Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF Word Perfect.

Þingskjal 380, 117. löggjafarþing 281. mál: fjárfesting erlendra aðila í atvinnurekstri (EES-reglur, brottfall gagnkvæmnisskilyrðis).
Lög nr. 121 27. desember 1993.

Lög um breytingu á lögum nr. 34/1991, um fjárfestingu erlendra aðila í atvinnurekstri.


1. gr.

     3. gr. laganna orðast svo:
     Erlendum aðilum er heimilt að fjárfesta í atvinnurekstri hér á landi með þeim takmörkunum sem í þessum lögum eða sérlögum greinir og að uppfylltum öðrum skilyrðum og fengnum tilskildum leyfum lögum samkvæmt.

2. gr.

     Við a-lið 8. tölul. 1. mgr. 4. gr. laganna bætist nýr málsliður er orðast svo:
     Ríkisborgarar aðildarríkja Evrópska efnahagssvæðisins eru undanþegnir ákvæðum þessa liðar.

3. gr.

     Við c-lið 8. tölul. 1. mgr. 4. gr. laganna bætist nýr málsliður er orðast svo:
     Lögaðilar með heimili í aðildarríkjum Evrópska efnahagssvæðisins eru undanþegnir ákvæðum þessa liðar.

4. gr.

     Í stað lokamálsliðar 8. gr. laganna komi tveir nýir málsliðir er orðast svo:
     Þetta gildir þó ekki um ríkisborgara aðildarríkja Evrópska efnahagssvæðisins. Viðskiptaráðherra getur veitt ríkisborgurum annarra ríkja undanþágu frá þessu ákvæði.

5. gr.

     Lög þessi öðlast gildi um leið og samningurinn um Evrópska efnahagssvæðið öðlast gildi að því er Ísland varðar.

Samþykkt á Alþingi 14. desember 1993.