27.04.1970
Neðri deild: 85. fundur, 90. löggjafarþing.
Sjá dálk 1031 í B-deild Alþingistíðinda. (1236)

7. mál, sameining sveitarfélaga

Jón Kjartansson:

Herra forseti. Ég átti þátt í því í heilbr.- og félmn. að vinna að þessum brtt., sem hér liggja fyrir og eru til umr. í sambandi við frv. um sameiningu sveitarfélaga, og það gerir ekkert til, þó að það komi hér fram, að n. lagði þó nokkuð mikla vinnu í það að ná samstöðu.

Þegar þetta frv. var lagt fram, komu fram raddir eins og þeirra hv. þm., sem hér hafa talað, og þeir gagnrýndu nokkur atriði í frv. og þá fyrst og fremst ákvæðið um erindrekann, ákvæðið um það, að það átti að kosta sérstakan mann til þess að ferðast um landið til að vinna að skipulagi um sameiningu sveitarfélaga. Í öðru lagi var óánægja með það, að félmrh. hefði heimild til að sameina sveitarfélag öðru sveitarfélagi, ef þar voru færri en 50 manns í hreppnum. Ég hlustaði á umr., sem fram fóru, þegar þetta var rætt hér við 1. umr., og ég gat ekki fundið annað út úr þeim umr. en þetta væru höfuðgallarnir á frv.

Nú hefur fengizt samstaða í heilbr.- og félmn. og fulltrúar stjórnarflokkanna hafa komið til móts við okkur fulltrúa stjórnarandstöðunnar í n. og fallizt á að taka þessi tvö veigamiklu atriði, sem gagnrýnd voru, út úr frv., og ég verð að segja það, að að fenginni þessari breyt. vil ég mæla með því, að frv. verði samþ.

Ég held, að það sé enginn sérstakur áróður í fyrirsögn frv. Það vita allir, sem hafa komið nærri sveitarstjórnarmálum, að það getur verið nauðsynlegt að sameina lítil sveitarfélög og frv. þetta greiðir fyrir því. Ekkert sveitarfélag verður að sameinast öðru, nema þá það sveitarfélag, ef hægt er að kalla, að það sé neytt til þess, sem hefur færri en 30 íbúa og sýslunefndin hefur mælt með því. Þetta er nú öll hættan í frv. Ef sýslunefnd er á móti því að sameina, verður það ekki gert. Ég held, að þetta sé mjög meinlaust frv. og mæli með því, að brtt. þær, sem fram eru komnar, verði samþ.