Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF Word Perfect.

Þingskjal 1444, 149. löggjafarþing 512. mál: hollustuhættir og mengunarvarnir (EES-reglur, burðarpokar).
Lög nr. 34 15. maí 2019.

Lög um breytingu á lögum um hollustuhætti og mengunarvarnir, nr. 7/1998, með síðari breytingum (EES-reglur, burðarpokar).


1. gr.

     Við 2. gr. laganna bætist ný málsgrein, svohljóðandi:
     Ákvæði laga þessara um burðarpoka ná til starfsemi sem felur í sér sölu á vörum.

2. gr.

     Við 3. gr. laganna bætist ný málsgrein, svohljóðandi:
      Burðarpoki úr plasti er poki, með eða án halda, gerður úr plasti, sem afhentur er neytanda á sölustað vara.

3. gr.

     Eftirfarandi breytingar verða á 5. gr. laganna:
  1. 7. tölul. orðast svo: töluleg markmið um notkun burðarpoka úr plasti.
  2. 10. tölul. orðast svo: burðarpoka, þ.m.t. um merkingu og útreikning á notkun þeirra.


4. gr.

     Á eftir X. kafla laganna kemur nýr kafli, X. kafli A, Burðarpokar, með fjórum nýjum greinum, 37. gr. a – 37. gr. d, ásamt fyrirsögnum, svohljóðandi:
     
     a. (37. gr. a.)
Markmið um notkun burðarpoka úr plasti.
     Stefnt skal að því að ná tilteknum tölulegum markmiðum um notkun burðarpoka úr plasti.
     Ráðherra er heimilt að setja í reglugerð nánari ákvæði um töluleg markmið varðandi notkun burðarpoka úr plasti, sbr. 5. gr. Við setningu tölulegra markmiða skal m.a. höfð hliðsjón af kröfum í löggjöf Evrópusambandsins, stefnu um meðhöndlun úrgangs og svæðisáætlunum sveitarfélaga.
     
     b. (37. gr. b.)
Afhending burðarpoka.
     Óheimilt er að afhenda burðarpoka án endurgjalds á sölustöðum vara og skal gjaldið vera sýnilegt á kassakvittun.
     
     c. (37. gr. c.)
Bann við afhendingu burðarpoka úr plasti.
     Óheimilt er að afhenda burðarpoka úr plasti, hvort sem er gegn endurgjaldi eða ekki, á sölustöðum vara.
     
     d. (37. gr. d.)
Merkingar.
     Aðilar sem afhenda burðarpoka við sölu á vöru skulu tryggja að burðarpokar séu merktir í samræmi við reglugerð sem ráðherra setur, sbr. 5. gr.

5. gr.

Innleiðing.
     Lög þessi eru sett til innleiðingar á tilskipun Evrópuþingsins og ráðsins (ESB) 2015/720 frá 29. apríl 2015 um breytingu á tilskipun 94/62/EB að því er varðar að draga úr notkun á þunnum burðarpokum úr plasti, sem vísað er til í 7. tölul. XVII. kafla II. viðauka samningsins um Evrópska efnahagssvæðið eins og honum var breytt með ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar nr. 242/2018 frá 5. desember 2018.

6. gr.

Gildistaka.
     Lög þessi öðlast gildi 1. júlí 2019, nema ákvæði b-liðar 4. gr. (37. gr. b) sem öðlast gildi 1. september 2019 og c-liðar 4. gr. (37. gr. c) sem öðlast gildi 1. janúar 2021.

Samþykkt á Alþingi 6. maí 2019.