28.8.2023

Ársfundur Vestnorræna ráðsins í Alþingi 29.–30. ágúst

Ársfundur Vestnorræna ráðsins, samstarfsvettvangs þingmanna Færeyja, Grænlands og
Íslands, fer fram í þingsal Alþingis dagana 29. og 30. ágúst.

Á fundinum verður sérstök umræða 29. ágúst kl. 13 með utanríkisráðherrum landanna um
styrkingu vestnorræns samstarfs, með þátttöku Þórdísar Kolbrúnar Reykfjörð Gylfadóttur,
utanríkisráðherra Íslands, Vivian Motzfeldt, utanríkisráðherra Grænlands, og Høgna Hoydal,
utanríkisráðherra Færeyja.

Önnur mál á dagskrá fundarins eru fæðuöryggi, aðstæður unga fólksins, og norðurslóðir.
Ársfund Vestnorræna ráðsins sækja einnig gestir frá Norðurlandaráði, norska Stórþinginu og
Orkneyjaráðinu.

Þá verður í tengslum við ársfundinn opinn borgarafundur 29. ágúst kl. 17 í Norræna húsinu
um áherslur í vestnorrænu samstarfi. Fundurinn er öllum opinn öllum og þau sem hafa áhuga
á vestnorrænu samstarfi eru sérlega velkomin. Fundarstjóri er Hrannar B. Arnarsson,
formaður Norræna félagsins á Íslandi.

De-vestnordiske-flag-1280x853-

Fánar Íslands, Færeyja og Grænlands.

Vestnorræna ráðið er samstarfsvettvangur þjóðþinga Færeyja, Grænlands og Íslands. Í
ráðinu sitja 18 þingmenn, sex frá hverju landi. Þriggja manna forsætisnefnd, skipuð einum
þingmanni frá hverju landi, stýrir starfi ráðsins milli ársfunda. Forsætisnefnd ráðsins skipa
Steinunn Þóra Árnadóttir, Íslandi, Kim Kielsen, Grænlandi, og Jenis av Rana, Færeyjum.