Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF Word Perfect.

Þingskjal 394, 121. löggjafarþing 62. mál: höfundalög (EES-reglur).
Lög nr. 145 27. desember 1996.

Lög um breytingu á höfundalögum, nr. 73 29. maí 1972, sbr. lög nr. 78 30. maí 1984 og lög nr. 57 2. júní 1992.


1. gr.

     Við 11. gr. a laganna bætast tvær nýjar málsgreinar, svohljóðandi:
     Þá skal þeim sem öðlast hafa rétt til notkunar tölvuforrits heimilt án sérstaks leyfis forritshöfundar að skoða, rannsaka eða prófa forritið í því skyni að kanna virkni þess og þær hugmyndir og þau grundvallarsjónarmið sem einstakir þættir forritsins hvíla á að því tilskildu að aðgerðir þessar tengist þeim afnotum sem rétthafa eru heimil í sambandi við nýtingu forritsins.
     Ekki er heimilt að víkja frá ákvæðum greinar þessarar með samningum.

2. gr.

     23. gr. a laganna orðast svo:
     Verki, sem er löglega útvarpað beint eða um gervihnött, má endurvarpa til almennings um kapalkerfi óbreyttu og samtímis hinni upphaflegu útsendingu, að því tilskildu að sá sem ber ábyrgð á endurvarpinu hafi aflað sér heimildar til þess með samningum við samtök sem annast réttargæslu fyrir verulegan hluta íslenskra höfunda á sviði viðkomandi verks og hlotið til þess lögformlega viðurkenningu menntamálaráðuneytisins skv. 23. gr. Höfundar er standa utan samtakanna skulu njóta sama réttar til endurgjalds fyrir afnot verka sinna og félagsmenn, sbr. 1. og 3. mgr. 23. gr. Endurvarp um kapalkerfi, sem tekur til færri samtengdra íbúða en 25 í fjöleignarhúsi eða nærlægum húsum, er þó heimilt án leyfis eða endurgjalds til höfundar.
     Náist ekki samkomulag um leyfisveitingu skv. 1. mgr. eða um skilyrði fyrir henni, þar á meðal um fjárhæð þóknunar, getur hvor aðili um sig skotið því ágreiningsefni til sáttameðferðar hjá úrskurðarnefnd skv. 57. gr. Menntamálaráðuneytið getur sett frekari reglur um framkvæmd þessarar greinar.

3. gr.

     Við 42. gr. a laganna bætast þrjár nýjar málsgreinar, svohljóðandi:
     Einnig er heimil afritun forrits og þýðing eða afþýðing þess þegar slíkt er óhjákvæmilegt til öflunar upplýsinga sem þörf er á til að ná fram rekstrarsamhæfni sjálfstæðs forrits við önnur forrit að fullnægðum eftirgreindum skilyrðum:
  1. að sú aðgerð sé framkvæmd af þeim aðila sem aflað hefur sér með lögmætum hætti heimildar til notkunar forritsins,
  2. að slíkar upplýsingar hafi ekki verið tiltækar aðilum sem um getur í 1. tölul. með greiðum hætti,
  3. að aðgerðirnar takmarkist við þann hluta hins upphaflega forrits sem nauðsynlegar eru til þess að ná fram rekstrarsamhæfni.

     Upplýsingar, sem aflað hefur verið með heimild í grein þessari, verða aðeins notaðar til að auðvelda rekstrarsamhæfni við önnur forrit, en ekki á neinn þann hátt er raski lögmætum hagsmunum hins upprunalega forritshöfundar til eðlilegrar hagnýtingar þess né brjóti gegn höfundarétti hans á annan hátt.
     Ekki er heimilt að víkja frá ákvæðum greinar þessarar með samningum.

4. gr.

     43. gr. laganna orðast svo:
     Höfundaréttur helst uns 70 ár eru liðin frá næstu áramótum eftir lát höfundar. Nú er um verk að ræða sem ákvæði 7. gr. taka til og skal þá telja greint 70 ára tímabil frá næstu áramótum eftir lát þess höfundar sem lengst lifir. Höfundaréttur að kvikmyndaverkum helst þó aðeins í 70 ár eftir dánarár þess sem lengst lifir af eftirgreindum höfundum kvikmyndaverks:
  1. Aðalleikstjórar.
  2. Handritshöfundar, þar með taldir höfundar samtalstexta.
  3. Tónhöfundar sé tónlistin sérstaklega samin til afnota í kvikmyndaverkum.


5. gr.

     44. gr. laganna orðast svo:
     Þegar verk hefur verið birt án þess að höfundur hafi verið nafngreindur, sbr. 2. mgr. 8. gr., helst höfundaréttur að verkinu uns 70 ár eru liðin frá næstu áramótum eftir birtingu þess. Nú er um verk að ræða sem birt er í einstökum hlutum, svo sem heftum, bindum eða með öðrum hliðstæðum hætti, og gildir þá sjálfstæður verndartími fyrir hvern einstakan hluta.
     Ef höfundur er nafngreindur með þeim hætti sem segir í 2. mgr. 8. gr. áður en framangreint 70 ára tímabil er liðið eða leitt er í ljós að höfundur var látinn er verkið birtist skal um gildistíma höfundaréttar fara eftir ákvæðum 43. gr.
      Sé um verk að ræða sem ekki hefur verið birt og höfundur ókunnur fellur höfundarétturinn niður er 70 ár eru liðin frá næstu áramótum eftir tilurð verksins.

6. gr.

     Á eftir 44. gr. laganna kemur ný grein, 44. gr. a, svohljóðandi:
     Hafi verk ekki verið birt almenningi innan verndartímabils skv. 43. og 44. gr. skal sá sem fyrst birtir verkið að því liðnu öðlast hliðstæðan rétt til fjárhagsnytja af verkinu og höfundar hafa samkvæmt ákvæðum laga þessara. Verndin helst uns 25 ár eru liðin frá næstu áramótum eftir birtingu.

7. gr.

     45. gr. laganna orðast svo:
     Listflytjandi hefur einkarétt til eintakagerðar af listflutningi sínum og hvers konar dreifingar hans til almennings, sbr. þó ákvæði 47. gr. Samkvæmt þessu eru óheimilar án hans samþykkis m.a. þær aðgerðir sem hér eru taldar:
  1. Upptaka til endurflutnings á beinum listflutningi hans. Það telst beinn listflutningur sem listflytjandi flytur persónulega, þar á meðal flutningur í útvarp. Nú hefur útvarpsstofnun framkvæmt bráðabirgðaupptöku á persónulegum listflutningi og fer þá um útvarp eftir slíkri upptöku sem um beinan listflutning.
  2. Útvarp á beinum listflutningi.
  3. Dreifing beins listflutnings með tækniaðferðum, um þráð eða þráðlaust, frá flutningsstað til annarra tiltekinna staða sem almenningur á aðgang að.
  4. Eftirgerð á upptöku listflutnings og dreifing til almennings uns 50 ár eru liðin frá næstu áramótum eftir að flutningur fór fram. Sé upptöku listflutnings dreift til almennings innan greinds verndartímabils skal vernd þó haldast í 50 ár frá næstu áramótum eftir fyrstu dreifingu hennar.

     Nú hefur listflytjandi veitt með samningi framlag til kvikmyndaverks og getur hann þá ekki, nema áskilnaður sé gerður á annan veg, hindrað leigu á eintökum kvikmyndaverksins.
     Um upptöku, eftirgerð og dreifingu listflutnings, sem um getur í 1. mgr., skulu gilda eftir því sem við á ákvæði 2.–6. mgr. 2. gr., 4. gr., 7. gr., 8. gr., 1. mgr. 11. gr., 1. mgr. 14. gr., 3. mgr. 15. gr., 18. gr., 21. gr., 2. mgr. 23. gr., 24. gr., 26.–31. gr. og 53. gr. Ákvæði 1. mgr. 24. gr. gilda þó aðeins um upptökur sem fyrst eru seldar eða ráðstafað til eignar með öðrum hætti með samþykki rétthafa innan Evrópska efnahagssvæðisins.
     Standi fleiri en 12 listflytjendur að listflutningi nægir samþykki stéttarfélags flytjenda til eftirgerðar og endurnota, enda komi greiðsla fyrir flutninginn.

8. gr.

     Á eftir 45. gr. laganna bætist við ný grein, 45. gr. a., svohljóðandi:
     Listflutningi, sem er löglega útvarpað beint eða um gervihnött, má endurvarpa til almennings um kapalkerfi óbreyttu og samtímis hinni upphaflegu útsendingu að því tilskildu að sá sem ber ábyrgð á endurvarpinu hafi aflað sér heimildar til þess með samningum við samtök sem annast réttargæslu fyrir verulegan hluta íslenskra listflytjenda og framleiðenda og hlotið til þess lögformlega viðurkenningu menntamálaráðuneytisins, sbr. þó ákvæði 47. gr., varðandi flutning efnis á markaðshljóðritum. Rétthafar, er standa utan samtakanna, skulu njóta sama réttar og félagsmenn, sbr. 1. og 3. mgr. 23. gr. Endurvarp um kapalkerfi, sem tekur til færri samtengdra íbúða en 25 í fjöleignarhúsi eða nærlægum húsum, er þó heimilt án leyfis eða endurgjalds til rétthafa samkvæmt grein þessari.
     Náist ekki samkomulag um leyfisveitingu skv. 1. mgr. eða um skilyrði fyrir henni, þar á meðal um fjárhæð þóknunar, getur hvor aðili um sig skotið því ágreiningsefni til sáttameðferðar hjá úrskurðarnefnd skv. 57. gr. Menntamálaráðuneytið getur sett frekari reglur um framkvæmd þessarar greinar.

9. gr.

     46. gr. laganna orðast svo:
     Óheimil er eftirgerð og hvers kyns dreifing til almennings á myndritum og hljóðritum, þar á meðal hljómplötum, án samþykkis framleiðanda uns liðin eru 50 ár frá næstu áramótum eftir að frumupptaka var framkvæmd. Sé upptöku dreift til almennings innan greinds verndartímabils skal vernd þó haldast í 50 ár frá næstu áramótum eftir fyrstu dreifingu.
     Beita skal, eftir því sem við á, ákvæðum 2.–6. mgr. 2. gr., 7. gr., 8. gr., 1. mgr. 11. gr., 1. mgr. 14. gr., 3. mgr. 15. gr., 18. gr., 2. mgr. 23. gr. og 1. og 2. mgr. 24. gr. Ákvæði 1. mgr. 24. gr. gilda þó aðeins um upptökur sem fyrst eru seldar eða ráðstafað til eignar með öðrum hætti með samþykki rétthafa innan Evrópska efnahagssvæðisins.

10. gr.

     47. gr. laganna orðast svo:
     Nú er hljóðrit, sem út hefur verið gefið, notað á því tímabili sem í 46. gr. getur til flutnings í útvarpi eða til annarrar opinberrar dreifingar listflutnings, hvort heldur með beinni notkun eða eftir útvarpi, og ber þá notanda að greiða framleiðanda þess og listflytjanda sameiginlega þóknun fyrir afnotin.
     Krafa til endurgjalds skv. 1. mgr. verður aðeins gerð af innheimtusamtökum framleiðenda og listflytjendafélaga. Samtökunum skulu settar samþykktir í samvinnu við menntamálaráðuneytið og vera háðar staðfestingu þess. Í samþykktum þessum skal m.a. kveða á um skiptingu tekna með aðildarfélögum samtakanna.
     Þegar framleiðandi hljóðrits eða listflytjandi á rétt til þóknunar samkvæmt þessari grein skal hún fara eftir heildarsamningi milli innheimtusamtaka skv. 2. mgr. og notanda eða samtökum hans. Ágreiningi um þóknun geta aðilar skotið til úrskurðarnefndar skv. 57. gr. Nefndin getur gert notanda að setja viðhlítandi tryggingu fyrir greiðslu þóknunar þar til hún hefur verið ákveðin en ella mælt fyrir um stöðvun á notkun verndaðra markaðshljóðrita uns trygging hefur verið sett. Innheimtusamtökunum skal þó heimilt að setja gjaldskrár um flutning af hljóðritum utan útvarps. Slíkar gjaldskrár skulu háðar samþykki menntamálaráðuneytisins.
     Beita skal, eftir því sem við á, 1. mgr. 14. gr., 3. mgr. 15. gr., 21. gr. og 54. gr. Sama gildir um 27.–31. gr. að því er listflytjendur varðar. Ákvæði þessi gilda ekki um kvikmyndir og myndbönd.

11. gr.

     Á eftir 2. mgr. 60. gr. laganna bætist við ný málsgrein, svohljóðandi:
     Ákvæði 44. gr. a gilda um birtingu verka sem framkvæmd er af ríkisborgurum eða mönnum búsettum í landi innan Evrópska efnahagssvæðisins.

12. gr.

     61. gr. laganna orðast svo:
     Ákvæði laga þessara skulu einnig taka til bókmenntaverka og listaverka sem orðið hafa til fyrir gildistöku laganna. Sama gildir um listflutning, hljóðrit og myndrit, sbr. V. kafla laganna.
     Ákvæði 1. mgr. gilda þó ekki um ráðstafanir sem hafa átt sér stað eða áunnin réttindi þriðja aðila á grundvelli eldri laga. Heimil er áframhaldandi dreifing til almennings eða opinber sýning á eintökum verks eða listflutnings ef gerð eintakanna var frjáls á þeim tíma er dreifing eða sýning þeirra fór fram, þó þannig að ákvæði 24. gr. um bann við leigu og útláni á verkum haldi gildi sínu.
     Ef eintakagerð verks eða listflutnings, sem ekki nýtur verndar samkvæmt áðurgildandi lögum, er hafin fyrir gildistöku laganna eða verulegur undirbúningur slíkrar eintakagerðar er hafinn er heimilt að ljúka áætlaðri, nauðsynlegri og venjubundinni eintakagerð, þó í síðasta lagi 1. janúar árið 2000. Heimilt er að dreifa eintökum sem þannig eru gerð til almennings eða sýna þau opinberlega.
     Nú er verk eða listflutningur hluti upptöku til flutnings í útvarpi sem gerð er meðan verkið eða listflutningurinn nýtur ekki verndar eða fer fram á grundvelli heimildar í 3. mgr. og er þá heimilt að nýta slíkar upptökur til útvarpsflutnings fram til 1. janúar árið 2000. Sama á við um opinbera birtingu kvikmyndaverka.
     Ef verndartími verks eða listflutnings verður styttri á grundvelli breytts verndartíma samkvæmt lögum þessum en hann hefði verið samkvæmt áður gildandi lögum fer um verndartíma samkvæmt áður gildandi lögum. Þetta gildir þó ekki ef ákvæði 3. mgr. 44. gr. eiga við.

13. gr.

     Lög þessi öðlast þegar gildi.

Samþykkt á Alþingi 17. desember 1996.