Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF Word Perfect.

Þingskjal 979, 154. löggjafarþing 617. mál: tekjustofnar sveitarfélaga (fasteignaskattur í Grindavíkurbæ).
Lög nr. 4 7. febrúar 2024.

Lög um breytingar á lögum um tekjustofna sveitarfélaga, nr. 4/1995 (fasteignaskattur í Grindavíkurbæ).


1. gr.

     Við lögin bætast fimm ný ákvæði til bráðabirgða, svohljóðandi:
     
     a. (I.)
     Þrátt fyrir 3. gr. er bæjarstjórn Grindavíkurbæjar heimilt að falla frá álagningu fasteignaskatts, í heild eða að hluta, á árinu 2024 vegna óvissu af völdum náttúruhamfara sem ógna öryggi íbúa sveitarfélagsins. Bæjarstjórn Grindavíkurbæjar er jafnframt heimilt að gera greinarmun á fasteignum þegar fasteignaskattur er felldur niður í heild eða að hluta á grundvelli eftirfarandi atriða:
  1. Í hvaða flokk fasteignir falla skv. 3. mgr. 3. gr.
  2. Staðsetningar fasteigna í þéttbýli eða dreifbýli.
  3. Staðsetningar fasteigna á hættusvæðum sem skilgreind eru af Veðurstofu Íslands.

     
     b. (II.)
     Þrátt fyrir 4. mgr. 4. gr. er bæjarstjórn Grindavíkurbæjar heimilt að fresta hverjum gjalddaga fasteignaskatts sveitarfélagsins á árinu 2024 um sex mánuði.
     
     c. (III.)
     Þrátt fyrir 7. gr. fylgir fasteignaskatti í Grindavíkurbæ á árinu 2024 lögveð í fasteign þeirri sem hann er lagður á, ásamt dráttarvöxtum í fjögur ár frá gjalddaga, sem skal ganga fyrir öllum öðrum veðkröfum er á eigninni hvíla.
     
     d. (IV.)
     Þrátt fyrir d-lið 11. gr. skal framlag til Grindavíkurbæjar á árinu 2024 á grundvelli ákvæðisins miðað við að skatthlutfall fasteignaskatts Grindavíkurbæjar sé 0,30% fyrir fasteignir skv. a-lið 3. mgr. 3. gr., 1,32% fyrir fasteignir skv. b-lið 3. mgr. 3. gr. og 1,45% fyrir fasteignir skv. c-lið 3. mgr. 3. gr.
     
     e. (V.)
     Þrátt fyrir 13. gr. skal við útreikning framlaga til Grindavíkurbæjar á grundvelli ákvæðisins á árinu 2024 miða við sama nemendafjölda og skólagerð og samþykkt var sem grundvöllur áætlunar framlaga af ráðgjafarnefnd Jöfnunarsjóðs sveitarfélaga 20. september 2023 vegna framlaga sjóðsins fyrir árið 2024.

2. gr.

     Lög þessi öðlast þegar gildi.

Samþykkt á Alþingi 31. janúar 2024.