Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF Word Perfect.

Þingskjal 737, 149. löggjafarþing 266. mál: lyfjalög og landlæknir og lýðheilsa (lyfjaávísanir hjúkrunarfræðinga og ljósmæðra).
Lög nr. 153 20. desember 2018.

Lög um breytingu á lyfjalögum og lögum um landlækni og lýðheilsu (lyfjaávísanir hjúkrunarfræðinga og ljósmæðra).


I. KAFLI
Breyting á lyfjalögum, nr. 93/1994, með síðari breytingum.

1. gr.

     Eftirfarandi breytingar verða á 11. gr. laganna:
  1. Á eftir 2. mgr. kemur ný málsgrein, svohljóðandi:
  2.      Lyfjaávísun hjúkrunarfræðings eða ljósmóður, sem hlotið hefur sérstakt leyfi landlæknis til ávísunar hormónatengdra getnaðarvarnalyfja og starfar þar sem heilsugæslu-, kvenlækninga- eða fæðingarþjónusta er veitt, telst jafnframt lyfseðill.
  3. Á eftir orðinu „dýralæknir“ í 1. málsl. 3. mgr., sem verður 4. mgr., kemur: hjúkrunarfræðingur eða ljósmóðir.
  4. Í stað 1. málsl. 4. mgr., sem verður 5. mgr., koma tveir nýir málsliðir, svohljóðandi: Landlæknir hefur eftirlit með lyfjaávísunum lækna, tannlækna, hjúkrunarfræðinga og ljósmæðra. Jafnframt hefur landlæknir eftirlit með afhendingu lyfjafræðinga á lyfjum í neyðartilfellum.


2. gr.

     Við 12. gr. laganna bætast tveir nýir töluliðir, svohljóðandi:
  1. skilyrði fyrir leyfi hjúkrunarfræðinga og ljósmæðra skv. 3. mgr. 11. gr. til ávísunar lyfja, m.a. um viðbótarnám,
  2. lyf eða lyfjaflokka sem leyfi hjúkrunarfræðinga og ljósmæðra skv. 3. mgr. 11. gr. nær til.


II. KAFLI
Breyting á lögum um landlækni og lýðheilsu, nr. 41/2007, með síðari breytingum.

3. gr.

     Eftirfarandi breytingar verða á 19. gr. laganna:
  1. 1. mgr. orðast svo:
  2.      Verði læknir, tannlæknir, hjúkrunarfræðingur eða ljósmóðir uppvís að því að ávísa lyfjum í bága við lög eða stjórnvaldsfyrirmæli eða þannig að ávísunin teljist óhæfileg skal landlæknir áminna viðkomandi. Komi áminning landlæknis skv. 14. gr. ekki að haldi getur hann ákveðið að viðkomandi skuli sviptur leyfi til að ávísa lyfjum, öllum eða einstökum flokkum, enda þyki ekki ástæða til sviptingar starfsleyfis skv. 15. gr.
  3. Í stað orðanna „lækni eða tannlækni“ í 1. málsl. 3. mgr. kemur: lækni, tannlækni, hjúkrunarfræðing eða ljósmóður.


4. gr.

     Lög þessi öðlast þegar gildi.

Samþykkt á Alþingi 13. desember 2018.