Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF Word Perfect.

Þingskjal 669, 126. löggjafarþing 379. mál: almannatryggingar (tekjutrygging örorkulífeyrisþega).
Lög nr. 3 24. janúar 2001.

Lög um breyting á lögum um almannatryggingar, nr. 117 20. desember 1993, með síðari breytingum.


1. gr.

     Eftirfarandi breytingar verða á 17. gr. laganna:
  1. Við 5. mgr. bætist nýr málsliður er orðast svo: Ef 2/3 tekna þess hjóna sem örorkulífeyris nýtur nema lægri fjárhæð en 300.000 kr. á ári skal, þrátt fyrir ákvæði 2. málsl., aldrei greiða því lægri tekjutryggingu en nemur því sem á vantar að 2/3 tekna þess nái þeirri fjárhæð.
  2. Við 6. mgr. bætist nýr málsliður er orðast svo: Ef 2/3 tekna annars hvors hjónanna nema lægri fjárhæð en 300.000 kr. á ári skal, þrátt fyrir ákvæði 2. málsl., aldrei greiða því lægri tekjutryggingu en nemur því sem á vantar að 2/3 tekna þess nái þeirri fjárhæð.
  3. Við 7. mgr. bætist nýr málsliður er orðast svo: Ef 2/3 tekna þess hjóna sem örorkulífeyris nýtur nema lægri fjárhæð en 300.000 kr. á ári skal, þrátt fyrir ákvæði 1. málsl., aldrei greiða því lægri tekjutryggingu en nemur því sem á vantar að 2/3 tekna þess nái þeirri fjárhæð.


2. gr.

     Lög þessi öðlast gildi 1. febrúar 2001.

Ákvæði til bráðabirgða.
I.
     Þeir örorkulífeyrisþegar sem 2. mgr. 17. gr. laga nr. 117/1993, sbr. 14. gr. laga nr. 148/1994, átti við tímabilið 1. janúar 1997 til 31. desember 1998 og þeir sem 5.–7. mgr. 17. gr. laga nr. 117/1993, sbr. 1. gr. laga nr. 149/1998, hefur átt við tímabilið 1. janúar 1999 til 31. janúar 2001 skulu eiga rétt á greiðslum á tekjutryggingu örorkulífeyris vegna umræddra tímabila eftir þeim reglum sem hér greinir:
  1. Fyrir tímabilið 1. janúar 1997 til 31. desember 1998 skal greiða tekjutryggingu sem reiknast eftir ákvæði 2. mgr. 17. gr. laga nr. 117/1993, sbr. 14. gr. laga nr. 148/1994, en án þeirrar skerðingar skv. 2. mgr. 4. gr. reglugerðar nr. 485/1995 sem fólst í því að telja helming samanlagðra tekna beggja hjóna til tekna lífeyrisþegans. Frá tekjutryggingu reiknaðri með þessum hætti skulu dragast þær greiðslur tekjutryggingar sem viðkomandi örorkulífeyrisþegi hefur þegar fengið.
  2. Fyrir tímabilið 1. janúar 1999 til 31. janúar 2001 skal greiða tekjutryggingu sem reiknast á þann hátt sem greinir í 1. gr. laga þessara. Frá tekjutryggingu reiknaðri með þessum hætti skulu dragast þær greiðslur tekjutryggingar sem viðkomandi örorkulífeyrisþegi hefur þegar fengið.


II.
     Útreikningur tekjutryggingar samkvæmt bráðabirgðaákvæði I skal gerður eftir þeim viðmiðunarfjárhæðum sem hafa verið í gildi á hverju tímabili fyrir sig. Fjárhæðirnar í 1. gr. laga þessara skulu við útreikninga skv. b-lið í bráðabirgðaákvæði I bakreiknast til viðkomandi tímabila til samræmis við breytingar sem orðið hafa á fjárhæðum tekjutryggingar skv. 17. gr. laga nr. 117/1993, um almannatryggingar, með síðari breytingum. Greiðslurnar skulu bera 5,5% ársvexti frá þeim degi er lífeyrisþeginn fyrst gat átt rétt á að fá greiðslu viðkomandi tímabils samkvæmt ákvæðum laga nr. 117/1993 um það efni. Vextir skulu greiðast þó að ekki hafi legið fyrir umsókn um tekjutryggingu frá viðkomandi lífeyrisþega.

III.
     Tryggingastofnun ríkisins skal hafa frumkvæði að greiðslum samkvæmt bráðabirgðaákvæðum I og II í þeim tilvikum þar sem hún hefur í höndum umsóknir frá lífeyrisþegum og upplýsingar sem duga til að reikna út fjárhæðirnar sem greiða skal. Liggi fyrir umsóknir án nægilegra upplýsinga skal Tryggingastofnun ríkisins beina áskorun til viðkomandi lífeyrisþega um að bæta þar úr innan hæfilegs frests sem stofnunin ákveður. Miðað skal við að allar greiðslur sem stofnunin getur sjálf reiknað án atbeina frá lífeyrisþega hafi átt sér stað fyrir 1. apríl 2001.

IV.
     Þeir örorkulífeyrisþegar sem telja sig eiga rétt á tekjutryggingu skv. 1. gr. laga þessara, en hafa ekki sótt um fyrir umrædd tímabil, geta sótt um tekjutryggingu sér til handa og skulu þeir þá fá úrlausn í samræmi við reglur þessa bráðabirgðaákvæðis að því tilskildu að sótt sé um fyrir 1. júlí 2001. Eftir þann dag gilda ákvæði 48. gr. laga nr. 117/1993 um allar nýjar umsóknir um lífeyrisgreiðslur.

V.
     Greiðsla tekjutryggingar og vaxta samkvæmt lögum þessum telst til skattskyldra tekna ársins 2001. Tryggingastofnun ríkisins skal halda eftir staðgreiðslu af tekjutryggingunni samkvæmt lögum nr. 45/1987, um staðgreiðslu opinberra gjalda.
     Þrátt fyrir ákvæði 1. mgr. er bótaþega heimilt allt til ársloka 2001 að óska eftir því að greiðslur á tekjutryggingu vegna tekjuáranna 1997, 1998, 1999 og 2000, samkvæmt bráðabirgðaákvæðunum að framan, skuli færðar honum til skattskyldra tekna viðkomandi ár. Um endurákvörðun opinberra gjalda fer þá skv. 101. gr. laga nr. 75/1981, um tekjuskatt og eignarskatt, með síðari breytingum.

Samþykkt á Alþingi 24. janúar 2001.