Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF Word Perfect.

Þingskjal 1315, 125. löggjafarþing 524. mál: eignarréttur íslenska ríkisins að auðlindum hafsbotnsins (gjaldtökuheimild o.fl.).
Lög nr. 101 22. maí 2000.

Lög um breytingar á lögum um eignarrétt íslenska ríkisins að auðlindum hafsbotnsins, nr. 73 18. maí 1990.


1. gr.

     Við 1. gr. laganna bætist ný málsgrein er orðast svo:
     Hugtakið netlög merkir í lögum þessum sjávarbotn 115 metra út frá stórstraumsfjöruborði landareignar.

2. gr.

     Við 2. gr. laganna bætist ný málsgrein er orðast svo:
     Ráðherra er heimilt að veita leyfishafa fyrirheit um forgang að leyfi skv. 3. gr. í allt að tvö ár eftir að gildistíma leyfis til leitar er lokið og um að öðrum aðila verði ekki veitt leyfi til leitar á þeim tíma.

3. gr.

     Við 3. gr. laganna bætist ný málsgrein er orðast svo:
     Iðnaðarráðherra er heimilt að ákvarða eða semja um endurgjald (leigu) fyrir töku eða nýtingu sem hann heimilar skv. 1. mgr. Tekjum af leyfum skal að jafnaði varið til hafsbotns- og landgrunnsrannsókna samkvæmt nánari ákvörðun ráðherra.

4. gr.

     Við 4. gr. laganna bætist ný málsgrein er orðast svo:
     Við veitingu leyfa samkvæmt lögum þessum skal gætt ákvæða laga um mat á umhverfisáhrifum.

5. gr.

     Við 5. gr. laganna bætast tvær nýjar málsgreinar er orðast svo:
     Í reglugerð skal tilgreina helstu ákvæði sem fram skulu koma í leyfunum, m.a. um tímalengd leyfis, staðarmörk vinnslusvæða, gerð efnis, magn og nýtingarhraða ef um nýtingarleyfi er að ræða, upplýsingaskyldu og skil gagna, öryggis- og umhverfisráðstafanir, eftirlit og greiðslu kostnaðar af eftirliti og leyfisgjald.
     Í reglugerð skal einnig kveðið á um þau atriði sem umsækjandi skal tiltaka í umsókn um leitar- og rannsóknarleyfi skv. 2. gr. og í umsókn um vinnsluleyfi skv. 3. gr.

6. gr.

     Við lögin bætist nýtt ákvæði til bráðabirgða er orðast svo:
     Þeir sem hafa leyfi til leitar og hagnýtingar efna á, í eða undir hafsbotni skulu halda þeim í fimm ár frá gildistöku laga þessara.

7. gr.

     Lög þessi öðlast þegar gildi.

Samþykkt á Alþingi 9. maí 2000.