Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF Word Perfect.

Þingskjal 682, 151. löggjafarþing 374. mál: tekjuskattur (fjármagnstekjuskattur).
Lög nr. 142 23. desember 2020.

Lög um breytingu á lögum um tekjuskatt, nr. 90/2003 (fjármagnstekjuskattur).


1. gr.

     Við 8. mgr. 17. gr. laganna bætist nýr málsliður, svohljóðandi: Sama gildir um sölu á frístundahúsnæði, að teknu tilliti til stærðarmarka skv. 1. mgr., sem nýtt hefur verið af eigendum og ekki verið til útleigu gegn endurgjaldi, enda hafi eignarhald varað að lágmarki 7 ár.

2. gr.

     Í stað 3. málsl. 3. mgr. 66. gr. laganna koma tveir nýir málsliðir, svohljóðandi: Þó skal ekki reikna tekjuskatt skv. 1. málsl. af annars vegar vaxtatekjum og hins vegar tekjum af hlutabréfaeign í formi arðs og söluhagnaðar í félögum skráðum á skipulegum verðbréfamarkaði eða markaðstorgi fjármálagerninga, samtals allt að 300.000 kr. á ári hjá manni og skal frádráttur nýttur þannig að fyrst skal jafna út vaxtatekjur, næst arðstekjur og loks söluhagnað af hlutabréfum þar til hámarki frádráttar hefur verið náð. Enn fremur skal ekki reikna tekjuskatt af 50% af tekjum manns af útleigu íbúðarhúsnæðis sem nýtt er til búsetu leigjanda og fellur undir húsaleigulög.

3. gr.

     Eftirfarandi breytingar verða á 70. gr. laganna:
  1. Við a-lið 7. tölul. bætist nýr málsliður, svohljóðandi: Þó skal ekki reikna tekjuskatt skv. 1. málsl. af arði og/eða söluhagnaði af hlutabréfaeign í félögum sem skráð eru á skipulegum verðbréfamarkaði, eða markaðstorgi fjármálagerninga, allt að 300.000 kr. og að því marki sem frímark vaxtatekna skv. a-lið 8. tölul. hefur ekki verið fullnýtt.
  2. Í stað fjárhæðarinnar „150.000 kr.“ í a-lið 8. tölul. kemur: 300.000 kr.


4. gr.

     Lög þessi öðlast þegar gildi og koma til framkvæmda við álagningu opinberra gjalda á árinu 2021 vegna tekna ársins 2020.

Samþykkt á Alþingi 17. desember 2020.