30.10.1969
Neðri deild: 8. fundur, 90. löggjafarþing.
Sjá dálk 1267 í B-deild Alþingistíðinda. (1696)

43. mál, Fjárfestingarfélag Íslands

Flm. (Eyjólfur K. Jónsson):

Herra forseti. Ég hlýt nú að hefja mál mitt á því að þakka frænda mínum, hv. 3. þm. Norðurl. v., fyrir allt það hól, sem hann hefur hér flutt um mig. Hitt hygg ég, að sé rétt, að stundum sé þessi frændi minn djúpvitrari en ég, og það kom a. m. k. fram í einu atriði í ræðu hans hér áðan. Ég veit ekki hvort þm. hafa skilið, hvað hann var að fara, en það var þó ljóst og ég þekki hann svo vel frá fundunum fyrir norðan, að þegar hann þurfti að ná sér niðri á samherjum, hvað þá mér og öðrum slíkum, þá seildist hann talsvert langt.

Hann nefndi núna, að Einar Olgeirsson hefði alla tíð ætlað að leysa öll vandamál þjóðfélagsins með því að kaupa og smíða ríkistogara. Ég held, að Björn hafi þarna vísvitandi notað Einar Olgeirsson eins og Rússar og Kínverjar hafa notað Albaníu. Hann var ekki að skjóta á Einar Olgeirsson. Á hvern var hann að skjóta? Er það ekki formaður hans flokks, sem gengið hefur fram fyrir skjöldu um þessar mundir til þess að fá samþykkt, að öll vandamál verði leyst með togaraútgerð? En þetta er eitt dæmið um það, að þessi hv. þm. er djúpvitur. Ég játa það. (Gripið fram í.) Annars skal ég ekki eyða mjög löngum tíma í að svara þessum hv. þm. Hans ræða var mjög skemmtileg, eins og ræður hans alltaf eru, en ekki að sama skapi málefnaleg, og það hvarflar ekki að mér að draga þessar umr. á langinn, því að ég hef lagt á það mikla áherzlu, að þetta frv. fái góða og skjóta afgreiðslu, enda er það mjög einfalt í sniðum og allir geta áttað sig á því, sem það vilja.

Að því er varðar ræðu hv. 4. þm. Reykv., þá kemst ég ekki hjá því að leiðrétta nokkuð skilning hans á því, um hvers konar félag er hér að ræða. Hann gengur út frá því, að þetta sé í ætt við amerískt „holding company“. Það er algerlega fjarstætt. Það er ekki það, sem fyrir stofnendum þessa félags vakir, heldur þvert á móti, að þetta félag verði yfirleitt aldrei meirihlutaeigandi í hlutafélögum, það verði yfirleitt alltaf minnihlutaeigandi, og það verði ætlazt til þess, að allt aðrir menn ráði hlutafélögum. Að vísu mun þetta félag reyna að beita áhrifum sínum, t. d. til þess að knýja fram heilbrigt og gott bókhald, nánari skýrslur frá mánuði til mánaðar, eftir því sem við verður komið, og heilbrigða stjórn félagsins, og það mun láta til sín taka, ef illa er á málum haldið hjá félagi, sem það er hlutabréfaeigandi að. Að vísu er þetta ekki tekið fram í frv. sjálfu, að félagið skuli ætíð vera minnihlutaeigandi í félögum, enda gæti svo verið, að það þyrfti jafnvel um skemmri tíma að vera einkaeigandi að fyrirtæki, t. d. ef það keypti gjaldþrota fyrirtæki og reyndi að byggja það upp að nýju á nýjan og heilbrigðari hátt. Þess vegna er ekki þægilegt að taka þetta fram, en ég hef fulla heimild til að lýsa því hér yfir á hinu háa Alþ., að það vakir alls ekki fyrir þeim, sem að þessu frv. standa, að reka „holding company“ á ameríska vísu, sem ég held, að hv. 4. þm. Reykv. álíti.

Að því er aðild að þessu félagi varðar, er eins með þetta félag og önnur, að einhver verður að vera frumkvöðull, og Verzlunarráð Íslands gerði þá samþykkt, sem hv. 3. þm. Norðurl, v. vék hér að áðan, á aðalfundi sínum í fyrra. Það má vel vera, að ég hafi haft á það einhver áhrif, og tel mér það til heiðurs frekar en þess gagnstæða. Þeir tóku sér fyrir hendur að vinna að þessu máli ásamt Félagi ísl. iðnrekenda. En það er ætlun þeirra að útiloka engan, að allir geti orðið aðilar að þessu félagi, sem þess óska. Fram að þessu hefur málið ekki verið rætt við aðra en þá þrjá einkabanka, sem hér eru nefndir, þ. e. a. s. Iðnaðarbankann, Verzlunarbankann og Samvinnubankann, og þó aðeins lítillega við Samvinnubankann, og þessir aðilar hafa ekki endanlega tekið afstöðu til þess, hvort þeir verði stofnaðilar og þá með hve miklu hlutafjárframlagi. Ég minntist á það í framsöguræðu minni, að ég teldi mjög æskilegt, að opinberir sjóðir, ekki sízt atvinnuleysistryggingasjóður, yrðu aðilar að félaginu. Það veit enginn um það enn þá og það er engin skylda lögð á einn eða neinn að verða hluthafi í þessu félagi. Hins vegar verður um að ræða heimild fyrir þessar sjóðsstjórnir til að taka þátt í félaginu, ef þær telja það æskilegt, en auðvitað engin skylda á einn eða neinn veg. Það verður áfram á valdi þessara aðila, eins og öll ráðstöfun fjár þessara sjóða er.

Hv. 4. þm. Reykv. taldi, að það bæri að óttast það að brjóta ísinn, eins og hann sagði, með skattfríðindunum til handa þessu félagi, — eða kannske misminnir mig nú, að hann hafi notað þetta orðalag í því sambandi. Það er um skattfríðindin að segja, að hann talaði um, að það ættu allir að sitja við sömu kjör, og það er einmitt það, sem hér er um að ræða. Hér er um peningastofnun að ræða, sem ætlazt er til, að njóti sömu skattfríðinda og allar aðrar peningastofnanir í landinu, en þó aðeins tímabundið, vegna þess að vissulega er þessi stofnun hugsuð með nokkuð öðrum hætti en aðrir sjóðir og fjárfestingaraðilar í landinu. Hugmynd þeirra, sem að stofnun þessa félags standa, er sú, við ætlum ekki að vera að draga neina dul á það, að þetta félag geti orðið arðvænlegt félag, það geti hagnazt, þegar fram líða stundir. En á fyrstu árum hlýtur að verða um mikla áhættu að ræða, vegna þess að hlutafé félagsins verður takmarkað, og það þarf e. t. v. að verja verulega miklu af því í einhverjum ákveðnum tilgangi til mjög þjóðnýts fyrirtækis, en félagið gæti hugsanlega tapað því. Við skulum líka horfast í augu við það, að þegar eitt fyrirtæki ætlar sér að hagnast, tekur það líka áhættuna af því að tapa. Vonandi fer svo, að þetta fyrirtæki hagnist, en ég held, að hér sé svo mikilvægt mál á ferðinni, að það sé mjög eðlilegt að veita því þessi skattfríðindi, jafntakmörkuð og þau eru, þ. e. a. s. til ársloka 1977, og ég tel ekki, að það sé verið að gefa neitt fordæmi, vegna þess að allar peningastofnanir landsins, þ. á m. einkabankarnir, sem eru hlutafélög, hafa alger skattfríðindi og ótakmörkuð, en ekki bara til ákveðins tíma. Ég held, að það sé þess vegna ekki ástæða til að óttast þetta.

Aftur á móti að því er varðar heimild sjóðanna til að kaupa hlutabréf í þessu fyrirtæki, þá mun það vera, að hv. 4. þm. Reykv. hafi sérstaklega óttazt að brjóta ísinn að því er það varðar. Ég held, að það væri enginn skaði skeður, nema síður væri, að opinberir sjóðir á Íslandi keyptu eitthvað af hlutabréfum í hlutafélögum. Það hafa komið fram till. um það, m. a. frá launþegasamtökum, að slíkt yrði gert, og ég held, að allmargir hafi rætt um nauðsyn þess, að atvinnujöfnunarsjóður t. d. gerði þetta í einhverjum mæli. Og þó að þetta fordæmi væri þarna gefið, held ég, að því fylgdi engin áhætta. Þetta er svo í öllum nágrannalöndum, að öflugir sjóðir kaupa hlutabréf, bæði opinberir sjóðir og ýmiss konar prívatsjóðir. Það er kannske einmitt aðalleiðin til að ávaxta fé sjóðanna að kaupa hlutabréf, og við vitum, hvernig ýmsir sjóðir hér, t. d. einkasjóðir, hafa farið. Menn hafa stofnað sjóði með allmiklu fé, lagt það síðan inn á banka og eftir svo og svo mörg ár er þetta orðið einskis virði. Ef menn hefðu getað fest þetta fé í hlutabréfakaupum í arðvænlegum félögum, sem hér munu rísa upp og verða rekin með nútíma sniði, — á því er enginn vafi, skilningur er orðinn það mikill á þessu, — þá varðveitist þetta fé auðvitað og skilar eðlilegum arði.

Ég gladdist mjög yfir ummælum hv. 4. þm. Reykv. um skattlagningu fyrirtækja, og það er alveg laukrétt hjá honum og ég er svo innilega sammála því, að öll félagsform og þ. á m. ríkisrekstur eigi að skattleggja eftir nákvæmlega sömu reglum, en ekki níðast á einu rekstrarformi, en hlífa öðru. Það hefur verið upplýst hér á hinu háa Alþ., að skattar hlutafélaga eru í athugun og það er nefnd starfandi í því. Ég hef ástæðu til að ætla, að sú nefnd muni skila áliti nú um áramótin, þannig að þetta þing, vorþingið, muni geta gert nauðsynlegar lagabreytingar, til þess að þessi voðalegu hlutafélög, sem hv. 3. þm. Norðurl. v. taldi vera, geti búið við skynsamleg skattalög.

Ég kemst ekki hjá því, vegna tilmæla hv. 4. þm. Reykv., að skýra nokkuð frá starfrækslu félaga sem þessara á Norðurlöndum. Ég er hér með í höndum skýrslu, sem Þorvarður Alfonsson framkvstj. Félags ísl. iðnrekenda samdi um s. l. áramót eftir ferð til Norðurlanda, sem hann fór gagngert til að kynna sér þessi mál, og ég leyfi mér að lesa upp úr henni nokkra kafla, með leyfi hæstv. forseta. Hér í inngangi segir höfundur:

„Eigi íslenzkir atvinnuvegir og þá sérstaklega iðnaðurinn að takast á við þau verkefni, sem framtíðin hlýtur að bera í skauti sínu, er það ljóst, að beita verður öllum tiltækum ráðum til þess að laða fram nýjungar í framleiðslu og allar mögulegar hugmyndir, sem leitt geta af sér vöxt framleiðslunnar. Víða erlendis hefur verið skipulögð starfsemi bæði af hálfu opinberra aðila og einkaaðila, sem hefur slíkt að markmiði. Segja má, að starfsemin miðist einkum við eftirfarandi:

1. Hafa frumkvæði að fjárfrekum undirbúningsrannsóknum vegna stofnunar nýrra fyrirtækja, sem líkleg eru til að vera arðbær.

2. Hafa frumkvæði að hugmyndum um ákveðin verkefni á sviði vöruþróunar, sem líkleg eru til að leiða til arðbærrar framleiðslu.

3. Veita áhættulán til arðbærra fjárfestingarframkvæmda í nýjum og starfandi fyrirtækjum.

4. Kaupa og selja síðar hlutabréf í bæði nýjum og starfandi arðbærum fyrirtækjum.

5. Hafa á hendi fyrirgreiðslu og ábyrgjast sölu hlutabréfa í arðbærum fyrirtækjum.

6. Veiting áhættulána til fyrirtækja og einstaklinga til ákveðinna þróunarverkefna.

Ekki er vafi á því, að slík skipulagsstarfsemi hér á landi gæti haft mjög heilladrjúg áhrif á íslenzka iðnþróun.“

Síðan víkur hann að Finnlandi og fyrirtæki, sem þar er starfrækt og heitir Sponsor h.f., og segir: „Markmið hlutafélagsins er að örva til stofnunar nýrra fyrirtækja í Finnlandi og beita sér fyrir rannsóknum varðandi ýmis þróunarverkefni. Ennfremur að aðstoða fyrirtæki og einstaklinga, sem taka sér fyrir hendur þróunarverkefni, og veita finnskum iðnfyrirtækjum ráðgefandi þjónustu á sviði tækni, fjármála og almenns reksturs. Í þessum tilgangi er gert ráð fyrir umfangsmikilli starfsemi af hálfu félagsins. Því er m. a. ætlað að taka þátt í stofnun atvinnufyrirtækja, sem þykja arðvænleg, með því að leggja fram stofnfé, sem jafnframt er áhættufé. Hlutafélagið hefur einnig heimild til að kaupa hlutafé í starfandi fyrirtækjum, sem talin eru hafa vaxtarmöguleika, en hafa ekki tök á að ná auknum vexti af eigin rammleik, t. d. vegna þess, að fjárhagsleg uppbygging þeirra er ekki sem skyldi eða stjórnun þeirra er í einhverju áfátt o. s. frv. Þá er félaginu heimilt, eins og áður segir, að beita sér fyrir lausn á ákveðnum þróunarverkefnum, sem líkleg eru talin til að leiða til arðbærrar framleiðslu. Loks getur félagið lagt fram áhættufé til að standa straum af kostnaði við lausn þróunarverkefna, sem fyrirtæki eða einstaklingar beita sér fyrir, ef líkur eru taldar á því, að niðurstöður verkefnisins leiði til arðbærrar framleiðslu.“

Síðar í þessari skýrslu er vikið að annarri stofnun í Finnlandi, sem kallast Industrialization Fund of Finland. Ekki veit ég hvert finnska nafnið er. Um það segir t. d., með leyfi hæstv. forseta:

„Hann (þ. e. sjóðurinn) getur veitt lán, sem hafa viss einkenni hlutafjárframlaga, og loks hefur hann heimild til að vera óbeinn þátttakandi í stofnun hlutafélags, sem er einmitt eitt af meginverkefnum þess félags, sem hér er til umr.

Og síðar segir:

„Þá er það hlutverk sjóðsins að vinna að eflingu verðbréfaviðskipta í Finnlandi og framkvæma nauðsynlegar athuganir í því sambandi, m. a. að því er snertir ákvæði skattalaga, gjaldeyrismál, fjármálastefnu ríkisins o. s. frv.“

Ég vil skjóta því hér inn í, að það var lögð sérstök áherzla á að kynna sér þessi mál í Finnlandi, vegna þess að aðstæður þar eru að mörgu leyti svipaðar og hér á Íslandi, og þannig má líka geta þess, að alþjóðalánastofnunin, sem getið er um hér í grg. frv. og við erum aðilar að, hefur mjög haft sig í frammi í Finnlandi við að hjálpa þar einka- og félagsrekstri, en hins vegar ekki í neinu öðru Vestur-Evrópulandi, vegna þess að hún telur sér ekki heimilt — og er ekki heimilt - að starfa annars staðar en þar, sem atvinnurekstur á nokkuð undir högg að sækja og einka- og félagsrekstur hefur ekki þróazt með eðlilegum hætti. En þeir telja, að þeir mundu mjög gjarnan eiga að starfa einmitt hér á Íslandi, þar sem aðstæður eru svipaðar og í Finnlandi. En engu að síður var þetta nokkuð skoðað á hinum Norðurlöndunum líka, og hér er t. d. getið um fyrirtæki í Svíþjóð, sem heitir Incentiv, hlutafélag, og um það segir, að starfsemin sé með mjög svipuðu sniði og starfsemi Sponsor h. f., en það kom fram í viðræðum í Finnlandi, að áður en Sponsor h. f. var stofnað, höfðu þeir kynnt sér starfsemi Incentiv h. f. í Svíþjóð. Og í Noregi eru stofnanir með svipuðu sniði, og þar er getið um stofnun, sem unnið er við að koma á fót einmitt nú, og segir, að hún mundi fyrst og fremst gegna því hlutverki að lána arðvænlegum fyrirtækjum, sem hafa ekki nægilegt eigið fjármagn, áhættufé.

Ég verð nú að stytta lestur minn til að taka ekki allt of langan tíma, en þessi skýrsla er auðvitað til reiðu fyrir þá, sem gaman hefðu að glugga í hana, en framkvstj. Félags ísl. iðnrekenda segir í niðurlagi skýrslunnar:

„Eins og áður er getið, hefur í mörgum löndum verið skipulögð starfsemi, bæði af einkaaðilum og opinberum aðilum, er hefur því hlutverki að gegna að vera frumkvöðull í vöruþróun, stofnsetningu nýrra fyrirtækja og koma til aðstoðar fyrirtækjum, sem af einhverjum ástæðum ná ekki að þróast eðlilega af eigin rammleik.“

Ég held, að ég hafi nú vikið að því helzta, sem fram kom í ræðum hv. þm., og vonast til, að ég hafi gert nægilega grein fyrir starfrækslu slíkra félaga á Norðurlöndum með þeim upplestri, sem ég hef hér tekið úr skýrslu Þorvarðar Alfonssonar. Að lokum leyfi ég mér að árétta það, sem er sannfæring mín, því ég hef nokkuð kynnt mér þessi mál erlendis sjálfur með bóklestri, að félag sem þetta gæti haft mjög mikla þýðingu hér á Íslandi, og ættu því sem allra flest þjóðfélagsöfl að sameinast um að koma því á fót og gera þessa tilraun til þess að efla og styrkja íslenzka atvinnuvegi.