04.11.1971
Sameinað þing: 10. fundur, 92. löggjafarþing.
Sjá dálk 558 í D-deild Alþingistíðinda. (4136)

14. mál, samgönguáætlun Norðurlands

Jóhannes Guðmundsson:

Herra forseti. Þáltill. sú, sem hér er til umr., er áskorun á ríkisstj. um útvegun fjár til samgöngubóta á Norðurlandi. Eins og fram kom í ræðu 1. flm. till., hv. 2. þm. Norðurl, e. Magnúsar Jónssonar, er unnið að samgönguáætlun fyrir Norðurlandsfjórðung hjá Efnahagsstofnuninni. Standa vonir til, að því verki ljúki fyrir næsta vor. Brýn nauðsyn er því að afla nægilegs fjármagns í tíma, svo að framkvæmdir geti hafizt án tafar á næsta sumri. Öllum, sem til þekkja, hvernig ástand vega er víða á Norðurlandi, er ljóst, að það þolir enga bið að gera stórátök í vegaframkvæmdum þar, eigi íbúar þess landshluta að fá þá þjónustu, sem nauðsynleg er talin. Lélegt vegakerfi, sem lokast í fyrstu snjóum og er svo ófært vegna aurbleytu langtímum saman á vorin, skapar svo mikið öryggisleysi á mörgum sviðum, að fólk, sem býr við slíkar aðstæður, hlýtur fyrr eða síðar að leita til þeirra staða, sem betur eru settir í þessum efnum. Að hægt sé að halda uppi greiðum samgöngum innan héraðs og til höfuðstaðarins, Reykjavíkur, er forsenda þess, að héruðin úti á landi geti talizt byggileg og afkomuskilyrði til búskapar og atvinnumöguleikar séu þar sæmilegir, enda byggjast ýmsar atvinnugreinar á því, að samgöngur haldist truflana lítið sem flesta daga ársins. En því miður er langt frá því, að svo sé, a.m.k. þar sem ég þekki bezt til.

Ég vona, að alþm. í Norðurl. v. sé enn í fersku minni útlit og ástand veganna í Húnavatnssýslu á s.l. vori, þegar þeir sem frambjóðendur flokka sinna fóru um sýsluna, fyrir alþingiskosningarnar. Þá lögðust allir þungaflutningar niður um Norðurlandsveg í Húnavatnssýslu um 2—3 vikna skeið, og Hvammstangi, verzlunarstaður V.—Húnvetninga, var jafnlangan tíma nær vegasambandslaus sökum aurbleytu á vegum. Það er ekkert óeðlilegt, þó að illa gangi að halda þessum vegum við, því að langir kaflar í þeim eru 40—50 ára gamlir. Og undirbygging þeirra var alls ekki gerð með það fyrir augum. að jafnþung flutningatæki færu um þá og raun hefur orðið á og fer sífellt vaxandi. Þá liggur einnig það orð á, að viðhald vega í V.—Húnavatnssýslu sé í lágmarki sökum þess, hvað fé til þeirra framkvæmda hefur verið skorið við nögl sér. Það er því engin furða; þótt íbúar þessa héraðs vonist eftir auknum vegabótum á næstunni.

Mikið hefur verið rætt og ritað um það á undanförnum árum, að koma þyrfti á jafnvægi í byggð landsins. Ýmislegt hefur komið fram í umr., sem ekki er til þess fallið að auka á skilning manna, að réttlæti geti talizt, að fjármunum sé varið til þeirra hluta. En fyrrv. ríkisstj. tók upp nýja stefnu í þessu máli, sem verulega þýðingu hefur haft fyrir viðkomandi byggðarlög. Þar á ég við t.d. Vestfjarðaáætlun í samgöngubótum og Norðurlandsáætlun og stofnun Atvinnujöfnunarsjóðs. Í kjölfarið fylgir svo samgönguáætlun fyrir Norðurland, sem Norðlendingar binda miklar vonir við, svo framarlega sem fjármagn fæst til þeirra framkvæmda, sem sú áætlun kemur til með að gera ráð fyrir.

Aðstaða til menntunar barna og unglinga í sveitum landsins hefur verið mjög bágborin, en hefur þó tekið stórfelldum framförum s.l. áratug. Sveitahrepparnir hafa víða sameinazt um byggingu heimavistarskóla fyrir börn og unglinga á skyldunámsstigi, en því held ég, að stefna þessi hafi ekki að öllu leyti verið rétt. Með því að verja því fjármagni til vegabóta, sem til heimavistanna við skóla þessa hefur farið, hefði mátt stórbæta vegakerfið á viðkomandi stöðum, og um leið hefði fengizt aðstaða til að flytja börnin daglega milli heimila og skóla í stað þess að hafa þau mánuðum saman og ár eftir ár fjarri heimilum sínum. En meðan vegakerfið er ekki betra er ekki um annað að ræða.

Læknaskortur í strjálbýli er vel þekkt dagskrármál hér á landi um þessar mundir og raunar búið að vera áhyggjuefni mörgum, sem búa úti á landsbyggðinni og hafa átt við það að stríða. Eygðir hafa verið þeir möguleikar til lausnar þessu vandamáli, þ.e. að fá lækna til að setjast að úti á landsbyggðinni, að koma upp svonefndum læknamiðstöðvum. Er þá gert ráð fyrir stækkun læknishéraða með fleiri lækna starfandi á sama stað. Til þess að ráðstafanir sem þessar komi að gagni þeim héruðum, sem verst eru sett með læknaþjónustu, verður að stórbæta samgöngukerfið á viðkomandi stöðum, ekki aðeins vegina, heldur einnig að gera íbúum þessara héraða kleift að nota flugvélar að og frá læknamiðstöðvunum, þegar vegir teppast. Ég er þess fullviss, að á meðan samgöngukerfið er í jafnslöku lagi og nú er víða, þá fæst engin viðunandi lausn á þessu mikla vandamáli. Það er ekki nóg að vita af 2—3 læknum á Hvammstanga og 3–4 á Húsavík, ef viðkomandi læknishéruð sjá enga möguleika til að nálgast læknana vegna erfiðra samgangna.

Herra forseti. Ég hef viljað með þessum orðum benda á það, hve öruggar og greiðar samgöngur úti á landsbyggðinni hafa mikla þýðingu fyrir það fólk, sem þar býr. Aðallega hef ég nefnt þau dæmi, sem snerta hin félagslegu vandamál íbúanna. Öllum er það löngu ljóst, að til þess að atvinnulíf sé í lagi og framleiðsluvörur komist á markað, þarf tryggar og góðar samgöngur, enda eru mörg dæmi þess, að ekkert hefur verið til þess sparað að byggja varanlega vegi, þar sem þannig hefur staðið á. Hitt hefur frekar gleymzt, að maðurinn lifir ekki á einu saman brauði. Því hafa þeir landshlutar orðið út undan hvað samgöngur snertir, sem hafa haft möguleika á að koma framleiðsluvörum sínum á markaðsstaði sjóleiðina eða þá þann tíma ársins, sem allir vegir eru taldir færir, hversu erfiðir sem þeir eru í eðli sínu. Þess vegna er því mjög fagnað norðanlands, að unnið skuli vera að gerð samgönguáætlunar fyrir Norðlendingafjórðung. Fólk norðan heiðar fylgist einnig vel með því, hver viðbrögð hæstv. ríkisstj. og alþm, verða við þeirri málaleitun, sem þáltill. sú, sem hér er til umr. felur í sér. Við Norðlendingar höfum enga ástæðu til þess að ætla, að samgönguvandamál okkar verði ekki leyst á farsælan hátt, því eins og ég hef áður sagt, eru bættar samgöngur forsenda þess, að önnur mikilvæg mál fái farsæl endalok.