Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF Word Perfect.

Þingskjal 1416, 128. löggjafarþing 649. mál: Ábyrgðasjóður launa (heildarlög, EES-reglur).
Lög nr. 88 26. mars 2003.

Lög um Ábyrgðasjóð launa.


I. KAFLI
Markmið og gildissvið.

1. gr.

Markmið.
     Markmið laga þessara er að tryggja launamönnum og lífeyrissjóðum greiðslur vegna vangoldinna krafna þeirra við gjaldþrot vinnuveitanda eða þegar dánarbú hans er til opinberra skipta og erfingjar ábyrgjast ekki skuldbindingar.

2. gr.

Ábyrgðasjóður launa.
     Starfrækja skal Ábyrgðasjóð launa sem ábyrgist greiðslu á kröfum um vangoldin laun, bætur vegna slita á ráðningarsamningi, orlof, bætur vegna vinnuslysa og lífeyrisiðgjöld í bú vinnuveitanda sem hefur staðfestu og rekur starfsemi hér á landi. Í þeim tilvikum sem vinnuveitandi hefur staðfestu í fleiri en einu ríki veita lögin ábyrgð á kröfum vegna þeirra launamanna sem að öllu leyti eða að jafnaði inna af hendi starfsskyldur sínar hér á landi, enda njóti kröfur þeirra ekki ábyrgðar í öðru ríki.
     Ábyrgð sjóðsins er háð því skilyrði að kröfur skv. 1. mgr. hafi verið viðurkenndar sem forgangskröfur skv. 112. gr. laga um gjaldþrotaskipti o. fl., nr. 21/1991, með fyrirvara um takmarkanir og frávik sem kveðið er á um í II.–IV. kafla laga þessara.
     Fari um skipti á búi vinnuveitanda samkvæmt lögum annars ríkis gilda ákvæði laga þessara eftir því sem við á um meðferð krafna sem njóta ábyrgðar skv. 1. mgr.

3. gr.

Stjórnsýsla.
     Félagsmálaráðherra fer með framkvæmd laga þessara.
     Ábyrgðasjóður launa lýtur þriggja manna stjórn sem ráðherra skipar til fjögurra ára í senn samkvæmt tilnefningu Alþýðusambands Íslands og Samtaka atvinnulífsins og einn án tilnefningar og skal hann vera formaður stjórnar. Varamenn skulu skipaðir á sama hátt.
     Um hlutverk stjórnar Ábyrgðasjóðs launa og fjármögnun sjóðsins fer að öðru leyti skv. VIII. kafla.

II. KAFLI
Ábyrgðartímabil og kröfur.

4. gr.

Ábyrgðartímabil.
     Ábyrgð sjóðsins tekur til krafna sem taldar eru upp í 5. gr. og fallið hafa í gjalddaga á síðustu 18 mánuðum fyrir úrskurðardag eða réttur hefur unnist til á því tímabili. Þó er heimilt að miða ábyrgðartímabil við frestdag ef sú niðurstaða er hagstæðari fyrir kröfuhafa.
     Í sérstökum undantekningartilvikum er sjóðnum heimilt að ábyrgjast kröfur sem gjaldfallið hafa utan ábyrgðartímabils 1. mgr., að því tilskildu að eðlilega hafi verið staðið að innheimtu þeirra. Beiting þessarar heimildar skal þó ekki hafa í för með sér að ábyrgðartímabil verði lengra en 18 mánuðir.

5. gr.

Kröfur sem njóta ábyrgðar sjóðsins.
     Ábyrgð sjóðsins tekur til eftirfarandi krafna í bú vinnuveitanda:
  1. Kröfu launamanns um vinnulaun fyrir síðustu þrjá starfsmánuði hans í þjónustu vinnuveitanda.
  2. Kröfu um bætur vegna launamissis í allt að þrjá mánuði vegna slita á ráðningarsamningi að því tilskildu að kröfuhafi sýni fram á með ótvíræðum hætti, svo sem með skráningu hjá opinberri vinnumiðlun, að hann hafi verið á vinnumarkaði og ástundað virka atvinnuleit í uppsagnarfresti.
  3. Kröfu um orlofslaun sem réttur hefur unnist til á ábyrgðartímabili, sbr. 4. gr.
  4. Kröfu lífeyrissjóðs um lífeyrisiðgjöld sem fallið hafa í gjalddaga á ábyrgðartímabili, sbr. 4. gr. Ábyrgðin takmarkast við 10% lágmarksiðgjald og allt að 4% af iðgjaldsstofni samkvæmt samningi um viðbótartryggingavernd, sbr. 2. og 9. gr. laga um skyldutryggingu lífeyrisréttinda og starfsemi lífeyrissjóða, nr. 129/1997, og ákvæði í kjarasamningum. Ráðherra skal í reglugerð kveða nánar á um skilyrði fyrir ábyrgð sjóðsins á iðgjöldum, þar á meðal um eftirlit með skilum og innheimtu þeirra.
  5. Kröfu launamanns um bætur vegna tjóns af völdum vinnuslyss og kröfu þess sem tilkall á til bóta vegna dauðsfalls launamanns, enda taki tryggingar vinnuveitanda ekki til bótakröfunnar.


6. gr.

Hámark ábyrgðar.
     Hámarksábyrgð á kröfum launamanna skv. a- og b-lið 5. gr. skal vera 250.000 kr. miðað við hvern mánuð. Hámarksábyrgð á kröfum skv. c-lið 5. gr. skal vera 400.000 kr. Fjárhæðir þessar skulu endurskoðaðar árlega með reglugerð sem ráðherra setur að fengnum tillögum stjórnar Ábyrgðasjóðs launa.
     Greiðslur vinnuveitanda upp í kröfur skv. 5. gr. sem hann innir af hendi fyrir uppkvaðningu úrskurðar um gjaldþrotaskipti skulu koma til frádráttar hámarksábyrgð sjóðsins eða þeirri fjárhæð sem nýtur ábyrgðar sé hún lægri. Með sama hætti skulu atvinnuleysisbætur og atvinnutekjur í uppsagnarfresti koma til frádráttar kröfum skv. b-lið 5. gr. Skal greiðsla sjóðsins til launamanns nema þeirri fjárhæð sem eftir stendur.
     Við afgreiðslu sjóðsins á kröfum skv. a- og b-lið 5. gr. skal hver mánuður gerður upp sérstaklega samkvæmt hámarksfjárhæð sem kveðið er á um í 1. mgr. Nái krafa launamanns yfir skemmra tímabil en einn mánuð skal hámarksábyrgð reiknuð í hlutfalli við það tímabil.

7. gr.

Ábyrgð án gjaldþrotaskipta.
     Sjóðstjórn er heimilt, þegar sérstaklega stendur á, að ábyrgjast kröfur skv. 5. gr. án undangenginna gjaldþrotaskipta á búi vinnuveitanda, enda liggi fyrir að vinnuveitandi hafi sannanlega hætt rekstri og tilraunir kröfuhafa til að koma fram gjaldþrotaskiptum á búi hans hafi ekki borið árangur eða kostnaður af að koma fram gjaldþroti yrði að mati sjóðstjórnar óeðlilega mikill.

III. KAFLI
Vextir og kostnaður.

8. gr.

Vextir.
     Kröfur skv. a–d-liðum 5. gr. skulu bera vexti skv. 4. gr. laga um vexti og verðtryggingu, nr. 38/2001, frá gjalddaga þeirra til þess dags er krafan fæst greidd úr Ábyrgðasjóði launa.
     Um vexti á bótakröfur skv. e-lið 5. gr. fer samkvæmt þeim reglum sem almennt gilda um þær kröfur.

9. gr.

Kostnaður og skiptatrygging.
     Njóti krafa ábyrgðar skv. 5. gr. á kröfuhafi rétt á greiðslu eðlilegs kostnaðar vegna innheimtu hennar, þ.m.t. dæmds málskostnaðar.
     Auk kostnaðar skv. 1. mgr. ber sjóðurinn ábyrgð á greiðslu skiptatryggingar sem launamaður eða lífeyrissjóður hefur greitt.
     Stjórn Ábyrgðasjóðs launa skal setja reglur sem ráðherra staðfestir um hámark á greiðslu kostnaðar og önnur skilyrði fyrir ábyrgð sjóðsins á kröfum skv. 1. og 2. mgr.

IV. KAFLI
Undanþágur frá ábyrgð.

10. gr.

Undanþágur.
     Kröfur framkvæmdastjóra og stjórnarmanna hins gjaldþrota fyrirtækis njóta ekki ábyrgðar samkvæmt lögum þessum. Sama gildir um kröfur launamanns sem var eigandi, einn eða ásamt maka sínum eða öðrum nákomnum, að verulegum hlut í hinu gjaldþrota fyrirtæki og hafði umtalsverð áhrif á rekstur þess.
     Ábyrgðasjóði launa er heimilt að hafna kröfum maka þeirra einstaklinga sem taldir eru upp í 1. mgr., annarra skyldmenna eða þeirra sem nákomnir eru þeim að öðru leyti ef sýnt er fram á að kröfur þeirra séu óréttmætar með tilliti til framangreindra tengsla.
     Heimilt er að lækka greiðslu úr sjóðnum miðað við gerða kröfu ef krafan telst óeðlilega há miðað við það starf sem kröfuhafi gegndi, starfstíma hans og þau launakjör sem tíðkast í viðkomandi starfsgrein eða eftir atvikum í hinu gjaldþrota fyrirtæki.
     Ákvæði 1.–3. mgr. taka ekki til bótakrafna skv. e-lið 5. gr.

11. gr.

Upplýsingar.
     Kröfuhafi skal greina frá því í kröfugerð sinni til sjóðsins hvort þau atvik sem greinir í 10. gr. hafi átt við um hann á þeim tíma sem krafa hans á hendur vinnuveitanda stofnaðist.

V. KAFLI
Kröfugerð og umsögn skiptastjóra.

12. gr.

Frestur til að gera kröfu.
     Krafa á hendur Ábyrgðasjóði launa verður því aðeins tekin til greina að hún berist sjóðnum innan sex mánaða frá þeirri birtingu innköllunar í bú vinnuveitanda í Lögbirtingablaði er ræður lokum kröfulýsingarfrests í búið. Stjórn sjóðsins er þó heimilt að taka til greina kröfu er berst innan tólf mánaða frá birtingu innköllunar ef sýnt er að kröfuna hafi ekki verið hægt að gera fyrr.
     Kveðið skal á um form og efni kröfu til Ábyrgðasjóðs launa í reglugerð.

13. gr.

Umsögn skiptastjóra.
     Skiptastjóri í búi vinnuveitanda skal svo fljótt sem auðið er láta Ábyrgðasjóði launa í té skriflega umsögn um hverja þá kröfu í búið sem til álita kemur að njóti ábyrgðar sjóðsins samkvæmt lögum þessum. Umsögn skiptastjóra skal fela í sér afstöðu hans til réttmætis kröfu og forgangsréttar hennar án tillits til eignastöðu búsins.
     Hafi skiptafundur ekki verið haldinn í búi vinnuveitanda til þess að taka afstöðu til lýstra krafna, en skiptastjóri lýsir því yfir að hann hafi viðurkennt forgangsrétt greiðslukröfunnar að einhverju leyti eða öllu, er Ábyrgðasjóði launa heimilt að fara með greiðslukröfu eins og fullnægt væri skilyrðum 1. mgr. Hafi krafa verið greidd úr sjóðnum á grundvelli slíkrar yfirlýsingar, en síðar kemur fram að hafnað er viðurkenningu forgangsréttar kröfunnar í búið, verður sú fjárhæð sem ofgreidd hefur verið af þessum sökum ekki endurkrafin.
     Ábyrgðasjóður launa getur óskað eftir frekari skýringum skiptastjóra á umsögn hans ef nauðsyn krefur.
     Kveðið skal á um form og efni umsagnar skiptastjóra í reglugerð.

VI. KAFLI
Stjórnsýsla.

14. gr.

Ákvörðun um greiðslu.
     Ábyrgðasjóður launa skal að jafnaði taka afstöðu til framkominnar kröfu innan fjögurra vikna frá því að umsögn skiptastjóra skv. 13. gr. berst sjóðnum. Ef ekki er unnt að taka afstöðu til kröfu innan frests, svo sem vegna frekari gagnaöflunar, skal tilkynna það kröfuhafa eða umboðsmanni hans og gefa honum kost á að koma sjónarmiðum sínum á framfæri við sjóðinn og leggja fram frekari gögn. Sjóðurinn getur óskað eftir skýringum kröfuhafa um einstaka þætti kröfu hans ef nauðsyn krefur.
     Komi fram í umsögn skiptastjóra að ágreiningur sé um réttmæti kröfu hefst frestur skv. 1. mgr. þann dag sem sjóðnum berst tilkynning um lyktir ágreiningsins.

15. gr.

Tilkynningar.
     Ábyrgðasjóður launa skal með sannanlegum hætti tilkynna þeim er kröfu gerir og skiptastjóra í búi vinnuveitandans niðurstöðu sína um greiðsluskyldu sjóðsins. Í tilkynningu skal sundurliða þá fjárhæð sem ábyrgðar nýtur skv. II. og III. kafla.
     Áður en greiðsla á kröfu verður innt af hendi úr Ábyrgðasjóði launa skal staðreyna hvort greiðsla hafi fengist á henni að einhverju eða öllu leyti úr búi vinnuveitandans og skulu þær greiðslur dragast að fullu frá greiðslu úr sjóðnum eftir þeim reglum sem kveðið er á um í 6. gr.

16. gr.

Málskot.
     Afgreiðslu Ábyrgðasjóðs launa má skjóta til stjórnar sjóðsins innan mánaðar frá móttöku tilkynningar skv. 15. gr.
     Stjórnin skal að jafnaði taka afstöðu til framkominnar kæru innan tveggja mánaða frá því að kæra berst. Skorti gögn eða nánari skýringar til að unnt sé að taka afstöðu til kröfu skal miða upphaf frests við þann dag sem þessar upplýsingar berast.
     Heimilt er að kæra ákvarðanir stjórnar samkvæmt lögum þessum til félagsmálaráðuneytis innan tveggja mánaða frá því að aðila barst tilkynning um ákvörðunina. Þetta skerðir þó ekki rétt aðila til að höfða mál fyrir dómstólum.

17. gr.

Innlausn kröfu og fyrirsvar.
     Frá því að skiptastjóra berst tilkynning Ábyrgðasjóðs launa skv. 15. gr. fer sjóðurinn með fyrirsvar fyrir kröfunni gagnvart búi vinnuveitanda að því leyti sem hann leysir kröfuna til sín. Nýtur krafa sjóðsins sömu stöðu í skuldaröð í búinu og hún hefði ella notið.
     Sá sem gerir kröfu á hendur Ábyrgðasjóði launa á grundvelli laga þessara má ekki aðhafast neitt það sem rýrt gæti endurkröfurétt sjóðsins á hendur búi vinnuveitanda. Er honum óheimilt að samþykkja, án sérstaks leyfis stjórnar sjóðsins, að kröfur fái komist að við gjaldþrotaskipti sem ekki hefur verið lýst fyrir lok kröfulýsingarfrests. Brjóti kröfuhafi eða umboðsmaður hans gegn þessu ákvæði hefur það í för með sér að ábyrgð samkvæmt lögum þessum fellur niður.

18. gr.

Staðgreiðsla opinberra gjalda.
     Ábyrgðasjóði launa ber að reikna staðgreiðslu launamanns á kröfur sem samþykktar hafa verið samkvæmt lögum þessum og skila til innheimtuaðila í samræmi við ákvæði laga um staðgreiðslu opinberra gjalda.

VII. KAFLI
Orlof vegna greiðsluerfiðleika.

19. gr.

Almenn skilyrði.
     Standi vinnuveitandi ekki í skilum með greiðslu orlofslauna skv. 7. eða 8. gr. laga um orlof, nr. 30/1987, án þess þó að bú hans hafi verið tekið til gjaldþrotaskipta, getur launamaður eða hlutaðeigandi stéttarfélag í umboði hans snúið sér til Ábyrgðasjóðs launa með orlofslaunakröfuna. Krafa skal studd fullnægjandi gögnum um fjárhæð hennar, svo sem launaseðlum og vottorði viðkomandi vinnuveitanda eða löggilts endurskoðanda hans.

20. gr.

Áskorun til vinnuveitanda og innlausn.
     Ef krafa launamanns uppfyllir skilyrði 19. gr. skal Ábyrgðasjóður launa þegar í stað skora á vinnuveitanda að greiða kröfuna eigi síðar en þremur vikum frá dagsetningu áskorunar.
     Komi fram andmæli af hálfu vinnuveitanda sem sjóðurinn telur réttmæt, svo sem um að krafan hafi þegar verið greidd eða hún niður fallin af öðrum ástæðum, skal sjóðurinn vísa kröfunni frá. Kröfu launamanns skal einnig vísað frá ef fram er komin beiðni um gjaldþrotaskipti á búi vinnuveitanda.
     Standi ákvæði 2. mgr. ekki í vegi fyrir því að greiða megi kröfu launamannsins skal Ábyrgðasjóður launa innleysa kröfuna eigi síðar en fimm vikum frá dagsetningu áskorunar, sbr. 1. mgr. Um ábyrgð sjóðsins fer að öðru leyti samkvæmt ákvæðum c-liðar 5. gr., 6. gr. og IV. kafla, eftir því sem við á.

21. gr.

Aðfararhæfi og innheimta.
     Krafa Ábyrgðasjóðs launa vegna innleystrar orlofslaunakröfu er aðfararhæf gagnvart vinnuveitanda. Þá skal innleyst krafa njóta sömu stöðu gagnvart þrotabúi vinnuveitanda og krafa launamanns hefði ella notið.
     Á kröfu sem innleyst hefur verið samkvæmt reglum þessum reiknast dráttarvextir samkvæmt lögum um vexti og verðtryggingu, fyrst 15 dögum eftir innlausn.
     Um málsmeðferð fer að öðru leyti skv. VI. kafla, eftir því sem við á.

VIII. KAFLI
Hlutverk stjórnar, dagleg umsýsla og fjármögnun.

22. gr.

Hlutverk stjórnar Ábyrgðasjóðs launa.
     Varsla Ábyrgðasjóðs launa, dagleg umsýsla og reikningshald eru á ábyrgð stjórnar sjóðsins í umboði félagsmálaráðherra, sbr. 1. mgr. 3. gr.
     Auk þeirra verkefna sem lúta að stjórnsýslulegri meðferð þeirra mála sem berast sjóðnum skal stjórn Ábyrgðasjóðs launa annast fyrirsvar fyrir sjóðinn og sinna öðrum þeim verkefnum sem lúta að framkvæmd laga þessara.
     Stjórn sjóðsins skal fyrir lok september ár hvert gera ráðherra grein fyrir fjárhagsstöðu sjóðsins og áætlun um þróun útgjalda. Jafnframt skal stjórnin fyrir sama tíma gera tillögu til ráðherra um hámarksfjárhæðir skv. 1. mgr. 6. gr.

23. gr.

Fjármögnun.
     Ábyrgðasjóður launa skal fjármagnaður með sérstöku ábyrgðargjaldi af greiddum vinnulaunum, þóknun og reiknuðu endurgjaldi, hvaða nafni sem nefnist, sem skattskylt er. Ákvæði laga um tryggingagjald eiga við um gjaldstofn, gjaldskyldu, greiðslutímabil, álagningu og innheimtu ábyrgðargjalds.
     Ábyrgðargjaldið skal vera 0,04% af gjaldstofni.
     Skorti sjóðinn reiðufé til að standa við skuldbindingar sínar samkvæmt lögum þessum skal stjórn sjóðsins þegar tilkynna það ráðherra. Ríkissjóður skal þá leggja sjóðnum til þá fjármuni sem til þarf og skoðast það sem lántaka.
     Ábyrgðargjald telst rekstrarkostnaður skv. 1. tölul. 31. gr. laga um tekjuskatt og eignarskatt, nr. 75/1981, að því leyti sem það er ákvarðað af launum sem teljast rekstrarkostnaður samkvæmt sömu grein.
     Kostnaður af rekstri Ábyrgðasjóðs launa greiðist af tekjum hans.
     Ársreikningur sjóðsins skal endurskoðaður af Ríkisendurskoðun.

IX. KAFLI
Ýmis ákvæði.

24. gr.

Framsal.
     Hafi launamaður framselt launakröfu sína á hendur vinnuveitanda áður en bú vinnuveitanda var tekið til gjaldþrotaskipta nýtur krafan ekki ábyrgðar samkvæmt lögum þessum. Þetta á þó ekki við ef krafan hefur verið framseld stéttarfélagi launamannsins, né heldur ef krafan hefur að fullu eða að hluta verið framseld Atvinnuleysistryggingasjóði.
     Ákvæði 1. mgr. gildir einnig í þeim tilvikum sem kveðið er á um í 7. gr. og VII. kafla.

25. gr.

Upplýsingar.
     Stjórnvöldum, vinnuveitendum og öðrum hlutaðeigandi aðilum er skylt að láta Ábyrgðasjóði launa í té upplýsingar sem nauðsynlegar eru vegna afgreiðslu sjóðsins á einstökum kröfum.

26. gr.

Endurkrafa.
     Hafi greiðslu verið aflað úr Ábyrgðasjóði launa með því að gefa rangar upplýsingar eða leyna atriðum sem leitt hefðu til synjunar eða lækkunar á greiðslu úr sjóðnum samkvæmt lögum þessum ber þeim er greiðsluna fékk að endurgreiða þá fjárhæð sem hann hefur ranglega fengið.
     Krafa um endurgreiðslu skv. 1. mgr. fellur úr gildi fyrir fyrningu þegar tvö ár eru liðin frá því að greiðsla átti sér stað.
     Telji stjórn Ábyrgðasjóðs launa að greiðslu hafi verið aflað eða reynt hafi verið að afla greiðslu úr sjóðnum með saknæmum hætti skal málinu vísað til opinberrar rannsóknar.

X. KAFLI
Reglugerðarheimild og gildistaka.

27. gr.

Reglugerðarheimild.
     Félagsmálaráðherra skal að fengnum tillögum stjórnar Ábyrgðasjóðs launa setja í reglugerð nánari fyrirmæli um framkvæmd laga þessara.

28. gr.

Gildistaka og lagaskil.
     Lög þessi, sem sett eru með hliðsjón af tilskipun ráðsins frá 20. október 1980 nr. 80/987/EBE um samræmingu á lögum aðildarríkjanna um vernd til handa launþegum verði vinnuveitandi gjaldþrota, öðlast þegar gildi. Falla þá jafnframt úr gildi lög nr. 53/1993, um ábyrgðasjóð launa vegna gjaldþrota, með síðari breytingum. Frá sama tíma fellur úr gildi 11. gr. orlofslaga, nr. 30/1987, með síðari breytingum.
     Kröfur í bú vinnuveitanda sem úrskurðuð eru gjaldþrota fyrir gildistöku þessara laga njóta ábyrgðar samkvæmt lögum um ábyrgðasjóð launa vegna gjaldþrota, nr. 53/1993. Ákvæði 10. gr. laga þessara taka þó strax gildi vegna krafna í bú vinnuveitanda sem úrskurðuð eru gjaldþrota fyrir gildistöku þessara laga leiði þau til hagstæðari niðurstöðu fyrir kröfuhafa.
     Ákvæði d-liðar 5. gr. tekur gildi 1. janúar 2004 varðandi ábyrgð á iðgjöldum samkvæmt samningum um viðbótartryggingavernd og ákvæðum kjarasamninga sem falla í gjalddaga eftir gildistöku laga þessara, sbr. 1. mgr., enda hafi bú vinnuveitanda verið úrskurðað gjaldþrota eftir 1. janúar 2004.
     Ákvæði 1. mgr. 6. gr. um hámarksábyrgð á kröfum launamanna skv. a- og b-lið 5. gr. öðlast gildi 1. apríl 2003 vegna krafna sem gjaldfalla eftir það tímamark. Fram til þess dags gildir 2. mgr. 5. gr. laga nr. 53/1993.
     Ákvæði 1. mgr. 6. gr. um hámark ábyrgðar vegna krafna skv. c-lið 5. gr. öðlast þegar gildi gagnvart kröfum sem stofnast hafa en hafa ekki náð hámarki ábyrgðar fyrir gildistöku laganna. Kröfur umfram hámarksábyrgð skulu ekki skerðast að því leyti sem þær stofnast fyrir gildistöku laganna.

Samþykkt á Alþingi 14. mars 2003.