13.02.1975
Efri deild: 45. fundur, 96. löggjafarþing.
Sjá dálk 1818 í B-deild Alþingistíðinda. (1459)

159. mál, ráðstafanir vegna breytingar á gengi íslenskrar krónu

Frsm. meiri hl. (Halldór Ásgrímsson):

Herra forseti. Fjh: og viðskn. hefur rætt þetta frv. á fundum sínum í dag, fyrst á fundi í morgun ásamt fjh.- og viðskn. Nd. Á þeim fundi mættu bankastjórar Seðlabankans og forstjóri Þjóðhagsstofnunar og svöruðu þeir fsp. og veittu ýmsar upplýsingar. Nm. hafa ekki orðið sammála um afgreiðslu málsins. Meiri hl. n. leggur til að frv. verði samþ. óbreytt, en minni hl. skilar sérálitum.

Þetta frv. er í sjálfu sér svipaðs eðlis og önnur frv. sem hafa komið í kjölfar ákvörðunar um gengisfellingu, og þetta frv. er því afleiðing þeirrar gengisfellingar sem Seðlabankinn hefur ákveðið í samráði við ríkisstj.

Sú gengisfelling, sem nú hefur verið ákveðin, er allt annað en gleðileg, ekki síst fyrir þá menn sem trúa ekki á mátt hennar og þeir eru margir og ég er þar engin undantekning. Þau áhrif, sem gengisfelling hefur í för með sér, eru í sjálfu sér samfélagslegt böl. Sú gífurlega eignaskipting, sem þá verður, er slík að allir hljóta að vera andstæðir slíku.

En þá má kannske spyrja: Hver er þá ástæðan til þess að gengið er nú fellt? Það má segja að gengisfelling orsakist í fortíðinni. Íslenskt hagkerfi er háð gífurlega miklum sveiflum. Þannig eru nú viðskiptakjör þjóðarinnar 1/4 lakari að meðaltali en var 1973, viðskiptakjör sjávarútvegs eru mun verri og á sama tíma hefur kostnaðarstig innanlands hækkað. Viðskiptakjör eru nú svipuð og þau voru 1970, viðskiptastaðan er 10 –15% lakari nú en hún var s.l. haust.

Það er alveg ljóst að íslenskt hagstjórnarkerfi hefur ekki ráðið við þessar sveiflur, og það eru þess vegna fyrst og fremst veilur í hagstjórnartækjum sem hafa orsakað þessa gengisfellingu. Þannig stöndum við nú í þessum vanda fyrst og fremst vegna þess og það hlýtur að verða að viðurkennast að við höfum ekki ráðið við þessar sveiflur. Við náum ekki saman endum. Gengissig var framan af árinu 1974 15%, síðan kom 17% gengisfelling og nú 20% gengisfelling.

Mönnum hefur lengi verið ljóst að miklar veilur eru í íslensku hagstjórnarkerfi. Því miður hefur ekki tekist að lagfæra þessar veilur, og það eru ýmsir sem eiga sök í þessu máli og ekki síst hv. Alþ. Það hefur aldrei tekist um það samstaða að taka nægilega á til að lagfæra þessar veilur, og og þar er ekki rétt að undanskilja neinn stjórnmálaflokk. Allir eiga þarna nokkra sök og einnig ýmsir aðrir utan þessarar stofnunar. Það hlýtur að verða hlutverk þessarar ríkisstj., eins og reyndar margra annarra, að lagfæra þessar veilur. En mér er það fullkomlega ljóst að hér er ekki um létt verk að ræða og það þarf áreiðanlega bæði mikið þol og mikinn skilning til þess að gera það.

Ég ætla ekki að ræða í sjálfu sér þessar veilur. Það er í sjálfu sér enginn sem hefur algert yfirlit yfir þær. — Það er hins vegar alveg ljóst að það þarf að breyta mörgu í ríkisrekstrinum. Þar þarf miklu meira aðhald. Og það er ekki nóg, þegar talað er um að lækka ríkisútgjöldin, að það skuli fyrst og fremst gert með því að skera niður framkvæmdir.

Það hefur því miður skort skilning margra á því hversu mikilvægar ýmsar eftirlitsstofnanir eru í þjóðfélaginu. Það þurfti margra ára baráttu, vil ég segja, til þess að koma á fót rannsóknadeild ríkisskattstjóra eða skattalögreglu og sú stofnun hefur í raun aldrei fengið nægilega aðstöðu til þess að sinna sínu hlutverki. En það er alveg ljóst að sú stofnun hefur skilað margfalt til baka því fjármagni sem hefur verið til hennar lagt. Það má kannske svipaða sögu segja um stofnun sem heitir Ríkisendurskoðun. Að mínum dómi á þessi stofnun að skila til okkar alþm. skýrslu um ríkisreksturinn á hverju ári. Og það er ekki nóg að þar sé eingöngu um tölulega endurskoðun að ræða heldur á hún að fylgjast með stjórnun ríkisstofnana og leggja á það mat hversu vel er farið þar með fjármagn. Þetta hafa margar aðrar þjóðir gert, m.a. svíar með mjög miklum árangri. Ríkisendurskoðun þeirra er hlutlaus aðili sem skilar þinginu skýrslu árlega um starfsemi og rekstur ýmissa ríkisstofnana. Mé er ekki kunnugt um það að alþm. fái í sjálfu sér neina vitneskju um það frekar, nema þeir leiti þá eftir því sjálfir, hvernig ríkisrekstrinum reiðir af eftir að fjárlög hafa verið samþ. fyrr en þá ríkisreikningurinn kemur. Og honum fylgja ekki miklar skýringar.

Einkaneysla hefur verið mikil í okkar þjóðfélagi og okkur hefur ekki tekist að hemja hana. Til þess að hemja einkaneysluna hljótum við að þurfa mjög sveigjanlega skattastefnu. Okkar skattkerfi er mjög stirt og erfitt að nota það sem hagstjórnartæki. Það hlýtur því að verða verkefni Alþ. að breyta þessu kerfi, einfalda það og gera það sveigjanlegra til þess að það verði hægara að bregðast við hagsveiflum þegar þær koma. Fleira má nefna, t.d. reglur um afborgunarviðskipti. Það er ekki til nægilega góð reglugerð um afborgunarviðskipti. Það væri að mínum dómi mjög eðlilegt, þegar svo stendur á sem nú í íslensku þjóðfélagi, að verslunum væri hreinlega bannað að selja vöru með afborgunarkjörum eða þá að þær mættu aðeins lána ákveðna prósentu. Slíkar reglur munu mjög hemja — ekki kannske beint spákaupmennsku, — heldur hömlulaus kaup einstaklinga, þegar svona stendur á, því að mikið af þeim kaupum á sér einmitt stað með afborgunarskilmálum. Það má einnig nefna vísitölukerfi okkar. Það má nefna launasamninga okkar. Það má nefna fjármálastefnu okkar. Útlán á síðasta ári hafa aukist um 48.5%, á sama tíma og innlán hafa aukist um 26%. Það er því alveg ljóst að kerfið allt er sjúkt og þarf að gera á því ýmsar lagfæringar. Þessi sjúkdómur hefur í sjálfu sér verið löngu þekktur. Og ég tel að það sé raunverulega skylda okkar hér að bregðast þannig við nú að við reynum og gerum allt sem hægt er til þess að lenda ekki aftur í þeim sporum sem við nú stöndum í.

Herra forseti. Ég vil að lokum vísa til ummæla minna hér í upphafi, en meiri hl. n. leggur til að frv. verði samþ. óbreytt.