Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF Word Perfect.

Þingskjal 1306, 111. löggjafarþing 374. mál: Þjóðarbókhlaða og endurbætur menningarbygginga.
Lög nr. 83 1. júní 1989.

Lög um Þjóðarbókhlöðu og endurbætur menningarbygginga.


1. gr.

     Myndaður skal sjóður sem varið skal til að standa straum af kostnaði við endurbætur á húsakosti menningarstofnana, stuðla að verndun gamalla bygginga í eigu ríkisins og bygginga sem vernda þarf að mati Þjóðminjasafnsins og samkvæmt tillögum þess. Þá skal verja sjóðnum í upphafi til þess að ljúka byggingu Þjóðarbókhlöðunnar. Sjóðurinn er í vörslu menntamálaráðuneytisins.

2. gr.

     Tekjur sjóðsins eru:
  1. Sérstakur eignarskattur, sbr. 3.–6. gr.
  2. Framlag úr ríkissjóði samkvæmt fjárlögum hverju sinni.
  3. Vextir af inneignum sjóðsins á bankareikningum.
  4. Gjafir.

     Tekjur sjóðsins skulu jafnharðan og þær innheimtast færðar honum til tekna.
     Sjóðnum er heimilt að taka lán til starfsemi sinnar samkvæmt ákvæðum í fjárlögum og lánsfjárlögum hverju sinni.

3. gr.

     Sérstakur eignarskattur, er rennur til sjóðsins, sbr. 2. gr., skal frá og með gjaldárinu 1990 lagður á eignarskattsstofn, sbr. lög nr. 75/1981, um tekjuskatt og eignarskatt, með síðari breytingum, og skal hann vera þannig:
  1. 0,25% á þann eignarskattsstofn manna, sbr. 80.–82. gr. laga nr. 75/1981, sem er umfram 4.250.000. kr. Skattskylt mark til sérstaks eignarskatts skal breytast samkvæmt skattvísitölu, sbr. 122. gr. greindra laga, í fyrsta sinn á gjaldárinu 1990 samkvæmt skattvísitölu gjaldársins 1990. Þó skal ekki leggja sérstakan eignarskatt á eignir manna sem orðnir eru 67 ára eða eldri fyrir upphaf hlutaðeigandi gjaldárs né heldur þá menn sem nutu örorkulífeyris skv. II. og IV. kafla laga nr. 67/1971, um almannatryggingar, með síðari breytingum, á því tekjuári sem næst er á undan álagningarári.
  2. 0,25% á eignarskattsstofn lögaðila, sbr. 2. gr. laga nr. 75/1981, og þeirra aðila sem takmarkaða skattskyldu bera, sbr. 3. gr. sömu laga, ákvarðaðan samkvæmt ákvæðum 80.–82. gr. greindra laga.


4. gr.

     Ákvæði VIII.– XIV. kafla laga nr. 75/1981, um tekjuskatt og eignarskatt, með síðari breytingum, skulu gilda um álagningu og innheimtu þessa sérstaka eignarskatts eftir því sem við á.

5. gr.

     Sérstakan eignarskatt samkvæmt lögum þessum er ekki heimilt að draga frá tekjum við ákvörðun tekjuskattsstofns og útsvarsskyldra tekna og við álagningu tekjuskatts, útsvars og annarra skatta og gjalda sem miðast við greinda gjaldstofna. Um frádrátt þessa sérstaka eignarskatts til frádráttar eignum við ákvörðun eignarskattsstofns fer eftir lokaákvæðum 1. mgr. 76. gr. laga nr. 75/1981, með síðari breytingum.

6. gr.

     Með sérstakan eignarskatt samkvæmt lögum þessum skal fara á sama hátt og eignarskatt varðandi ráðstöfun ónýtts persónuafsláttar skv. 2. mgr. A-liðar 68. gr. laga nr. 75/1981.

7. gr.

     Menntamálaráðherra skipar þrjá menn í stjórn sjóðsins til fjögurra ára í senn, einn samkvæmt tilnefningu kirkjumálaráðuneytisins og tvo án tilnefningar, og skal annar hafa sérþekkingu á sviði þjóðminjaverndar. Sameinað Alþingi kýs hlutfallskosningu þrjá menn í stjórnina til jafnlangs tíma. Menntamálaráðherra skipar formann nefndarinnar úr hópi stjórnarmanna.

8. gr.

     Sjóðsstjórn ákveður framlög úr sjóðnum í byrjun hvers árs þegar fjárlög hafa verið samþykkt.
     Stjórnin lætur vinna áætlun um verkefni sjóðsins til fimm ára og endurskoðar hana árlega. Skal slík áætlun kynnt Alþingi ár hvert við undirbúning fjárlaga.

9. gr.

     Um framkvæmdir, sem kostaðar eru af sjóðnum, skal fara samkvæmt lögum um skipan opinberra framkvæmda, eftir því sem við getur átt.

10. gr.

     Kostnaður við rekstur sjóðsins, þar á meðal þóknun stjórnarmanna samkvæmt ákvörðun menntamálaráðherra, greiðist af fé sjóðsins.
     Reikningar sjóðsins skulu endurskoðaðir af Ríkisendurskoðun og birtir í Stjórnartíðindum.

11. gr.

     Menntamálaráðherra getur með reglugerð sett nánari ákvæði um framkvæmd þessara laga.

12. gr.

     Lög þessi öðlast þegar gildi.
     Lögin falla úr gildi 31. desember 1999.

Ákvæði til bráðabirgða.
     Þar til byggingu Þjóðarbókhlöðu er lokið skal sérstakur eignarskattur samkvæmt lögum þessum renna til þeirrar framkvæmdar eftir því sem þörf krefur.

Samþykkt á Alþingi 19. maí 1989.