06.12.1973
Sameinað þing: 31. fundur, 94. löggjafarþing.
Sjá dálk 1114 í B-deild Alþingistíðinda. (1014)

41. mál, fjárreiður stjórnmálaflokka

Magnús Jónsson:

Herra forseti. Það var nú ýmislegt næsta broslegt í ræðu hv. þm., sem hér var að ljúka máli sínu, 4. þm. Norðl. v., og ekki trútt um, að manni dytti stundum í hug, að hann ætti í nokkru sálarstríði út af því, sem hann var að ræða um. Ég get hins vegar vel sagt honum það, vegna þess að honum var mjög annt um eina veislu hér í borg, að ég skal gjarnan hlutast til um það, að honum verði boðið þangað, ef hann langar til að líta þar inn. (RA: Það fylgir því skilyrði.) Það fylgir því ekki skilyrði. Það er a. m. k. mjög kyndug röksemdafærsla hv. þm. fyrir þessari veislu, því að annars vegar var hann að tala um, hvernig stæði á því, að eitthvað kostaði þessi veisla og væri verið að leggja fram þetta fé til þess að bjóða þessum hóp manna í veislu, og svo hins vegar var niðurstaðan sú, hvað það væri, sem þessir menn væru að þakka fyrir með því að koma í veisluna. Ég skil ekki almennilega samhengið í þessu. Annars vegar var flokkurinn að þakka fyrir og svo voru þeir að þakka fyrir. Þetta er náttúrlega ágætt, þegar kemur gagnkvæmt þakklæti. Það er alveg rétt, ég er ekki að neita því, að það er haldið smáboð, og er engin leynd yfir því, og fulltrúar frá flokki hv. þm. mega fúslega, ef þeir vilja, fylgjast með því, hverjir sækja þessa veislu, ef þeim er einhver gleði að því. En ég hefði nú haldið, að þetta væri tiltölulega meinlaust og þyrfti ekki að sýna neina spillingu í neinum flokki, þótt slíkt væri gert. En hvað um það, menn hafa mismunandi skoðanir á því, og er ekkert um það að segja. Ég lít hins vegar ekki á þetta sem hina alvarlegri hlið þessa máls, sem hér er um að ræða, og sennilega hefur nú hv. þm. ekki heldur meint það.

Ég er fús til að ræða efnislega þetta mál, sem hér liggur fyrir. Því miður er formaður Sjálfstfl., sem hann sérstaklega vék máli sínu að, ekki staddur hér nú, og ég get að sjálfsögðu ekki farið að gerast hér einhver útskýrandi á skoðunum, sem hann kann að hafa á þessu máli, umfram það, sem öllum er ljóst og komið hefur fram. Ég ætla ekki heldur að fara sérstaklega að útskýra leiðara eða Reykjavíkurbréf Morgunblaðsins. Ég býst við, að þeir Morgunblaðsmenn fylgist með því, sem hér hefur verið sagt í dag af hv. þm., og væntanlega fær hann næstu daga eitthvað svar úr þeirri átt. Þeir eru alveg færir um það, Morgunblaðsritstjórar, að svara fyrir sig, þannig að ég læt það líka lönd og leið í máli mínu hér. Hins vegar skal ég fúslega ræða efnislega það mál, sem er hér til meðferðar, hvort setja beri ákveðnar reglur um fjárreiður stjórnmálaflokka og eftirlit með þeim.

Ég skal taka það fram strax, að Sjálfstfl. hefur ekkert á móti því, að slík löggjöf verði sett. Það er hins vegar mikil spurning, hvernig sú löggjöf á að vera, og sjálfstæðismenn hafa ekkert á móti því að athuga þá till., sem hér liggur fyrir. En eins og hún var, áður en hv. þm. útskýrði hana, var hún auðvitað fjarri öllu lagi, að fela ríkisstj. að fara að setja löggjöf um þessi efni.

Það er að sjálfsögðu eðlilegt, að um þetta mál verði rætt án skætings eða vonsku út af einhverjum ásökunum, sem fram kunna að hafa komið á hendur einum eða öðrum um það, hvernig eigi að haga starfsemi stjórnmálaflokkanna fjárhagslega séð. Ég hygg því, að það ætti ekki að þurfa að vera neitt vandamál að fá samkomulag um að setja þn. eða n. flokkanna til þess að íhuga þetta mál. kynna sér löggjöf um það í öðrum löndum og gera sér grein fyrir því, hvað eðlilegt væri, að í slíkri löggjöf væri, og hvaða reglur hér ættu að koma til greina. Það er til svona löggjöf í ýmsum löndum. Hins vegar hygg ég, að hún takist mjög misjafnlega í framkvæmd. Þar sem hann minntist á Bandaríkin í því efni, meira sem gamanmál, þá held ég, að sannleikur málsins þar sé sá, að þessi löggjöf hafi reynst mjög erfið í framkvæmd og ýmsar krókaleiðir séu til þess að komast fram hjá henni og sannast sagna ýmislegt í henni þar í landi harla hæpið. En það breytir ekki því, að það má vel hugsa sér, að slík löggjöf verði sett, og ég tel sjálfsagt, að athugað verði í þeirri n., sem fær þessa till. til meðferðar, hvort flokkarnir geta orðið sammála um það, hvernig hún skuli sett á laggirnar.

Ég tel það fjarri öllu lagi, að ríkisstj, verði falið að undirbúa slíka löggjöf. Það er óþinglegt með öllu og eðlilegt, að þingflokkarnir sjálfir eða stjórnmálaflokkarnir sem slíkir eigi þar alla aðild að, hverjir svo sem eru í ríkisstj. Enda skildist mér nú á hv. þm., að hann að vísu vildi hafa þetta form, að ríkisstj. undirbyggi það, en það væri þó í huga hans, að allir flokkar ættu að eiga sæti í þeirri n., sem þetta annaðist. Og ég held, að það sé eðlilegast, að Alþ. sjálft ákveði þá um slíka n., ef til kemur.

Ég tel ákaflega hæpinn fyrri lið þessarar till. Ég held, að það ætti að snúa þessari till. við a. m. k. Ég get ekki séð, hvaða grundvöllur er undir því, að Alþ. fari að ákveða opinbera rannsókn í máli sem þessu. Vafalaust geta þeir flokkar, sem hér er bent á, farið í mál eftir eðlilegum hætti og að gildandi lögum, ef þeir telja að sér vikið í þessari blaðagrein, og venjulegt meiðyrðamál, ef þeir vilja. Ef þeir telja, að æra sín sé skert með þessum ásökunum, þá geta þeir gert það. En ég man a. m. k. ekki dæmi þess, að það hafi verið ákveðin slík rannsókn sem hér getur, án þess að það séu nokkur lög fyrir hendi áður um það, hvað sé eðlileg starfsemi stjórnmálaflokka. Ég held, að þessi rannsókn verði að byggjast á einhverjum lögum, og ég held, að jafnvel þó að tiltekinn flokkur sé talinn eiga hér margar eignir, þá efast ég um, að það sé út af fyrir sig nokkuð saknæmt, þannig að það réttlæti það, að Alþ. heimti rannsókn á því, hverjar þessar eignir séu eða hverjir leggi fé til flokka, meðan ekki er neitt bann við því, að menn leggi fé til flokka. Ég veit ekki, hvernig á að rökstyðja slíka rannsókn. Ég tala nú ekki um erfiðleikana á mörgu í slíkri rannsókn. Ég á þar ekki síst við flokk hv. þm., að það getur veist erfitt að rannsaka sumt, sem er borið fram, a. m. k. í þessari Morgunhlaðsgrein, um einhverjar dularfullar leiðir. Ég er ekki alveg viss um, að þeir aðilar, sem væru á endastöðinni hinum megin á þeirri leið, væru fúsir til þess að gefa slíkar upplýsingar eða jafnvel íslensk þingnefnd fengi þær, þó að væri óskað eftir þeim upplýsingum.

Ég skal svo ekki fara lengra út í þá sálma, en ég held, að við hljótum öll að geta verið sammála um, að þetta er að fara aftan að hlutunum. Fyrst er að setja löggjöf um það, hvað sé eðlilegt, að stjórnmálaflokkar megi gera, og hvernig þeir megi haga sínum fjárreiðum, en ekki byrja á að hefja opinbera rannsókn á því, sem enginn getur fullyrt um, að sé á neinn hátt saknæmt. Það held ég, að geti ekki þjónað neinu og vafasamt, að Alþ. geti fyrirskipað slíka rannsókn.

Það sem sagt er niðurstaða mín í þessu efni, að ég sé ekkert athugavert við það og tel æskilegt, eins og kemur raunar fram í þessum margumtalaða leiðara eða Reykjavíkurbréfi Morgunblaðsins, að það verði leitað eftir því að setja ákveðnar reglur um það, hvernig hagað skuli fjárreiðum stjórnmálaflokka. Þetta er ekki síst nauðsynlegt fyrir þá sök, sem hv. flm. þessarar till. vék hér að áðan, að hið opinbera er farið að hefja margvíslega aðstoð við stjórnmálaflokkana og það í vaxandi mæli, án þess að til séu um það nokkrar ákveðnar reglur. Og það eru ekki í rauninni heldur neinar ákveðnar reglur til um það, hvað skuli teljast stjórnmálaflokkur í þessu sambandi. Um þetta er auðvitað alveg óumflýjanlegt að setja reglur. Hér erum við nefnilega komnir inn á þá braut, sem er alveg ný, að hið opinbera styrki eftir ýmsum leiðum, annars vegar með blaðakaupum, sem er mál út af fyrir sig, að Alþ. eða ríkið eigi að kaupa blöð til þess að geta haldið þeim lifandi, þótt enginn vilji vera raunverulegur kaupandi þeirra með frjálsum hætti. Það er mál út af fyrir sig, sem mér hefur alltaf fundist harla kynlegt, en sleppum því. Þetta hefur verið gert, og það er komið sem komið er. En að það sé eðlilegri ráðstöfun á fé almennings heldur en sú leið, að fólk megi leggja fé til sinna flokka eða stjórnmálasamtaka, það fæ ég ekki séð.

Það hefur hingað til tíðkast með þeim hætti, að áhugamenn innan hinna ýmsu flokka hafa haldið starfsemi þeirra uppi, og ég held, að eins og sakir standa í dag, sé fjarri lagi að halda, að það liggi í augum uppi, að einn tiltekinn flokkur hafi hér miklu betri aðstöðu í reynd heldur en aðrir flokkar. Það er að vísu stærsti flokkurinn, sem hér er talað um, og ég skal játa og tel það enga skömm, að það er mikill fjöldi manna, sem vill gjarnan styðja þann flokk með fjárútlátum. Ég efast ekkert um, að fólk í öðrum flokkum hefur hingað til einnig stutt sína flokka með framlögum, og ég læt alveg ósagt, hver hefur borgað stærstu framlögin til hvaða flokks, ég ætla ekki að vera með neinar aðdróttanir um það. En ég er ekki alveg viss um, að stærstu upphæðirnar í þessu séu, eins og hv. þm. vildi gefa í skyn, í flokkssjóði Sjálfstfl. Það leyfi ég mér að efast stórkostlega um, án þess að vera með nokkrar aðdróttanir í því efni. Og það er vissulega svo, held ég, í dag, að því fer víðs fjarri, að það sé Sjálfstfl., sem búi miklum mun betur varðandi fjárhagslega afkomu heldur en aðrir flokkar í þjóðfélaginu. Og ég vísa alveg frá sem ósæmilegum staðhæfingum orðum hv. ræðumanns um það efni, að þar sé haldið uppi starfsemi með einhverjum alveg óeðlilegum fjárútlátum og ósæmilegum. Þó að honum virtist það hlægilegt og fjarstætt, þá veit ég ekki, hvort það er svo óskaplega fjarstætt að leyfa mönnum að greiða til stjórnmálaflokka innan vissra marka framlög, sem væru undanþegin skatti. Það held ég, að hljómi einkennilega, að telja stjórnmálaflokka mannúðarsamtök. En þó veit ég ekki, hvort það er fjær lagi en um mörg þau samtök, sem njóta slíkra fríðinda. Auðvitað eru það óbein ríkisframlög, sem í þessu mundu felast. En það mundi þá koma á daginn líka, hvað fólk vill á sig leggja fyrir sinn flokk.

Ég veit ekki, hvort það er sjálfsagt, að menn geti bara með því að mynda flokk eftir mjög óljósum reglum eða reyndar engum reglum, þá geti þeir labbað upp í fjmrn. og sagt: Nú vil ég fá peninga, ég er flokkur, — og þá eigi þessi aðili að eiga rétt á því að fá svo og svo stórar summur úr ríkissjóði, þó að það sé kannske ekki vitað, að nokkur maður vilji nokkurn tíma hafa neitt með þennan flokk gera. Ég veit ekki, hvort þetta er nokkuð eðlilegri máti en hitt, sem hv. þm. fannst fjarstætt með öllu, að orða þá bugmynd, að menn mættu að vissu marki leggja fram fé til síns flokks, hver sem hann væri, og fengju jafnvel að draga það frá skatti upp að því marki, sem heimilt er að gera í framlögum til vissra samtaka, sem viðurkennt er í þjóðfélaginu, að megi njóta slíkra fríðinda. Ég leyfi mér að efast um, að það sé nokkuð lýðræðislegri aðferð heldur en að treysta á það, að flokkarnir eigi slíkt fylgi meðal almennings og slíka fórnarlund hjá sinum flokksmönnum, að þeir geti byggt að verulegu leyti starf sitt á því. Ég minnist þess a. m. k., að í blaði hv. þm. hefur oft verið talað um þá ríku og sterku fórnarlund, sem ríkti í röðum þeirra Alþb.- manna og gerði þeim kleift að halda úti myndarlegu málgagni. Ég læt ósagt um starfsmannafjöldann, — hann hefur verið fenginn með ýmsum hætti, og hvaðan starfsmennirnir eru komnir, sem vinna fyrir flokkinn. En út í þá sálma skal ég ekki fara. Ég held, að það yrði jafnan erfitt, þó að löggjöf verði sett, að girða fyrir það, að menn, sem eiga að vinna að öðrum málum, vinni fyrir flokka aðallega.

Ég skal ekki orðlengja, herra forseti, meira um þetta mál á þessu stigi. Eins og ég sagði, ætla ég ekki að fara út í neitt orðaskak í sambandi við fullyrðingar, sem hafa komið í blöðum um þessi efni, og læt blöðin um að kljást um það og þ. á m. Morgunblaðið um að svara því, sem hv. þm. hefur hér kastað fram til svars Reykjavíkurbréfi þess blaðs. En aðeins að lokum endurtek ég það, sem ég áðan sagði: Það er nauðsynlegt að setja fastar reglur um aðstoð ríkisins við stjórnmálaflokkana, úr því að sú aðstoð er hafin, og með hvaða hætti hún eigi að vera, og ég tel einnig sjálfsagt, að það sé athugað af fullkominni alvöru og málefnalega, hvort ekki sé rétt að setja almennar reglur um fjárreiður stjórnmálaflokka. Verði það niðurstaðan við athugun á þessari till., að það sé talið eðlilegt, þá tel ég sjálfsagt, að það gerist með þeim hætti, að stjórnmálaflokkarnir setji n. í það mál, annaðhvort með frjálsu samkomulagi eða þá með einhverri formlegri ályktun héðan frá Alþ., en ríkisstj. sé ekki falið það, hver sem hún kann að vera. Að lokum tel ég, að leið um opinbera rannsókn á fjárreiðum og eignum stjórnmálaflokka sé mjög óeðlileg, mjög hæpið, að hún fái staðist, áður en fyrir liggur einhver löggjöf, sem hægt væri að byggja á í sambandi við þá athugun.