10.05.1975
Efri deild: 84. fundur, 96. löggjafarþing.
Sjá dálk 3790 í B-deild Alþingistíðinda. (2929)

260. mál, uppsögn fastráðins starfsfólks

Vegna þess að Kaupfélag Árnesinga er sakað um að hafa sagt upp manni að tilefnislausu eina og segir í grg. till., vil ég segja eftirfarandi:

Ég er kunnugur rekstri bifreiðaverkstæða. Kaupfélag Rangæinga, sem ég er framkvæmdastjóri fyrir, rekur tvö bifreiðaverkstæði. Eins og kunnugt er hefur verið mjög slakur grundvöllur undir rekstri bifreiðaverkstæða á Íslandi síðustu árin, einfaldlega vegna þess að verðlagsyfirvöld hafa haldið álagningu á vinnu í svo miklu lágmarki að illa hefur nægt til þess að standa undir rekstrarkostnaði verkstæðanna. Sérstaklega hefur þetta komið illa við þá sem byggt hafa ný verkstæði síðustu árin og þurfa að standa undir miklum vaxta- og fyrningakostnaði. Kaupfélag Árnesinga hefur um áratugaskeið haft með höndum mjög mikinn verkstæðisrekstur, þ. á m. mjög stórt bifreiða- og landbúnaðarverkstæði. Þessi rekstur fór fram í mjög gömlu og slæmu húsnæði sem var orðið mjög slæmt vinnupláss. Fyrir 2–3 árum réðst kaupfélagið í að byggja mjög stórt og vandað hús fyrir þessa starfsemi. Byggingu þessa húss lauk að mestu á s. l. ári og var starfsemi verkstæðanna flutt í það um síðustu áramót. Kostnaður við þessa byggingu var þá kominn yfir 70 millj. kr. Halli á rekstri verkstæðisins varð á síðasta ári nokkrar millj. þótt fjármagnskostnaður væri lítill, fasteignafyrning aðeins 483 þús. og allur vaxtakostnaður 820 þús. Nú er ljóst að vextir og fyrningar hækka geysilega vegna nýja hússins sem búið er öllum fullkomnum tækjum og þægindum sem völ er á. Það má reikna með að aðeins vextir af þessu húsi, miðað við að það kosti 70 millj. séu 12.6 millj. á ári. Ef 30 manns vinna í húsinu eru vextirnir einir 35 þús. kr. á mann á mánuði. Á síðasta ári voru verkefnin ekki næg á þessu verkstæði og var útseld vinna að fjárhæð 1 millj. 790 þús. sem ekki nýttist vegna verkefnaskorts samkvæmt skýrslum verkstæðisins. Þrátt fyrir þetta var mönnum ekki fækkað á árinu 1974. Yfir háveturinn er minnst að gera á svona verkstæðum, og þegar kaupfélagsstjórinn fór að skoða skýrslur yfir þetta fyrir jan. og febr. leist honum ekki á blikuna og taldi óhjákvæmilegt að fækka starfamönnum.

Ég vil með þessu sýna fram á að það getur ekki verið sanngjarnt að fordæma Kaupfélag Árnesinga og kaupfélagsstjóra þess eins og gert hefur verið og enn síður alla samvinnuhreyfinguna vegna þessa máls. Svona árás er ekki sæmandi í okkar litla frjálsa samfélagi. Ég sé ekki betur en hér sé um pólitíska árás að ræða. Þetta ólöglega verkfall á Selfossi er mjög slæmt fordæmi í íslensku þjóðfélagi og mjög hætt við að það eigi eftir að draga dilk á eftir sér. Við skulum minnast þess að ef við slitum í sundur lögin, þá slitum við og friðinn. Bretar hafa mjög bitra reynslu af svona vinnubrögðum. Þar hafa verið ástunduð meira og minna ólögleg verkföll í 20 ár sem hafa brotið niður breskan iðnað öðru fremur og hafa kannske átt stærstan þáttinn í því að veikja breskt efnahagslíf eins og raun ber vitni.

Herra forseti. Ég skal ekki eyða miklu meiri tíma. Ég hef nú sýnt fram á að sú árás á Kaupfélag Árnesinga og samvinnuhreyfinguna, sem felst í þessari till. og málflutningi flm., er bæði ómakleg og byggð á röngum forsendum. Auk þess vil ég benda á leiðinlega rökleysu í till. þar sem segir að stefnt skuli að því að takmarka rétt atvinnurekenda til þess að segja upp fastráðnu starfsfólki að eigin geðþótta. Við skulum þá fyrst gera okkur grein fyrir hvað geðþótti er. Hann hlýtur að vera vilji, dómgreind, tilfinning og þá um leið samviska mannsins. Ég geri ráð fyrir að allir, sem hafa mannaforráð og þurfa að ráða fólk til starfa og segja því upp og því miður stundum að láta það hætta störfum fyrirvaralaust, geti ekki hugsað sér að afsala sér öllum ákvörðunarrétti þar um. Verði svona 1ög sett er stefnt að algjöru stjórnleysi og ringulreið varðandi fólkshald fyrirtækja. Er það kannske það sem flm. vilja?

Ég ítreka svo að ég legg til að till. verði felld. Ég trúi að svo verði, því að ég veit að hv. alþm. greiða atkv, að eigin geðþótta.