16.12.1974
Sameinað þing: 24. fundur, 96. löggjafarþing.
Sjá dálk 885 í B-deild Alþingistíðinda. (752)

1. mál, fjárlög 1975

Sverrir Bergmann:

Herra forseti. Ég hef á þskj. 150 lagt fram brtt. við fjárlög fyrir árið 1975, þ.e. við brtt. hv. fjvn. á þskj. 143 við frv. til fjárl. fyrir árið 1975. Brtt. er við tölul. 55, lið a, um sjúkrahús o.fl., að á eftir tölul. 5 komi tölul. 6, svo hljóðandi: „Reykjavík, til hönnunar B-álmu Borgarsjúkrahússins (langlegudeild) 33 millj. kr.“ Tölul., sem á eftir koma, mundu svo hækka um einn tölul. Upphæðin, 33 millj. kr., er í samræmi við áætlaða þörf að mati forráðamanna Reykjavíkurborgar og nauðsyn þessarar framkvæmdar. Bygging langlegudeildar er mjög svo í samræmi við reynslu lækna, jafnt sjúkrahúslækna sem heimilislækna. Vil ég í framhaldi af þessu fara nokkrum orðum um heilbrigðisþjónustuna hér í borg og þá einkum það sem veldur því að hún er ekki slík sem við vildum og hverjar leiðir eru helst til úrbóta að mínum dómi. Ég tel rétt að geta þess strax, að enda þótt þetta varði fyrst og fremst íbúa höfuðborgarsvæðisins, þá er svo háttað uppbyggingu heilbrigðisþjónustu í landinu að hér er á ferðinni mál, sem varðar alla landsmenn, og það vona ég að muni skýrast í máli mínu hér á eftir.

Það er rétt að geta þess, að um margt er heilbrigðisþjónustan á höfuðborgarsvæðinu ágæt og ekki verri en gerist í bæjarfélögum af svipaðri stærð annars staðar. En orsakir þess, að heilbrigðisþjónustan er þó ekki eins og best væri á kosið, eru einkum þessar:

1. Heimilislæknar hafa verið of fáir.

2. Uppbygging heimilislæknakerfisins hefur fram undir þetta ekki þróast í samræmi við breytta staðhætti.

3. Það er svo, að þrátt fyrir byggingu ágætra sjúkrahúsa með raunverulega allt að því nægjanlegum fjölda sjúkrarúma til þess að sinna rannsóknarsjúklingum og sjúklingum með bráða sjúkdóma, þá er löng og mjög svo óeðlileg bið eftir sjúkrarými á flestum ef ekki öllum deildum sjúkrahúsanna í Reykjavík, og þetta er mál sem varðar ekki aðeins okkur, sem búum á þessu svæði, heldur alla landsmenn.

4. Verulegur skortur er á rými fyrir langlegusjúklinga.

Augljóslega eru þessir orsakaþættir samtvinnaðir. Mikilvægt er að þessir þættir eru almennt viðurkenndir og það er allgóð samstaða um hversu þeir skuli leystir og málum þar með komið í betra horf. Raunar er sá skilningur forsenda að allri lausn sem og það að augljóst má vera að allir þessir þættir verði að leysast nokkuð samtímis. Það er þannig ánægjuefni að sjá í fjárl. æskilega fjárveitingu til heilsugæslustöðva á Reykjavíkursvæðinu, en vekur jafnframt nokkra furðu að sjá þar ekki eðlilega fjárveitingu til byggingar langlegudeildar.

Hvað viðkemur fæð heimilislækna er því til að svara, að veruleg fjölgun læknastúdenta hefur átt sér stað og munu því á næstu árum allmiklu fleiri stúdentar útskrifast úr læknadeild en verið hefur til þessa. Augljóst er nú þegar með tillíti til þeirrar menntunar, sem orðin er innan einstakra sérgreina læknisfræðinnar, að stór hópur þessara læknastúdenta mun starfa sem heimilislæknar eða hyggja á slíkt starf. Kann því þessi þáttur vandans að leysast í næstu framtíð. En hins vegar helst þá í hendur nauðsyn þess að aðstaða heimilislæknisins sé færð í annað horf en nú er, því að ella munu færri ungir læknar fara í þetta starf en annars mundi vera.

Á því er nú fullur skilningur að uppbyggingin muni hagkvæmust í mynd heilsugæslustöðva þar sem læknar vinna hópstarf og komið verði saman á einum stað heilsugæslu og almennri læknaþjónustu, og má þá auðvitað ekki gleymast að þetta mundi einnig reynast hagkvæmast þeim er þjónustunnar þurfa með. Því fagna ég því enn að á fjári. er veitt umbeðið fé til heilsugæslustöðva hér á höfuðborgarsvæðinu. Það er spor til lausnar annars þáttar þessa vanda.

En þá kemur að þeim þætti vandans sem tekur til sjúkrahúsanna. Svo stendur á um fjölda sjúkrarúma í sjúkrahúsum höfuðborgarinnar að þar er raunverulega vel fyrir hlutunum séð um nokkurt árabil ef rúm þessi gætu eingöngu nýst til þjónustu við sjúklinga með bráða sjúkdóma eða þá sjúklinga sem þurfa að gangast undir sérstakar rannsóknir og aðgerðir er ekki verða annars staðar framkvæmdar. Hins vegar er nú staðreyndin sú að um það bil þriðjungur nefndra sjúkrarúma nýtist ekki til þess, sem nefnt var, vegna þess að þau eru setin — eða eftir atvikum legin — langlegusjúklingum, sem ekki hafa í önnur rúm að fara, og er þá ótalinn fjöldi langlegusjúklinga, sem ekki kemst í þessi rúm, en dvelur í heimahúsum þar sem engan veginn verður komið við nægjanlegri þjónustu oft og tíðum hvað sem líður góðum vilja og dugnaði og fórnfýsi aðstandenda viðkomandi. Hefur þetta síðan augljóslega í för með sér að biðlistar sjúkrahúsanna eru á sama tíma óeðlilega langir. Þar bíða sjúklingar svo að tugum skiptir við einstakar deildir, og því miður í allt of mörgum tilfellum svo að hundruðum skiptir, eftir ákveðnum nauðsynlegum rannsóknum og aðgerðum. Þetta atriði snertir ekki aðeins okkur, íbúa höfuðborgarsvæðisins, heldur alla íbúa þessa lands, því að svo er háttað og verður enn um sinn að á sjúkrahúsin hér í borg muni sjúklingar þurfa að leita til þeirra rannsókna og aðgerða sem krefjast mest tækniútbúnaðar a.m.k. Þetta ástand hefur einnig áhrif á þjónustu við sjúklinga með bráða sjúkdóma og ekki síður þjónustu við þá sem verða fyrir slysum. Yfirlæknir slysadeildar Borgarsjúkrahússins hefur tjáð mér, og ég þekki það raunar einnig af gamalli reynslu, að iðulega verður að senda fólk heim til eftirlits þar af leikmönnum eftir slys vegna þess að engin rými eru á sjúkrahúsunum. Þótt blessunarlega takist til í svona tilfellum vita þó engir betur en læknar slysadeildarinnar að hér er tekin nokkur áhætta. Þetta ástand hefur einnig sín áhrif á heimilislæknaþjónustuna. Heimilislæknar hafa tjáð mér að mestu erfiðleikar þeirra í starfinu séu að koma sjúklingum inn á sjúkrahús, oft og tíðum án óeðlilegrar tafar, og fá rúm fyrir langlegusjúklinga. Raunar eru þó ógleymdir erfiðleikar þeirra að koma sjúklingum til sérfræðinga innan læknisfræðinnar.

Svo slæmt sem þetta er fyrir sjúklingana fyrst og fremst, verður einnig að hafa það í huga að aðstöðuleysi af þessu tagi fælir menn beinlínis frá heimilislæknisstarfinu og grefur þannig undan hinum nauðsynlegu forsendum fyrir úrbótum á heimilislæknaþjónustunni og dregur þar með úr bótum á heilbrigðisþjónustunni í heild.

Ég hef dregið þetta fram til að vekja athygli á því hversu allir þessir þættir eru samofnir og hversu nauðsynlegt er að þeir séu leystir hönd í hönd. Það yrði nokkur lausn heimilislæknaþjónustunni, með tilliti til sérfræðiþjónustu, að hraðað yrði byggingu svonefndra þjónustudeilda þar sem hluti sérfræðiþjónustunnar gæti farið fram. Það er fjárveiting í fjárl. til þjónustudeildar Borgarspítalans, en hún er verulega skorin niður miðað við óskir forráðamanna Reykjavíkurborgar og mætti hv. fjvn. vel taka það mál til endurskoðunar. En lausn á vandamáli sjúkrahúsanna, læknanna innan þeirra og utan og síðast en ekki síst hinna sjúku sjálfra liggur fyrst og fremst í tvennu:

1. Að rannsóknadeildir séu vel upp byggðar þannig að þær geti annað sínu hlutverki fljótt og vel.

2. Að séð sé fyrir ánægjulegum sjúkrarúmafjölda fyrir langlegusjúklinga.

Nú munu hv. þm. spyrja: Hver er hinn raunverulega nauðsynlegi rúmafjöldi fyrir langlegusjúklinga? Og svarið er það að sú þörf er ekki fullkunn, því að það hefur engin rannsókn farið fram er sýni nákvæmlega, hve mikil þessi þörf er. Og hv. þm. munu þá kannske spyrja í beinu framhaldi, hvort ekki sé nægjanlegur sá rúmafjöldi fyrir langlegusjúklinga sem hér er fyrir hendi. Svarið við því er það, að samkv. reynslu bæði heimilislækna og sjúkrahúslækna og fólksins sjálfs, vel að merkja, er svo ekki því að þriðjungur rúma sjúkrahúsanna er leginn langlegusjúklingum og kemur í veg fyrir, að þessi dýru sjúkrarúm nýtist sem skyldi, og dregur verulega úr gæðum þeirrar heilbrigðisþjónustu sem ella gæti verið fyrir landsmenn alla, skapar ótöldum sjúklingum veruleg vandræði og veldur læknum talsverðum erfiðleikum í sínu starfi.

Bygging langlegudeilda er því aðkallandi verkefni og mjög svo nauðsynlegt, samhliða verkefni þeim ráðstöfunum öðrum sem nú er verið að gera í þá átt að skapa betri heilbrigðisþjónustu í landinu.

En hvað er langlegudeild, og hverjir vistast á slíkar deildir? Augljóslega að einhverju leyti fullorðið fólk er þarfnast stöðugs eftirlits og hjúkrunar að meira eða minna leyti og umfram það sem komið verður við í heimahúsum. En augljóslega þurfa einnig að vistast þar þeir sjúklingar sem sjúkdóma fá er langan tíma tekur að jafna sig af og nefni ég í því sambandi t.d. sjúklinga er fá heilablóðfall, einnig sjúklingar er þurfa sjúkrahúsvistar við vegna eftirlits með meðferð eða prófunar á meðferð, auk þess sem á slíkri deild mundu dveljast sjúklingar sem væru að ná sér eftir aðgerðir og/eða slys. Venjuleg elli- og dvalarheimili, sem við svo nefnum, geta ekki að óbreyttri uppbyggingu tekið við nema hluta af þessum sjúklingum, ekki aðeins rúmafjölda þeirra vegna, heldur ástands sjúklinganna vegna, a.m.k. ekki nema til komi ákveðinn staðall um uppbyggingu og þjónustumöguleika slíkra stofnana, og er raunar full ástæða til að gefa slíku gaum. En eins og nú stendur og eins og ég hygg að lengst af muni standa, eru tölur nú um rými á elli- og dvalarheimilum ekki nema að hluta lausn og þá ekki nema að hluta svar við því vandamáli, sem öllum er sjúkt fólk stunda er vel kunnugt um og búið að vera lengi. Það eru aðeins langlegudeildir í beinum og sem allra nánustum tengslum við sjúkrahús sem geta leyst þennan vanda á besta veg, og því er bygging langlegudeildar einmitt við sjúkrahús, í þessu tilfelli Borgarsjúkrahúsið, enn mikilvægara.

Herra forseti. Bygging langlegudeilda einmitt fyrir sjúkrahúsin sjálf er afar þýðingarmikið og mjög aðkallandi mál. Slík framkvæmd mundi meir en margt annað bæta mjög heilbrigðisþjónustuna, ekki aðeins hér á höfuðborgarsvæðinu, heldur kæmi þetta öllum landsmönnum til góða. Ekki aðeins mundi slík framkvæmd bæta mjög aðstöðu margra þeirra, sem nú dveljast sjúkir í heimahúsum, heldur auka mjög afköst og umsvif sjúkrahúsanna sjálfra og margfalda not hinna dýru sjúkrarúma. Slík framkvæmd mundi einnig bæta verulega aðstöðu heimilislækna hér á höfuðborgarsvæðinu og raunar, þegar betur er að gáð, einnig nokkuð aðstöðu héraðslæknanna á landsbyggðinni, sem mundu eiga þá hugsanlega léttara með að koma hingað á sjúkrahús sjúklingum með bráða sjúkdóma. Það er af þessum ástæðum sem ég hef flutt þessa brtt.

Ég leyfi mér svo, herra forseti, við þessa umr. að óska þess, að till. mín komi ekki til atkv.umr. lokinni, eldur verði henni vísað til hv. fjvn. til athugunar milli umr. svo að hún geti, ef henni svo sýnist, gert þessa till. að sinni, ella mun ég áskilja mér rétt til þess að taka hana upp aftur við 3, umr. málsins.