13.05.1975
Sameinað þing: 78. fundur, 96. löggjafarþing.
Sjá dálk 4061 í B-deild Alþingistíðinda. (3294)

283. mál, lagning aðflutningslínu milli Grímsárvirkjunar og Hornafjarðar

Flm. (Þorsteinn Þorsteinsson):

Hæstv. forseti. Sú þáltill., sem liggur hér fyrir hæstv. Alþ., er um aðflutningslínu milli Grímsárvirkjunar og Hornafjarðar. Fyrir frumkvæði fyrrv. orkumrh. var lagður grundvöllur að samtengingu raforkusvæðanna og gerð áætlun um nýtingu innlendrar orku til húshitunar. Í þeim landshlutum, þar sem jarðvarmi var ekki finnanlegur, þótti einsýnt að raforkan ein kæmi til greina. Á Austurlandi varð því að treysta á stórauknar framkvæmdir í raforkumálum, og með virkjun Lagarfoss var reynt að bæta úr brýnustu þörf í því efni. En mikið vantar á að markinu sé náð. Með ákvörðun um virkjun Bessastaðaár hillti undir mikilvægan áfanga til lausnar á orkuvanda Austurlands en því miður virðist þar hafa komið í ljós að rannsóknir á virkjunarmöguleikum á þessum stað séu ekki nógu ítarlegar. Þessum rannsóknum þarf að hraða svo að leitt verði sem fyrst í ljós hvort hagkvæmt sé að reisa virkjun á þessum stað eða horfið verði til einhverra annarra ráða. Það virðist samt einsýnt að flutningslínu verður að leggja t.d. milli Norðurlands og Austurlands og það mjög fljótlega, þó að það hljóti að ráðast að nokkru af því hver framvinda mála verður um byggingu orkuvera á Austurlandi hvenær í slíka framkvæmd verður ráðist.

Í skýrslu, sem áætlunardeild Rafmagnsveitna ríkisins gerði á s.l. hausti um orkuöflun og orkudreifingu á Austurlandi, var gert ráð fyrir því að Hornafjarðarveita og Vopnafjarðarsvæðið yrðu tengd meginsvæðinu á Austurlandi strax á árinu 1976, en hagkvæmara er talið að tengja Bakkafjörð við Laxárvirkjunarsvæðið.

Eins og fram kemur í grg. með till. eru svæðin fjögur eða fjórar einingar, en langsamlega er þó það svæði stærst þar sem Grímsár- og Lagarfossvirkjun starfa, en það spannar allt frá Borgarfirði eystra til Lónsheiðar.

Í þessari þáltill. er lagt til að háspennulína, aðalflutningslina, verði lögð milli Grímsárvirkjunar og Hornafjarðar, eins og ég sagði áðan, um Djúpavog. Á Hornafirði er nú þann veg komið að leyfi til húsahitunar með rafmagni fæst ekki lengur. Þeir húsbyggjendur, sem standa í byggingarframkvæmdum, verða að leita annarra ráða, miklum mun dýrari, við uppsetningu hitunarkerfis í húsin en ef um væri að ræða rafhitun. Venjuleg olíukynt vatnsmiðstöð er t.d., að talið er, þrisvar sinnum dýrari í uppsetningu en rafmagnsofnar. Þetta hefur reynsla undanfarinna ára sýnt.

Þegar Smyrlabjargaárvirkjun kom til sögunar voru öll ný hús, sem byggð voru eftir það, höfð með rafmagnshitun og rafhitun sett í nokkur hinna eldri húsa, einkum í sveitunum. Þegar sú sjálfsagða þróun að rafhita hús er rétt að komast á rekspöl, þá er vélaraflið þrotið, Smyrla, eins og hún er kölluð, fullnýtt og óvissa hvernig úr verði bætt á varanlegan hátt. Með dísilvélum er að sjálfsögðu leystur allra brýnasti vandinn, en rekstrarkostnaður, sem af því leiðir, óheyrilega mikill. Það kostar líklega um 12 kr. að framleiða 1 kwst. með þessum hætti.

Á s.l. ári var framleiðsla raforku á Hornafjarðarsvæðinu með dísilvélum um 1,5 gwst. og beinn framleiðslukostnaður 15–17 millj. kr. Í vatnsaflsstöðinni á Smyrlabjörgum var orkuframleiðslan um 8.4 gwst. og framleiðslukostnaðurinn rúmar 14 millj., ef hver kwst. er reiknuð á 1.70, eins og hún er talin kosta samkvæmt útreikningum frá Rafmagnsveitum ríkisins.

Á þessu ári má gera ráð fyrir að aukning á notkun raforku verði um 20% og ársframleiðslan verður þá um 11.9 gwst. Samkv. orkuspám fram til 1980 mundi dæmið þá líta þannig út að 1976 yrði um 15% aukningu að ræða og orkusalan þá um 13.6 gwst., næsta ár, 1977, 13% aukning frá árinu áður og svo er reiknað með 13%, síðan 11% 1979 og 10% 1980. En þá er talið að orkuframleiðslan muni vera um 21.5 gwst, ef að líkum lætur.

Allri þessari aukningu yrði að sjálfsögðu að mæta með aukinni dísilvélanotkun ef ekkert annað kæmi til. Þessi framleiðsla mundi þá kosta að óbreyttu verðlagi á olíu rúmar 500 millj. kr., auk þess að á árinu 1978, strax á árinu 1978, yrði vafalítið um vöntun á afli að ræða þrátt fyrir það að tekin verði í notkun ný 2 mw. dísilvél á þessu ári.

Samkvæmt staðgóðum upplýsingum er sala á olíu til húsahitunar um 250 þús. lítrar á mánuði í Austur-Skaftafellssýslu, að Öræfasveit undanskilinni. Það kostar þá 5 millj. kr. á mánuði eða 60 millj. á ári og þessi tala mun að sjálfsögðu hækka frá ári til árs þegar húsbyggjendur fá ekki lengur rafmagn til upphitunar.

Með þessum tölum hér að framan er ég ekki að opinbera nein ný sannindi, þessi feikna kostnaður er að sjálfsögðu öllum ljós, og þó að ég taki hér dæmi úr mínu byggðarlagi þá gerist þetta víðar á landi hér.

Með þeirri línulagningu, sem till. þessi gerir ráð fyrir, verður um leið leyst annað vandamál sem nú þegar er fyrir hendi, það er öryggið á syðri hluta núv. veitusvæðis Austurlands, svæðinu frá Fáskrúðsfirði til Djúpavogs. Á þessu svæði er nú um verulegt spennufall að ræða svo að hafa verður dísilvélar í gangi a.m.k. um háálagstímann. Flutningsgeta línunnar er afar takmörkuð á þessari leið og möguleikar til aukningar á rafmagnsnotkun því takmarkaðir.

Þáltill., sem hér liggur fyrir, er flutt til að fara fram á úrbætur á aðkallandi vanda. Verkefni sem þessi eru að hrannast upp víðs vegar um landið, einkanlega eftir að olían margfaldaðist í verði. Þrátt fyrir það skortir okkur upplýsingar um áætlanir í raforkumálum úti á landsbyggðinni, hvað sé áætlað um rafhitun húsa í næstu framtíð. Á þessari stundu bíðum við eftir haldgóðri áætlun í þessu efni og sú bið hefur orðið með meiri óþreyju eftir að samþykkt var að reisa málmblendiverksmiðjuna í Hvalfirði. Landsbyggðin beið ekki eftir þeirri framkvæmd.