02.12.1975
Sameinað þing: 28. fundur, 97. löggjafarþing.
Sjá dálk 943 í B-deild Alþingistíðinda. (572)

85. mál, samskipti Íslands við vestrænar þjóðir

Flm. (Kristján J. Gunnarsson) :

Herra forseti. Sú þáltill., sem ég hef lagt hér fram á hv. Alþ., hljóðar þannig, með leyfi hæstv. forseta:

„Alþingi ályktar að fela ríkisstj. að óska viðræðna við stjórnir Efnahagsbandalags Evrópu og Atlantshafsbandalagsins út frá þeirri forsendu að lítið verði í samhengi á hagsmuni Íslands að því er snertir efnahags- og viðskiptamál og þátttöku þess í varnarbandalögum við vestrænar þjóðir.“

Í upphafi máls míns vil ég gera tvö atriði ljós. Flutningur þessarar till. er ekki eingöngu í beinum tengslum við þá alvarlegu atburði sem nú síðustu dagana hafa átt sér stað í landhelgisdeilunni við breta enda þótt þeir hafi að sjálfsögðu gert þá samninga, sem till. gerir ráð fyrir, sérstaklega tímabæra og nauðsynlega einmitt nú. Það hefur lengi verið skoðun mín að það, hversu við hljótum ávallt að vera í nánum tengslum við vestrænar þjóðir menningarlega, efnahagslega og viðskiptalega, geri það nauðsynlegt að um deilumál og hagsmunaárekstra, sem upp kunna að koma á milli einstakra vestrænna þjóða og okkar, sé fjallað á samhengi á breiðum grundvelli við þau samtök vestrænna þjóða á heild sem við eigum aðild að. Með því móti höfum við að mínu áliti meiri líkur til að ná fram þeirri viðurkenningu á hagsmunum okkar sem okkur er lífsnauðsyn, og með því móti getum við minnkað líkurnar á því að einstök ríki beiti okkur efnahagslegum eða viðskiptalegum þvingunum til að verja hagsmuni sína, en til þess að verjast slíkum þvingunum erum við af viðskiptalegum ástæðum í mjög veikri og erfiðri stöðu.

Hitt atriðið, sem ég vil einnig í upphafi gera ljóst, er að þá fáu daga, sem ég hef setið hér á hv. Alþ., hefur eins og hv. alþm. er kunnugt verið mikill annríkistími og því lítill tími gefist til að undirbúa og vinna að öðrum málum en því sem þessa dagana var sérstaklega til meðferðar á hv. Alþ., þ. e. samningum við Vestur-Þýskaland. Eigi að síður taldi ég rétt að bera fram þá till. til þál., sem hér er flutt, enda þótt hana beri að á sérstaklega miklum annríkistíma hér í hv. Alþ.

Á bak við flutning þessarar till. stend ég einn, eins og fram kemur á þskj., og er að sjálfsögðu hver og einn hv. alþm. óbundinn í afstöðu sinni til hennar.

Á áratugunum, sem liðið hafa frá lokum heimsstyrjaldarinnar seinni, þegar einangrun Íslands var endanlega rofið og ekki varð lengur umflúið að við drægjumst inn í hringiðu alþjóðasamskipta, hafa margir íslendingar látið í ljós ugg um að íslensk þjóðmenning og tunga fengi ekki til langframa staðist ásókn erlendra menningarstrauma og væri því dæmd til að líða undir lok. Þótt vissulega sé ávallt allrar aðgátar þörf í þessu efni, hef ég aldrei óttast um afdrif íslenskrar menningar eða tungu af þessum sökum, eins og mér finnst raunar að reynslan á þessum umræddu áratugum frá stríðslokum hafi staðfest. Hitt hefur aftur á móti alltaf verið mér mikið áhyggjuefni með tilliti til einhæfninnar í atvinnuvegum íslendinga, sem í svo ríkum mæli eru bundnir við svipulan sjávarafla, hvort hinar efnahagslegu forsendur fyrir sjálfstæðri tilveru íslensku þjóðarinnar kynnu ekki að bresta. Ef svo hörmulega kynni að fara er augljóst að sjálfstæði þjóðarinnar og þá einnig tunga hennar og menning mundu líða undir lok. Hvort sem slíkt kynni að gerast á lengri eða skemmri tíma væru hin endanlegu úrslit því miður fyrir fram ráðin. Ég tel, að stjórnarfarslegt og þjóðernislegt sjálfstæði íslendinga byggist flestu öðru fremur á því að efnahagslegt sjálfstæði þeirra verði tryggt.

Með þeim auknu samskiptum íslendinga við umheiminn, sem ég drap á hér áður, var kippt stoðunum undan því að þjóðin gæti í sama mæli og fyrrum verið sjálfri sér nóg og bjargast af eigin afla með takmörkuðum viðskiptum við aðrar þjóðir. Þvert á móti eru íslendingar nú hlutfallslega háðari utanríkisviðskiptum en flestar aðrar þjóðir og tilvera þeirra háðari því en nokkru öðru að í viðskiptum sínum og samningum við erlendar þjóðir geti þeim tekist sem best að tryggja efnahagslega afkomu sína. Þessi efnahagslega afkoma er einkum háð því tvennu, annars vegar að auðlindir landsins standi undir framleiðsluþörfum landsmanna og hins vegar að við eigum frjálsan aðgang að mörkuðum þar sem við getum selt framleiðslu okkar við sannvirði, þ. e. fengið hinn raunverulega framleiðslukostnað greiddan.

Sú tæknibylting, sem orðið hefur á síðustu áratugum og leitt hefur til þess að fram koma sífellt stórvirkari tæki og fullkomnari aðferðir til þess að nýta auðlindaforða jarðarinnar, hefur leitt til hættu á ofnýtingu og rányrkju og sem afleiðingu hennar auðlindaþurrð sem mannkynið á mörgum sviðum gæti fyrr en varir staðið frammi fyrir, innan fyrirsjáanlegra tímamarka. Þetta hefur vísindamönnum og sem betur fer einnig mörgum stjórnmálamönnum orðið stöðugt ljósara á síðari árum. E. t. v. hafa afleiðingar þessarar tæknibyltingar í formi stöðugt fullkomnari skipa, fiskleitartækja og veiðibúnaðar hvergi komið fram með ískyggilegri hætti og örari auðlindaþurrð en orðið hefur á fiskimiðunum kringum Ísland á síðustu árum. Með útfærslu íslensku landhelginnar stig af stigi, úr 3 í 4 mílur, úr 4 í 12 mílur, úr 12 í 50 og nú síðast úr 50 í 200 mílur, hafa íslendingar reynt eftir mætti að sporna við fótum, eins og hæstv. dómsmrh. Ólafur Jóhannesson lýsti mjög ljóslega í þingræðu hér á hv. Alþ. fyrir nokkrum dögum. Vissulega höfum við unnið sigra og það mjög mikilvæga sigra í þessari baráttu okkar. En eigi að síður hafa það fremur verið varnarsigrar í varnarbaráttu en fullnaðarsigrar fram til þessa. Sá fullnaðarsigur, sem hingað til hefur þó unnist, er alger friðun fiskimiðanna innan 12 mílna fyrir veiðum útiendinga og einnig mjög veruleg friðun milli 12 og 50 mílnanna fyrir veiðum erlendra fiskiskipa, m. a. á þeim uppeldissvæðum fiskstofnanna sem viðkvæmust eru og allra brýnast að vernda.

Um þær útfærslur landhelginnar, sem ég hér hef rakið, hefur verið fjallað og barist af mismunandi ríkisstj. skipuðum mismunandi stjórnmálaflokkum á hverjum tíma. Við hverja útfærslu landhelginnar hefur hver sú ríkisstj., sem hlut átti að máli, haft einhuga stuðning allrar íslensku þjóðarinnar á bak við sig. Allir þeir stjórnmálaflokkar, sem nú eiga sæti á Alþ., munu hafa átt sem þátttakendur í ríkisstj. hlut að baráttunni um landhelgina á einhverju stigi hennar. Einhugur þeirra varðandi sjálfa útfærslu landhelginnar, einhugur þjóðarinnar á bak við þá í því máli hefur þó ekki nægt til að ná stærra marki hverju sinni en að vinna varnarsigra sem fært hafa okkur stig af stigi nær endanlegu markmiði í áföngum.

Ástæða er til að spyrja hvers vegna þetta hafi farið svo á hverjum tíma þrátt fyrir algera einingu ríkisstj., þings og þjóðar í þessu lífshagsmunamáli íslensku þjóðarinnar, þ. e. a. s. algera einingu um útfærslu landhelginnar sjálfrar. Í þessu sambandi skulum við slá algerlega striki yfir það sjónarspil sem sett hefur verið á svið oft hér á hv. Alþ. af stjórnarandstöðu, nú síðast fyrir nokkrum dögum, þegar við höfum neyðst til þess að gefa eitthvað eftir og slá um stundarsakir af meginkröfum okkar um algera friðun þeirrar landhelgi sem við höfum verið að stækka hverju sinni, slá um stundarsakir af meginkröfu okkar og fallast á tímabundnar og takmarkaðar veiðiheimildir erlendra fiskiskipa innan hennar. Ég held að íslenska þjóðin sé orðin of vel menntuð og upplýst til þess að leggja á það trúnað að nokkur alþm. gangi glaður til þess leiks að neyðast til að semja við útlendinga um undanþágur þeim til handa til veiða í þeirri landhelgi sem við höfum verið að færa út, en til slíkra samninga hafa þó alþm. úr öllum flokkum orðið að ganga á hinum mismunandi tímum og mismunandi stigum útfærslu íslensku landhelginnar.

Sú leiksýning, sem stjórnarandstaðan hefur sett á svið í mjög viðkvæmu máli sem hlýtur sérstaklega að höfða til tilfinninga hvers íslendings, hefur beinst að því að telja þjóðinni trú um að þeir, sem orðið hafa að axla þá ábyrgð að fara með stjórn landsins, væru handbendi útlendinga, ef ekki hreinir landráðamenn. Þetta er ósæmilegt og verður óskemmtilegasti þátturinn í landhelgissögu íslendinga þegar baráttan verður orðin að hluta Íslandssögunnar sem einn mikilvægasti þátturinn í varðveislu og viðhaldi efnahagslegs sjálfstæðis og fullveldis þjóðarinnar. Staðreyndir málsins eru hins vegar einfaldlega þessar: Það er ekki hægt að ná lengra í samningagerð eða gera betri samning en samningsaðstaðan og styrkurinn til samninga gefur hverju sinni tilefni til. Og það er ekki heldur hægt að heyja styrjöld til fullnaðarsigurs nema aflið, sem á bak við átökin býr, sé svo sterkt að það nægi til að brjóta óvininn á bak aftur. Íslenskir alþm., sem borið hafa ábyrgð á stjórn landsins á öllum stigum landhelgisbaráttunnar, hvar í flokki sem þeir annars standa, hafa gert sér fullkomlega grein fyrir þessu enda hafa þeir stöðu sinnar vegna og yfirsýnar og aðgangs að upplýsingum þær fullkomnustu forsendur, sem fyrir liggja, til að meta jöfnum höndum styrkleika og veikleika þeirrar stöðu sem við erum í þegar til koma þeir alvarlegu hagsmunaárekstrar við nágrannaþjóðirnar sem útfærsla íslensku landhelginnar hefur ávallt leitt til. Þeir hafa öllum öðrum betri forsendur til þess að meta þessa stöðu.

Árið 1970 nam þorskafli íslendinga um 308 þús. tonnum. Þetta aflamagn var árið 1974 komið niður í 211 þús. tonn þrátt fyrir þá endurnýjun og aukningu skipastólsins sem átt hafði sér stað á þessum árum. Ofveiðin á Íslandsmiðum var þannig farin að segja verulega til sín og þar af leiðandi hafði kostnaðurinn við öflun hvers þorsktonns aukist í hlutfalli við minnkandi afla. Viðvaranir fiskifræðinga og staðreyndirnar um sífellt minnkandi aflamagn á sóknareiningu höfðu því þegar á þessu árabili búið íslendinga og aðrar þjóðir, sem á Íslandsmiðum veiða, undir það að gera sér grein fyrir að hverju stefndi. Eigi að síður var sú skýrsla Hafrannsóknastofnunar Íslands, sem út kom í nóv. s. l., þar sem þessar staðreyndir um minnkandi aflamagn og framtíðarspá um nýtingu fiskstofnanna á næstu árum voru settar fram sem tölulegar staðreyndir, mörgum íslendingi áfall. Menn höfðu í lengstu lög skirrst við að trúa því hversu ástandi fiskimiða okkar væri komið. Hámarksaflamagn úr þorskstofninum, sem fiskifræðingar, íslenskir og breskir, hafa orðið nokkurn veginn sammála um að veiða megi á næstu árum, liggur á milli 230 og 260 þús. tonna. M. ö. o.: þetta aflamagn nægir ekki meira en svo til að fullnægja þörfum íslendinga sjálfra fyrir þorskafla, miðað við það sem þeir hingað til hafa fengið í sinn hlut. Þrátt fyrir þetta álit, sem þeirra eigin fiskifræðingar hafa fallist á, skirrist breska ríkisstj. ekki við að bera fram kröfur um að bretar hirði sjálfir 110 þús. tonn af heildaraflanum við Ísland, og í þessum 110 þús. tonnum er að langmestu leyti þorskafli, því að bretar fiska hér þorsk líklega yfir 80% af sínu aflamagni og Mr. Hattersley þykist meira að segja eðallyndur að hafa lækkað sig úr 130 þús. tonnum niður í 110 þús. tonn eða m. ö. o. að taka þó ekki alveg helminginn af heildaraflanum, eins og hann gæti orðið að hámarki. Þessari kröfu um að taka lífsbjörg íslendinga frá þeim alveg umbúðalaust hefur breska ríkisstj. þegar fylgt eftir með því að senda herskip sín inn í íslenska landhelgi og láta togara sína fiska undir herskipavernd. Næsti leikur breta verður að öllum líkindum að beita neitunarvaldi innan EBE til að viðhalda þvingunaraðgerðum gegn íslendingum og hindra niðurfellingu 15% tollsins á íslenskum sjávarafurðum, svo lengi sem þeim verður á því stætt. Við erum enn þá komnir í landhelgisstríð við breta á Íslandsmiðum til þess að verja eftir megni lífshagsmuni íslensku þjóðarinnar.

Það þarf engan að undra þótt atburður eins og þessi, og þá ekki síst í ljósi staðreyndanna sem að baki honum liggja, veki sterk tilfinningaleg viðbrögð hjá íslensku þjóðinni. Hæstv. forsrh. og hæstv. utanrrh, hafa báðir lýst því opinberlega yfir, að til greina komi að slíta stjórnmálasambandi við breta til að bera fram þau sterkustu diplómatísku mótmæli sem unnt er að setja fram á alþjóðavettvangi. Mörg samtök í landinu hafa krafist að íslendingar gerðu engan samning um veiðiheimildir við útlendinga innan íslenskrar fiskveiðilögsögu og ryfu að mestu tengsl sín við vestrænar þjóðir með því að segja t. d. upp hervarnarsamningnum við Bandaríki Norður-Ameríku, ganga úr Atlantshafsbandalaginu og segja upp samningi okkar við Efnahagsbandalag Evrópu.

Að því er snertir hugsanleg slit stjórnmálasambands við breta er þar um að ræða ákvörðun sem eðli málsins samkv. hlýtur að vera í höndum ríkisstj., og ég ber fullt traust til hæstv. ríkisstj. til að meta hvort eða hvenær til slíks kynni að koma.

Að því er snertir, miðað við stöðu okkar eins og hún er nú, mjög skiljanlegar kröfur margra samtaka í landinu um að engar veiðiheimildir séu veittar útlendingum innan 200 mílna markanna og jafnvel að rofin séu á sem flestum sviðum tengsl við vestrænar þjóðir, þá vil ég leyfa mér að endurtaka það, sem ég sagði hér áðan: Það er ekki hægt að heyja styrjöld til fullnaðarsigurs nema aflið, sem á bak við átökin býr, sé svo mikið að til hrökkvi til að brjóta andstæðinginn á bak aftur. Í þessu efni er höfuðnauðsyn að láta ekki stjórnast af tilfinningahita augnabliksins sem leitt gæti þjóðina í enn þá erfiðari stöðu, heldur að meta stöðuna eins og hún liggur nú fyrir út frá rökum og staðreyndum. Í fyrsta lagi: Eigum við að segja okkur úr NATO og segja upp hervarnarsamningnum við Bandaríki Norður-Ameríku? Mundi það styrkja stöðu okkar í landhelgismálinu?

Það er vitað, m. a. af yfirlýsingu framkvæmdastjóra Atlantshafsbandalagsins, að innan þess eru þau átök, sem komið hafa upp milli Íslands og Bretlands, talin alvarleg ógnun við samstöðu bandalagsþjóðanna. Reynslan af fyrri landhelgisdeilum okkar hefur einnig orðið sú, að Atlantshafsbandalagið hefur stundum, ef ekki oftast, haft einhverja meðalgöngu um að jafna deilur á þeim vettvangi og jafna þær á þeim grundvelli að meira tillit hefur verið tekið til hagsmuna og sjónarmiða íslendinga en líklegt er að án afskipta bandalagsins hefði orðið. Úrsögn íslendinga úr NATO nú, tekin í fljótræði áður en samningaviðræður hafa farið fram á breiðum grundvelli um samskipti íslendinga við vestræn ríki, væri að mínu áliti vanhugsuð ráðstöfun sem veikti núverandi stöðu okkar í stað þess að styrkja hana.

Bandaríki Norður-Ameríku eru okkar langmesta og mikilvægasta viðskiptaland. Gegnum hagstæðan viðskiptajöfnuð okkar við Bandaríkin fáum við langmest af þeim frjálsa gjaldeyri sem við höfum til ráðstöfunar til vörukaupa í þeim löndum sem við kaupum meira af en við seljum. Bandaríkjamenn hafa ævinlega sýnt íslendingum velvild og greitt götu þeirra hvað viðskipti snertir á ýmsan hátt. Við eigum ekki sökótt við bandaríkjamenn í sambandi við þær landhelgisdeilur sem við höfum átt í. Og Bandaríkin eru það stórveldi sem, ef þau beittu áhrifum sínum til að auka skilning Evrópuþjóðanna á aðstöðu okkar og hagsmunum, væri langlíklegast til að hafa mikilvæg áhrif okkur í hag. Ég hlýt að draga í efa að nokkur íslenskur stjórnmálamaður, hvar í flokki sem hann stendur, mundi í alvöru og raun telja það okkur til framdráttar að rjúfa á þessu stigi tengslin við Bandaríkin í þeirri stöðu sem við erum nú i, hverju sem hann annars kynni að telja sér hentugt að halda fram í einhverju sjónarspili hér á hv. Alþingi.

En hvað þá um Efnahagsbandalag Evrópu? Eigum við að rjúfa þau tengsl? Vissulega eigum við um sárt að binda gagnvart Efnahagsbandalagi Evrópu, þar sem einstökum ríkjum innan þess hefur haldist uppi með beitingu neitunarvalds að hindra að til framkvæmda komi full tollfríðindi á íslenskar sjávarafurðir. Reynslan hefur þó sýnt að íslenskur sjávarútvegur hefur talið sér nauðsynlegt að eiga aðgang að markaði Evrópulandanna, jafnvel þrátt fyrir 15% refsitollinn sem á sjávarafurðir hefur verið lagður. Ég held að þessi staðreynd segi það mikla sögu um þýðingu þessa markaðar fyrir okkur að um það mál þurfi varla að fara miklu fleiri orðum. En á annað má einnig líta. Ef við hættum að selja til EBE-landanna hættum við að geta átt við þau viðskipti, þ. e. að fá keyptar þaðan vörur sem okkur eru nauðsynlegar, fyrst og fremst vegna þess að lítið ættum við þá til að greiða þær með, auk þess sem viðskiptabann gæti hugsanlega komið til. Og í því sambandi er rétt að hugleiða t. d. hve mikill hluti véla í íslenskum fiskiskipum er af evrópskum uppruna og hvernig færi ef við hættum að fá varahluti í þær. Fyrir stuttu sendi íslenskt útgerðarfélag flugvél sérstaklega til eins Evrópulands til þess að sækja varahluti í vél eins nýja skuttogarans okkar svo hann þyrfti ekki að tefjast nema einn sólarhring frá veiðum. Og maður getur sagt — svona inn á milli sviga: Hvaðan skyldu annars vélarnar í okkar ágætu varðskipum vera?

Auk þeirra almennu raka sem stuðningsmenn samningsins við vestur-þjóðverja héldu fram hér í umr. á hv. Alþ., þá voru það m. a. þessi rök sem réðu því að ég mat stöðuna þannig, að með tilliti til átakanna við breta, sem þá voru að hefjast, væri ekki í svipinn með öðrum hætti fremur hægt að styrkja stöðu okkar á móti bretum en með því að gera þennan samning, sem mörgum var þó ekki of ljúft. Framkoma bresku ríkisstj. í garð íslendinga er í framkvæmd úrelt og ódulbúin nýlendu- og yfirgangsstefna sem jafnvel stór hluti bresku þjóðarinnar sjálfrar fordæmir. Það er breska ríkisstj. sem ber ábyrgð á þessari stefnu. Af hálfu bresku ríkisstj. hefur verið gerð vopnuð ránsför inn í íslenska landhelgi og þar með mjög alvarleg aðför að afkomumöguleikum íslensku þjóðarinnar.

Eins og komið hefur fram hér á hv. Alþ. er talið að við megum búast við langvinnu stríði. Það stríð verður ekki háð án fórna af hálfu íslendinga hvað lífskjör þjóðarinnar snertir, og við þurfum að tryggja okkur á öllum öðrum vígstöðvum eins og vel og við getum til þess að geta staðið af okkur þetta stríð og þessa baráttu. Í því efni vonum við að allir íslendingar standi saman. Við treystum því að hin ötula landhelgisgæsla íslendinga vinni landhelgisbrjótunum bresku allt það ógagn sem unnt er þrátt fyrir erfiðar og hættulegar aðstæður og takist að þreyta hina bresku sjómenn og útgerðarmenn og gera veiðar þeirra stopular og óarðbærar. En jafnframt þessu verðum við, meðan stríðið stendur, að halda uppi öflugri áróðursherferð fyrir málstað okkar á hverjum þeim vettvangi sem býðst og forðast að stofna til nokkurra þeirra atvika hér innanlands í æsingum eða tilfinningahita sem hægt væri að úthrópa erlendis til þess að skaða málstað okkar. Slík atvik væru bresku stjórninni kærkomin og mundu ekki verða látin ónotuð.

Við skulum einnig minnast þess að við eigum einmitt nú mikla samúð í almenningsálitinu erlendis, þar sem menn á annað borð þekkja staðreyndir landhelgismálsins, jafnvel í Bretlandi sjálfu, jafnvel í breskum fjölmiðlum, jafnvel í breska þinginu, jafnvel hjá þingmanni breska fiskibæjarins Hull, Mr. Prescott, sem af einstökum drengskap hefur tekið upp málstað okkar og heitið að túlka hann fyrir kjósendum sínum. Tæplega verður sagt að slíkt sé gert til atkvæðaveiða, en rétt er að það komi fram að eftir slíkum heiðarleika, drengskap og manndómi er tekið. Þess vegna skulum við íslendingar í réttlátri reiði okkar gegn bresku ríkisstj. jafnan minnast þess að breska ríkisstj. er ekki breska þjóðin öll.

Herra forseti. Í grg. með þeirri till, til þál., sem ég hef hér flutt, lagði ég áherslu á að í þeim viðræðum milli ríkisstj. Íslands og stjórnar EBE og Atlantshafsbandalagsins, sem till. gerir ráð fyrir að fram fari, er eitt þeirra meginmarkmiða, sem áhersla er lögð á, orðáð þannig, með leyfi hæstv. forseta:

„Lönd innan EBE viðurkenni 200 mílna fiskveiðilögsögu við Ísland og leiti ekki eftir veiðiheimildum innan hennar svo lengi sem fiskstofnarnir eru það veikir að íslendingar geta og verða að fullnýta þá til þess að tryggja lífsafkomu íslensku þjóðarinnar sjálfrar.“

Ég tel að sú leið, sem er skynsamlegust og líklegust til árangurs til þess að ná þessu markmiði, sé að íslenska ríkisstj, leiti sem allra fyrst eftir slíkum viðræðum og reyni á það hver árangur þeirra verður.

Herra forseti. Ég vil þá leyfa mér að víkja nokkrum orðum að öðru lífshagsmunamáli okkar lenskan sjávarútveg, að EBE-löndin auka í síum að ræða mál sem ég tel að á næstu árum geti leitt til mjög alvarlegra erfiðleika fyrir íslensku þjóðina og er raunar tekið að brydda á því nú þegar. Með hverju árinu sem líður skapar það aukna hættu og öryggisleysi fyrir íslenskan sjávarútveg, að EBE-löndin auka í sívaxandi mæli styrki og efnahagsaðstoð við sjávarútveg í löndum sínum. Leiðir það til þess að þau geta selt fiskafurðir á markaðsverði sem er lægra en raunverulegt framleiðsluverð. Fyrir háþróaðar iðnaðarþjóðir, þar sem framleiðsla sjávarafurða er aðeins örlítið brot af þjóðarframleiðslunni, skiptir þessi niðurgreiðsla litlu eða engu máli. Það er auðvelt að veita fjármagni frá sterkum og stórum atvinnugreinum til fiskiðnaðarins sem er aðeins örlítið brot á þeirra mælikvarða. En þetta markaðsverð, sem þannig skapast og verður til, ákveður verðið sem við Íslendingar verðum að keppa um á þessum mörkuðum og selja okkar sjávarafurðir fyrir.

Fyrir íslendinga, sem búa við þá aðstöðu að 75–80% útflutningsvara þeirra eru sjávarafurðir og hafa engar atvinnugreinar sem eru þess megnugar að halda sjávarútveginum uppi með styrkjum, skiptir það öllu máli að eiga aðgang að mörkuðum þar sem við getum selt sjávarafurðir okkar á verði sem stendur undir raunverulegum framleiðslukostnaði. Íslendingar hafa líka skilyrði til þess að geta framleitt sjávarafurðir með lægri tilkostnaði en flestar, ef ekki allar aðrar þjóðir, og eru því samkeppnisfærir á hvaða markaði sem er, þar sem þeir sæta heiðarlegum viðskiptakjörum og ekki undirboði. Verðfall á íslenskum sjávarafurðum, sem orðið hefur á síðustu árum, má vafalaust ekki aðeins rekja til tímabundinnar efnahagskreppu, heldur eigi síður til þessara orsaka að einhverju leyti.

Þegar íslendingar þannig eru þvingaðir til þess að selja sjávarafurðir sínar undir framleiðsluverði, þá eru lífskjör á Íslandi jafnframt skert þannig að þau hljóta að verða lakari en gerist í öðrum vestrænum löndum. Á þennan hátt eru íslendingar einnig með mjög óskammfeilnum hætti í raun og veru látnir greiða niður styrkina sem EBE-löndin veita sínum sjávarútvegi, m. a. til þess að fiska hér upp við Íslandsstrendur.

Að fengnum sigri í landhelgisbaráttu okkar sem við vonum, ekki síst með tilliti til hafréttarráðstefnu Sameinuðu þjóðanna, að verði nú endanlegur sigur, þá verður þetta mál, sem ég drap á, eitt brýnasta hagsmunamálið sem íslenska þjóðin þarf að vinna að og jafnframt eitt það sem búast má við að verði hvað erfiðast fyrir íslendinga að fá viðunandi lausn á, og liggja til þess margvíslegar ástæður. Einmitt vegna þess að hér er um erfitt mál að ræða sem gæti í framtíðinni næstum því varðað íslendinga eins miklu og sjálft landhelgismálið, — því að til hvers er fyrir íslendinga að veiða fisk í sinni landhelgi ef þeir geta ekki komið honum til kaupandans og selt hann á því verði sem það kostar að afla hans? — einmitt vegna þess hve hér er í uppsiglingu alvarlegt vandamál fyrir íslendinga og erfitt úrlausnar, eins og ég sagði áðan, þá tel ég mjög brýnt að nú þegar taki íslenska ríkisstj. upp viðræður við þau vestræn ríki, sem við eigum mest samskipti við og seljum mest af okkar fiskafurðum til, einmitt um þetta atriði.

Ég vil þá að lokum, herra forseti, víkja að þriðja meginatriði þessarar þáltill., en í grg. er það efnisatriði skilgreint þannig, með leyfi hæstv. forseta:

„Tryggt verði svo sem unnt er öryggi íslensku þjóðarinnar í hugsanlegum hernaðarátökum og í því sambandi sérstaklega haft í huga að helmingur íslensku þjóðarinnar býr á samfelldu þéttbýlissvæði.“

Í afstöðu Íslands til umheimsins má greina fjóra höfuðþætti. Í fyrsta lagi einangrunartímann fram til 1874, þegar íslendingar áttu lítil samskipti við aðrar þjóðir en dani. Síðan vaxandi samskipti við aðrar þjóðir á árabilinu 1874–1918, þar sem heimsstyrjöldin fyrri leiddi til þess að íslendingar urðu í vaxandi mæli að sjá sjálfir málum sínum borgið. Þar næst kemur síðan hlutleysisstefnan frá 1918 og fram til heimsstyrjaldarinnar síðari, þegar í ljós kom að stórveldin mundu ekki á styrjaldartímum virða hlutleysi Íslands. Og loks að heimsstyrjöldinni síðari lokinni kom að endurskoðun á utanríkisstefnu Íslands, þar sem í ljósi reynslunnar frá styrjaldarárunum var horfið frá hlutleysisstefnu og Ísland varð aðili að varnarbandalagi vestrænna þjóða, Atlantshafsbandalaginu, og gerði síðan sérstakan varnarsáttmála við Bandaríki Norður-Ameríku.

Engum getur blandast hugur um að í mörgum efnum eru viðhorf á sviðum alþjóðamála breytt frá því sem var 1950. Má þar nefna að bylting hefur orðið í hernaðartækni á þessu tímabili. Þá hefur aukin tækni í nýtingu auðlinda leitt til hættu á ofnotkun og auðlindaþurrð, en voldug viðskipta- og efnahagsbandalög hafa risið upp til þess að tryggja sameiginlega hagsmuni stórra þjóða, sem geta þó jafnframt auðveldlega malað smælingjann undir hrammi sínum. Allar þessar breytingar hljóta í eðli sínu að hafa viðtæk áhrif á stöðu Íslands í umheiminum og samskipti þess við aðrar þjáðir, m. a. með þeim hætti að líta á samskipti sín við erlendar þjóðir í stærra samhengi en áður var.

Hvað snertir stöðu Íslands í hernaðarlegri og stjórnmálalegri valdabaráttu stórveldanna hafa tveir valkostir verið til umræðu meðal íslendinga: annar kosturinn algert hlutleysi landsins, en hinn kosturinn sá sem að hefur verið horfið, þ. e. aðild Íslands að Atlantshafsbandalaginu og varnarsáttmáli þess við Bandaríki Norður-Ameríku.

Þegar Ísland fékk viðurkennt fullveldi 1918 var það hugsjón íslendinga að standa utan við öll hernaðarátök og lýst var yfir ævarandi hlutleysi landsins. Þrátt fyrir þá reynslu af heimsstyrjöldinni síðari, að hlutleysi var ekki virt þegar til styrjaldarátaka kom, átti hlutleysisstefnan sterk ítök í íslensku þjóðinni á fyrstu árunum eftir heimsstyrjöldina, og kom sú stefna m. a. fram í þeim yfirlýsingum íslendinga í samningum við vestrænar þjóðir að hér skyldi ekki vera her á friðartímum. Sé hugtakið friðartímar í þessu sambandi skilgreint þannig að ekki sé ófriður eða ófriðarlíkur á vesturhveli jarðar, þ. e. ekki milli Atlantshafsbandalagsins og Varsjárbandalagsins eða Sovétríkjanna og Bandaríkjanna, þá mun sjálfsagt sumum finnast að á slíkum tímum gæti hlutleysi Íslands komið til álita. Í því sambandi verður þó að því að hyggja hversu Ísland er veik eining og þarf þess vegna margt af nauðsynjum sínum til annarra að sækja. Af þessum sökum er utanríkisverslun íslendinga, miðað við fólksfjölda, líklega meiri en í nokkru öðru landi. Auðvelt er þess vegna hverju ríki, sem Ísland þarf að skipta við, að beita það viðskiptalegum þvingunum sem íslendingar eru, eins og dæmi sanna, í erfiðri stöðu til að standast. Þá verður einnig að leita eftir erlendu fjármagni til allra meiri háttar framkvæmda sem íslendingar hyggjast ráðast í til að treysta og færa út undirstöður atvinnuvega sinna, t. d. með aukinni orkuvinnslu og iðnaði. Með tilliti til þess, að gera mætti ráð fyrir að á Íslandi yrðu við frjálsar kosningar eins og í öðrum lýðræðisríkjum sveiflur ýmist til hægri eða vinstri og til valda kæmi á víxl hægri eða vinstri ríkisstj., er nokkurt efamál og íhugunarefni hvernig Íslandi reiddi af í slíkri stöðu og hvernig þau lönd, sem hafa kynnu áhuga á Íslandi út frá öðrum sjónarmiðum en innanlandsmálum íslendinga, kynnu að bregðast við þessari stöðu og reyna að hagnýta sér hana. Mörgum stórum þjóðum, jafnvel milljónaþjóðum, hefur línudans hlutleysisins ekki reynst neinn dans á rósum. Annað skiptir þó öllu máli og sker úr í þessu efni að mínu áliti. Kæmi til hernaðarátaka milli austurs og vesturs og Ísland væri hlutlaust og óvarið, held ég að engum sem lítur raunhæft á málið, geti blandast hugur um það að hlutleysi Íslands yrði ekki virt. Þvert á móti eru miklar, ef ekki allar líkur og full vissa á því að mikilvægi yfiráða á Íslandi mundi strax í upphafi styrjaldar leiða til hernáms og hernaðarátaka á Íslandi sem hæglega gætu leitt til endaloka íslensku þjóðarinnar eða a. m. k. til endaloka sjálfstæðis hennar og fullveldis.

Af þessum sökum tel ég að hafna verði hlutleysisstefnunni og að Ísland eigi áfram að vera þátttakandi í varnarsamstarfi vestrænna þjóða, enda hlýtur sameiginleg, menningarleg og lýðræðisleg arfleifð Vesturlanda, sem íslensk menning er nátengd, að leiða til þess að íslendingar hljóta að skipa sér þar á bekk.

Reynsla íslendinga af góðum samskiptum við vestrænar þjóðir, menningarleg tengsl og sameiginleg arfleifð lýðræðisskipulagsins varð á sínum tíma til þess að Ísland gerðist upphaflega þátttakandi í varnarsamstarfi vestrænna þjóða. Hagsmunir Íslands í þessu samstarfi voru tvíþættir: annars vegar að styrkja varnarstöðu Atlantshafsbandalagsins og efla valdajafnvægið milli austurs og vesturs og draga þar með úr ófriðarhættu, sem er Íslandi að sjálfsögðu mjög mikilvægt, og hins vegar að tryggja sem best öryggi landsins sjálfs, þannig að varnarleysi Íslands byði ekki aukinni hættu heim.

Hvað fyrra atriðið snertir er vafalaust að tilganginum hefur verið náð. Síðan til Atlantshafsbandalagsins var stofnað hefur valdajafnvægi skapast milli þess og Varsjárbandalagsins og ekki komið til hernaðarátaka þeirra í milli. Með síðara atriðinu, tryggingu fyrir öryggi Íslands, hefur einnig því takmarki verið náð að varnarleysi landsins býður ekki hættunni heim. Af þessari ástæðu hljóta íslendingar að óbreyttu ástandi heimsmála sjálfra sín vegna að velja að vera áfram í varnarbandalagi með Vestur-Evrópu og Norður-Ameríku.

Ég vil taka það skýrt fram, vegna þess að í þessari þáltill. er fjallað í samhengi um lífsmöguleika íslensku þjóðarinnar á sviði efnahags-, viðskipta- og varnarmála, að aldrei kæmi til greina að mínu áliti að íslendingar færu út á þá braut að krefjast gjalds fyrir herstöðina á Keflavíkurflugvelli sem þar er jafnt sjálfra þeirra sem bandalagsþjóða þeirra vegna. En þótt dæmi séu hliðstæðrar gjaldtöku hjá ýmsum þjóðum tel ég fráleitt að íslendingar afli sér tekna með þeim hætti, enda yrði fé, sem þannig væri fengið, einungis til þess að lama atvinnuvegi þjóðarinnar og sjálfsbjargarviðleitni þegar til lengdar léti. Það, sem íslendingum hins vegar ríður á öllu öðru fremur í skiptum sínum við vestrænar þjóðir, er að geta notið eðlilegra viðskiptakjara fyrir útflutningsvörur sinar í Efnahagsbandalagslöndunum og Bandaríkjunum og fá að sitja að íslenskum fiskimiðum, þeirri auðlind sem líf þjóðarinnar veltur á og er nú svo þorrin vegna ásóknar erlendra þjóða að það, sem eftir er, nægir tæplega íslendingum sjálfum. Um þetta eigum við ekki að biðja. Þessa eigum við að krefjast. Hér er ekki heldur beðið um neina ölmusu. Ég tel að það sé siðferðileg skylda þeirra vestrænu þjóða, sem við höfum skipað okkur á bekk með, að styðja okkur í þessari kröfu og sjá um að við henni verði orðið.

Í þeim tveim heimsstyrjöldum, sem yfir hafa gengið á þessari öld, hefur gæfa Íslands verið slík að hernaðarárásir, sem nefna mætti því nafni, hafa ekki átt sér stað innan landsins sjálfs. Íslendingar hafa vonað og trúað að sú yrði reyndin framvegis ef svo hörmulega tækist til að heimsstyrjöld brytist enn einu sinni út, og jafnvel hafa menn alið með sér vonir um að ný hernaðartækni minnkaði hættu á hernaðarátökum á Íslandi, jafnframt því sem hernaðarlegt mikilvægi landsins mundi að sama skapi minnka. Þessu er því miður hvað hernaðarlegt mikilvægi Íslands snertir ekki þannig varið að allra dómi. Um miðjan okt. s. l. var yfirflotaforingi Atlandshafsbandalagsins, Isaac Kidd í heimsókn hér á Íslandi. Yfirforinginn kvað mikilvægi Íslands í varnarkeðju Atlantshafsbandalagsins fara vaxandi og lýsti því svo, með leyfi hæstv. forseta:

„Mikilvægi flutningaleiða milli Bandaríkjanna og Evrópu eykst stöðugt með auknum umsvifum flota Sovétríkjanna á höfunum. Okkar hlutverk er m. a. að halda siglingaleiðum opnum, meðan Sovétríkin virðast stefna að því að geta lokað þeim ef til á að taka.“ Og enn fremur sagði flotaforinginn: „Hernaðarlegt mikilvægi Íslands er fólgið í landfræðilegri legu þess, og þetta mikilvægi hefur ekki minnkað með tilkomu nýrra og fullkomnari vopna. Þvert á móti hefur það aukist.“

Sé sú skoðun yfirflotaforingjans rétt, sem ég tel mig a. m. k. ekki umkominn að draga í efa, að hernaðarlegt mikilvægi Íslands hafi aukist með tilkomu nýrra og fullkominna vopna og að landfræðileg lega Íslands veitti þeim, sem þar hefur herstöð, lykilaðstöðu til þess að halda opnum eða geta lokað flutningaleiðum milli Bandaríkjanna og Evrópu, þá virðist mega draga af því þá ályktun, að íslendingum sé bæði nauðsynlegt og skylt að afla sér fræðilegs álits hlutlausra herfræðinga á því, hverjar líkur séu til beinnar árásar á Ísland í ófriði, hvar á landinn hættan væri mest og hvaða ráðstafanir til almannavarna bæri að hafa tiltækar. Það sýnir best hve íslendingar eru frábitnir hernaði og hve hörmungar styrjaldarátaka, sem þeir hafa verið svo gæfusamir að hafa ekki sjálfir kynnst af reynd, eru þeim fjarri, að þann aldarfjórðung, sem íslendingar hafa þó sjálfir vitað um hernaðarlegt mikilvægi landsins, hafa íslensk stjórnvöld aldrei gert ráðstafanir til þess að þjóðin eignaðist sjálf herfræðilega menntaða menn. Menn með slíka menntun úr hópi íslendinga sjálfra hefðu þó vissulega verið og væru íslenskum stjórnvöldum mjög nauðsynlegir til að geta gefið þeim fræðilegar upplýsingar út frá íslenskum sjónarmiðum og staðreyndum um herfræðileg efni. Við fáum því miður engu breytt varðandi þær hættur, sem hernaðarlegt mikilvægi landfræðilegrar legu landsins leggur íslendingum á herðar, hvort sem okkur líkar það betur eða verr. Við fáum heldur engu breytt um átök stórveldanna við uppskiptingu heimsins í áhrifasvæði.

Með herverndarsamningnum við Bandaríki Norður-Ameríku höfum við sýnt að við vitum þó hvaða þýðingu hnattstaða Íslands hefur með tilliti til hugsanlegs ófriðar. Hver einasta saga styrjaldarátaka frá upphafi sögunnar til okkar daga sýnir að varnir lands og varnir þjóðarinnar, sem í því býr, fara ekki alltaf saman. Ég held að flestar þjóðir, sem á annað borð gera ráð fyrir að til ófriðar gæti hugsanlega dregið í löndum þeirra, geri fyrir fram ráðstafanir til almannavarna til þess að tryggja, eftir því sem unnt er, líf þegna sinna. Í þessu efni hafa íslendingar einnig sérstöðu hvað áhættu snertir. Þjóðverjar þoldu í síðustu styrjöld að heilar borgir voru næstum því lagðar í rúst. Samt áttu þeir margar eftir sem sluppu að mestu óskemmdar. Ef alvarlegir atburðir skeðu á mesta þéttbýlissvæði Íslands án nokkurs viðbúnaðar til skjóls eða björgunar íbúunum á því svæði, þá gætu þær riðið íslensku þjóðinni að fullu, a. m. k. sem sjálfstæðri þjóð. Að þessu leyti skapar fámenni þjóðarinnar henni margfalt meiri hættu, meiri áhættu en stærri þjóðum. Auðvitað vonum við og biðjum, íslendingar, að gifta landsins verði enn um alla framtíð slík að aldrei komi til stríðsátaka á Íslandi. En reynist fræðilegt mat leiða til þeirrar ályktunar, að slíkt væri ekki með öllu óhugsandi, — að það væri bara ekki með öllu óhugsandi, — þá ber okkur að bregðast við því á þann eina hátt sem réttlætanlegur er, og það er að taka upp viðræður við bandaríkjamenn um þetta efni í samhengi við varnarsamninginn.

Herra forseti. Ýmsum hv. þm. kann að virðast að ég hafi hér fjallað um óskyld mál í þessari ræðu. Svo er þó alls ekki ef að er gáð. Inntak þess, sem ég hef hér sagt, er í stuttu máli það, að þess sé freistað af hálfu íslensku ríkisstj. í gegnum samstarf okkar við vestræn ríki að tryggja líf og tilveru íslensku þjóðarinnar á öllum þeim sviðum þar sem hætta steðjar að henni. Það eitt er ekki nóg að íslendingar séu vinnusöm og dugandi þjóð, ef í hörðum og miskunnarlausum heimi, þar sem líf og tilvera smáþjóðar er oft til fárra fiska metin, er gengið á rétt þeirra og frá þeim teknir möguleikar til lífsbjargar. Á þessari örlagastundu í lífi íslensku þjóðarinnar verðum við að ræða lífshagsmunamál okkar í samhengi við þau samtök vestrænna þjóða, sem við erum tengdastir, og láta á það reyna, hvort skilningur er fyrir hendi á því að réttur íslendinga til að lifa áfram í landi sínu sem sjálfstæð og fullvalda þjóð verði virtur.

Herra forseti. Að lokinni þessari umr. legg ég til að till. verði vísað til utanrmn.