Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF Word Perfect.

Þingskjal 1424, 126. löggjafarþing 669. mál: vörugjald af ökutækjum, eldsneyti o.fl. (bifreiðar til ökukennslu o.fl.).
Lög nr. 56 26. maí 2001.

Lög um breyting á lögum nr. 29/1993, um vörugjald af ökutækjum, eldsneyti o.fl., með síðari breytingum.


1. gr.

     Við 2. mgr. 5. gr. laganna bætast tveir nýir töluliðir, 6. og 7. tölul., svohljóðandi:
  1. Vörugjald af bifreiðum til ökukennslu skal lagt á samkvæmt eftirfarandi töflu miðað við sprengirými aflvélar, mælt í rúmsentímetrum:      
    Flokkur Sprengirými aflvélar Gjald í %
    I 0–2.000 10
    II Yfir 2.000 13
         
    Skilyrði fyrir því að bifreið til ökukennslu beri vörugjald samkvæmt þessum tölulið eru að kaupandi hennar hafi hlotið löggildingu sem ökukennari og hafi akstur hennar að aðalatvinnu.
  2.      Ökuskólar geta jafnframt notið lækkunar samkvæmt þessum tölulið. Skilyrði þess eru að ökuskóli hagi skráningu á akstri bifreiðar sem nýtur lægra vörugjalds þannig að á hverjum tíma sé unnt að gera grein fyrir akstri bifreiðarinnar í þágu ökukennslu. Tollstjóri getur án fyrirvara óskað eftir gögnum þar um. Sé bifreið notuð til annars er tollstjóra heimilt að innheimta fullt vörugjald skv. 3. gr. laganna með 50% álagi. Við mat á því hvort bifreið hafi einungis verið notuð til ökukennslu skal miðað við að unnt sé að gera grein fyrir a.m.k. 80% af akstri hennar í þágu ökukennslu með framvísun þar til gerðrar akstursbókar eða öðrum hætti sem tollstjóri metur fullnægjandi. Ráðherra getur í reglugerð sett nánari reglur um þær bifreiðar sem njóta undanþágu samkvæmt þessum tölulið.
         Brot á þeim skilyrðum sem sett eru í þessum tölulið varðar því að hinn brotlegi, hvort sem er einstaklingur eða lögaðili, missir rétt til lækkunar í þrjú ár frá síðasta broti.
  3. Vörugjald af bifreiðum sem notaðar eru til ökukennslu og leigubifreiðaaksturs skal lagt á samkvæmt eftirfarandi töflu miðað við sprengirými aflvélar, mælt í rúmsentímetrum:      
    Flokkur Sprengirými aflvélar Gjald í %
    I 0–2.000 10
    II Yfir 2.000 13
         
    Skilyrði fyrir því að bifreið sem nýtt er til ökukennslu og leigubifreiðaaksturs beri vörugjald samkvæmt þessum tölulið eru að kaupandi hennar hafi atvinnuleyfi til leiguaksturs fólksbifreiða og hafi hlotið löggildingu sem ökukennari og hafi þessi störf samanlagt að aðalatvinnu.


2. gr.

     Lög þessi öðlast gildi 1. júlí 2001.

Samþykkt á Alþingi 18. maí 2001.