Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF Word Perfect.

Þingskjal 1036, 120. löggjafarþing 285. mál: þjóðminjalög (flutningur menningarverðmæta).
Lög nr. 60 3. júní 1996.

Lög um breytingar á þjóðminjalögum, nr. 88 29. maí 1989, með síðari breytingum.


1. gr.

     28. gr. laganna fellur brott.

2. gr.

     Á eftir 49. gr. laganna kemur nýr kafli, VI. kafli, Um flutning menningarverðmæta úr landi og um skil menningarverðmæta til annarra landa, með sjö nýjum greinum, og breytist kafla- og greinatala samkvæmt því. Greinarnar eru svohljóðandi:
     
     a. (50. gr.)
     Eigi má flytja úr landi muni og gripi sem hér eru taldir, nema formlegt leyfi Þjóðminjasafns Íslands komi til, sjá þó 51. gr.:
  1. Forngripi, eldri en 100 ára, hvort sem eru í eigu opinberra stofnana, fyrirtækja, félagasamtaka eða einstaklinga.
  2. Hluta úr listrænum, sögulegum eða trúarlegum minjum er losaðir hafa verið frá þeim og eldri eru en 100 ára.
  3. Málverk og handgerðar myndir úr hvaða efni sem er ef eldri eru en 50 ára og ekki í eigu höfunda þeirra.
  4. Mósaíkverk sem ekki falla undir 1. eða 2. tölul. og teikningar úr hvaða efni sem er séu myndverkin að öllu leyti handunnin, eldri en 50 ára og ekki í eigu höfunda þeirra.
  5. Frumeintök af stungum, þrykki, silkiprenti og steinprenti, ásamt tilheyrandi plötum og frumgerð veggspjalda, séu verkin eldri en 50 ára og ekki í eigu höfunda þeirra.
  6. Frumeintök höggmynda eða myndastyttna og eftirmyndir þeirra sem eru gerðar með sömu aðferð og frumeintökin séu verkin eldri en 50 ára og ekki í eigu höfunda þeirra, enda falli þau ekki undir 1. tölul.
  7. Ljósmyndir og kvikmyndir og filmur af þeim, enda séu þær eldri en 50 ára og ekki í eigu höfunda myndanna.
  8. Bækur, prentaðar fyrir 1500 (vögguprent), svo og handrit, þar með talin landabréf og raddskrár, stakar eða sem safn, sem eldri eru en 50 ára og ekki í eigu höfunda þeirra.
  9. Aðrar bækur, eldri en 100 ára, stakar eða sem safn.
  10. Prentuð landabréf, eldri en 200 ára.
  11. Skjalasöfn hvers konar og hluta þeirra, úr hvaða efni sem er, eldri en 50 ára.
  12. Dýrafræðileg, grasafræðileg, bergfræðileg eða líffræðileg söfn og safneintök og sömuleiðis söfn sem gildi hafa fyrir sagnfræði, steingervingafræði, þjóðflokkafræði eða myntfræði.
  13. Samgöngutæki, eldri en 75 ára.
  14. Aðrar menningarminjar, eldri en 50 ára.

     Leiki vafi á um aldur minja sem taldar eru í 1.–14. tölul. 1. mgr. þessarar greinar sker þjóðminjaráð úr.
     
     b. (51. gr.)
     Ákvæði 50. gr. taka til menningarminja er falla undir 1., 2., 8. og 11. tölul. þeirrar greinar án tillits til verðgildis þeirra.
     Ákvæði 50. gr. taka til menningarminja er falla undir 4., 5., 7. og 10. tölul. þeirrar greinar sé verðgildi þeirra 1.200.000 kr. eða meira.
     Ákvæði 50. gr. taka til menningarminja er falla undir 6., 9., 12., 13. og 14. tölul. þeirrar greinar sé verðgildi þeirra 4.200.000 kr. eða meira.
     Ákvæði 50. gr. taka til menningarminja er falla undir 3. tölul. þeirrar greinar sé verðgildi þeirra 12.500.000 kr. eða meira.
     Við verðgildismat skal miðað við ætlað markaðsverð hlutaðeigandi menningarminja hér á landi á þeim degi er umsókn um útflutningsleyfi berst Þjóðminjasafni Íslands.
     
     c. (52. gr.)
     Þjóðminjasafni Íslands er heimilt, að fengnu samþykki menntamálaráðuneytis, að koma í veg fyrir útflutning menningarminja, jafnt þeirra sem taldar eru í 50. gr. sem annarra, án tillits til aldurs þeirra og verðgildis, ef minjarnar teljast til þjóðardýrgripa eða þær hafa að öðru leyti sérstakt gildi fyrir íslenska þjóðmenningu. Getur þá Þjóðminjasafn Íslands stöðvað útflutning þeirra um stundarsakir meðan leitað er umsagna sérfróðra manna og þar til formleg afstaða ráðuneytisins er fengin. Fallist ráðuneytið eigi á beiðni um útflutningsleyfi er sú niðurstaða bindandi fyrir alla aðila og hið sama gildir um samþykki ráðuneytisins við útflutningi.
     
     d. (53. gr.)
     Óheimilt er að flytja til Íslands menningarminjar fari sá flutningur fram í andstöðu við löggjöf í því ríki sem flutt er frá.
     Ákvæði 3. og 4. mgr. þessarar greinar og ákvæði 54. gr., svo og ákvæði 55. gr. að því er varðar skil menningarverðmæta til annarra ríkja, gilda einvörðungu um kröfur um skil frá hlutaðeigandi stjórnvöldum í aðildarríkjum samnings um Evrópska efnahagssvæðið, sbr. lög nr. 2/1993. Íslensk stjórnvöld skulu þó jafnframt leitast við eftir föngum að aðstoða við réttmæt skil menningarminja til ríkja er ekki eiga aðild að nefndum samningi hafi minjarnar verið fluttar þaðan í andstöðu við þarlend lög.
     Íslenskum stjórnvöldum er skylt að sjá til þess að menningarminjum, sem fluttar hafa verið til Íslands með ólögmætum hætti, án tillits til núverandi eignaraðildar eða vörslu á þeim, verði skilað til réttra eigenda eða umsjármanna þeirra erlendis, enda sé skilyrðum 51. gr. um verðmæti þeirra fullnægt. Umsókn þar að lútandi skal borin upp formlega af valdbæru stjórnvaldi í hlutaðeigandi ríki og skal henni beint til Þjóðminjasafns Íslands sem gerir síðan viðeigandi ráðstafanir, eftir atvikum í samvinnu við hlutaðeigandi stjórnvöld hér á landi, sbr. nánar 54. gr.
     Við verðgildismat menningarminja skv. 3. mgr. þessarar greinar, sbr. og 51. gr., skal miða við þann dag er Þjóðminjasafni Íslands berst krafa um skil á hlutaðeigandi minjum frá réttum stjórnvöldum í öðru ríki. Við ákvörðun verðgildis skal haft mið af ætluðu markaðsverði hér á landi.
     
     e. (54. gr.)
     Séu menningarminjar sem fjallað er um í 3. og 4. mgr. 53. gr. í eigu eða vörslu manna hérlendis er eigi vilja láta þær af hendi þegar Þjóðminjasafn Íslands krefst þess, sbr. 53. og 55. gr., geta hlutaðeigandi stjórnvöld í öðru ríki, sem bera fram lögformlega kröfu um skil menningarminja, krafist þess fyrir dómi hér á landi, hvort heldur sem er í einkamáli eða opinberu dómsmáli, að eigendum eða vörslumönnum minjanna verði gert að láta þær af hendi og að mælt verði fyrir um að þeim skuli skilað með lögmæltum hætti til þess ríkis er skila krefst. Sé um einkamál að ræða skal það höfðað gegn eiganda minjanna, hvernig sem hann er að minjunum kominn, og jafnframt gegn vörslumanni þeirra sé hann annar en eigandinn. Dómur um skil menningarverðmæta er grundvöllur innsetningargerðar, ef á reynir, en dómi má síðan jafnframt framfylgja með aðstoð sýslumanna, lögreglu og annarra þar til bærra yfirvalda, eftir því sem þörf krefur, fyrir atbeina Þjóðminjasafns Íslands.
     Í kröfu um skil menningarminja, sem hér um ræðir og borin er upp fyrir íslenskum stjórnvöldum og dómstóli, ef á reynir, skal minjunum m.a. lýst svo nákvæmlega sem frekast er kostur, svo og menningarlegu gildi þeirra og verðmæti. Þá skal fylgja kröfu skýr yfirlýsing frá hlutaðeigandi stjórnvöldum í því ríki er skila krefst um að munirnir hafi verið fluttir úr því ríki með ólögmætum hætti.
     Krafa um skil menningarminja skv. 1. mgr. þessarar greinar verður eigi höfð uppi fyrir dómi eftir að eitt ár er liðið frá því að hlutaðeigandi stjórnvöld í því ríki er skila krefst fengu vitneskju um hvar menningarminjarnar eru niðurkomnar og hver sé núverandi eigandi eða vörslumaður þeirra hér á landi. Kröfu um skil verður heldur ekki komið að fyrir dómi þegar liðin eru meira en 30 ár frá því að minjarnar voru fluttar ólöglega frá því ríki er skila krefst. Sé um að ræða minjar sem eru hluti af opinberum söfnum í því ríki er skila krefst eða þær heyra til kirkjulegra minja þar er lúta sérstökum verndarráðstöfunum samkvæmt lögum þess ríkis skal þó kröfufresturinn miðast við 75 ár, nema íslenska ríkið hafi skuldbundið sig til þess, gagnvart hlutaðeigandi ríki, að virða lengri frest.
     Það ríki, er krafist hefur skila á menningarverðmætum samkvæmt ákvæðum þessarar greinar, skal bera kostnað af þeim skilum, þar með talið málsmeðferð.
     Þeir er komist hafa yfir menningarminjar sem þessi grein tekur til án þess að flutningur minjanna til Íslands hafi verið þeim saknæmur eða þeir hafi að öðru leyti öðlast þær með ólögmætum hætti geta krafist hæfilegra bóta frá því ríki er skila krefst vegna þess að þeim er gert að skila minjunum. Verður kröfu um bætur af þessum sökum m.a. komið að í dómsmáli sem höfðað er til skila minjanna eða þar sem krafa um skil er borin upp með öðrum hætti, en jafnframt getur grandlaus eigandi minja, sem skilakrafa beinist að, samið við hlutaðeigandi stjórnvöld í því ríki, er skila krefst, um bætur af þessum sökum. Hefur Þjóðminjasafn Íslands milligöngu um þá samningsgerð eftir því sem þörf gerist. Hafi bótakrafa, sem hér um ræðir, verið viðurkennd með dómi eða liggi fyrir formlegur samningur um bætur, þar á meðal dómsátt, getur Þjóðminjasafn Íslands gert það að skilyrði fyrir afhendingu minjanna til hlutaðeigandi erlendra stjórnvalda að bætur verði greiddar.
     
     f. (55. gr.)
     Þjóðminjasafn Íslands annast framkvæmd ákvæða þessa kafla laganna fyrir hönd íslenska ríkisins. Það veitir formleg leyfi til útflutnings menningarminja skv. 50. gr. og jafnframt skv. 52. gr. að fengnu samþykki menntamálaráðuneytis. Um framkvæmd leyfisveitinga, m.a. um form leyfisskjala, skal farið að nánari reglum er menntamálaráðherra setur. Þjóðminjasafn leggur mat á verðgildi menningarminja skv. 51. gr., sbr. og 53. gr., og annast um framkvæmd skila á menningarminjum til annarra ríkja skv. 53. gr.
     Ákvarðanir um afgreiðslu umsókna um útflutningsleyfi sem hér um ræðir skulu bornar upp í þjóðminjaráði til staðfestingar. Ágreiningi um leyfisveitingar eða synjanir útflutnings á þessu sviði má skjóta til menntamálaráðuneytis, sbr. nánar ákvæði stjórnsýslulaga, nr. 37/1993. Verður þá ekki af útflutningi fyrr en ráðuneytið hefur heimilað hann og lagt fyrir Þjóðminjasafn Íslands að gefa út leyfisbréf þar að lútandi. Til menntamálaráðuneytis má og skjóta ágreiningi um önnur atriði er lúta að framkvæmd ákvæða þessa kafla.
     Við mat á gildi menningarminja, er hér um ræðir, svo og um meiri háttar álitaefni, skal Þjóðminjasafn Íslands hafa samráð við forstöðumenn þeirra stofnana hér á landi er einkum varðveita þess konar muni sem mál snýst um hverju sinni. Þar skal m.a. kalla til forstöðumann Listasafns Íslands um myndlistarverk, Stofnunar Árna Magnússonar á Íslandi um handrit, Landsbókasafns Íslands – Háskólabókasafns um bækur og handrit og Þjóðskjalasafns Íslands um skjöl. Ef þörf gerist skal og leitað álits sérfróðra manna er eigi starfa við stofnanir þær er hér um ræðir.
     Þjóðminjasafn Íslands tekur við kröfum um skil menningarminja frá hlutaðeigandi stjórnvöldum í öðrum ríkjum og sömuleiðis ber það fram kröfur til hlutaðeigandi stjórnvalda erlendis um skil menningarminja frá þeim ríkjum hafi þær verið fluttar frá Íslandi með ólögmætum hætti, sbr. 50., 51. og 52. gr., og veitir þeim viðtöku fyrir hönd réttra eigenda eða vörslumanna hérlendis.
     Þjóðminjasafn Íslands skal kappkosta að hafa náið samstarf og samráð við þau stjórnvöld í öðrum ríkjum er fjalla þar um leyfi til útflutnings menningarminja og um skil þeirra, svo og við fjölþjóðlegar stofnanir er láta sig þau mál varða. Þá skal það og leitast við af fremsta megni að upplýsa um vörslustaði menningarminja sem fluttar hafa verið til landsins með óheimilum hætti. Skulu lögregluyfirvöld aðstoða við þá leit ef þörf gerist.
     Tollayfirvöld skulu tafarlaust tilkynna Þjóðminjasafni Íslands um menningarminjar sem reynt hefur verið að flytja ólöglega til landsins og hið sama gildir um ólögmætan útflutning.
     Þjóðminjasafni Íslands til ráðuneytis um allt það er snertir framkvæmd ákvæða þessa kafla starfar þriggja manna nefnd kunnáttumanna er menntamálaráðherra skipar til þriggja ára í senn. Skal ráðherra skipa formann nefndarinnar sérstaklega en nefndin skiptir að öðru leyti með sér störfum. Þrír varamenn skulu skipaðir með sama hætti. Við val aðalmanna og varamanna, annarra en formanns og varaformanns, skal þess gætt að einn þeirra hafi sérkunnáttu á sviði listfræði, annar á sviði menningarsögu eða fornminjafræði, þriðji á sviði bókfræði og hinn fjórði á sviði skjalfræði. Varði mál, sem undir nefndina er borið, sérsvið varamanns skal hann fjalla um það mál jafnhliða aðalmönnum. Menntamálaráðherra ákveður þóknun nefndarinnar og greiðist hún af rekstrarfé Þjóðminjasafns.
     
     g. (56. gr.)
     Hvað varðar kröfur um skil menningarminja frá hlutaðeigandi stjórnvöldum í aðildarríkjum að samningi um Evrópska efnahagssvæðið gilda ákvæði þessa kafla um skil á minjum sem hafa verið fluttar ólöglega frá þeim ríkjum hingað til lands 1. janúar 1995 og síðar. Hið sama tímamark gildir um kröfur íslenskra stjórnvalda um skil menningarminja frá öðrum aðildarríkjum að nefndum samningi.

3. gr.

     Við tilvísun til lagagreina, sem varða refsingu ef brotið er gegn ákvæðum þeirra, í 59. gr. (áður 52. gr.) laganna bætist vísun til 50.–53. gr. þeirra.

4. gr.

     Lög þessi öðlast þegar gildi.

Samþykkt á Alþingi 22. maí 1996.