Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF Word Perfect.

Þingskjal 356, 111. löggjafarþing 196. mál: niðurfelling laga vegna breytinga á skipan sveitarstjórnarmála.
Lög nr. 108 29. desember 1988.

Lög um breytingu á lagaákvæðum og niðurfellingu laga vegna breytinga á skipan sveitarstjórnarmála samkvæmt sveitarstjórnarlögum, nr. 8/1986.


I. KAFLI
Lög sem heyra undir dóms- og kirkjumálaráðuneytið.

1. gr.

     Um breytingu á áfengislögum, nr. 82/1969.
     3. mgr. 12. gr. laganna orðist svo:
     Áður en vínveitingaleyfi er veitt skal leita umsagnar hlutaðeigandi sveitarstjórnar og er ráðherra óheimilt að veita slíkt leyfi ef sveitarstjórnin reynist leyfisveitingu mótfallin.

2. gr.

     Um breytingu á lögum um lögreglumenn, nr. 56/1972.
     Í stað orðsins „sýslunefndar“ í 1. mgr. 7. gr. laganna komi orðið „sýslumanns“.

3. gr.

     Um breytingu á lögum um lögreglumenn, nr. 56/1972.
     13. gr. laganna falli brott.

4. gr.

     Um breytingu á lögum um lögreglumenn, nr. 56/1972.
     1. og 3. mgr. 14. gr. laganna falli brott.

II. KAFLI
Lög sem heyra undir félagsmálaráðuneytið.

5. gr.

     Um breytingu á lögum um heimilishjálp í viðlögum, nr. 10/1952.
     Orðin „og sýslunefndum“ í 1. mgr. 1. gr. laganna falli brott.

6. gr.

     Um breytingu á lögum um heimilishjálp í viðlögum, nr. 10/1952.
     Orðin „eða sýslunefnd“ í 2. og 3. gr. og 1. og 2. málsl. 4. gr. laganna falli brott. Jafnframt orðin „eða sýslunefndar“ í 3. gr. laganna.

7. gr.

     Um breytingu á lögum um Bjargráðasjóð, nr. 51/1972.
     13. gr. laganna orðist svo:
     Séreignir sýslu- og bæjarfélaga við gildistöku laga þessara skulu vera í vörslu almennu deildar sjóðsins og ávaxtast í Lánasjóði sveitarfélaga.

III. KAFLI
Lög sem heyra undir heilbrigðis- og tryggingamálaráðuneytið.

8. gr.

     Um breytingu á berklavarnalögum, nr. 66/1939.
     1. mgr. 21. gr. laganna orðist svo:
     Nú þarf læknir að taka sér ferð á hendur vegna fyrirmæla laga þessara, og greiðir þá hlutaðeigandi sveitarsjóður ferðakostnaðinn, en ríkissjóður endurgreiðir helminginn.

9. gr.

     Um breytingu á lögum um hundahald og varnir gegn sullaveiki, nr. 7/1953.
     1. gr. laganna orðist svo:
     Sveitarstjórn er heimilt að ákveða með samþykkt, er heilbrigðismálaráðuneytið staðfestir, að takmarka eða banna hundahald í sveitarfélaginu.

10. gr.

     Um breytingu á lögum um hundahald og varnir gegn sullaveiki, nr. 7/1953.
     2. mgr. 3. gr. laganna orðist svo:
     Skatturinn rennur í sveitarsjóð.

11. gr.

     Um breytingu á lögum um hundahald og varnir gegn sullaveiki, nr. 7/1953.
     5. gr. laganna orðist svo:
     Sveitarstjórnir skulu sjá um hreinsun hunda til útrýmingar bandormum, hver í sínu umdæmi. Kostnaður greiðist úr sveitarsjóði.

12. gr.

     Um breytingu á lögum um Brunabótafélag Íslands, nr. 9/1955.
     5. gr. laganna orðist svo:
     Félagið skiptist í deildir og er hvert sveitarfélag sérstök deild í félaginu. Ári eftir hverjar reglulegar sveitarstjórnarkosningar skal hver kaupstaður eða bær utan Reykjavíkur og allar héraðsnefndir í landinu, samkvæmt lögum nr. 8/1986, sem gert hafa samning um fasteignatryggingar hjá félaginu, tilnefna einn mann hvert og annan til vara í fulltrúaráð fyrir félagið. Réttur til tilnefningar í fulltrúaráð og þátttöku í starfsemi þess fellur niður, er kaupstaður, bær eða öll sveitarfélög í héraðsnefnd hafa sagt upp tryggingum hjá félaginu. Atkvæðisréttur manns á fundi í héraðsnefnd við tilnefningu í fulltrúaráð er við það bundinn að sveitarfélag það, sem hann er fulltrúi fyrir, hafi ekki sagt upp tryggingum hjá félaginu.

13. gr.

     Um breytingu á lögum um Brunabótafélag Íslands, nr. 9/1955.
     1. mgr. 6. gr. laganna orðist svo:
     Brunabótafélagið kallar fulltrúaráðið saman til aðalfundar fjórða hvert ár, næsta ár á eftir reglulegum sveitarstjórnarkosningum. Fulltrúaráð skal auk þess kallað saman til aukafunda hvenær sem framkvæmdastjórn ákveður og ætíð ef eigi færri en 1/ 3 fulltrúaráðsmanna óskar þess.

14. gr.

     Um breytingu á farsóttalögum, nr. 10/1958.
     2. mgr. 13. gr. laganna orðist svo:
     Nú óskar sveitarstjórn að afkvía sveitarfélagið eða hluta þess, til þess að ekki berist þangað hættuleg farsótt, og getur þá ráðherra, ef gild ástæða þykir til, heimilað afkvíunina og falið hlutaðeigandi lögreglustjóra framkvæmdirnar í samráði við hlutaðeigandi lækni. Kostnaður af slíkri afkvíun greiðist úr hlutaðeigandi sveitarsjóði.

15. gr.

     Um breytingu á farsóttalögum, nr. 10/1958.
     Orðin „eða sýslusjóði“ í 1. mgr. 16. gr. laganna falli brott.

IV. KAFLI
Lög sem heyra undir iðnaðarráðuneytið.

16. gr.

     Um breytingu á vatnalögum, nr. 15/1923.
     3. tölul. 28. gr. laganna orðist svo: Þá er hreppsnefnd hefir löglega samþykkt að koma upp vatnsveitu samkvæmt 1. og 2. lið, skal senda samþykktina ásamt öllum þeim gögnum, sem í sömu liðum segir, ráðherra til staðfestingar. Þegar fengin er staðfesting hans á samþykktina getur hreppsnefnd látið framkvæma verkið.

17. gr.

     Um breytingu á vatnalögum, nr. 15/1923.
     2. tölul. 46. gr. laganna orðist svo:
     Nú telur stjórn áveitufélags eða landþurrkunar- og áveitufélags nauðsynlegt að taka lán til stofnkostnaðar samáveitu og er þá hlutaðeigandi sveitarstjórn heimilt að ábyrgjast lán þetta.

18. gr.

     Um breytingu á vatnalögum, nr. 15/1923.
     2. tölul. 91. gr. laganna orðist svo:
     Þá er hreppsnefnd hefir samþykkt að leggja holræsi skv. 1. lið skal senda samþykktina ásamt þeim gögnum, sem í sama lið greinir, ráðherra til staðfestingar. Þegar fengin er staðfesting hans á samþykktina getur hreppsnefnd látið framkvæma verkið.

19. gr.

     Um breytingu á lögum um Hitaveitu Suðurnesja, nr. 100/1974.
     14. gr. laganna orðist svo:
     Um skyldu Hitaveitu Suðurnesja til greiðslu opinberra gjalda til ríkis og sveitarsjóða fer á sama hátt sem um skyldu sveitarfélaga er slíkan rekstur hafa með höndum. Hitaveita Suðurnesja skal undanþegin stimpilgjöldum.

20. gr.

     Um breytingu á lögum um raforkuver, nr. 60/1981.
     4. gr. laganna orðist svo:
     Virkjunar- og rekstraraðili skv. 1. gr. er undanþeginn tekjuskatti, stimpilgjöldum, útsvari, aðstöðugjaldi og öðrum gjöldum til ríkis og sveitarfélaga að því er varðar framkvæmdir skv. 1. gr. Þó skal greiða sveitarfélögum þau gjöld sem rekstraraðila er gert að greiða vegna húseigna samkvæmt öðrum lagafyrirmælum.

21. gr.

     Um breytingu á lögum um Landsvirkjun, nr. 42/1983.
     16. gr. laganna orðist svo:
     Landsvirkjun er undanþegin tekjuskatti, eignarskatti, stimpilgjöldum vegna lána sem fyrirtækið tekur eða vegna eignaafsala til fyrirtækisins, útsvari, aðstöðugjaldi svo og öðrum gjöldum til sveitarfélaga. Þó skal Landsvirkjun greiða til sveitarfélaga þau opinber gjöld sem gert er að greiða af húseignum Landsvirkjunar samkvæmt öðrum lagafyrirmælum.

22. gr.

     Um breytingu á lögum um Landsvirkjun, nr. 42/1983.
     17. gr. laganna orðist svo:
     Sveitarfélögum, samtökum þeirra og sameignarfélögum þeirra er heimilt að gerast eignaraðilar að Landsvirkjun með þessum skilyrðum.

V. KAFLI
Lög sem heyra undir landbúnaðarráðuneytið.

23. gr.

     Um breytingu á lögum um varnir gegn útbreiðslu næmra sauðfjársjúkdóma og útrýmingu þeirra, nr. 23/1956.
     Síðasti málsl. 3. mgr. 7. gr. laganna orðist svo: Nægi það eigi greiðir ríkissjóður og hlutaðeigandi sveitarsjóður það sem til vantar að hálfu hvor.

24. gr.

     Um breytingu á lögum um eyðingu refa og minka, nr. 52/1957.
     1. mgr. 13. gr. laganna orðist svo:
     Stjórnir sveitarfélaga eða aðrir sem annast eyðingu refa og minka samkvæmt lögum þessum skulu ár hvert gera sundurliðað reikningsyfirlit um kostnað við starfsemi þessa. Skulu reikningar lagðir fyrir sýslumann til úrskurðar. Nú úrskurðar sýslumaður reikninga rétta og hóflega og endurgreiðir þá ríkissjóður sveitarfélögum 3/ 4 hluta útlagðs kostnaðar við framkvæmd laga þessara.

25. gr.

     Um breytingu á girðingarlögum, nr. 10/1965.
     Upphaf 8. gr. laganna orðist svo:
     Nú vilja sveitarfélög, eitt eða fleiri, girða af sitt afréttarland, en fá ekki samþykki aðliggjandi hreppa, og skal þá sýslumaður, áður en tekur til ákvæða 5., 6. og 7. gr. um þau atriði, fella úrskurð um hvort fyrirhuguð girðing skuli heyra undir ákvæði ofannefndra lagagreina. Skal úrskurður sýslumanns reistur á þrem eftirtöldum atriðum ...

26. gr.

     Um breytingu á girðingarlögum, nr. 10/1965.
     9. gr. laganna orðist svo:
     Nú er afréttargirðing úrskurðuð hæf af sýslumanni samkvæmt næstu grein hér á undan, og skulu þá þau sveitarfélög, sem samliggjandi afréttir eiga þeim megin sem þátttaka var úrskurðuð, vera þátttakendur í úrskurðuðum kostnaði hvort sem afréttarlönd þeirra liggja að hinu afgirta landi eða ekki ef búfé frá þeim hefur síðastliðin fimm ár, áður en girt var, komið fram í fjallskilum að hausti á hinu afgirta landi. Skal tala þessa búfjár vera skiptingargrundvöllur.

27. gr.

     Um breytingu á girðingarlögum, nr. 10/1965.
     19. gr. laganna falli brott.

28. gr.

     Um breytingu á lögum um landgræðslu, nr. 17/1965.
     19. gr. laganna orðist svo:
     Í hverri sýslu, kaupstað og bæ skal starfa þriggja manna gróðurverndarnefnd. Héraðsnefndir og bæjarstjórnir kjósa nefndirnar til fjögurra ára í senn. Í sýslum skal áður leitað tillagna viðkomandi búnaðarsambands. Nefndin kýs sér formann. Funda- og ferðakostnaður svo og þóknun fyrir unnin störf gróðurverndarnefndar greiðist af fé Landgræðslu ríkisins að 2/ 3 hlutum og viðkomandi héraðssjóði eða bæjarsjóði að 1/ 3 hluta.

29. gr.

     Um breytingu á lögum um eyðingu svartbaks, nr. 50/1965.
     Í 12. gr. laganna komi orðið „félagsmálaráðuneytisins“ í stað orðsins „sýslusjóðs“.

30. gr.

     Um breytingu á lögum um eyðingu svartbaks, nr. 50/1965.
     14. gr. laganna orðist svo:
     Þau sveitarfélög, sem samkvæmt lögum þessum greiða verðlaun fyrir unna svartbaka, skulu gera árlegt reikningsyfirlit um þau gjöld. Yfirlitin skulu síðan send félagsmálaráðuneytinu sem annast innheimtu á hluta ríkissjóðs, 2/ 3.

31. gr.

     Um breytingu á lögum um lax- og silungsveiði, nr. 76/1970.
     6. mgr. 14. gr. laganna orðist svo:
     Rétt er ráðherra að takmarka eða banna veiði göngusilungs í sjó á tilteknum svæðum og um tiltekinn tíma enda æski veiðinotendur eða veiðifélag slíkrar friðunar og hlutaðeigandi sveitarstjórn eða -stjórnir mæli með henni.

32. gr.

     Um breytingu á lögum um lax- og silungsveiði, nr. 76/1970.
     1. mgr. 90. gr. laganna orðist svo:
     Ráðherra ákveður kaup eftirlitsmanna að fengnum tillögum veiðimálastjóra. Greiðist það að hálfu úr ríkissjóði og að hálfu af veiðieigendum í hlutfalli við veiði þeirra næstliðið ár. Sýslumaður jafnar gjaldinu niður og innheimtir það af veiðieigendum. Má taka gjaldið lögtaki.

33. gr.

     Um breytingu á lögum um lax- og silungsveiði, nr. 76/1970.
     2. mgr. 95. gr. laganna orðist svo:
     Matsmenn skv. 1. mgr. skulu leita umsagnar veiðimálastjóra og veiðimálanefndar. Skaðabætur greiðast að hálfu úr ríkissjóði og að hálfu úr hlutaðeigandi sveitarsjóði eða -sjóðum.

34. gr.

     Um breytingu á lögum um Stofnlánadeild landbúnaðarins, landnám, ræktun og byggingar í sveitum, nr. 45/1971.
     2. mgr. 7. gr. laganna orðist svo:
     Tryggingar þær, sem taldar eru undir 1. tölul., skulu fullgildar einar saman ef um er að ræða lán til jarðakaupa, ræktunar eða byggingar íbúðarhúsa, peningshúsa og geymsluhúsa á lögbýlum, en ef um er að ræða lán til verksmiðja, véla, gróðurhúsa og bústofnsauka skulu þau veð, sem látin eru til tryggingar skv. 2.–4. tölul., styrkt með fasteignaveði eða einfaldri ábyrgð sveitarfélags ef nauðsynlegt þykir.

35. gr.

     Um breytingu á búfjárræktarlögum, nr. 31/1973.
     38. gr. laganna orðist svo:
     Heimilt er sveitarstjórn að ákveða að öllum hrossaeigendum í sveitarfélaginu sé skylt að hafa hross sín í vörslu allt árið eða tiltekinn hluta þess nema að því leyti sem leyfilegt er að hafa stóðhross í sameiginlegum afrétti.

36. gr.

     Um breytingu á ábúðarlögum, nr. 64/1976.
     1. málsl. 2. mgr. 44. gr. laganna orðist svo: Sýslumaður skipar tvo menn í nefndina til sex ára og varamenn til sama tíma.

37. gr.

     Um breytingu á jarðalögum, nr. 65/1976.
     Í 4., 11. og 19. gr. laganna komi orðið „héraðsnefnd“ í stað orðsins „sýslunefnd“.

38. gr.

     Um breytingu á jarðalögum, nr. 65/1976.
     20. gr. laganna orðist svo:
     Kostnaður við störf jarðanefndar greiðist að hálfu af viðkomandi sveitarsjóðum og búnaðarsambandi og að hálfu af ríkissjóði.

39. gr.

     Um breytingu á lögum um sauðfjárbaðanir, nr. 22/1977.
     1. mgr. 3. gr. laganna orðist svo:
     Heimilt er landbúnaðarráðherra, að fengnum umsóknum sýslumanns, að veita undanþágu frá böðunarskyldu um ótiltekinn tíma í tilteknum fjárskiptahólfum og öðrum einangruðum svæðum þar sem rækilega hefur verið framfylgt lögum og reglum um böðun og óþrifa þá ekki orðið vart, enda mæli yfirdýralæknir og hlutaðeigandi héraðsdýralæknar með því að undanþága sé veitt. Umsóknum skulu fylgja vottorð héraðsráðunauta í sauðfjárrækt og garnaveikisbólusetningarmanna, gærumatsmanna og heilbrigðiseftirlitsmanna í sláturhúsum á svæðinu um að þeir hafi ekki í starfi sínu orðið varir við kláða eða önnur óþrif í sauðfé og geitfé í hólfinu síðastliðin fjögur ár eða lengur.

40. gr.

     Um breytingu á lögum um sauðfjárbaðanir, nr. 22/1977.
     2. mgr. 6. gr. laganna orðist svo:
     Annars staðar skipar landbúnaðarráðherra eftirlitsmenn með sauðfjárböðunum, einn í hverri sýslu eða hluta úr sýslu eða bæjarfélagi, að fengnum tillögum yfirdýralæknis og héraðsnefnda eða bæjarstjórnar.
     Í 5. mgr. 6. gr. laganna komi orðið „héraðssjóði“ í stað orðsins „sýslusjóði“.

41. gr.

     Um breytingu á lögum um dýralækna, nr. 77/1981.
     16. gr. laganna orðist svo:
     Meðan eigi fást dýralæknar í öll hin lögákveðnu dýralæknisumdæmi er sveitarfélögum heimilt að semja við menn þar búsetta, sem ekki eru dýralæknar að menntun en hlotið hafa tilsögn dýralæknis og reyndir eru að sérstakri hæfni til að hjálpa sjúkum búpeningi, að annast dýralæknastörf innan umdæmisins eftir því sem geta þeirra og kunnátta leyfir, önnur en þau sem um getur í 7., 8. og 9. gr., enda komi til samþykki landbúnaðarráðherra og meðmæli yfirdýralæknis. Sveitarfélög njóta styrks til að greiða mönnum sem ráðnir eru á þennan hátt. Þá skal styrkur sá, sem greiddur er í hvert umdæmi, sem er án dýralæknis, ekki nema hærri upphæð en 2/ 3 þeirra launa sem héraðsdýralækni væru greidd samkvæmt launalögum. Styrkur þessi fellur niður þegar dýralæknir fæst í embættið.

42. gr.

     Um breytingu á lögum um afréttarmálefni, fjallskil o.fl., nr. 6/1986.
     Í 1., 2., 3., 5., 6., 19., 20., 21., 48. og 55. gr. laganna komi orðið „héraðsnefnd“ í stað orðsins „sýslunefnd“. Jafnframt komi orðið „héraðsnefndir“ í stað orðsins „sýslunefndir“ í 18. gr. laganna og orðið „héraðsnefndar“ í stað orðsins „sýslunefndar“ í 3. málsl. 48. gr. laganna.

43. gr.

     Um breytingu á lögum um afréttarmálefni, fjallskil o.fl., nr. 6/1986.
     Í 9. og 45. gr. laganna komi orðið „sýslumanns“ í stað orðsins „sýslunefndar“.

44. gr.

      Lög um samþykktir til að friða skóg og mel, nr. 11/1894, falli niður.

45. gr.

      Lög um samþykktir um heyforðabúr, nr. 44/1911, falli niður.

46. gr.

      Lög um samþykktir um mótak, nr. 23/1912, falli niður.

47. gr.

      Lög um mælingar á túnum og matjurtagörðum, nr. 58/1915, falli niður.

48. gr.

      Lög um samþykktir um kornforðabúr til skepnufóðurs, nr. 73/1917, falli niður.

49. gr.

      Lög um löggiltar reglugerðir sýslunefnda um eyðing refa o.fl., nr. 48/1919, falli niður.

50. gr.

      Lög um heimild fyrir ríkisstjórnina að ábyrgjast lán til að koma upp frystihúsum á kjötútflutningshöfnum, nr. 52/1932, falli niður.

51. gr.

      Lög um samþykktir um mat á heyi til sölu, nr. 21/1933, falli niður.

52. gr.

      Lög um gelding húsdýra, nr. 123/1935, 1.–5. gr. falli niður. Í stað þeirra komi svofellt ákvæði til bráðabirgða:
     Sérstakir geldingamenn, er skipaðir hafa verið samkvæmt lögum þessum, skulu starfa áfram á grundvelli skipunarbréfa sem sýslunefndir hafa sett þeim.

53. gr.

      Lög um fóðurtryggingarsjóði, nr. 80/1936 falli niður.

VI. KAFLI
Lög sem heyra undir menntamálaráðuneytið.

54. gr.

     Um breytingu á lögum um bæjarnöfn, nr. 35/1953.
     Í stað orðsins „sýslufélagi“ í 5. gr. laganna komi orðið „héraði“ og í stað orðsins „sýslufélaginu“ komi orðið „héraðinu“.

55. gr.

     Um breytingu á lögum um bæjarnöfn, nr. 35/1953.
     Í stað orðsins „sýslunefnd“ í 7. gr. laganna komi orðið „sveitarstjórn“.

56. gr.

     Um breytingu á íþróttalögum, nr. 49/1956.
     Í stað orðanna „bæjar-, sveitar- og sýslufélögum“ í 23. gr. laganna komi orðið „sveitarfélögum“.

57. gr.

     Um breytingu á lögum um fuglaveiðar og fugla friðun, nr. 33/1966.
     Í stað orðsins „sýslunefndum“ í 15. gr. laganna komi orðið „sveitarstjórnum“ og í stað orðsins „héraði“ í sömu grein komi orðið „sveitarfélagi“.

58. gr.

     Um breytingu á lögum um fuglafriðun og fuglaveiðar, nr. 33/1966.
     Í stað orðsins „sýslunefnd“ í 1. og 2. mgr. 16. gr. laganna komi orðið „sveitarstjórn“ og í stað orðsins „sýslumaður“ í 2. mgr. sömu greinar komi orðin „oddviti eða bæjarstjóri“.

59. gr.

     Um breytingu á lögum um fuglafriðun og fuglaveiðar, nr. 33/1966.
     18. gr. laganna falli brott.

60. gr.

     Um breytingu á lögum um iðnfræðslu, nr. 68/1966.
     Í stað orðanna „bæjarstjórna og sýslunefnda“ í 16. gr. laganna komi orðið „sveitarstjórna“ og í stað orðanna „bæjarstjórnir eða sýslunefndir“ komi orðið „sveitarstjórnir“.

61. gr.

     Um breytingu á þjóðminjalögum, nr. 52/1969.
     Orðin „(bæjarfélög, sýslufélög, hreppar)“ í 1. mgr. 42. gr. laganna falli niður.

62. gr.

     Um breytingu á lögum um náttúruvernd, nr. 47/1971.
     1. mgr. 3. gr. laganna orðist svo:
     Í hverri sýslu, kaupstað og bæ skal starfa þriggja til sjö manna náttúruverndarnefnd. Héraðsnefndir og bæjarstjórnir ákveða fjölda nefndarmanna og kjósa þá til fjögurra ára í senn og ákveða formann. Varamenn skulu kosnir jafnmargir til sama tíma.

63. gr.

     Um breytingu á lögum um almenningsbókasöfn, nr. 50/1976.
     Í stað orðsins „sýslusjóður“ í b- og c-lið 8. gr. laganna komi orðið „sveitarsjóður“.

64. gr.

     Um breytingu á lögum um Þjóðskjalasafn Íslands, nr. 66/1985.
     Í stað orðanna „sýslunefndum og bæjarstjórnum“ í 12. gr. laganna komi orðið „sveitarstjórnum“ og í stað orðanna „eina sýslu eða kaupstað“ komi orðin „eitt sveitarfélag“.

65. gr.

      Lög um heimild fyrir sýslu- og bæjarfélög til að starfrækja lýðskóla með skylduvinnu nemenda gegn skólaréttindum, nr. 28/1936, falli niður.

VII. KAFLI
Lög sem heyra undir samgönguráðuneytið.

66. gr.

     Um breytingu á lögum um leigubifreiðar, nr. 36/1970.
     Í stað orðanna „sýslunefnd“, „sýslunefndar“ og „sýslunefndunum“ í 1., 3. og 5. gr. laganna komin orðin „héraðsnefnd“, „héraðsnefndar“ og „héraðsnefndinni eða -nefndunum“. Jafnframt komi orðin „héraðsnefnd eða -nefnda“ í stað orðsins „sýslunefnda“ í 2., 4. og 6. gr. laganna og orðin „héraðsnefnd eða -nefndir“ í stað orðsins „sýslunefndir“ í 7. gr. þeirra.

67. gr.

     Um breytingu á vegalögum, nr. 6/1977.
     Í stað orðsins „sýslunefndum“ í 1. mgr. 9. gr. laganna komi orðin „héraðsnefndum eða sérstökum byggðasamlögum sem stofnuð verða (vegasamlögum)“. Jafnframt komi orðin „héraðsnefndir eða stjórnir vegasamlaga“ í stað orðsins „sýslunefndir“ í 17., 19. og 48. gr. laganna, orðin „héraðsnefnd eða stjórn vegasamlags“ í stað orðsins „sýslunefnd“ í 17., 19., 48., 49. og 66. gr. laganna og loks orðin „héraðsnefndar eða stjórnar vegasamlags“ í stað orðsins „sýslunefndar“ í 25. gr. þeirra.

68. gr.

     Um breytingu á hafnalögum, nr. 69/1984.
     8. gr. laganna orðist svo:
     Eigendur hafna samkvæmt lögum þessum eru sveitarfélög, eitt eða fleiri.

69. gr.

     Um breytingu á hafnalögum, nr. 69/1984.
     Í 25. gr. laganna falli brott orðin „eða sýslufélag“.

70. gr.

      Lög um samþykktir um akfæra sýslu- og hreppavegi, nr. 38/1919, falli niður.

VIII. KAFLI
Lög sem heyra undir sjávarútvegsráðuneytið.

71. gr.

      Lög um samþykktir um eftirlit úr landi með fiskiveiðum í landhelgi, nr. 54/1913, falli niður.

72. gr.

      Lög um fiskveiðasamþykktir og lendingasjóði, nr. 86/1917, falli niður.

IX. KAFLI
Lög sem heyra undir viðskiptaráðuneytið.

73. gr.

     Um breytingu á lögum um stofnun veðdeildar í Landsbankanum í Reykjavík, nr. 1/1900.
     Í stað orðanna „sýslunefndir“ og „sýslufélaginu“ í 8. gr. laganna komi orðin „sveitarstjórn“ og „sveitarfélaginu“.

74. gr.

     Um breytingu á lögum um samvinnufélög, nr. 46/1937.
     Í stað orðanna „héraðsstjórnar“ í 9. tölul. 3. gr. laganna komi orðið „sveitarstjórnar“ og í stað orðanna „sýslunefndar eða bæjarstjórnar“ komi orðið „sveitarstjórnar“. Jafnframt komi orðið „viðskiptaráðherra“ í stað orðsins „atvinnumálaráðherra“.

75. gr.

     Lög þessi öðlast gildi 1. janúar 1989.

Ákvæði til bráðabirgða.
     Gróðurverndarnefndir samkvæmt lögum nr. 17/1965 og náttúruverndarnefndir samkvæmt lögum nr. 47/1971, sem kosnar hafa verið fyrir gildistöku laga þessara, skulu halda umboði sínu þar til næstu reglulegu sveitarstjórnarkosningar fara fram. Tilnefning fulltrúa í fulltrúaráð fyrir Brunabótafélag Íslands samkvæmt ákvæðum í lögum þessum skal fyrst fara fram ári eftir næstu reglulegu sveitarstjórnarkosningar.

Samþykkt á Alþingi 22. desember 1988.