31.01.1973
Efri deild: 51. fundur, 93. löggjafarþing.
Sjá dálk 1767 í B-deild Alþingistíðinda. (1380)

29. mál, rannsóknir í þágu atvinnuveganna

Hannes Baldvinsson:

Herra forseti. Ég kem hér sem nýr aðili að þessum umr., og kann því málflutningur minn að bera nokkurn keim af því. Ég vil þó nota þetta tækifæri, sem mér gefst hér, til að lýsa yfir stuðningi við þá meginhugmynd, sem býr að baki þessa frv., sem hér liggur fyrir til umr. Þörfin á því að starfrækja slíkar rannsóknastofur víðar um landið en í Reykjavík einni liggur nú þegar ljóst fyrir og á vafalaust eftir að aukast í náinni framtíð. Ég vil þó taka fram til að fyrirbyggja allan misskilning, að samstarf milli rannsóknastofnunarinnar hér í Reykjavík og framleiðenda úti um land hefur verið með miklum ágætum og að rannsóknastofnunin hefur innt af höndum ómetanlegt starf í þágu fiskiðnaðarins í landinu. En hitt ber einnig að hafa í huga, að samgönguerfiðleikar og ýmis tæknileg vandamál við töku og sendingu sýna o.fl. atriði hafa leitt í ljós þörfina á starfrækslu lítilla rannsóknastofa í námunda við helztu framleiðslustaði.

Ég tel það til stórra bóta, að úr frv., eins og það var fyrst flutt hér á Alþ., hafa verið felld ákvæði um ákveðna staði, þar sem slíkar rannsóknastofur skyldu starfræktar, og er þar af leiðandi mótfallinn þeirri brtt. við frv., sem hér liggur jafnframt fyrir til umr., ekki vegna þess, að ég telji ekki fullkomna þörf á því að starfrækja rannsóknastofur á báðum þeim stöðum, enda var þegar hafinn rekstur rannsóknastofu í Vestmannaeyjum með mjög góðum árangri, og ég dreg ekki í efa, að hún muni taka til starfa samtímis því, að framleiðslustöðvar í Eyjum hefji starfrækslu að nýju, heldur vegna hins, að ég lít svo á, að upptalning ákveðinna staða í þessu frv, eigi annaðhvort að vera tæmandi eða engin, og er því fyllilega sammála hv. 3. Austf., sem hér talaði á undan.

Ég vil jafnframt nota þetta tækifæri til að benda á, að ég tel þá skiptingu landsins í fjórðunga í hagsmunalegu tilliti, sem fram kemur í frv., algjörlega úrelta, en sé þó ekki ástæðu til að flytja brtt. þar að lútandi, þar sem orðalag frv. heldur fleiri möguleikum opnum. Þróun mála undanfarin ár hefur leitt í ljós, að kjördæmin í núverandi mynd skapa mun heppilegri skiptingu í hagsmunaheildir en gamla landsfjórðungaskiptingin, og þar sem landsfjórðungaskiptingin helzt enn, eins og t.d. hjá samtökum sveitarfélaga á Norðurlandi, gerast raddir æ háværari um nauðsyn skiptingar eftir kjördæmum, og sú mun verða þróunin í framtíðinni.

Ég vil að lokum í sambandi við almennar umr. um þetta frv. leyfa mér að benda á, að Síldarverksmiðjur ríkisins eiga á Siglufirði ágæta rannsóknastofu, sem þar var starfrækt í sambandi við síldariðnaðinn. Hún hefur af skiljanlegum ástæðum ekki verið í notkun nú um nokkurt árabil, en húsnæði og tækjabúnaður þessarar stofu gæti orðið góður grundvöllur að rekstri rannsóknarstofu í því formi, sem ráðgert er í frv. Á Siglufirði eru starfræktar 2 lagmetisiðjur og 2 frystihús, og undirbúningur er hafinn að byggingu á stóru og fullkomnu fiskiðjuveri, auk smærri framleiðenda, sem þar starfa, svo að þörfin fyrir starfrækslu rannsóknastofu í því formi, sem hér um ræðir, virðist vera fyrir hendi þar í ríkari mæli en víða annars staðar. Auk þess liggur fyrir Alþ. frv. um stofnun fiskiðnskóla á Siglufirði, sem vonandi nær fram að ganga. Þegar eru allar þær fosendur, sem frv. gerir ráð fyrir vegna starfrækslu slíkrar rannsóknastofu, fyrir hendi á Siglufirði, en ég dreg hins vegar ekki í efa, að svo kunni að vera víða annars staðar á landinu.

Í trausti þess, að sanngirnissjónarmið og rétt mat á öllum kringumstæðum verði látin ráða, þegar endanleg ákvörðun verður tekin um staði fyrir þessar rannsóknastofur, mun ég greiða þessu frv. atkv. mitt í þeirri mynd, sem það liggur fyrir.