Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF Word Perfect.

Þingskjal 2129, 153. löggjafarþing 858. mál: Land og skógur.
Lög nr. 66 22. júní 2023.

Lög um Land og skóg.


1. gr.

Stofnunin.
     Land og skógur er ríkisstofnun undir yfirstjórn ráðherra.

2. gr.

Hlutverk.
     Stofnunin hefur eftirlit með og annast framkvæmd laga um landgræðslu og laga um skóga og skógrækt. Þá annast stofnunin jafnframt daglega stjórnsýslu samkvæmt þeim lögum, öðrum lögum sem stofnunin starfar eftir og alþjóðlegum samningum sem snerta viðfangsefni stofnunarinnar.

3. gr.

Skipulag.
     Ráðherra skipar forstöðumann Lands og skógar. Skal hann hafa háskólamenntun sem nýtist í starfi auk reynslu af stjórnun, fjármálum og rekstri. Forstöðumaður ber ábyrgð á starfsemi og rekstri stofnunarinnar, mótar helstu áherslur, verkefni og starfshætti og annast daglega stjórn hennar.
     Ráðherra getur í reglugerð sett nánari ákvæði um skipulag og starfsemi Lands og skógar að fengnum tillögum forstöðumanns.

4. gr.

Verkefni.
     Verkefni Lands og skógar eru eftirfarandi samkvæmt nánari ákvörðun ráðherra:
  1. framkvæmd laga um landgræðslu og laga um skóga og skógrækt, reglugerða og annarra stjórnvaldsfyrirmæla er varða málefni landgræðslu og skógræktar,
  2. að vinna að og eftir landsáætlun um landgræðslu og skógrækt,
  3. að veita ráðherra aðstoð og ráðgjöf við undirbúning laga, reglugerða og annarra verkefna á sviði landgræðslu og skógræktar,
  4. önnur verkefni sem stofnuninni eru falin með lögum, reglugerðum eða ákvörðun ráðherra.


5. gr.

Sérstök heimildarákvæði.
     Landi og skógi er heimilt að:
  1. Semja við aðra aðila um afmörkuð verkefni sem stofnuninni er falið að annast enda sé ekki um að ræða starfsemi sem felur í sér vald til að taka ákvarðanir er lúta að réttindum og skyldum aðila.
  2. Krefja aðila um upplýsingar og gögn sem stofnunin telur nauðsynleg til að sinna eftirlitshlutverki sínu á því formi sem óskað er og innan tiltekinna tímamarka. Er þeim skylt að verða við slíkri kröfu án þess að taka gjald fyrir. Land og skógur skal jafnan upplýsa í hvaða tilgangi gagna er aflað og hvernig úrvinnslu, varðveislu og birtingu niðurstaðna verður háttað. Söfnun og meðferð upplýsinga samkvæmt ákvæði þessu skal vera í samræmi við ákvæði laga um persónuvernd og vinnslu persónuupplýsinga og laga um opinber skjalasöfn.


6. gr.

Gildistaka.
     Lög þessi öðlast gildi 1. janúar 2024.
     Við gildistöku laga þessara skulu Landgræðslan og Skógræktin lagðar niður og tekur Land og skógur við hlutverki, verkefnum, réttindum og skyldum, eignum og skuldbindingum stofnananna.
     Embætti landgræðslustjóra og skógræktarstjóra eru lögð niður við gildistöku laga þessara.

7. gr.

Breytingar á öðrum lögum.
     Við gildistöku laga þessara verða eftirfarandi breytingar á öðrum lögum:
  1. Búnaðarlög, nr. 70/1998: Í stað orðsins „Skógræktinni“ í 1. málsl. 1. mgr. 16. gr. laganna kemur: Landi og skógi.
  2. Búvörulög, nr. 99/1993: Í stað orðanna „Landgræðslunnar og/eða Skógræktarinnar“ í 7. málsl. 3. mgr. 39. gr. laganna kemur: Lands og skógar.
  3. Efnalög, nr. 61/2013: Í stað orðanna „Landgræðsluna, Skógræktina“ í 2. málsl. 1. mgr. 34. gr. laganna kemur: Land og skóg.
  4. Jarðalög, nr. 81/2004:
    1. 1. málsl. 1. mgr. 36. gr. a laganna orðast svo: Hafi Land og skógur tekið land eignarnámi til uppgræðslu á grundvelli 7. gr. laga nr. 17/1965, um landgræðslu, eða eldri laga, nr. 18/1941 eða nr. 45/1923, eða landi verið afsalað til stofnunarinnar í sama tilgangi hefur eigandi þeirrar jarðar sem viðkomandi land tilheyrði áður rétt til að kaupa það án almennrar auglýsingar enda sé landið nægilega gróið að mati forstöðumanns Lands og skógar, sbr. 22. gr. laga um landgræðslu.
    2. Í stað orðanna „Landgræðslan (Sandgræðsla Íslands)“ í 1. málsl. 2. mgr. 37. gr. laganna kemur: Land og skógur.
  5. Lög um afréttamálefni, fjallskil o.fl., nr. 6/1986:
    1. Í stað orðanna „Landgræðslan fengin“ í 1. málsl. b-liðar 2. mgr. 14. gr. laganna kemur: Land og skógur fenginn.
    2. Í stað orðanna „Landgræðslunnar“, „Landgræðsluna“, „Landgræðslan“ og „Landgræðslunni“ í 3. málsl. b-liðar 2. mgr. 14. gr., 1. og 2. mgr. 15. gr., inngangsmálslið og e-lið 16. gr., e-lið 18. gr., 1. málsl. 19. gr., 1. málsl. 1. mgr. og 5. málsl. 2. mgr. 20. gr., 2. málsl. 21. gr. og 1. málsl. 1. mgr. 24. gr. laganna kemur, í viðeigandi beygingarfalli: Land og skógur.
    3. Í stað orðsins „landgræðslustjóra“ í 1. málsl. 8. mgr. 20. gr. laganna kemur: forstöðumanns Lands og skógar.
    4. Í stað orðsins „landgræðslustjóri“ í 25. og 29. gr. laganna kemur: forstöðumaður Lands og skógar.
  6. Lög um Landeyjahöfn, nr. 66/2008: Í stað orðsins „Landgræðslunnar“ í 1. málsl. 1. mgr. og 2. mgr. 5. gr. laganna kemur: Lands og skógar.
  7. Lög um landgræðslu, nr. 155/2018:
    1. Í stað orðanna „Landgræðslan“, „Landgræðslunnar“, „Landgræðslunni“ og „Landgræðsluna“ í h-lið 4. gr., 1. og 3. málsl. 2. mgr. 5. gr., 1. mgr. 8. gr., 1. málsl. 1. mgr. 10. gr., 2. málsl. 11. gr., tvívegis í 1. mgr., 1. málsl. 2. mgr. og 3. mgr. 12. gr., 1. málsl. 1. mgr. og 1. og 2. málsl. 2. mgr. 14. gr., 1. málsl. 15. gr., 1. málsl. 16. gr., 1. málsl. 1. mgr. 17. gr., 1. og 2. málsl. 18. gr., 1. málsl. 1. mgr. og 1. málsl. 3. mgr. 19. gr., 1. málsl. 2. mgr. 20. gr., tvívegis í 1. mgr., 1. málsl. 2. mgr. og 3. mgr. 21. gr., 1. málsl. 1. mgr. og 1. málsl. 2. mgr. 22. gr., 1. og 2. málsl. 23. gr., 1. og 3. málsl. 24. gr. og 1. málsl. 25. gr. laganna kemur, í viðeigandi beygingarfalli: Land og skógur.
    2. 3. og 4. mgr. 5. gr. laganna falla brott.
    3. 6. gr. laganna orðast svo, ásamt fyrirsögn:
    4. Landsáætlun um landgræðslu og skógrækt.
           Ráðherra gefur eigi sjaldnar en á fimm ára fresti út landsáætlun um landgræðslu og skógrækt til tíu ára í senn. Í áætluninni skal kveðið á um framtíðarsýn og stefnu stjórnvalda í landgræðslu og skógrækt með hliðsjón af markmiðum laga þessara og laga um skóga og skógrækt. Áætlunin skal stuðla að framförum í mati á jarðvegsvernd og í landnýtingu, þ.m.t. skógrækt og vernd og endurheimt vistkerfa. Í áætluninni skal gera grein fyrir markmiðum stjórnvalda um hvernig nýting lands styður best við atvinnu og byggðir í landinu, hvernig gæði lands eru best varðveitt og hvernig efla má og endurheimta vistkerfi sem skert hafa verið og koma með tillögur um breytingar á nýtingu lands, t.d. friðun fyrir tiltekinni nýtingu þar sem það á við.
           Jafnframt skal í áætluninni gerð grein fyrir:
      1. forsendum fyrir vali á landi til landgræðslu og skógræktar með tilliti til náttúruverndar, matvælaframleiðslu, minjaverndar og landslags,
      2. vernd og endurheimt vistkerfa,
      3. ræktun skóga til uppbyggingar skógarauðlindar og umfangi og horfum hvað varðar nýtingu,
      4. sjálfbærri nýtingu lands,
      5. áhrifum skógræktar og landgræðslu á atvinnuþróun og byggð,
      6. aðgengi fólks að skógum og landgræðslusvæðum til útivistar,
      7. skógrækt og landgræðslu í samhengi við líffræðilega fjölbreytni,
      8. skógrækt og landgræðslu í samhengi við loftslagsbreytingar,
      9. öflun þekkingar á landgræðslu og skógrækt og miðlun hennar,
      10. eftirliti með ástandi og nýtingu lands,
      11. eldvörnum og öryggismálum,
      12. fjölþættum ávinningi verndar og endurheimtar vistkerfa.

           Jafnframt skal horft til þess að nýta betur fjármagn og mannafla og samþætta áætlunina við aðrar áætlanir ríkis og sveitarfélaga sem og alþjóðlegar skuldbindingar.
           Ráðherra skipar fimm manna verkefnisstjórn sem hefur yfirumsjón með gerð áætlunarinnar og skilar tillögu til ráðherra. Verkefnisstjórnin skal skipuð einum fulltrúa tilnefndum af Sambandi íslenskra sveitarfélaga, forstöðumanni Lands og skógar og þremur án tilnefningar og skulu a.m.k. tveir þeirra hafa fagþekkingu á málefnasviði laga þessara og laga um skóga og skógrækt. Ráðherra skipar formann verkefnisstjórnar. Þá situr í verkefnisstjórn fulltrúi þeirrar skrifstofu ráðuneytisins sem fer með landgræðslu- og skógræktarmál.
           Verkefnisstjórn skal í upphafi taka saman lýsingu á verkefninu þar sem gerð er grein fyrir þeim áherslum sem fyrirhugað er að hafa við gerð landsáætlunarinnar, svo sem forsendum, viðfangsefni og fyrirhugaðri kynningu og samráði við mótun stefnunnar. Lýsing verkefnisstjórnar á gerð áætlunarinnar skal kynnt opinberlega og skal almenningi gefinn að lágmarki sex vikna frestur til að koma á framfæri athugasemdum.
           Þegar drög að áætluninni liggja fyrir skal verkefnisstjórn kynna þau opinberlega ásamt umhverfismati áætlunarinnar, þegar við á. Jafnframt skal óska sérstaklega eftir umsögnum frá viðeigandi stofnunum, stjórnvöldum ríkis og sveitarfélaga, félagasamtökum og hagsmunaaðilum. Frestur til að skila umsögnum um drögin skal vera að lágmarki sex vikur. Áður en áætlunin tekur gildi skal hún kynnt þeirri nefnd Alþingis sem fer með málefni landgræðslu og skógræktar.
           Land og skógur skal vinna svæðisáætlun fyrir hvern landshluta á grunni landsáætlunar samkvæmt grein þessari í samráði við hlutaðeigandi sveitarfélög og aðra hagsmunaaðila. Í svæðisáætlun skal tilgreina landgræðslu- og skógræktarsvæði og önnur svæði sem leggja skal áherslu á í landgræðslu og skógrækt og hvernig best er unnið að þeim markmiðum sem fram koma í landsáætlun að teknu tilliti til skipulagsáætlana og náttúruverndar. Land og skógur skal kynna drög að svæðisáætlun opinberlega og óska eftir umsögnum. Stofnunin skal í kjölfarið birta svæðisáætlun og skal hún endurskoðuð eigi sjaldnar en á fimm ára fresti.
    5. 7. gr. laganna fellur brott, ásamt fyrirsögn.
    6. Í stað orðsins „landgræðsluáætlun“ í 1. mgr. 14. gr. laganna kemur: landsáætlun um landgræðslu og skógrækt.
  8. Lög um meðferð elds og varnir gegn gróðureldum, nr. 40/2015: Í stað orðsins „Skógræktina“ í 1. málsl. 1. mgr. 7. gr. laganna kemur: Land og skóg.
  9. Lög um náttúruvernd, nr. 60/2013:
    1. Í stað orðsins „Skógræktin“ í 3. málsl. 2. mgr. 15. gr. og 1. málsl. 7. mgr. 61. gr. laganna kemur: Land og skógur.
    2. Í stað orðsins „Landgræðslunnar“ í 1. málsl. 25. gr. og 1. málsl. 25. gr. a laganna kemur: Lands og skógar.
    3. Í stað orðsins „Landgræðsluna“ í 5. málsl. 2. mgr. 32. gr. laganna kemur: Land og skóg.
    4. Í stað orðanna „og Hafrannsóknastofnun tilnefna einn fulltrúa hver og Skógræktin og Landgræðslan tilnefna sameiginlega einn fulltrúa“ í 2. málsl. 5. mgr. 63. gr. laganna kemur: Hafrannsóknastofnun og Land og skógur tilnefna einn fulltrúa hver.
  10. Lög um skipulag haf- og strandsvæða, nr. 88/2018: Í stað orðsins „Landgræðslan“ í 4. málsl. 6. gr. laganna kemur: Land og skógur.
  11. Lög um skóga og skógrækt, nr. 33/2019:
    1. Í stað orðanna „Skógræktarinnar“, „Skógræktin“, „Skógræktinni“ og „Skógræktina“ í 14. tölul. 2. gr., 1. og 3. málsl. 2. mgr. 3. gr., 3. málsl. 1. mgr. 6. gr., 1. mgr. 7. gr., 1. málsl. 1. mgr. og 2. mgr. 8. gr., 1. málsl. 1. mgr., 1. málsl. 2. mgr., 1. málsl. 3. mgr., 4. mgr. og 1. og 2. málsl. 5. mgr. 9. gr., 1. mgr. og 1. og 2. málsl. 2. mgr. 10. gr., 1. málsl. 1. mgr. 11. gr., 1. málsl. 2. mgr. 12. gr., 1. mgr. og 1. og 2. málsl. 2. mgr. 13. gr., 1., 2. og 3. málsl. 14. gr., 1. málsl. 16. gr., 2. málsl. 1. mgr. 17. gr., 1. og 3. málsl. 1. mgr. og 1. og 2. málsl. 2. mgr. 18. gr., 2. málsl. 2. mgr., 1. málsl. 3. mgr. og 1. og 2. málsl. 4. mgr. 19. gr., 1., 2. og 3. málsl. 21. gr., 1. og 3. málsl. 22. gr. og 1. málsl. 23. gr. laganna kemur, í viðeigandi beygingarfalli: Land og skógur.
    2. 3. og 4. mgr. 3. gr. laganna falla brott.
    3. 4. gr. laganna orðast svo, ásamt fyrirsögn:
    4. Landsáætlun um landgræðslu og skógrækt.
           Ráðherra gefur eigi sjaldnar en á fimm ára fresti út landsáætlun um landgræðslu og skógrækt til tíu ára í senn. Í áætluninni skal kveðið á um framtíðarsýn og stefnu stjórnvalda í landgræðslu og skógrækt með hliðsjón af markmiðum laga þessara og laga um landgræðslu. Áætlunin skal stuðla að framförum í mati á jarðvegsvernd og í landnýtingu, þ.m.t. skógrækt og vernd og endurheimt vistkerfa. Í áætluninni skal gera grein fyrir markmiðum stjórnvalda um hvernig nýting lands styður best við atvinnu og byggðir í landinu, hvernig gæði lands eru best varðveitt og hvernig efla má og endurheimta vistkerfi sem skert hafa verið og koma með tillögur um breytingar á nýtingu lands, t.d. friðun fyrir tiltekinni nýtingu þar sem það á við.
           Jafnframt skal í áætluninni gerð grein fyrir:
      1. forsendum fyrir vali á landi til landgræðslu og skógræktar með tilliti til náttúruverndar, matvælaframleiðslu, minjaverndar og landslags,
      2. vernd og endurheimt vistkerfa,
      3. ræktun skóga til uppbyggingar skógarauðlindar og umfangi og horfum hvað varðar nýtingu,
      4. sjálfbærri nýtingu lands,
      5. áhrifum skógræktar og landgræðslu á atvinnuþróun og byggð,
      6. aðgengi fólks að skógum og landgræðslusvæðum til útivistar,
      7. skógrækt og landgræðslu í samhengi við líffræðilega fjölbreytni,
      8. skógrækt og landgræðslu í samhengi við loftslagsbreytingar,
      9. öflun þekkingar á landgræðslu og skógrækt og miðlun hennar,
      10. eftirliti með ástandi og nýtingu lands,
      11. eldvörnum og öryggismálum,
      12. fjölþættum ávinningi verndar og endurheimtar vistkerfa.

           Jafnframt skal horft til þess að nýta betur fjármagn og mannafla og samþætta áætlunina við aðrar áætlanir ríkis og sveitarfélaga sem og alþjóðlegar skuldbindingar.
           Ráðherra skipar fimm manna verkefnisstjórn sem hefur yfirumsjón með gerð áætlunarinnar og skilar tillögu til ráðherra. Verkefnisstjórnin skal skipuð einum fulltrúa tilnefndum af Sambandi íslenskra sveitarfélaga, forstöðumanni Lands og skógar og þremur án tilnefningar og skulu a.m.k. tveir þeirra hafa fagþekkingu á málefnasviði laga þessara og laga um landgræðslu. Ráðherra skipar formann verkefnisstjórnar. Þá situr í verkefnisstjórn fulltrúi þeirrar skrifstofu ráðuneytisins sem fer með landgræðslu- og skógræktarmál.
           Verkefnisstjórn skal í upphafi taka saman lýsingu á verkefninu þar sem gerð er grein fyrir þeim áherslum sem fyrirhugað er að hafa við gerð landsáætlunarinnar, svo sem forsendum, viðfangsefni og fyrirhugaðri kynningu og samráði við mótun stefnunnar. Lýsing verkefnisstjórnar á gerð áætlunarinnar skal kynnt opinberlega og skal almenningi gefinn að lágmarki sex vikna frestur til að koma á framfæri athugasemdum.
           Þegar drög að áætluninni liggja fyrir skal verkefnisstjórn kynna þau opinberlega ásamt umhverfismati áætlunarinnar, þegar við á. Jafnframt skal óska sérstaklega eftir umsögnum frá viðeigandi stofnunum, stjórnvöldum ríkis og sveitarfélaga, félagasamtökum og hagsmunaaðilum. Frestur til að skila umsögnum um drögin skal vera að lágmarki sex vikur. Áður en áætlunin tekur gildi skal hún kynnt þeirri nefnd Alþingis sem fer með málefni landgræðslu og skógræktar.
           Land og skógur skal vinna svæðisáætlun fyrir hvern landshluta á grunni landsáætlunar samkvæmt grein þessari í samráði við hlutaðeigandi sveitarfélög og aðra hagsmunaaðila. Í svæðisáætlun skal tilgreina landgræðslu- og skógræktarsvæði og önnur svæði sem leggja skal áherslu á í landgræðslu og skógrækt og hvernig best er unnið að þeim markmiðum sem fram koma í landsáætlun að teknu tilliti til skipulagsáætlana og náttúruverndar. Land og skógur skal kynna drög að svæðisáætlun opinberlega og óska eftir umsögnum. Stofnunin skal í kjölfarið birta svæðisáætlun og skal hún endurskoðuð eigi sjaldnar en á fimm ára fresti.
    5. 5. gr. laganna fellur brott, ásamt fyrirsögn.
    6. Fyrirsögn 9. gr. laganna orðast svo: Þjóðskógar og önnur svæði í umsjón Lands og skógar.
    7. Í stað orðanna „landsáætlun í skógrækt“ í 2. mgr. 10. gr. og orðanna „landsáætlun um skógrækt“ í 16. gr. laganna kemur: landsáætlun um landgræðslu og skógrækt.
    8. Í stað orðsins „landshlutaáætlun“ í 2. málsl. 1. mgr. 11. gr. laganna kemur: svæðisáætlun.
  12. Lög um timbur og timburvöru, nr. 95/2016:
    1. Í stað orðsins „Skógræktinni“ í d-lið 2. mgr. 5. gr. laganna kemur: Landi og skógi.
    2. Í stað orðsins „Skógræktarinnar“ í 6. gr. laganna kemur: Lands og skógar.
    3. Fyrirsögn 6. gr. laganna orðast svo: Hlutverk Lands og skógar.
  13. Lög um umhverfisábyrgð, nr. 55/2012: Í stað orðsins „Landgræðslunnar“ í 2. málsl. 1. mgr. 12. gr. laganna kemur: Lands og skógar.
  14. Lög um stjórn vatnamála, nr. 36/2011: Í stað orðsins „Landgræðslunni“ í 2. mgr. 9. gr. laganna kemur: Landi og skógi.
  15. Raforkulög, nr. 65/2003: Í stað orðsins „Skógræktarinnar“ í 2. málsl. 5. mgr. 21. gr. a laganna kemur: Lands og skógar.


Ákvæði til bráðabirgða.
     Starfsmenn Landgræðslunnar og Skógræktarinnar sem eru í starfi við gildistöku laga þessara verða starfsmenn hjá Landi og skógi með sömu ráðningarkjörum og áður giltu. Um réttarstöðu starfsfólks fer eftir ákvæðum laga um réttindi og skyldur starfsmanna ríkisins, nr. 70/1996, og laga um réttarstöðu starfsmanna við aðilaskipti að fyrirtækjum, nr. 72/2002, eins og á við hverju sinni. Við ráðstöfun starfa samkvæmt þessu ákvæði þarf ekki að gæta að auglýsingaskyldu 7. gr. laga um réttindi og skyldur starfsmanna ríkisins, nr. 70/1996.
     Þrátt fyrir ákvæði 6. gr. er ráðherra heimilt að skipa forstöðumann Lands og skógar fyrir gildistöku þessara laga og skal forstöðumaðurinn hafa heimild til að undirbúa gildistöku laganna.

Samþykkt á Alþingi 9. júní 2023.