11.12.1971
Sameinað þing: 22. fundur, 92. löggjafarþing.
Sjá dálk 2415 í B-deild Alþingistíðinda. (2581)

Herstöðva- og varnarmál

Halldór Blöndal:

Herra forseti. Ég hafði nú raunar ekki ætlað mér að taka til máls við þessar umr., en sérkennilegur málflutningur hv. 3. landsk. þm., bæði í ræðustól og utan ræðustóls, varð til þess, að ég kvaddi mér hljóðs. Það er greinilegt á hv. þm., að hann er farinn að ókyrrast mjög hér í þingsölum, þegar varnarmálin ber á góma, enda vita það allir þm. og raunar þjóðin öll, að varnarmálin, afstaða Íslendinga til Atlantshafsbandalagsins, þessi mál eru öll svo viðkvæm í flokki hv. þm., að það hefur ekki fengizt úr því skorið, hvaða afstöðu hans flokkur sem slíkur hafi til Atlantshafsbandalagsins, einstakir ráðh. hans eða einstakir þm. Og það var mjög eftirtektarvert, þegar hæstv. forsrh. tók til máls hér áðan og var að tala um það, hversu skýr væri afstaða stjórnarflokkanna til Atlantshafsbandalagsins, þá varaðist hann einmitt að minnast á það, hver væri afstaða hv. þm. til Atlantshafsbandalagsins, svo að það er von, að hv. þm. fari að ókyrrast í sínu sæti, verði fyrst hræddur og síðan lafhræddur, þegar fara á að knýja hann til þess að skýra frá því, hvaða afstöðu hann hefur í þessu máli eða hans flokkur. Hitt finnst mér út af fyrir sig, fannst mér um skeið á vissan hátt réttlætanlegt af hæstv. ríkisstj., þegar hún vitnaði til þess, hvað stæði í málefnasamningi ríkisstj., um að gera að læra og lesa málefnasamninginn í samhengi. Þetta hef ég reynt að gera í byggðamálunum, gagnvart byggðajafnvægissjóðnum. Og ég spyr hæstv. forsrh., hefur hann lært þennan hluta málefnasamningsins nógu vel? Það getur vel verið, að þessi málefnasamningur sé ekkert óumbreytanlegt plagg. Það getur vel verið, að þar verði ýmsu breytt í meðförum ríkisstj., þegar ríkisstj. fer að móta stefnu í einstökum málum.

Eins og ég sagði áðan, ætlaði ég ekki að taka hér til máls, en fyrst ég á annað borð stóð upp, þá vil ég aðeins mótmæla því, sem fram kom áðan hjá hæstv. forsrh. Það er ekki rétt, eins og mér skildist, að þar væri gefið í skyn, að yfirlýsing hæstv. ráðh. um það, hvaða stefnu ríkisstj. hafi í varnarmálunum, sé öll á eina hliðina. Og þar sem hæstv. ríkisstj. talar mjög mikið um það, hvað hún sé stefnuföst í utanríkismálum, gagnstætt því, sem fráfarandi ríkisstj. hafi verið, þá væri það nú út af fyrir sig kannske merki um vissa stefnufestu, ef þeir þrír hæstv. ráðh., sem saman koma, eftir upplýsingum ritstjóra Þjóðviljans, einu sinni í viku reglulega til þess að fjalla um öll utanríkismál landsins, að þessi þriggja manna fastanefnd ráðh. setti sér það nú fyrsta verkefni að reyna að komast að niðurstöðu um það, hvernig þessir þrír hæstv. ráðh. skilja ákvæði málefnasamningsins og hvernig þeir túlka stefnu ríkisstj. í varnarmálum og gagnvart hersveitinni hér á Keflavíkurflugvelli. Ég hygg, að við vitum það allir hér í hinu háa Alþingi, að það er mjög breitt bil á milli hæstv. sjútvrh. og hæstv. utanrrh. í varnarmálunum. Og það hefur komið fram, m. a. á fundi, sem hæstv. utanrrh. sat, á fundi Varðbergs, þar var hann spurður að því, ef uppi væru tvær skoðanir á því, hvernig bæri að túlka stjórnarsáttmálann gagnvart varnarmálum, hvort hann væri þá á skoðun hv. 2. þm. Reykn. eða skoðun hæstv. sjútvrh. Hann kom sér undan að nefna mennina með nöfnum, enda var hann ekki spurður þannig. Það voru settar fyrir hann tvær skýringar, tvær skýringar á ákvæðum varnarsamningsins, og hæstv. utanrrh. kaus þá skýringu, sem hv. 2. þm. Reykn. hafði gefið.