Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF Word Perfect.

Þingskjal 1237, 112. löggjafarþing 528. mál: tekjuskattur og eignarskattur (söluhagnaður af hlutabréfum o.fl.).
Lög nr. 63 17. maí 1990.

Lög um breyting á lögum nr. 75/1981, um tekjuskatt og eignarskatt, með síðari breytingum.


1. gr.

     Við 17. gr. laganna bætist ný málsgrein sem orðist svo:
     Hagnaður manns af sölu hlutabréfa, sem hann hefur keypt á árinu 1990 og síðar í félögum sem ríkisskattstjóri hefur á söluári bréfanna veitt staðfestingu um að uppfylli skilyrði III. kafla laga nr. 9/1984, telst þó ekki til skattskyldra tekna hafi hin seldu hlutabréf verið í eigu mannsins í full fjögur ár. Hámark skattfrjáls hagnaðar samkvæmt þessari málsgrein er 300.000 kr. Um hagnað umfram skattfrjálst hámark og um hagnað af sölu hlutabréfa, sem maður hefur keypt á árinu 1989 eða fyrr, fer eftir ákvæðum 1. mgr.

2. gr.

     Í stað „10%“ í 1. málsl. 2. tölul. B-liðar 1. mgr. 30. gr. laganna, sbr. a-lið 4. gr. laga nr. 8/1984 og a-lið 1. gr. laga nr. 117/1989, komi: 15%.

3. gr.

     Við 31. gr. laganna, sbr. 1. gr. laga nr. 2/1988, bætist nýr töluliður er verði 4. tölul. og orðist svo:
     Sannanlega tapað hlutafé sem aðili hefur eignast á þann hátt að hann hefur, vegna greiðsluerfiðleika hlutafélags, tekið hlutabréf sem gagngjald fyrir viðskiptakröfu sem hann átti á hendur hlutafélagi, enda hafi viðskiptakrafan verið vegna sölu á vöru eða þjónustu. Má draga verð slíkra hlutabréfa frá tekjum á því tekjuári þegar hlutafé er sannanlega tapað.

4. gr.

     Í stað „10%“ í 8. tölul. 1. mgr. 31. gr. laganna, sbr. b- og c-lið 5. gr. laga nr. 8/1984, komi: 15%.

5. gr.

     4. málsl. 5. tölul. 1. mgr. 74. gr. laganna orðist svo: Séu verðbréf önnur en hlutabréf skráð á opinberu kaupþingi skal telja þau til eignar á kaupþingsverði síðasta kaupþingsdags fyrir lok reikningsárs.

6. gr.

     122. gr. laganna, sbr. a-lið 20. gr. laga nr. 49/1987, 19. gr. laga nr. 97/1988 og 14. gr. laga nr. 117/1989, orðist svo:
     Skylt er að hækka eða lækka fjárhæðir sem um ræðir í 3. mgr. 17. gr., 2. og 4. tölul. B-liðar 1. mgr. 30. gr., 2. mgr. 30. gr., 41. gr., 68. gr., 69. gr., 78. gr. og 83. gr. í samræmi við skattvísitölu sem ákveðin skal í fjárlögum ár hvert, í fyrsta sinn í fjárlögum fyrir árið 1991.

7. gr.

     Lög þessi öðlast þegar gildi og koma til framkvæmda við álagningu opinberra gjalda á árinu 1991 vegna tekna og eigna á árinu 1990.

Samþykkt á Alþingi 4. maí 1990.