Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF Word Perfect.

Þingskjal 1722, 153. löggjafarþing 712. mál: hafnalög (EES-reglur).
Lög nr. 31 22. maí 2023.

Lög um breytingu á hafnalögum, nr. 61/2003 (EES-reglur).


1. gr.

     Á eftir 9. gr. laganna kemur ný grein, 9. gr. a, ásamt fyrirsögn, svohljóðandi:
Hafnir innan samevrópska flutninganetsins.
     Höfnum innan samevrópska flutninganetsins er skylt að eiga samráð við notendur hafna um gjaldtökustefnu sína, þ.m.t. vegna umtalsverðra breytinga á gjaldtökunni. Þær skulu jafnframt veita notendum hafna upplýsingar um breytingar á eðli eða fjárhæð hafnargjalds a.m.k. tveimur mánuðum áður en breytingarnar taka gildi.
     Aðgangur að markaði til að veita hafnarþjónustu getur verið háður lágmarkskröfum um veitingu hafnarþjónustu, takmörkunum á fjölda veitenda, skyldum til að veita opinbera þjónustu og takmörkunum sem tengjast innri rekstraraðilum.
     Ráðherra skal með reglugerð tilgreina þær íslensku hafnir sem eru innan samevrópska flutninganetsins. Jafnframt skal hann setja reglugerð þar sem nánar er mælt fyrir um veitingu hafnarþjónustu sem og gagnsæi í fjármálum hafna og sjálfstæði þeirra í fjármálum, þ.m.t. um samráð við notendur hafna um gjaldtökustefnu.

2. gr.

     Eftirfarandi breytingar verða á 20. gr. laganna:
  1. 2. málsl. 2. mgr. fellur brott.
  2. Við bætast tvær nýjar málsgreinar, svohljóðandi:
  3.      Heimilt er í gjaldskrá hafnar að taka mið af árangri í umhverfismálum, orkunýtni eða kolefnisnýtni í siglingum. Afslættir og álögur á gjöld sem taka mið af umhverfisframmistöðu skipa skulu byggjast á umhverfisvísitölu sem Samgöngustofa viðurkennir. Álag á hafnargjöld samkvæmt ákvæði þessu skulu að hámarki nema 75%. Ráðherra er heimilt að kveða nánar á um skilyrði fyrir viðurkenningu umhverfisvísitölu með reglugerð.
         Notendur hafnar geta krafið hafnarstjórn upplýsinga um kostnað sem almennt hlýst af að veita viðkomandi þjónustu og eðlilega sundurliðun gjalda.


3. gr.

     Við 30. gr. laganna bætist ný málsgrein, svohljóðandi:
     Lög þessi eru jafnframt til innleiðingar á reglugerð Evrópuþingsins og ráðsins (ESB) 2017/352 um að setja ramma um veitingu hafnarþjónustu og um sameiginlegar reglur um gagnsæi í fjármálum fyrir hafnir, sem vísað er til í tölul. 56z í V. kafla XIII. viðauka samningsins um Evrópska efnahagssvæðið eins og honum var breytt með ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar nr. 128/2019 frá 8. maí 2019.

4. gr.

     Lög þessi öðlast þegar gildi.

Samþykkt á Alþingi 8. maí 2023.