23.02.1972
Neðri deild: 43. fundur, 92. löggjafarþing.
Sjá dálk 288 í C-deild Alþingistíðinda. (3090)

184. mál, vegalög

Flm. (Halldór S. Magnússon) :

Herra forseti. Ég hef leyft mér að flytja frv. til l. um breyt. á vegalögum á þskj. 350 ásamt hv. 2. þm. Reykn. og hv. 4. þm. Reykn. Frv. er þess efnis, að niður falli úr vegalögum nr. 23 frá 1970 95. gr. þeirra laga, en gr. er þess efnis, að ráðh. sé heimilt að ákveða með reglugerð, að greiða skuli sérstakt umferðargjald af ökutækjum, sem aka um tiltekna vegi eða brýr. Enn fremur er tekið fram í frv., að frá þeim tíma er lögin taki gildi, skuli falla úr gildi reglugerð frá 23. marz 1966, um innheimtu umferðargjalds af bifreiðum og öðrum ökutækjum, sem aka um Reykjanesbraut.

Ég tel vonum seinna, að frv. um þetta efni sé á ný lagt fram á hv. Alþ. Frv. um sama efni hafa áður verið lögð fram á þingi, síðast árið 1967, en varð þá ekki útrætt. Frv. þetta er nú flutt til þess að kanna, hvort ekki reynist vera fyrir hendi meiri hl. meðal alþm. um að marka þá stefnu, að sérstök umferðargjöld af bifreiðum, sem aka tiltekna vegi eða brýr, skuli ekki vera innheimt. Ákvæði 95. gr. vegalaga gefa beinlínis til kynna, að löggjafarvaldið ætlast til þess af ráðh., að hann setji á veggjöld, þar sem það þykir henta. Þess vegna er eðlilegt, að veggjald það, sem verið hefur á Reykjanesbraut frá árinu 1965, sé ekki afnumið, á meðan nefnt ákvæði vegalaga helzt óbreytt. Á sama hátt er eðlilegt, að sett verði veggjald á aðra vegi, þar sem það reynist mögulegt. Það er hins vegar skoðun mín, að Alþ. beri nú að afnema heimild til þess að leggja á sérstakt umferðargjald, og hefði raunar aldrei átt að setja nefnt ákvæði í lög. Skal ég nú rökstyðja frekar þá skoðun mína, að óeðlilegt sé að leggja á sérstakt umferðargjald á einstökum vegum.

Við Íslendingar hljótum að stefna að því að byggja upp þjóðvegakerfi, sem fullnægjandi má telja miðað við umferðarþunga á hverjum vegi. Þannig hljótum við að leggja mismunandi vegi. Það dettur engum í hug, að allir vegir í landinu verði steyptir, malbikaðir eða olíubornir. Hins vegar er unnt að sýna fram á það með rökum, að það er þjóðhagslega hagkvæmt að leggja varanlegt slitlag á nokkurn hluta vegakerfisins. Á hinn bóginn geta vel byggðir malarvegir víða með góðu móti borið umferðarþungann. Kostnaður við vegagerð er mjög mismunandi eftir staðháttum. Sums staðar þarf að leggja vegi í bröttum fjallshlíðum eða grafa jarðgöng til þess að tryggja samgöngur milli staða eða landshluta. Á öðrum stöðum er vegarlagning hins vegar auðveld og tiltölulaga ódýr. Lagning vega með varanlegu slitlagi er alla vega dýrari í framkvæmd en lagning malarvega. Hins vegar er rétt að benda á þá staðreynd, að margir vegarkaflar, sem lagðir eru úr möl, eru dýrari á km en lagning varanlegs slitlags við góðar aðstæður.

Ein höfuðröksemd fyrir því, að lagt var veggjald á Reykjanesbraut á sínum tíma, var sú, að hér væri um fjárfreka framkvæmd að ræða og sjálfsagt væri, að þeir, sem ættu þess kost að aka þennan ágæta veg, greiddu hluta af stofnkostnaðinum. En þá vaknar ósjálfrátt sú spurning: Hvenær er einhver vegaframkvæmd það fjárfrek, að það réttlæti sérstakt veggjald? Á hér að miða við heildarkostnað framkvæmdarinnar eða kostnað á km, eða á e. t. v. að miða við heildarkostnað framkvæmdar deilt með fjölda bifreiða, sem aka viðkomandi veg? Síðasta viðmiðunin væri máske sú eðlilegasta. Ef menn geta verið sammála um það, þá er ég sannfærður um, að fjöldamargar vegaframkvæmdir á Íslandi mundu flokkast með Reykjanesbraut í þann hóp vega, sem leggja bæri á umferðargjald. En hvernig fyndist mönnun það að vera gert að greiða umferðargjald, ef þeir ækju um jarðgöng til Siglufjarðar eða fyrirhuguð jarðgöng um Oddsskarð eða ef umferðargjald væri á öllum meiri háttar brúm á landinu? Ef menn vilja hins vegar heldur miða við skilgreininguna á kostnað á km. mætti nefna sem dæmi um veg, sem sjálfsagt væri að leggja á umferðargjald, veginn út frá Reykjavík austur og norður, þ. e. a. s. veginn yfir Elliðaár og upp Elliðaárbrekkuna. En hann mun vera ein langdýrasta vegagerð, sem framkvæmd hefur verið hér á landi, miðað við vegalengd. Mér er til efs, að nokkur sá maður sé til, sem heldur því fram í fullri alvöru, að unnt væri að innheimta sérstakt umferðargjald í Elliðaárbrekkunni.

Hæstv. fyrrv. samgrh., Ingólfur Jónsson, sagði svo í umr. hér á Alþ. 27. okt. 1965, með leyfi forseta:

„Ég geri t. d. ekki ráð fyrir því, að það verði innheimt umferðargjald af jarðgöngunum gegnum Stráka, þegar þau verða tekin í notkun, einfaldlega vegna þess að það borgar sig ekki. Umferðin verður ekki það mikil, að það geti svarað kostnaði:

Ég býst við, að undir þessi ummæli ráðh. getum við öll tekið. Ástæðan fyrir því, að ekki er unnt að innheimta umferðargjald af veginum yfir Elliðaár, er sú, að umferð þar er það mikil, að útilokað er að koma við innheimtu, án þess að það valdi verulegum truflunum á umferðinni.

Ég tel mig með þessum tveimur dæmum hafa sýnt fram á, að umferðargjald verður aldrei unnt að innheimta nema á vegum, þar sem umferð er af ákveðinni stærð. Ef umferðin er lítil, þá borgar innheimtan sig ekki. Þegar umferðin er hins vegar mjög mikil, þá er ekki unnt að koma við innheimtu, án þess að umferðin á viðkomandi stöðum verði fyrir verulegum töfum. En það er nú ekki einu sinni svo, að við getum sett veggjöld á allar kostnaðarsamar vegaframkvæmdir, þar sem umferðarmagnið er af mátulegri stærð. Ef viðkomandi vegur er lagður um þéttbýl svæði mikinn hluta leiðarinnar, þá er það svo, að menn aka mjög mismunandi langt eftir þessum ágæta vegi. Sumir aka kannske nokkur hundruð metra, aðrir nokkra km, en aðrir tugi km. Þá er alveg sama hvar á leiðinni veggjaldið er innheimt, ekki verður komizt hjá misrétti í þeirri innheimtu, þar sem engum dettur í hug, að unnt sé að hafa veggjaldið mismunandi eftir því, hversu langt menn aka eftir veginum. Ef innheimta á veggjald við slíkar aðstæður, munu sumir greiða gjaldið fyrir að fá að aka stuttan spöl eftir veginum, en aðrir fyrir að aka veginn allan. Án þess að hafa gert á því sérstaka athugun, finnst mér líklegt, að þannig hátti til víða, þar sem hugsanlegt er, að lagðir verði dýrir vegir hér á landi á næstu árum. Veggjald verður því aðeins unnt að leggja á þá vegi, þar sem umferð er af ákveðinni stærð og töluverður hluti leiðarinnar liggur um lítt byggð svæði. Þannig háttar einmitt um Reykjanesbraut, og ég hygg, að svo sé einnig um Suðurlandsveg að Selfossi. En ég er næstum viss um, að svo háttar til um fáa vegi, sem lagðir kunna að verða með varanlegu slitlagi hér á landi. Það er því rétt, að menn átti sig á því, hvort eðlilegt sé að viðhalda innheimtu á þann hátt, sem gert hefur verið nú í rúm 6 ár, vitandi það, að slíkur skattur mun aldrei verða lagður nema á lítinn hluta þeirra vega, sem annars þætti eðlilegt að hann næði til.

Algeng röksemd fyrir því, að sjálfsagt sé að innheimta umferðargjald á Reykjanesbraut og öðrum sambærilegum vegum, eins og það er gjarnan orðað, og er þá væntanlega átt við vel byggða vegi með varanlegu slitlagi, er sú, að sjálfsagt sé, að þeir landsmenn, sem búi við þau forréttindi að fá að aka svo góða vegi, eins og það er gjarnan nefnt, meðan aðrir þurfa að hossast á lélegum malarvegum, þeir greiði eitthvað aukalega fyrir þessa sérstöku aðstöðu. Vissulega skal það viðurkennt, að gerólíkt er að aka Reykjanesbraut eða aka lélega, holótta malarvegi. En hitt skulu menn hafa í huga, að víða um landið hafa verið lagðir vegir, sem er sízt verra að aka en steypta, malbikaða eða olíuborna vegi, þó að þeir séu aðeins lagðir úr möl. Þar sem lagðir hafa verið góðir malarvegir, umferð er ekki mjög mikil og viðhald veganna er með eðlilegum hætti, þar er alls ekkert verra að aka en á þeim vegum, sem lagðir eru varanlegu slitlagi.

Ég skal fúslega viðurkenna, að víða um landið eru vegir algerlega óviðunandi, og þeim mönnum, sem búa við lélegustu vegina, er vissulega vorkunn, þó að þeir öfundi Suðurnesjabúa og aðra, sem að einhverju leyti búa við góða vegi. Hins vegar réttlætir það alls ekki, að lagt sé veggjald á einstaka vegi, þar sem fullu réttlæti verður aldrei náð í veggjöldum. Ef nokkurn tíma ætti að vera hægt að ná fullu réttlæti í slíkum gjöldum, værum við fyrr en varði komin með veggjöld um allt land á mismunandi löngum vegaköflum og brúm og mundi enda í hreinu óefni.

Ég vænti þess, að allir hv. alþm. geti sameinazt um, að stefna beri að því að fullkomna vegakerfið á Íslandi. Gerðar hafa verið samgönguáætlanir fyrir einstaka landshluta, og verið er að vinna að því að gera heildaráætlun um nauðsynlegar framkvæmdir í vegagerð fyrir allt landið. Ég teldi mjög heppilegt, ef menn gætu sameinazt um að samþykkja á Alþ. slíka heildaráætlun. Það er þó e. t. v. til of mikils mælzt, að menn geti verið sammála um röð framkvæmda. Um það eru eflaust mjög skiptar skoðanir. Hins vegar komast menn ekki fram hjá því, að slíkar ákvarðanir verður að taka. Ég vildi einnig leyfa mér að vona það, að þm. geti verið sammála um að afnema það óréttlæti, sem nú hefur viðgengizt í meira en 6 ár, að litlum hluta landsmanna er gert að greiða sérstakt veggjald fyrir að aka heiman og heim, einungis vegna þess að sjálfsagt þótti á sínum tíma að leggja varanlegan veg á milli höfuðborgarinnar og eina millilandaflugvallar landsins. Ég hygg, að enginn geti sagt, að lagning Reykjanesbrautar hafi verið óþörf á sínum tíma þrátt fyrir óteljandi önnur verkefni, sem vissulega væri einnig æskilegt, að hefði verið búið að leysa. En er það viðunandi til lengdar, að sérstakt veggjald sé innheimt einungis þar sem þægilegt er að koma því við? Er það eðlilegt, að þeir landsmenn, sem áður bjuggu við verstu vegi að flestra dómi, greiði sérstakt veggjald, einungis vegna þess að sjálfsagt þótti að leggja veg með varanlegu slitlagi í stað þess að fleygja gífurlegum upphæðum á ári hverju í viðhald á gömlum malarvegi? Ég býst ekki við, að nokkrum manni hefði dottið í hug að leggja veggjald á Reykjanesbraut, ef þar hefði aðeins verið lagður malarvegur. En hversu miklar fjárhæðir hafa ekki sparazt við það, að þar var þó á sínum tíma lagður vegur með varanlegu slitlagi?

Að lokum aðeins þetta: Ég vænti þess, að hv. alþm. geri sér grein fyrir því, að með því að leggja á sérstök veggjöld er tekin upp mjög óeðlileg skattlagning, sem getur aldrei verið sanngjörn. Við skulum því afnema þá heimild, sem er í vegalögum til þess að leggja á slík gjöld, nú á þessu þingi og marka þar með skýra stefnu í þessu máli. Ég leyfi mér að vona fastlega, að málið fái skjóta meðferð í n. þeim, sem um það fjalla, og fái lokaafgreiðslu á þessu þingi.

Herra forseti. Ég legg til, að málinu verði að lokinni þessari umr. vísað til 2. umr. og hv. samgmn.