09.12.1969
Sameinað þing: 21. fundur, 90. löggjafarþing.
Sjá dálk 129 í B-deild Alþingistíðinda. (61)

1. mál, fjárlög 1970

Frsm. samvn. samgn. (Sigurður Bjarnason):

Herra forseti. Samkv. till. samvn. samgn. er lagt til, að heildarfjárveiting til flóabáta og vöruflutninga verði á árinu 1970 14 millj. 910 þús. kr., en það er 1.290 þús. kr. hærra en á yfirstandandi ári.

Flóabátaferðirnar hafa á þessu ári verið reknar með svipuðum hætti og undanfarin ár. Það er sameiginleg skoðun innan samvn. samgn., að nauðsyn beri til þess, að endurskoðað verði fyrirkomulag á rekstri og ferðum einstakra báta. Í þessu sambandi má benda á það, að undanfarin 2 ár a.m.k. hefur staðið yfir endurskoðun eða heildarathugun á samgöngum um Hvalfjörð, en þeirri endurskoðun eða athugun er ekki enn þá lokið. Hins vegar verður afkoma þess skips, sem heldur uppi ferðum á milli Reykjavíkur og Akraness og Borgarfjarðarhéraðs, stöðugt óhagkvæmari og hefur n. ekki komizt hjá því að leggja til, að hækkaður verði verulega styrkur til ferðanna á milli Akraness og Reykjavíkur. Enn fremur hefur n. lagt til, að hækkaður verði verulega styrkur til Djúpbátsins, en styrkirnir til þessara tveggja báta fela í sér aðalhækkanirnar, sem n. gerir till. um. Að öðru leyti hafa framlög til flóabátanna víðs vegar við strendur landsins tiltölulega litið hækkað. Hins vegar leggur n. til, að fjölgað verði verulega styrkjum til snjóbifreiða, aðallega á Austfjörðum.

Um rekstrarafkomu hinna einstöku flóabáta vill samvn. samgn. taka eftirfarandi fram og verður þá aðeins stiklað á fáum atriðum: Lagt er til, að útgerð flóabátsins „Drangs“ á Akureyri fái óbreyttan rekstrarstyrk, eins og hann fór fram á, en hins vegar flytur n. till. um, að þessi bátur fái ríkisábyrgð fyrir allt að 1.5 millj. kr. láni vegna lengingar bátsins, enda verði þær tryggingar fram boðnar, sem metnar verða gildar. Þessi bátur hefur annazt ferðir um Eyjafjörð og til Sauðárkróks og Grímseyjar og víðar. Farsvæði hans, eða ferðir hans hafa breytzt verulega við það, að akvega samband hefur skapazt við Siglufjörð og Ólafsfjörð, en óhjákvæmilegt er að halda þó uppi ferðum nokkurn veginn reglubundnum við þessa staði að vetrarlagi. Skipulag þessara ferða er allt í deiglunni. Útgerðarmaðurinn telur, að skipið verði töluvert rekstrarhæfara eftir fyrirhugaða lengingu, sem gert er ráð fyrir, að nemi um 4 metrum.

Þá er lagt til, að styrkur til Strandabáts verði óbreyttur, en þessi bátur annast ferðir frá Hólmavík og allt til nyrztu byggðar Strandasýslu.

Þá er nokkur vandi á höndum með flugferðir til Grímseyjar. Tryggvi Helgason flugmaður á Akureyri hafði haldið þessum ferðum uppi þar til 10. maí á s.l. vori, en þá var þessum áætlunarferðum hætt og síðan hefur aðeins verið farið leiguflug til Grímseyjar. Var talið óhjákvæmilegt, að til þess að sæmilegu öryggi yrði komið á í sambandi við Grímsey, þá yrði styrkur til Grímseyjarflugs hækkaður úr 80 þús. kr. í 200 þús. kr. Grímseyingar hafa, eins og kunnugt er, algera sérstöðu um samgöngur og ríkir áreiðanlega almennur skilningur á því að styðja beri þá í hvívetna til þess að halda skaplegu sambandi við meginlandið. Enn fremur er gert ráð fyrir því, að „Drangur“ haldi framvegis uppi ferðum til Grímseyjar.

Styrkur til Flateyjarbáts á Skjálfanda er lækkaður um 10 þús. kr., en Flateyingar eru nú fluttir úr sinni eyju og eru þar aðeins að sumarlagi og er þá nauðsynlegt að halda uppi áætlunarferðum milli eyjar og lands.

Þá eru veittar 65 þús. kr. til snjóbifreiðar í Dalvíkurlæknishéraði og er það hækkun um 15 þús. kr. frá því, sem er á yfirstandandi ári.

Af Austfjarðasamgöngum er það að segja, að þær eru með mjög svipuðum hætti og áður. Lagt er til, að styrkur til Mjóafjarðarbáts hækki um 15 þús. kr. og ennfremur er lagt til, að 5 snjóbifreiðar í þessum landshluta verði nú styrktar á þessum lið fjárlaga.

Á yfirstandandi ári voru veittir styrkir til tveggja snjóbifreiða, annarrar, sem fer yfir Fjarðarheiði til Seyðisfjarðar og má segja, að sé lífæð Seyðfirðinga, þegar snjóalög eru þung austur þar. Það var talið nauðsynlegt að hækka styrk til þessarar snjóbifreiðar um 80 þús. kr., upp í 280 þús. kr. Enn fremur er lagt til, að veittur verði styrkur til snjóbifreiðar um Fagradal og var ekki farið fram á hækkun styrkjar til þeirrar bifreiðar. Þá er lagt til, að teknir verði upp þrír smástyrkir til snjóbifreiða á Austfjörðum. Í fyrsta lagi til snjóbifreiðar, sem annast mun ferðir milli Eskifjarðar og Neskaupstaðar um Oddsskarð, í öðru lagi, að snjóbifreið læknishéraðanna á Fljótsdalshéraði verði veittur 75 þús. kr. styrkur og loks, að 65 þús. kr. styrkur verði veittur til ferða snjóbifreiðar milli Borgarfjarðar og Egilsstaða. En Borgfirðingar eiga jafnan við mikla erfiðleika að etja, þegar akvegasamband rofnar, sem gerist oft snemma á vetri.

Suðurlandssamgöngur eru í svipuðu horfi og áður. Lagt er til, að styrkur til vöruflutninga til hinna hafnlausu byggðarlaga í V.-Skaftafellssýslu verði hækkaður um 50 þús. kr. og að óbreyttur verði styrkur til Öræfa og til vatnadreka við Skeiðará, sem kvað vera hið þarfasta tæki og menn láta mjög vel af sem öryggistæki austur þar.

Faxaflóasamgöngur eru einnig í svipuðu horfi og áður, að öðru leyti en því, að „Akraborg“ hefur nú framkvæmt þá skipulagsbreytingu á ferðum sínum, að skipið hefur ferðir sínar á Akranesi að morgni og er sú breyting talin gefast mjög vel. Út af fyrir sig var ekki sótt um hækkaðan rekstrarstyrk til þessa báts, en hins vegar fór fram allýtarleg flokkun og viðgerð á skipinu og óskaði Skallagrímur h.f. eftir 500 þús. kr. styrkhækkun vegna þessarar viðgerðar. Féllst n. á að leggja til, að styrkurinn til skipsins yrði hækkaður um 400 þús. kr. Eins og ég sagði, þá er í gangi heildarathugun á samgöngunum um Hvalfjörð og samvn. samgn. leggur mikla áherzlu á, að þeirri athugun verði lokið hið allra fyrsta, þannig að einhver botn fáist í það, hvort nauðsynlegt er að halda þessum flóabátaferðum óbreyttum eða hvort aðrar ráðstafanir verða gerðar til þess að halda uppi nauðsynlegum og öruggum samgöngum milli Reykjavíkur og Borgarfjarðarhéraðs og kaupstaða og kauptúna í héraðinu.

Um Breiðafjarðarsamgöngur er það að segja, að lagt er til, að rekstrarstyrkur til Flateyjarbáts á Breiðafirði verði óbreyttur á næsta ári, eða 475 þús. kr. Þessi bátur heldur uppi ferðum milli eyjanna, fyrst og fremst vestureyja á Breiðafirði, og sveitanna í Austur-Barðastrandarsýslu, sem eru án akvegasambands mikinn hluta vetrar.

Þá er lagt til, að styrkur til vetrarflutninga yfir Kleifaheiði verði óbreyttur, en gera má ráð fyrir því, að lokið verði gerð upphleypts vegar yfir þessa heiði á næstu tveimur til þremur árum og ætti þá að verða mögulegt að fella þennan styrk niður.

Forráðamenn „Baldurs“ í Stykkishólmi fóru fram á óbreyttan rekstrarstyrk og varð n. við þeirri ósk, hins vegar báðu þeir um meðmæli með því eða báðu um það, að þeim yrði veitt ríkisábyrgð fyrir 2 millj. kr. láni vegna lengingar á skipinu, það mun eiga að framkvæma á því svipaða lengingu og á norðanbátnum „Drang“, en nokkru dýrari. Varð n. við þeirri ósk og flytur á sérstöku þskj. till. um, að ríkisstj. verði heimilað að ábyrgjast allt að 2 millj. kr. lán fyrir eigendur flóabátsins „Baldurs“ vegna lengingar bátsins, gegn þeim tryggingum, sem hún metur gildar. En sama máli gegnir um þennan bát og Akureyrarbátinn, að eigendur hans, sem eru byggðarlögin við sunnanverðan Breiðafjörð, telja, að hann verði miklu rekstrarhæfari og rekstur hans þar með hagkvæmari eftir þá lengingu, sem fyrirhuguð er.

Styrkur til Langeyjarnesbáts er óbreyttur. Hins vegar er lagt til, að styrkur verði veittur, 50 þús. kr., vegna viðgerðar á bátnum.

Fyrirkomulag Vestfjarðasamgangna, flóabáta, er hið sama og áður. Djúpbáturinn h.f. á Ísafirði heldur uppi ferðum um Ísafjarðardjúp og til kauptúnanna í Vestur–Ísafjarðarsýslu. Verkefni bátsins hafa minnkað nokkuð og flutningar vegna stöðugt þverrandi mjólkurframleiðslu, sem fyrst og fremst sprettur af óhagstæðu árferði í sveitum s.l. tvö, þrjú ár. Rekstur bátsins hefur gengið erfiðlega og hann fór fram á verulega styrkhækkun, en n. féllst á að leggja til, að styrkur til Djúpbátsins yrði hækkaður um 400 þús. kr.

Rekstrarstyrkur til ferða snjóbifreiðar yfir Botnsheiði lækkar um 50 þús. kr. Þessu samgöngutæki var á s.l. ári veittur 150 þús. kr. styrkur, sem var í raun og veru stofnstyrkur. Nú sótti hreppsnefnd Suðureyrarhrepps í Vestur–Ísafjarðarsýslu um 100 þús. kr. rekstrarstyrk og féllst n. á að verða við þeirri beiðni, ekki sízt vegna þess, að læknislaust er nú bæði á Suðureyri og Flateyri og þessi snjóbifreið heldur uppi ferðum milli Suðureyrar og Ísafjarðar fyrst og fremst, en einnig stöku sinnum yfir til Flateyrar, þegar á þarf að halda. Rekstrarstyrkir til þriggja smábáta á Vestfjörðum, Dýrafjarðarbáts, Patreksfjarðarbáts og Skötufjarðarbáts er lagt til, að verði óbreyttir.

Eins og ég sagði í upphafi, þá er það till. samvn. samgn., sem stendur einróma að nál., sem hér liggur fyrir og þeim tillögum, sem hér liggja fyrir, að heildarfjárveiting til flóabáta og vöruflutninga verði á árinu 1970 tæpar 15 millj. kr., og er það 1.290 þús. kr. hærra en á árinu 1969.

Ég leyfi mér svo, herra forseti, að mæla með því, að brtt., sem samvn. samgn. flytur, verði samþykktar.