Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF Word Perfect.

Þingskjal 1555, 130. löggjafarþing 570. mál: málefni aldraðra (hlutverk Framkvæmdasjóðs, samstarfsnefnd o.fl.).
Lög nr. 38 11. maí 2004.

Lög um breytingu á lögum um málefni aldraðra, nr. 125/1999, með síðari breytingum.


1. gr.

     4. gr. laganna orðast svo:
     Heilbrigðis- og tryggingamálaráðherra skipar fimm manna samstarfsnefnd um málefni aldraðra eftir hverjar almennar alþingiskosningar. Skal einn nefndarmaður tilnefndur af Landssambandi eldri borgara, einn af Öldrunarráði Íslands, einn af Sambandi íslenskra sveitarfélaga og tveir skulu skipaðir án tilnefningar. Ráðherra skipar formann úr hópi nefndarmanna. Varamenn skulu skipaðir á sama hátt og aðalmenn. Samstarfsnefndin skal hafa sérstakan ritara og skal kostnaður við störf nefndarinnar greiddur úr Framkvæmdasjóði aldraðra.

2. gr.

     Í stað 2. mgr. 9. gr. laganna koma fjórar nýjar málsgreinar er orðast svo:
     Fjármagni úr Framkvæmdasjóði aldraðra skal varið til:
  1. Byggingar þjónustumiðstöðva og dagvista, sbr. 2. og 3. tölul. 13. gr., og byggingar stofnana fyrir aldraða, sbr. 14. gr., en þó ekki til byggingar íbúða í eigu einstaklinga, félagasamtaka og sveitarfélaga.
  2. Að mæta kostnaði við nauðsynlegar breytingar og endurbætur á húsnæði sem notað er til þjónustu fyrir aldraða, sbr. 2. og 3. tölul. 13. gr. og 14. gr., að frátöldum íbúðum í eigu einstaklinga, félagasamtaka og sveitarfélaga.
  3. Viðhalds húsnæðis dagvistar-, dvalar- og hjúkrunarheimila.
  4. Reksturs stofnanaþjónustu fyrir aldraða í sérstökum tilvikum, sbr. 14. gr.
  5. Annarra verkefna sem stuðla að uppbyggingu öldrunarþjónustu.

     Þá er Framkvæmdasjóði aldraðra heimilt að greiða þann hluta húsaleigu sem telst stofnkostnaður vegna leigu á hjúkrunarheimili fyrir aldraða sem samþykkt hefur verið að byggja eftir 1. janúar 2005 á kostnað annarra aðila en ríkisins, að undangengnu útboði. Skilyrði fyrir greiðslu húsaleigu er að ekki hafi verið veittur styrkur úr Framkvæmdasjóði aldraðra skv. 2. mgr. eða annar styrkur frá ríkinu til að byggja hjúkrunarheimilið. Húsaleiga sem greidd er með þessum hætti telst ígildi stofnkostnaðar. Heimilt er að gera undanþágu frá útboði skv. 1. málsl. þegar sérstaklega stendur á og talið er að útboð muni ekki leiða til lægri húsaleigukostnaðar fyrir ríki og sveitarfélög.
     Þegar ríki og sveitarfélög standa saman að uppbyggingu hjúkrunarheimila skal þátttaka sveitarfélaga ekki vera minni en sem nemur 15% af stofnkostnaði og skal eignarhlutur vera í sömu hlutföllum og skipting stofnkostnaðar. Þátttaka sveitarfélaga í greiðslu leigu fyrir hjúkrunarheimili skv. 3. mgr. skal ekki vera minni en sem nemur 15% af leigunni. Taki sveitarfélag þátt í stofnkostnaði eða greiðslu leigu vegna byggingar annarra hjúkrunarheimila skal samþykki þess fyrir greiðsluþátttöku liggja fyrir áður en framkvæmda- og rekstrarleyfi er gefið út. Framlag úr Framkvæmdasjóði aldraðra telst ríkisframlag.
     Framlög skv. 2. mgr. og húsaleiga skv. 3. mgr. eru ekki veitt nema heilbrigðis- og tryggingamálaráðherra hafi veitt framkvæmda- og rekstrarleyfi skv. 16. gr. Umsóknir um framlög úr Framkvæmdasjóði aldraðra skulu vera á sérstökum eyðublöðum sem útbúin eru af heilbrigðis- og tryggingamálaráðuneytinu. Eyðublöðunum skulu fylgja sérstök skilmálablöð.

3. gr.

     Í stað orðanna „skv. 16. og 17. gr.“ í 3. tölul. 13. gr. og 2. mgr. 14. gr. laganna kemur: skv. 16. gr.

4. gr.

     Eftirfarandi breytingar verða á 16. gr. laganna:
  1. 1. mgr. orðast svo:
  2.      Áður en framkvæmdir hefjast við dagvist fyrir aldraða skv. 3. tölul. 13. gr. eða stofnun fyrir aldraða skv. 14. gr. skal afla framkvæmda- og rekstrarleyfis heilbrigðis- og tryggingamálaráðherra. Skulu umsóknir um framkvæmda- og rekstrarleyfi vera á sérstökum eyðublöðum sem útbúin eru af heilbrigðis- og tryggingamálaráðuneytinu. Eyðublöðunum skulu fylgja sérstök skilmálablöð.
  3. 3. mgr. orðast svo:
  4.      Beiðni um framkvæmda- og rekstrarleyfi, sbr. 1. mgr., fyrir dagvist eða stofnun fyrir aldraða skal fylgja umsögn og þarfagreining þjónustuhóps aldraðra á því starfssvæði þar sem stofnunin mun verða. Enn fremur skulu fylgja upplýsingar um verksvið stofnunar og staðsetningu, svo og uppdrættir af byggingum, lóð og umhverfi og afstöðu til nágrennis ásamt lýsingu á húsakynnum. Þá skal fylgja greinargerð um fjármögnun, eigendur og fjárhag þeirra og skýrsla um starfsáætlun, stjórn, starfsfólk, rekstrarfyrirkomulag og hve mörgum vistmönnum stofnuninni er ætlað að sinna.
  5. 4. mgr. orðast svo:
  6.      Beiðni um framkvæmda- og rekstrarleyfi vegna meiri háttar breytinga á húsakynnum og starfsemi stofnunar fyrir aldraða skulu fylgja upplýsingar um staðsetningu, uppdrættir af byggingum, lóð og umhverfi og um afstöðu til nágrennis ásamt lýsingu á húsakynnum. Enn fremur skulu fylgja upplýsingar um það hvort breytingarnar hafi áhrif á umfang starfseminnar og hvort þær leiði til fjölgunar eða fækkunar vistmanna. Þá skulu fylgja upplýsingar um fjármögnun breytinganna.
  7. 5. mgr. orðast svo:
  8.      Ráðherra veitir framkvæmda- og rekstrarleyfi ef stofnunin fullnægir heilbrigðiskröfum og ákvæðum þessara laga og ætla má að hún geti leyst verkefni sín á viðunandi hátt, sbr. og lög um heilbrigðisþjónustu.
  9. Fyrirsögn á undan greininni verður: Framkvæmda- og rekstrarleyfi.


5. gr.

     17. gr. laganna og fyrirsögn á undan greininni falla brott.

6. gr.

     Lög þessi öðlast þegar gildi.

Samþykkt á Alþingi 29. apríl 2004.