Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF Word Perfect.

Þingskjal 1036, 112. löggjafarþing 337. mál: dómsvald í héraði (staðfesting bráðabirgðalaga).
Lög nr. 27 5. maí 1990.

Lög um viðauka við lög um skipan dómsvalds í héraði, lögreglustjórn, tollstjórn o.fl., nr. 74 27. apríl 1972.


1. gr.

     Við eftirtalin embætti skulu starfa héraðsdómarar sem hér greinir:
  1. Við embætti sýslumannsins í Vestur-Skaftafellssýslu, sýslumannsins í Rangárvallasýslu, bæjarfógetans á Akranesi, sýslumannsins í Mýra- og Borgarfjarðarsýslu, sýslumannsins í Snæfellsness- og Hnappadalssýslu og bæjarfógetans í Ólafsvík og sýslumannsins í Dalasýslu skal starfa einn héraðsdómari fyrir öll embættin í senn.
  2. Við embætti sýslumannsins í Barðastrandarsýslu, bæjarfógetans í Bolungarvík, sýslumannsins í Ísafjarðarsýslu og bæjarfógetans á Ísafirði og sýslumannsins í Strandasýslu skal starfa einn héraðsdómari fyrir öll embættin í senn.
  3. Við embætti sýslumannsins í Húnavatnssýslu, sýslumannsins í Skagafjarðarsýslu og bæjarfógetans á Sauðárkróki, bæjarfógetans á Siglufirði, bæjarfógetans á Ólafsfirði, sýslumannsins í Þingeyjarsýslu og bæjarfógetans á Húsavík skal starfa einn héraðsdómari fyrir öll embættin í senn.
  4. Við embætti sýslumannsins í Norður-Múlasýslu og bæjarfógetans á Seyðisfirði, sýslumannsins í Suður-Múlasýslu og bæjarfógetans á Eskifirði, bæjarfógetans í Neskaupstað og sýslumannsins í Austur-Skaftafellssýslu skal starfa einn héraðsdómari fyrir öll embættin í senn.
  5. Við embætti lögreglustjórans á Keflavíkurflugvelli skal starfa einn héraðsdómari.


2. gr.

     Forseti Íslands skipar héraðsdómara samkvæmt lögum þessum. Héraðsdómarar skv. a–d-liðum 1. gr. skulu skipaðir að tillögu dóms- og kirkjumálaráðherra, en dómari skv. e-lið 1. gr. að tillögu utanríkisráðherra.
     Héraðsdómarar samkvæmt lögum þessum skulu skipaðir tímabundið til 30. júní 1992, en þá leggjast embætti þeirra niður. Njóta þeir ekki þess forgangs til skipunar í embætti héraðsdómara eftir þann tíma sem kveðið er á um í 18. gr. laga um aðskilnað dómsvalds og umboðsvalds í héraði, nr. 92/1989.
     Heimilt er að skipa héraðsdómara fyrsta sinni samkvæmt lögum þessum án þess að embættin hafi áður verið auglýst laus til umsóknar.
     Skipa má mann í embætti héraðsdómara samkvæmt lögum þessum þótt hann fullnægi ekki skilyrðum 7. tölul. 1. mgr. 32. gr. laga um meðferð einkamála í héraði, nr. 85/1936.

3. gr.

     Héraðsdómurum skv. a–d-liðum 1. gr. verður ekki falið að fara með stjórnvaldsmálefni eða dómstörf í öðrum málum en opinberum málum nema með samþykki þeirra.

4. gr.

     Um störf, réttindi og skyldur héraðsdómara samkvæmt lögum þessum fer eftir almennum reglum að öðru leyti en leiðir af fyrirmælum 2. og 3. gr.

5. gr.

     Lög þessi öðlast þegar gildi.

Samþykkt á Alþingi 25. apríl 1990.