28.02.1973
Neðri deild: 58. fundur, 93. löggjafarþing.
Sjá dálk 2205 í B-deild Alþingistíðinda. (1735)

146. mál, skólakerfi

Karvel Pálmason:

Herra forseti. Það væri vissulega ástæða til, þegar rætt er um svo yfirgripsmikið og fjölþætt mál sem hér er til umr., að eyða alllöngum tíma í að ræða það. Ég ætla þó ekki að þessu sinni að vera langorður um þetta mál, en vil samt þegar við 1. umr. víkja aðeins örfáum orðum að því og þó sérstaklega að tveimur atriðum þess.

Það er vissulega rétt, sem hér hefur verið sagt, að ég held af flestum hv. þm., sem til máls hafa tekið, að þetta mál er yfirgripsmikið og víðtækt. Skóla- og fræðslumál eru kannske sá málaflokkur, sem snertir hvað mest hvern og einn þjóðfélagsþegn hjá hverri einustu fjölskyldu í þessu landi, og það er því ekki lítils um vert, þegar fjallað er um slíkt mál og löggjöf sett, að vel sé til þess vandað og málið unnið eins og bezt verður á kosið. Ég held, að um undirbúning þessa máls megi segja, að hann hafi verið til fyrirmyndar. En þótt svo hafi verið, að málið sé vel í hendur Alþ. búið, held ég og vil undirstrika það, að það er síður en svo, að málið þurfi ekki að fá vandlega skoðun og meðferð hér í þinginu. Það má sjálfsagt alltaf um það deila, hvort nægilega hafi verið tekið tillit til sjónarmiða og reynslu þeirra manna utan þéttbýlissvæðanna, sem þessum málum eru gjörkunnugir. Ég er þeirrar skoðunar, að það sé því miður of lítið að því gert að hafa einmitt þessa aðila með allt frá byrjun, þannig að fullt tillit sé tekið til sjónarmiða og staðreynda að því er varðar staðhætti utan Reykjavíkursvæðisins allt frá byrjun. Það á ekki við um þetta mál eingöngu, það á við miklu víðar.

Ég hef lengi verið þeirrar skoðunar, að gerbreyta þyrfti fræðslukerfinu í landinu á þann veg, að það sé sem samrýmanlegast þörfum þjóðarinnar og þeim atvinnuháttum, sem við búum við, þ. e. að verkleg menntun í þágu atvinnuveganna í landinu væri aukin. Þó að þetta frv., sem hér liggur fyrir, sé ekki nein gerbylting að því er varðar skólakerfið, er þó, að ég held, flest af því, sem þar er, til bóta og margt mjög verulega. Þar má t. d. nefna dreifingu valdsins út í héruðin með tilkomu fræðsluskrifstofa og sérfræðiþjónustu og fræðslustjóra, sem ég held, að sé í raun og veru fyrsta raunhæfa skrefið, sem stigið hefur verið í þá átt að færa út frá höfuðborgarsvæðinu til landsbyggðarinnar hið raunverulega vald og stjórnunarkerfi, og færi betur, að fleiri skref lík því fylgdu á eftir. Einnig mætti nefna rétt hinna smærri skóla, sem aukinn er með breyttum útreikningi skólakostnaðar, svo og að ráð er fyrir því gert, að ríkið greiði jafnóðum mánaðarlega sinn hluta af skólakostnaði, sem ekki hefur áður verið. Margt fleira mætti auðvitað nefna, en ég sleppi því að sinni.

Aðalerindi mitt hér í ræðustól var að gera að umtalsefni tvö atriði þessa frv., eins og ég sagði áðan, þ. e. lengingu skólaskyldu um eitt ár frá því, sem nú er, og árlega lengingu skólahaldsins. Mér er það mjög til efs, að stefnt sé í rétta átt með lengingu skólaskyldu. Námsleiði er þekkt orð og því miður verður kannske námsleiða vart í æ ríkara mæli. Það er vitað, að nokkur hluti nemenda, sem nú er skyldaður til skólagöngu í 8 ár, er af mismunandi ástæðum þess vanmegnugur að inna af hendi þá skyldu. Það er enginn vafi á því, að margir einstaklingar hafa beðið og bíða tjón bæði á sál og líkama af því að vera neyddir til að stunda nám svo og svo lengi, burtséð frá hæfni þeirra og getu til námsins.

Hv. 8. landsk. þm. sagði hér áðan, að það væri liðin rómantík, að unglingar ættu þess kost að fara, eins og hann orðaði það, að ég held, út í sveitir og athafnalífið. Ég er ekki sammála þessum hv. þm. um þetta. Það má vera, að þetta sé liðin tíð hér á þéttbýlissvæðinu. En þetta er ekki liðin tíð í sveitum og í sjávarþorpum víðs vegar í kringum landið. Þar helzt enn sú rómantík, ef rómantík skyldi kalla, að æskufólk, unglingar allt frá 13 ára aldri, eigi þess kost að vera í nánum tengslum og náinni snertingu við það athafnalíf, sem er í kringum það, og það umhverfi og líf, sem það hrærist í hverju sinni.

Lenging skólaskyldu er, að því er ég bezt fæ séð, fyrst og fremst studd þeim rökum, að hingað til hafi um 82% nemenda á aldrinum 15–16 ára, þ. e. a. s. eftir að núverandi skólaskyldu 1ýkur, haldið áfram námi. Í mínum huga eru þetta ekki nægilega sterk rök til þess, að nú eigi að lengja skólaskyldu um eitt ár. Ég held nefnilega, að stór hluti þessara 82% nemenda haldi ekki áfram námi vegna námslöngunar, heldur vegna hins, og þar komum við aftur að hinni rómantísku hlið málsins, sem hv. 8. landsk. þm. talaði um, að hér á þéttbýlissvæðinu er í langflestum tilfellum ekki í annað hús að venda fyrir þennan aldursflokk en að fara í 3. bekk gagnfræðastigsins. Þessu er oft á annan veg farið í dreifbýlinu. Þar eru unglingar á þessu aldursskeiði í miklu meiri og nánari tengslum við atvinnulífið.

Og þá kem ég að síðara atriðinu, þ, e. lengingu árlegs skólatíma. Ég er einnig mjög efins um það, að árleg lenging skólatíma í 9 mánuði stefni í rétta átt. Ég held, að það sé enginn vafi á því, að slíkt orkar enn meira til aukins námsleiða. Þó að nám sé að mínu mati gott og nauðsynlegt, er hitt eigi síður nauðsyn, að hver og einn eigi þess kost að vera í sem nánustum tengslum við það umhverfi, sem hann lifir og hrærist í, ekki þó sízt atvinnulífið í hinum ýmsu myndum þess.

Niðurstaða mín um þessi tvö atriði, þ. e. lengingu skólaskyldunnar um eitt ár og árlega lengingu skólahaldsins, er því neikvæð. En hvað sem þessu líður, er rétt að hafa í huga, að löggjöfin sem slík sker ekki úr um það, hvernig til tekst. Það fer fyrst og fremst eftir því, hvernig til tekst hjá þeim, sem koma til með að framkvæma löggjöfina, framkvæma starfið. En verði þetta frv. grundvöllur að aukinni og hagnýtri menntun, menntun, sem ekki er svo til eingöngu miðuð við bóklegt nám, þá er vel. Hjá þjóð sem okkur Íslendingum, sem erum aðeins um 200 þús. manns, hlýtur það að vera takmörkunum háð, hversu miklum fjármunum þjóðin hefur efni á að ráðstafa til þessa. Það er því ekki lítils um vert, að fræðslukerfið sé sniðið og mótað þannig, að það sé sem samrýmanlegast þörfum þjóðarinnar og þeim atvinnuháttum, sem þjóðin býr við. Það ber því að mínu viti tvímælalaust að stefna að aukinni verkmenntun meðal þjóðarinnar, menntun, sem hingað til hefur að allt of miklu leyti verið vanrækt.

Ég sagði áðan, að ég skyldi ekki verða langorður um þetta mál. Ég er þeirrar skoðunar, eins og ég hef áður lýst, að margt eða allflest af því, sem frv. hefur fram að færa, stefni að mínu viti í rétta átt. En ég dreg mjög í efa, vægast sagt, að lenging skólaskyldu og árleg lenging skólahalds sé það, sem við þurfum fyrst og fremst á að halda á þessum tíma. Ég mælist eindregið til þess, að þau tvö atriði verði vel skoðuð, áður en málið verður endanlega afgreitt hér í þinginu.