Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF Word Perfect.

Þingskjal 1857, 153. löggjafarþing 432. mál: breyting á ýmsum lögum um skatta og gjöld (kaupréttur, mútubrot o.fl.).
Lög nr. 42 5. júní 2023.

Lög um breytingu á ýmsum lögum um skatta og gjöld (kaupréttur, mútubrot o.fl.).


I. KAFLI
Breyting á lögum um tekjuskatt, nr. 90/2003.

1. gr.

     Á eftir orðunum „sbr. þó 10. gr.“ í 1. málsl. 9. gr. laganna kemur: og 10. gr. a.

2. gr.

     Á eftir 10. gr. laganna kemur ný grein, 10. gr. a, svohljóðandi:
     Tekjur starfsmanna og stjórnarmanna skv. 9. gr. vegna nýtingar kaupréttar í sprotafyrirtækjum, sbr. 9. málsl. 2. mgr. 18. gr., skulu skattlagðar sem fjármagnstekjur skv. C-lið 7. gr. sé eftirfarandi skilyrðum fullnægt:
  1. Sprotafyrirtækið hafi fengið staðfestingu Rannís, sbr. 5. gr. laga um stuðning við nýsköpunarfyrirtæki, nr. 152/2009, áður en kaupréttarsamningur var gerður og vinnuframlag þess sem fær kauprétt tengist eingöngu framkvæmd á hinu staðfesta verkefni.
  2. Að lágmarki 18 mánuðir þurfi að líða frá gerð samnings um kauprétt þar til hann er nýttur.
  3. Kaupverð samkvæmt kaupréttarsamningi sé eigi lægra en gangverð við gerð samnings eða, sé gangverð ekki til staðar, bókfært virði eigin fjár samkvæmt síðasta samþykkta ársreikningi.
  4. Samningur um kauprétt sé ekki framseljanlegur og nái ekki til lengri tíma en átta ára.

     Ákvæði þessarar greinar tekur einnig til tekna af kaupréttum sem einstaklingum eru veittir fyrir þjónustu þeirra við sprotafyrirtæki. Skilyrði er að heildarvirði veittrar þjónustu sé ekki umfram 2 millj. kr. á 12 mánaða tímabili og forsendur verðs komi skýrt fram í samningi.
     Í lok hvers árs skal félagið senda ríkisskattstjóra upplýsingar um útgefna kaupréttarsamninga og þá sem hafa nýtt kauprétt á árinu ásamt helstu upplýsingum á því formi sem ríkisskattstjóri ákveður.
     Tekjur samkvæmt þessari grein koma til skattlagningar skv. 18. gr. við sölu á mótteknum hlutum. Ákvarðast tekjurnar sem nemur mismun á kaupverði samkvæmt kaupréttarsamningi og söluverði hlutanna. Sá mismunur telst ekki til rekstrarkostnaðar í skilningi 31. gr.
     Kaup á hlutabréfum samkvæmt þessari grein veita ekki rétt til frádráttar frá tekjum skv. 1. tölul. B-liðar 1. mgr. 30. gr.
     Ákvæði þetta tekur ekki til samninga þar sem sprotafyrirtækið, eða tengdur aðili, er skuldbundið að gera upp samning með útborgun eða kaupa innleyst bréf, nema ljóst sé að um eðlilega og venjubundna aðgerð sé að ræða við þær aðstæður.

3. gr.

     3. málsl. 2. mgr. 15. gr. laganna fellur brott.

4. gr.

     3. málsl. 1. mgr. 26. gr. laganna fellur brott.

5. gr.

     Við 2. mgr. 3. tölul. og 4. tölul. 31. gr. laganna bætist nýr málsliður, svohljóðandi: Niðurfærsla fyrra árs skal ávallt bakfærð, hafi hún verið færð til gjalda.

6. gr.

     Í stað fjárhæðarinnar „250.000 kr.“ í 39. gr. laganna kemur: 600.000 kr.

7. gr.

     6. tölul. 50. gr. laganna orðast svo: Kostnað vegna greiðslna, gjafa eða annars sem ólögmætt er skv. 109. gr. og 264. gr. a almennra hegningarlaga.

8. gr.

     Við 2. mgr. 54. gr. laganna bætist nýr málsliður, svohljóðandi: Sameining eða skipting skal þó ætíð miðast við upphafsdag innan tekjuársins og skal sameining eða skipting hafa verið samþykkt í öllum félögunum á því ári.

9. gr.

     Við 4. mgr. 96. gr. laganna bætast tveir nýir málsliðir, svohljóðandi: Sé fallist á beiðni skattaðila um breytingu á skattstofnum skal tilkynning þó ekki send. Á það við hvort sem breyting leiðir til hækkunar eða lækkunar á skattstofnum, enda sé breytingin ekki umfram það sem í beiðni hans greinir.

10. gr.

     Við 1. mgr. 97. gr. laganna bætist nýr málsliður, svohljóðandi: Þá skal heimild til að endurákvarða skatt skv. 96. gr. taka til síðustu tíu ára á undan því ári þegar endurákvörðun fer fram vegna mútubrota skv. 109. gr. og 264. gr. a almennra hegningarlaga.

11. gr.

     Á eftir orðinu „hjóna“ í 2. málsl. 1. mgr. 109. gr. laganna kemur: eða samsköttuðum einstaklingi í sambúð.

12. gr.

     Eftirfarandi breytingar verða á 110. gr. laganna:
  1. 4. mgr. fellur brott.
  2. Við 9. mgr. bætist nýr málsliður, svohljóðandi: Þá fyrnist sök skv. 109. gr. og 264. gr. a almennra hegningarlaga vegna mútubrota á tíu árum.


13. gr.

     Við lögin bætist nýtt ákvæði til bráðabirgða, svohljóðandi:
     Ákvæði 2. málsl. 9. tölul. 31. gr. skal einnig taka til Bretlands hvað varðar greiðslur frá og með árinu 2021. Ákvæði þetta fellur úr gildi þegar gerð hefur verið breyting á tvísköttunarsamningi Íslands og Bretlands, eða samið um nýjan samning, og hún tekið gildi.

II. KAFLI
Breyting á lögum um erfðafjárskatt, nr. 14/2004.

14. gr.

     Í stað orðsins „ríkisskattstjóri“ í 4. mgr. 6. gr. laganna kemur: sýslumaðurinn á höfuðborgarsvæðinu.

III. KAFLI
Breyting á lögum um virðisaukaskatt, nr. 50/1988.

15. gr.

     Við 4. mgr. 26. gr. laganna bætast tveir nýir málsliðir, svohljóðandi: Sé fallist á beiðni skattaðila um breytingu á virðisaukaskatti skal tilkynning þó ekki send. Á það við hvort sem breyting leiðir til hækkunar eða lækkunar á skatti, enda sé breytingin ekki umfram það sem í beiðni hans greinir.

IV. KAFLI
Breyting á lögum um aukatekjur ríkissjóðs, nr. 88/1991.

16. gr.

     Við 1. mgr. 5. gr. laganna bætist nýr málsliður, svohljóðandi: Ákvæði 4. og 5. mgr. 4. gr. gilda um skyldu til greiðslu þessa gjalds.

17. gr.

     Lög þessi öðlast þegar gildi.
     Ákvæði 2. gr. kemur til framkvæmda að fenginni niðurstöðu Eftirlitsstofnunar EFTA (ESA) um að ákvæðið samræmist reglum EES-samningsins um ríkisaðstoð.

Samþykkt á Alþingi 24. maí 2023.