geti orðið þessari starfsemi þeirra fjötur um fót og sérstaklega þeim félögum, sem farin eru að setja hærra mark í listrænum skilningi. Það fer ekki hjá því, að hækkandi verðlag komi einnig við þessi félög eins og alla aðra aðila hér á landi. Það eru gerðar meiri kröfur nú en áður í þessum efnum sem öðrum, það fer t.d. mjög í vöxt, að félög úti á landi ráða til sín leikstjóra hér af höfuðborgarsvæðinu, og einnig hefur Leikfélag Akureyrar, félag, sem hefur mjög vaxið fiskur um hrygg á undanförnum árum, verið aflögufært með leiðbeinendur á þessu sviði. Þetta tel ég vera rétta stefnu, því að þeir flytja með sér þekkingu og reynslu, sem síðan verður eftir á hinum ýmsu stöðum, þar sem þeir koma. Ég vona því, að hv. þm. leggi okkur lið í þessu efni og standi með okkur í þessari hækkuðu fjárveitingu til leiklistarinnar í landinu.

Aðrar brtt., sem við flytjum, eru einnig á þskj. 159 undir liðnum V.

Það er fyrst hækkaður styrkur til Leikfélags Reykjavíkur úr 1/2 millj. í 1 millj. Leikfélag Reykjavíkur hefur alla tíð starfað við mjög erfið skilyrði. Það hefur starfað í sama húsnæðinu frá upphafi, frá því það var stofnað, og það er á nokkrum tímamótum núna, vegna þess að það er að breytast frá því að vera áhugamannafélag og að verða atvinnuleikhús. En það býr enn við þessi sömu frumstæðu skilyrði, og á meðan tel ég, að það þurfi því fyrst og fremst á auknum styrk fyrir rekstur sinn að halda. Þetta er ekki styrkur, sem neinu nemur til þess að koma upp framtíðarleikhúsi fyrir félagið, það fyrst og fremst þarf að styrkja það til þess, að reksturinn geti verið blómlegur á þessu millibilsástandi.

Að lokum flytjum við hér till. um, að styrkur til Ungmennafélags Íslands hækki úr 250 þús. í 1 millj. Ég veit það, að hv. þm. utan af landi þekkja vel starfsemi hinna einstöku ungmennafélaga víða, en sá hugsunarháttur virðist nokkuð hafa verið ofarlega á baugi hér, sérstaklega hér á höfuðborgarsvæðinu, að Ungmennafélag Íslands væri eitthvert fyrirbæri aftan úr grárri forneskju, sem væri staðnað og einskis nýtt. En ég vil harðlega mótmæla þessu, því að einmitt ungmennafélögin úti á landi eru einhver blómlegustu æskulýðsfélög hér á landi, og mætti nefna mörg dæmi, ég hirði ekki um það núna, get nefnt hér einstakt dæmi, hinar miklu hátíðir eða mót Ungmennafélags Íslands, sem vekja athygli alþjóðar. Auk þess hafa þessi félög víða í sveitum landsins og einmitt í kjördæmi hv. 4. landsk. þm. tekið sig fram um sérstaka og happasæla æskulýðsstarfsemi, sem einnig hefur vakið mikla athygli, og við leggjum því til, að þessi styrkur hækki svo sem ég hef hér áður sagt, og skal ég þá ekki fara fleiri orðum um þessar brtt.