Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF Word Perfect.

Þingskjal 1140, 121. löggjafarþing 258. mál: almenn hegningarlög (punktakerfi).
Lög nr. 57 22. maí 1997.

Lög um breyting á almennum hegningarlögum, nr. 19/1940, o.fl. (innheimta sekta og punktakerfi vegna umferðarlagabrota).


I. KAFLI
Breyting á almennum hegningarlögum, nr. 19 12. febrúar 1940.

1. gr.

     Við 2. mgr. 52. gr. laganna bætist nýr málsliður, svohljóðandi: Eigi skal þó veita lengri greiðslufrest en eitt ár frá því að sekt kemur til innheimtu.

2. gr.

     Við 54. gr. laganna bætast þrjár nýjar málsgreinar, svohljóðandi:
     Sekt sem ekki er ákveðin af dómstólum skal afplánuð í varðhaldi.
     Sekt allt að 100.000 krónum sem sakborningur hefur skriflega gengist undir hjá lögreglustjóra afplánast með varðhaldi eftir meðfylgjandi töflu:
Sekt: Vararefsing:
0– 9.999 kr. 2 dagar
10.000– 19.999 kr. 4 dagar
20.000– 29.999 kr. 6 dagar
30.000– 39.999 kr. 8 dagar
40.000– 49.999 kr. 10 dagar
50.000– 59.999 kr. 12 dagar
60.000– 69.999 kr. 14 dagar
70.000– 79.999 kr. 16 dagar
80.000– 89.999 kr. 18 dagar
90.000– 100.000 kr. 20 dagar
     Lagagrundvöllur vararefsingarinnar og lengd varðhaldsins skulu tilgreind í lögreglustjórasátt og skal sakborningur gangast skriflega undir vararefsinguna ásamt öðrum viðurlögum.

II. KAFLI
Breyting á umferðarlögum, nr. 50 30. mars 1987.

3. gr.

     Við 100. gr. laganna bætast þrjár nýjar málsgreinar, svohljóðandi:
     Sektir allt að 100.000 krónum fyrir brot á lögum þessum og reglum settum samkvæmt þeim skulu ákveðnar í reglugerð sem dómsmálaráðherra setur að fengnum tillögum ríkissaksóknara. Í reglugerðinni skal tilgreint hvaða tegunda brota hún tekur til og hvaða sekt og önnur viðurlög skuli koma fyrir hverja tegund brots. Heimilt er að víkja frá ákvæðum reglugerðarinnar ef veigamikil rök mæla með því.
     Þegar ákvörðun er tekin um sekt vegna brota á tveimur eða fleiri ákvæðum laga þessara eða reglna settra samkvæmt þeim skal sektin vera samtala sekta vegna hvers brots um sig, enda rúmist refsingin innan sektarmarka almennra hegningarlaga.
     Veita má sakborningi allt að 25% afslátt af sektarfjárhæð sem lögreglustjóri hefur ákvarðað ef sakborningur greiðir sektina ásamt sakarkostnaði að fullu innan 30 daga frá dagsetningu sektarboðs eða undirritun sektargerðar sem sakborningur hefur gengist skriflega undir.

4. gr.

     Við 101. gr. laganna bætist ný málsgrein, er verður 2. mgr., svohljóðandi:
     Nú hefur maður á þriggja ára tímabili gerst sekur um þrjú eða fleiri brot á lögum þessum eða reglum og reglugerðum settum samkvæmt þeim og náð tilteknum punktafjölda samkvæmt punktakerfi vegna umferðarlagabrota, og skal hann þá sviptur ökurétti í þrjá mánuði til viðbótar þeirri sviptingu ökuréttar sem við síðasta brotinu kann að liggja. Dómsmálaráðherra setur, að fenginni umsögn ríkissaksóknara, reglugerð um punktakerfi vegna umferðarlagabrota, þar á meðal um hvaða vægi einstök brot skuli hafa í punktum talið við ákvörðun um beitingu sviptingar ökuréttar vegna uppsöfnunar punkta.

III. KAFLI
Breyting á lögum um meðferð opinberra mála, nr. 19 26. mars 1991.

5. gr.

     Eftirfarandi breytingar verða á 115. gr. laganna:
  1. Í stað 1. og 2. mgr. kemur ný málsgrein, svohljóðandi:
  2.      Nú berst lögreglustjóra kæra um brot sem hann hefur ákæruvald um skv. 28. gr. eða lögregla stendur mann að slíku broti og lögreglustjóri telur viðurlög við brotinu ekki fara fram úr sviptingu ökuleyfis allt að einu ári, upptöku eigna eða sekt að tiltekinni fjárhæð sem dómsmálaráðherra ákveður í reglugerð að fenginni tillögu ríkissaksóknara, og getur lögreglustjóri þá bréflega, innan mánaðar frá því að honum barst kæran, gefið sakborningi kost á að ljúka málinu með því að gangast undir hæfileg viðurlög ásamt greiðslu sakarkostnaðar. Gangist sakborningur undir ákvörðun viðurlaga hafa þau málalok sama gildi um ítrekunaráhrif og dómur, ef því er að skipta. Synji sakborningur þessum málalokum eða sinni þeim ekki skal tekin ákvörðun um saksókn eftir almennum reglum.
  3. Í stað orðanna „2. mgr.“ í 3. mgr. kemur: 1. mgr.
  4. Orðin „og 2.“ í fyrri málslið 4. mgr. falla brott.
  5. Í stað orðanna „2. mgr.“ í síðari málslið 4. mgr. kemur: 1. mgr.


IV. KAFLI
Gildistaka.

6. gr.

     Lög þessi öðlast gildi 1. júlí 1997.

Samþykkt á Alþingi 9. maí 1997.