Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF Word Perfect.

Þingskjal 1360, 121. löggjafarþing 478. mál: búnaðargjald (heildarlög).
Lög nr. 84 26. maí 1997.

Lög um búnaðargjald.


1. gr.

     Innheimta skal sérstakt búnaðargjald af búvöruframleiðendum eins og þeir eru skilgreindir í lögum þessum og skal það nema 2,65% af gjaldstofni skv. 3. gr. Búnaðargjald er rekstrarkostnaður skv. 31. gr. laga nr. 75/1981, um tekjuskatt og eignarskatt, og frádráttarbært frá tekjum þess árs sem það reiknast af.

2. gr.

     Gjaldskyldir búvöruframleiðendur eru þeir sem stunda rekstur sem fellur undir atvinnugreinanúmer 01 og 02 í atvinnuvegaflokkun Hagstofu Íslands, sbr. ÍSAT 95, þó ekki starfsemi í undirflokkum 01.4, 01.5 og 02.02. Undanþegnir gjaldskyldu eru þeir sem hvorki eru skráningarskyldir né á skrá yfir virðisaukaskattsskylda aðila samkvæmt lögum nr. 50/1988, um virðisaukaskatt.

3. gr.

     Gjaldstofn búnaðargjalds er velta búvöru og tengdrar þjónustu hjá búvöruframleiðendum, sbr. 2. gr. Til gjaldskyldrar veltu telst velta skv. 11.– 13. gr. laga nr. 50/1988, um virðisaukaskatt, að frádregnu andvirði seldra varanlegra rekstrarfjármuna sem talið hefur verið með í gjaldstofni til virðisaukaskatts.
     Reki framleiðandi búvöru aðra starfsemi en gjaldskyld er skv. 2. gr. ber honum að halda þeirri starfsemi aðskildri í bókhaldi sínu eða færa hana á sérstakan rekstrarreikning utan landbúnaðarframtals.
     Á framtali til búnaðargjalds ber gjaldskyldum aðilum að sundurliða gjaldstofn sinn eftir búgreinum, samkvæmt skilgreiningu í reglugerð sem ráðherra setur.

4. gr.

     Gjaldskyldir búvöruframleiðendur skulu á gjalddögum virðisaukaskatts greiða í staðgreiðslu til innheimtumanna ríkissjóðs búnaðargjald af gjaldskyldri veltu. Staðgreiðsla búnaðargjalds samkvæmt þessari grein er fyrirframgreiðsla upp í væntanlega álagningu sem framkvæmd er af skattstjórum. Gjalddagar staðgreiðslunnar skulu vera hinir sömu og gjalddagar virðisaukaskatts hjá viðkomandi gjaldanda, sbr. 24. gr., 31. gr. og 1. mgr. 33. gr. laga nr. 50/1988, um virðisaukaskatt. Greiði gjaldskyldur aðili ekki staðgreiðslu á tilskildum tíma skal innheimtumaður ríkissjóðs reikna hæstu leyfilega dráttarvexti samkvæmt auglýsingu Seðlabanka Íslands á þá fjárhæð sem vangoldin er.

5. gr.

     Gjaldskyldir búvöruframleiðendur skulu innan þess framtalsfrests sem kveðið er á um í 93. gr. laga nr. 75/1981, um tekjuskatt og eignarskatt, skila framtali til skattstjóra eða umboðsmanns hans þar sem gjaldskyldar fjárhæðir eru tilgreindar eftir búgreinum á því formi sem ríkisskattstjóri ákveður.
     Að loknum framtalsfresti skal skattstjóri leggja á búnaðargjald í samræmi við lög þessi og skulu um þá álagningu gilda sömu ákvæði og er að finna í X. kafla um álagningu, kærur o.fl. í lögum nr. 75/1981, um tekjuskatt og eignarskatt.
     Ef greiðandi búnaðargjalds telur að álagning hafi ekki verið rétt ákvörðuð getur hann kært álagninguna til skattstjóra, sbr. X. kafla laga nr. 75/1981, um tekjuskatt og eignarskatt.
     Frá álögðu búnaðargjaldi skal draga þá fjárhæð sem gjaldskyldur aðili hefur greitt í staðgreiðslu upp í álagninguna á gjalddögum virðisaukaskatts. Komi í ljós mismunur á milli álagningar og staðgreiðslu skal skattstjóri reikna sérstakt 20% vanskilaálag á þá fjárhæð sem vangreidd er. Mismun ásamt álagi skal greiða með sem næst jöfnum greiðslum á þeim gjalddögum þinggjalda sem eftir eru á árinu þegar álagning fer fram. Hafi gjaldskyldur aðili ofgreitt búnaðargjald í staðgreiðslu skal um endurgreiðslu fara eftir 112. gr. laga nr. 75/1981.
     Um ábyrgð á greiðslu, upplýsingaskyldu, eftirlitsheimildir og málsmeðferð skulu gilda ákvæði laga nr. 75/1981.

6. gr.

     Tekjum af búnaðargjaldi skal skipt þannig, sbr. þó 4. mgr.:
Velta í nautgripa- og sauðfjárrækt Önnur afurðavelta
Til Búnaðarsjóðs 1,225% af stofni 1,575% af stofni
Til Lánasjóðs landbúnaðarins 1,150% af stofni 0,800% af stofni
Til Framleiðsluráðs landbúnaðarins 0,275% af stofni 0,275% af stofni
     Hluti Búnaðarsjóðs skiptist síðan á milli Bændasamtaka Íslands, búnaðarsambanda, búgreinasamtaka og Bjargráðasjóðs í samræmi við viðauka við lög þessi.
     Fjármálaráðherra stendur skil á gjaldinu mánaðarlega, þó aldrei lægri fjárhæð en nemur 6,67% af álagningu næstliðins árs.
     Af óskiptum tekjum búnaðargjalds skulu 0,5% renna í ríkissjóð til að standa straum af kostnaði við framkvæmd laga þessara.

7. gr.

     Lög þessi öðlast gildi 1. janúar 1998 og koma til framkvæmda við innheimtu búnaðargjalds í staðgreiðslu á því ári og álagningu þess á árinu 1999. Jafnframt falla úr gildi lög nr. 41/1990, um Búnaðarmálasjóð, og 25. gr. laga nr. 99/1993, um framleiðslu, verðlagningu og sölu á búvörum.

Ákvæði til bráðabirgða.
I.
     Vegna birgða innheimtir Framleiðsluráð landbúnaðarins 1,05% gjald af heildsöluverðmæti kindakjöts sem selt er frá afurðastöðvum mánuðina janúar til og með ágúst 1998 og af mjólkurafurðum sem seldar eru frá afurðastöðvum mánuðina janúar og febrúar 1998. Um hlutfallslega skiptingu gjaldsins fer eftir ákvæðum 1. mgr. 6. gr.

II.
     Þar til álagning skv. 2. mgr. 5. gr. hefur farið fram skal fjármálaráðherra standa skil á búnaðargjaldi eins og nánar er kveðið á um í 6. gr., með hliðsjón af áætlun Framleiðsluráðs landbúnaðarins um væntanlega álagningu gjaldsins.

III.
     Þrátt fyrir ákvæði 4. mgr. 6. gr. skal 1% af óskiptum tekjum af búnaðargjaldi renna í ríkissjóð á árunum 1998 og 1999 til að standa straum af stofnkostnaði vegna álagningar og innheimtu gjaldsins.

     
     
Viðauki.
Hlutfallsleg skipting tekna af búnaðargjaldi.
     
Búnaðarsjóður Lána- Fram-
sjóður leiðslur.
Afurðir Bsb. Búgr. Bjarg. landb. landbún. Alls
Nautgripaafurðir 0,325 0,500 0,100 0,300 1,150 0,275 2,650
Sauðfjárafurðir 0,325 0,500 0,100 0,300 1,150 0,275 2,650
Hrossaafurðir 0,325 0,500 0,550 0,200 0,800 0,275 2,650
Svínaafurðir 0,125 0,250 0,900 0,300 0,800 0,275 2,650
Alifuglakjöt 0,125 0,250 0,200 1,000 0,800 0,275 2,650
Egg 0,125 0,250 0,900 0,300 0,800 0,275 2,650
Kartöflur, gulrófur 0,325 0,500 0,450 0,300 0,800 0,275 2,650
Annað grænmeti og blóm 0,325 0,500 0,750 0,000 0,800 0,275 2,650
Grávara 0,325 0,500 0,450 0,300 0,800 0,275 2,650
Æðardúnn 0,325 0,500 0,450 0,300 0,800 0,275 2,650
Skógarafurðir 0,325 0,500 0,450 0,300 0,800 0,275 2,650

Samþykkt á Alþingi 16. maí 1997.