Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF Word Perfect.

Þingskjal 1193, 152. löggjafarþing 181. mál: almannavarnir (almannavarnastig o.fl.).
Lög nr. 39 22. júní 2022.

Lög um breytingu á lögum um almannavarnir, nr. 82/2008 (almannavarnastig o.fl.).


1. gr.

     Á eftir 2. gr. laganna koma tvær nýjar greinar, 2. gr. a og 2. gr. b, ásamt fyrirsögnum, svohljóðandi:
     
     a. (2. gr. a.)
Almannavarnastig.
     Ríkislögreglustjóri lýsir yfir almannavarnastigi í samráði við viðkomandi lögreglustjóra ef unnt er og tilkynnir það ráðherra, þegar neyðarástand er líklegt, er yfirvofandi eða ríkir, eða sambærilegar aðstæður eru fyrir hendi. Almannavarnastig samkvæmt lögum þessum eru þrjú: óvissustig, hættustig og neyðarstig, í samræmi við alvarleika þess neyðarástands sem uppi er hverju sinni, umfang viðbúnaðar og þörf á forgangshraða viðbragðsaðila.
     Ráðherra sem fer með málefni almannavarna gefur út reglur um almannavarnastig, að fenginni tillögu ríkislögreglustjóra og að höfðu samráði við almannavarnaráð.
     
     b. (2. gr. b.)
Hættustund.
     Hættustund samkvæmt lögum þessum hefst þegar hættustigi eða neyðarstigi almannavarna er lýst yfir og lýkur þegar hættustigi eða neyðarstigi er aflýst. Á hættustundu virkjast valdheimildir sem kveðið er á um í VII. og VIII. kafla.

2. gr.

     3. gr. laganna orðast svo, ásamt fyrirsögn:
Hlutverk almannavarnaráðs.
     Stefna stjórnvalda í almannavarnamálum skal mörkuð af almannavarnaráði til fimm ára í senn. Í almannavarnastefnu stjórnvalda skal gera grein fyrir ástandi og horfum í almannavarnamálum í landinu, fjalla um áhersluatriði varðandi skipulag almannavarnamála, forvarnastarf, nauðsynlega samhæfingu á efni viðbragðsáætlana og starfsemi opinberra stofnana á því sviði, sbr. VI. kafla, nauðsynlegar birgðir til þess að tryggja lífsafkomu þjóðarinnar á hættutímum, endurreisn eftir hamfarir og aðrar aðgerðir sem ráðið telur nauðsynlegar til þess að markmið laga þessara náist.
     Umsýsla vegna almannavarnaráðs og undirbúningur funda þess er í höndum ráðherra sem fer með málefni almannavarna.

3. gr.

     4. gr. laganna orðast svo ásamt fyrirsögn:
Skipan almannavarnaráðs.
     Í almannavarnaráði eiga sæti ráðherra er fer með málefni almannavarnaráðs sem jafnframt er formaður þess og skipar í ráðið, ráðherra er fer með málefni almannavarna, ráðherra er fer með málefni mengunarvarna og ofanflóðavarna, ráðherra er fer með heilbrigðismál, ráðherra er fer með samgöngumál, ráðherra er fer með orkumál og ráðherra er fer með varnarmál og samskipti við önnur ríki. Ráðherra er fer með málefni almannavarnaráðs er heimilt að kveðja allt að tvo ráðherra að auki til setu í ráðinu hverju sinni vegna sérstakra mála.
     Einnig eiga ráðuneytisstjórar þeirra ráðuneyta sem fara með málaflokka skv. 1. mgr. sæti í almannavarnaráði. Þá eiga einnig sæti í ráðinu:
  1. Ríkislögreglustjóri, forstjóri Landhelgisgæslu Íslands, forstjóri Fjarskiptastofu, forstjóri Samgöngustofu og forstjóri Vegagerðarinnar.
  2. Forstjóri Veðurstofu Íslands, forstjóri Húsnæðis- og mannvirkjastofnunar og forstjóri Umhverfisstofnunar.
  3. Landlæknir, sóttvarnalæknir og forstjóri Geislavarna ríkisins.
  4. Orkumálastjóri og forstjóri Landsnets.
  5. Fulltrúi Slysavarnafélagsins Landsbjargar.
  6. Fulltrúi Rauða krossins á Íslandi.
  7. Fulltrúi samræmdrar neyðarsvörunar.
  8. Tveir fulltrúar Sambands íslenskra sveitarfélaga.


4. gr.

     Fyrirsögn II. kafla laganna verður: Stefnumörkun í almannavarnamálum.

5. gr.

     Eftirfarandi breytingar verða á 5. gr. laganna:
  1. 1. mgr. orðast svo:
  2.      Ráðherra sem fer með málefni almannavarna er æðsti yfirmaður almannavarna í landinu.
  3. Í stað orðsins „almannavarnaástandi“ í 3. málsl. 2. mgr. kemur: almannavarnastigi skv. 2. gr. a.


6. gr.

     Eftirfarandi breytingar verða á 7. gr. laganna:
  1. Í stað orðanna „almannavarna- og öryggismálum“ í 1. mgr. kemur: almannavarnamálum.
  2. Í stað orðanna „bæði áður og eftir að hættu ber að garði“ í lokamálslið 2. mgr. kemur: á hættustundu og þegar hún er um garð gengin.
  3. Við 4. mgr. bætist: og getur að fengnu samþykki ráðherra farið fram á aðstoð hjálparliðs erlendis frá vegna almannavarnaástands í samræmi við alþjóðasamninga sem Ísland á aðild að, ef við á.
  4. Við bætist ný málsgrein, svohljóðandi:
  5.      Ráðherra er heimilt að setja reglugerð um móttöku erlends hjálparliðs, þ.m.t. um tímabundin starfsleyfi fyrir erlent fagfólk, um undanþágur frá ákvæðum laga sem tefja eða takmarka möguleika á innflutningi dýra og búnaðar sem nota þarf við hjálparstörf og undanþágur frá aðflutningsgjöldum vegna tímabundins innflutnings.


7. gr.

     Á eftir orðinu „almannavarnanefndir“ í 2. og 3. mgr. 10. gr. laganna kemur: og viðeigandi lögreglustjóri.

8. gr.

     Eftirfarandi breytingar verða á 12. gr. laganna:
  1. 3. mgr. orðast svo:
  2.      Samhæfingar- og stjórnstöð og viðbragðsaðilar skulu hafa aðgang að neyðar- og öryggisfjarskiptakerfi, sem er óháð og aðskilið frá almennum fjarskiptakerfum, vegna samskipta samhæfingar- og stjórnstöðvar og viðbragðsaðila almannavarna. Ráðherra er heimilt að fela aðila í opinberri eigu rekstur neyðar- og öryggisfjarskiptakerfisins.
  3. Í stað orðanna „Rauði kross Íslands“ og orðsins „Flugstoðir“ í 3. málsl. 4. mgr. kemur: Rauði krossinn á Íslandi; og: rekstraraðilar flugvalla og flugleiðsögu.


9. gr.

     1. mgr. 14. gr. laganna orðast svo:
     Samhliða rekstri samhæfingar- og stjórnstöðvar er ríkislögreglustjóra heimilt, á hættustundu eða þegar hún er um garð gengin, að stofna tímabundið þjónustumiðstöð.

10. gr.

     Eftirfarandi breytingar verða á 16. gr. laganna:
  1. 1. mgr. orðast svo:
  2.      Sveitarfélög, stofnanir á þeirra vegum og viðeigandi lögreglustjóri skulu, í samvinnu við ríkislögreglustjóra, kanna áfallaþol í umdæmi sínu. Þá skulu almannavarnanefndir og viðeigandi lögreglustjóri, í samvinnu við ríkislögreglustjóra, gera viðbragðsáætlun í samræmi við hættumat í umdæmi þeirra. Efni viðbragðsáætlana skal vera í samræmi við 15. gr.
  3. Fyrirsögn greinarinnar orðast svo: Skylda sveitarfélaga og lögreglustjóra til að gera viðbragðsáætlanir.


11. gr.

     Eftirfarandi breytingar verða á 19. gr. laganna:
  1. Við 1. mgr. bætist nýr málsliður, svohljóðandi: Þessari heimild skal þó ekki beitt nema brýna nauðsyn beri til og önnur vægari úrræði dugi ekki.
  2. Við bætist ný málsgrein, svohljóðandi:
  3.      Sé heilsufari manns, eða annars einstaklings sem hann ber ábyrgð á, svo háttað að öryggi og/eða heilsu hans, eða aðila sem hann ber ábyrgð á, sé stefnt í sérstaka hættu með því að fela honum að gegna slíkum störfum skal hann undanþeginn skyldu skv. 1. mgr.


12. gr.

     Eftirfarandi breytingar verða á 1. málsl. 1. mgr. 20. gr. laganna:
  1. Í stað orðanna „Ef hætta vofir yfir“ kemur: Á hættustundu.
  2. Orðin „eða sýslumaður“ falla brott.


13. gr.

     Í stað orðanna „þegar hættu ber að garði“ í 1. málsl. 1. mgr. 25. gr. laganna kemur: á hættustundu.

14. gr.

     28. gr. laganna orðast svo, ásamt fyrirsögn:
Rýnifundir ríkislögreglustjóra.
     Almannavarnadeild ríkislögreglustjóra skal án tafar og innan mánaðar eftir að almannavarnastigi hefur verið aflétt halda rýnifund með fulltrúum viðbragðsaðila sem virkjaðir voru vegna aðgerða eða fyrirhugaðra aðgerða. Ef sérstök ástæða er talin til er heimilt að halda slíkan fund þótt almannavarnastigi hafi ekki verið aflétt.
     Veita skal viðkomandi viðbragðsaðilum tækifæri á að koma sjónarmiðum á framfæri um gæði viðbragða. Ríkislögreglustjóri skal rita og varðveita fundargerð um efni og niðurstöður rýnifundar. Hann skal jafnframt afhenda fundargerð til viðkomandi viðbragðsaðila, stjórnar samhæfingar- og stjórnstöðvar og ráðherra.
     Ríkislögreglustjóri hefur eftirlit með því að viðbragðsaðilar geri viðunandi úrbætur í samræmi við niðurstöðu rýnifundar.

15. gr.

     29. gr. laganna orðast svo, ásamt fyrirsögn:
Ytri rýni.
     Stjórn samhæfingar- og stjórnstöðvar er heimilt að láta vinna skýrslu þegar almannavarnastigi er aflétt og að rýnifundi skv. 28. gr. loknum ef það er mat stjórnar að þörf sé á ytri rýni sérfræðings eða eftir atvikum sérfræðinga á aðgerðum eða aðgerðaleysi viðbragðsaðila. Ef sérstök ástæða er talin til er heimilt að láta vinna slíka skýrslu þótt almannavarnastigi hafi ekki verið aflétt. Sama á við þegar stjórnin telur álitamál hvort lýsa átti yfir almannavarnastigi þegar það var ekki gert. Gerðar skulu kröfur um sérfræðiþekkingu skýrslugjafa eftir því sem við á í ljósi viðfangsefnisins.
     Ráðherra er heimilt að láta vinna skýrslu við þær aðstæður sem kveðið er á um í 1. mgr. og með sömu skilyrðum. Sú heimild er fyrir hendi ef hann telur að skýrsla stjórnar samhæfingar- og stjórnstöðvar veiti ekki fullnægjandi svör við álitaefnum í kjölfar hættu- eða neyðarástands. Sama á við ef hann telur að þörf sé á ytri rýni þótt stjórn samhæfingar- og stjórnstöðvar hafi ekki óskað eftir slíkri sérfræðiskýrslu.
     Sérfræðingar sem vinna skýrslu samkvæmt þessu ákvæði skulu ekki hafa slík tengsl við þá viðbragðsaðila sem skýrslan varðar að þeir teldust vanhæfir til meðferðar stjórnsýslumáls viðkomandi viðbragðsaðila, sbr. II. kafla stjórnsýslulaga, nr. 37/1993.

16. gr.

     30. og 31. gr. laganna falla brott, ásamt fyrirsögnum.

17. gr.

     Fyrirsögn IX. kafla laganna verður: Rýni á aðgerðum viðbragðsaðila.

18. gr.

     Eftirfarandi breytingar verða á 34. gr. laganna:
  1. 1. mgr. orðast svo:
  2.      Ráðherra setur með reglugerð nánari ákvæði um flokkun almannavarnastiga almannavarna, inntak þeirra og viðbrögð, um frekara skipulag samhæfingar- og stjórnstöðvar og þjónustumiðstöðva skv. V. kafla að höfðu samráði við Samband íslenskra sveitarfélaga, um tilhögun neyðar- og öryggisfjarskiptakerfisins, um störf stjórnar samhæfingar- og stjórnstöðvar og samhæfingar- og stjórnstöðvarráðs, svo og hverjir skuli teljast viðbragðsaðilar almannavarna.
  3. 3. mgr. fellur brott.
  4. Í stað orðanna „almannavarna- og öryggismálaráðs“ í 4. mgr. kemur: almannavarnaráðs.
  5. Við bætist ný málsgrein, svohljóðandi:
  6.      Ráðherra er heimilt að setja reglugerð um móttöku erlends hjálparliðs, þ.m.t. um tímabundin starfsleyfi fyrir erlent fagfólk, um undanþágur frá ákvæðum laga sem tefja eða takmarka möguleika á innflutningi dýra og búnaðar sem nota þarf við hjálparstörf og undanþágur frá aðflutningsgjöldum vegna tímabundins innflutnings.


19. gr.

     Ákvæði til bráðabirgða I í lögunum fellur brott.

20. gr.

     Lög þessi öðlast þegar gildi.

Samþykkt á Alþingi 9. júní 2022.