Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF Word Perfect.

Þingskjal 822, 117. löggjafarþing 272. mál: Húsnæðisstofnun ríkisins (skyldusparnaður, lán til lögbýla og varsla sjóða).
Lög nr. 12 25. mars 1994.

Lög um breyting á lögum um Húsnæðisstofnun ríkisins, nr. 97/1993.


1. gr.

     Við 1. mgr. 10. gr. laganna bætast tveir nýir málsliðir sem orðast svo: Húsnæðismálastjórn getur, að fengnu samþykki félagsmálaráðherra, tekið ákvörðun um að sjóðurinn verði varðveittur á annan hátt að nokkru leyti eða öllu ef það er talið auka möguleika sjóðsins á ávöxtun án þess að hafa í för með sér áhættu fyrir hann. Þess skal gætt að sjóðurinn hafi jafnan nægilegt laust fé til að standa við skuldbindingar sínar.

2. gr.

     Í stað 1. og 2. málsl. 1. mgr. 48. gr. laganna kemur: Byggingarsjóður verkamanna er í vörslu Seðlabanka Íslands. Húsnæðismálastjórn getur, að fengnu samþykki félagsmálaráðherra, tekið ákvörðun um að sjóðurinn verði varðveittur á annan hátt að nokkru leyti eða öllu ef það er talið auka möguleika sjóðsins á ávöxtun án þess að hafa í för með sér áhættu fyrir hann. Þess skal gætt að sjóðurinn hafi jafnan nægilegt laust fé til að standa við skuldbindingar sínar.
     Fjár til sjóðsins skal aflað sem hér segir:

3. gr.

     Við 50. gr. laganna bætist nýr töluliður, 5. tölul., sem orðast svo:
  1. Lán til sveitarfélaga til byggingar félagslegra eignaríbúða á lögbýlum (90% lán).

4. gr.

     Á eftir 58. gr. laganna kemur ný grein, 58. gr. a (lögbýli), sem orðast svo:
     Byggingarsjóði verkamanna er heimilt að veita sveitarfélögum framkvæmdalán skv. 58. gr. laga þessara til byggingar félagslegra eignaríbúða á lögbýlum enda hafi verið sýnt fram á að væntanlegir kaupendur búi við ófullnægjandi húsnæðisaðstöðu og fullnægi skilyrðum 64. gr. laganna til kaupa á félagslegri eignaríbúð. Sé væntanlegur kaupandi leiguliði á jörð skal þess jafnframt gætt að ákvæðum 3. mgr. 12. gr. ábúðarlaga, nr. 64/1976, hafi verið fullnægt.
     Framkvæmdalán skulu gerð upp með 90% lánum til sveitarfélaga með sömu kjörum og gilda um lán til félagslegra eignaríbúða. Lántakandi, bæði að framkvæmdaláni og láni til greiðslu þess samkvæmt framansögðu, er viðkomandi sveitarfélag sem ábyrgist endurgreiðslu lánanna til Byggingarsjóðs verkamanna með tryggingu í öllum eignum sveitarfélagsins og ábyrgðum þess. Við sölu íbúðar skal sveitarfélagið veita kaupanda lán að sömu fjárhæð og með sömu kjörum og eiga við um lán úr Byggingarsjóði verkmanna til félagslegra eignaríbúða sem tryggt verði með veði í hlutaðeigandi fasteign.
     Vextir á lánum Byggingarsjóðs verkamanna til sveitarfélaga skulu að liðnum sex árum frá undirritun kaupsamnings breytast til samræmis við vexti á almennum lánum úr Byggingarsjóði ríkisins nema sveitarfélag sýni fram á að kaupandi uppfylli enn þá skilyrði a- og b-liða 1. mgr. 64. gr. laganna og njóti þar af leiðandi óbreyttra vaxtakjara á láni sínu frá sveitarfélagi. Slík endurskoðun skal síðan fara fram á þriggja ára fresti.
     Verði vanskil á láni Byggingarsjóðs verkamanna til sveitarfélags eða ef íbúð er ráðstafað til kaupanda sem ekki fullnægir skilyrðum 64. gr. laga þessara er sjóðnum heimilt að gjaldfella lán sitt.
     Ákvæði laga þessara um kaupskyldu og forkaupsrétt sveitarfélaga eiga ekki við um íbúðir byggðar samkvæmt þessari grein.

5. gr.

     8. mgr. 74. gr. laganna orðast svo:
     Þegar um almennar kaupleiguíbúðir er að ræða skal 20% lán framkvæmdaraðila gjaldfellt og kaupanda veitt heimild til að fá lán úr Byggingarsjóði verkamanna til 25 ára.

6. gr.

     Eftirfarandi breytingar verða á b-lið IV. bráðabirgðaákvæðis laganna:
  1. Á eftir 2. málsl. 1. mgr. kemur: og þann sem misst hefur tekjur vegna langvarandi veikinda. Jafnframt skulu þeir eiga rétt á greiðslu sem eru atvinnulausir og hafa verið það í a.m.k. þrjá mánuði samtals síðustu sex mánuði áður en sótt er um greiðslu. Enn fremur skulu námsmenn, sem hafa verið í a.m.k. sex mánaða samfelldu námi síðustu tólf mánuði áður en sótt er um greiðslu eða munu fyrirsjáanlega stunda nám sem mun sannanlega taka þann tíma, eiga rétt á greiðslu.
  2. 3. málsl. 1. mgr. fellur brott.

7. gr.

     Við lögin bætist ákvæði til bráðabirgða, VI, svohljóðandi:
     Húsnæðisstofnun ríkisins getur heimilað frestun á greiðslum hjá einstökum lánþegum Byggingarsjóðs ríkisins og skuldurum fasteignaveðbréfa húsbréfadeildar ef viðkomandi hefur orðið fyrir verulegri tekjuskerðingu vegna atvinnuleysis, minnkandi atvinnu, veikinda eða annarra óviðráðanlegra aðstæðna. Ákvæði þetta fellur úr gildi 1. janúar 1996.

8. gr.

     Við lögin bætist ákvæði til bráðabirgða, VII, svohljóðandi:
     Þeim aðilum, sem til þessa hafa fengið fimm ára lán frá Byggingarsjóði ríkisins eða Byggingarsjóði verkamanna til kaupa á almennri kaupleiguíbúð, er heimilt að sækja um skuldbreytingu þeirra lána til allt að 25 ára, að teknu tilliti til þess lánstíma sem liðinn er. Ákvæði þetta gildir til 31. desember 1994.

9. gr.

     Lög þessi öðlast þegar gildi.

Samþykkt á Alþingi 24. mars 1994.